- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Facebook og ástralösk stjórnvöld hafa náð samkomulagi um fyrirkomulag varðandi stuðning og greiðslur Facebook til ástralskra fjölmiðla, og hefur Facbook í kjölfarið aflétt banni á deilingar á fréttaefni frá Ástralíu á miðlinum. Alþjóðásamband blaðamanna (IFJ) og Fjölmiðlasambandið í Ástralíu (MEAA) hafa fagnað samkomulaginu, en hafa jafnframt lýst áhyggjum sínum af því að smærri miðlar og lausamenn muni ekki fá vernd og stuðning samkvæmt því.
Samkomulagið sem Facebook gerði við stjórnvöld felur í sér að Facebook geti komist undan almennum bindandi greiðslum ef það getur sýnt fram á að það hafi gert samninga við nægjanlega mörg fjölmiðlafyrirtæki um stuðning til að standa undir framleiðslu á ritstjórnarefni. Einnig er Facebook gefinn tími til að lúka við að gera slíka samninga.
Þegar eru komnir fram einstaka samningar stórra fjölmiðlasamsteypa og stjórnvalda sem almennt eru taldir til bóta fyrir faglega blaðamennsku, en ástralska Fjölmiðlasambandið, MEAA, hefur hins vegar varað við því að allsherjarsamkomulagið eitt og sér sé ekki og hafi aldrei verið einhver trygging fyrir smærri, sjálfstæð og staðbundin fjölmiðlafyrirtæki.
MEAA segir að vissulega sé aflétting fréttabannsins mikilvæg fyrir smærri miðla, sem treysta á að koma fréttum sínum á framfæri í gegnum Facebook, en þó séu ákveðin atriði í samkomulaginu sem henti betur stórum miðlum. Hætta sé á að þessi minni fyrirtæki veðri undir í kapphlaupinu við þá stærri við að tryggja sér samninga.
Því vill Fjölmiðlasambandið að mörkuð verði sérstök leið til að styðja við minni og staðbundna fjölmiðlun. Jafnframt segir að tryggja þurfi að framlög sem koma í gegnum þetta samkomulag verði nýtt til fjárfestinga og þróunar innan fjölmiðlageirans.
Sérstaka athygli vekja orð forseta Fjölmiðlasambandsins, Marcus Storm, sem sagði: „Smærri fjölmiðlafyrirtæki munu eiga allt sitt undir Facebook og Google, en bæði fyrirtækin munu reyna að komast hjá skyldugreiðslum með því að gera samninga við fjölmiðlafyrirtæki sem tæknirisarnir kjósa að semja við. Það er í hæsta máta óeðlilegt að Facebook og Google geti handvalið og gælt við útgáfur sem þau telja heppilegar til að gera síðan einhverja hliðarsamninga við. Samkomulagið ætti að vera bindandi, einsleitt, fyrirsjáanlegt og sanngjarnt og ekki háð duttlungum tæknirisanna.“