- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Að gefnu tilefni er eðlilegt að árétta hér á press.is að nýlegur úrskurður siðanefndar RÚV í máli sem tengist ummælum Helga Seljan (og fleiri starfamanna RÚV) um forsvarsmenn Samherja, hefur ekkert með Blaðamannaféalgið, Siðanefnd BÍ eða siðareglur félagsins að gera. Um er að ræða siðareglur sem samdar voru sérstaklega fyrir RÚV og siðanefndin er alfaið á ábyrgð RÚV. Blaðamannafélagið hefur sett sér siðareglur sem eru almennar og lúta að störfum blaðamanna og er ætlað að vera eins konar sáttmáli um vinnubrögð fagstéttar. Sérstök siðanefnd BÍ úrskurðar síðan um hvort þessar reglur hafi verið brotnar eða ekki þegar upp koma kærumál. Hvorki siðanefnd BÍ né siðareglur félagsins eru bundin við tiltekin fjölmiðlafyrirtæki og gildi þeirra felst í því að vera samkomulag samfélags fagfólks um grundvallargildi stéttarinnar. Siðareglur einstakra fjölmiðlafyrirtækja eru annars eðlis og markast yfirlleitt af því hvers eðlis viðkomandi miðill er. Í raun er um að ræða innanhússreglur sem eru þá útfærsla á þeim alennu gildum sem finna má í siðareglum BÍ enda nánast óþekkt að siðareglur einstakra fyrirtækja gangi þvert á siðareglur BÍ. Innahússreglur fyrirtækja geta hugsanlega sett fréttamönnum einhver takmörk sem ekki eru endilega viðfangsefni siðareglna BÍ, t.d. varðandi klæðaburð fréttamanna og framkomu, en einnig varðandi framsetningu á fréttaefni. Einnig geta fyrirtæki, eins og RÚV gerir, óskað þess af starfsmönnum sínum að þeir tjái sig ekki á samfélagsmiðlum um umdeild mál sem þeir eru að fjalla um í fréttum. Slíkt væri þó tæplega krafa sem er byggð á siðareglum BÍ, enda gefa reglurnar beinlínis svigrúm til persónulegrar tjáningar blaðamanna undir fullu nafni. Slíkt er þá innanhússregla hjá RÚV, rétt eins og þær reglur, birtar og óbirtar, sem settar hafa verið fram hjá ýmsum miðlum í gegnum árin, s.s. DV og Fréttablaðinu á tímum Jónasar heitins Kristjánssonar og birtar voru opinberlega. Mál Helga Seljan og fleiri fréttamanna sem tekin eru upp í kæru Samherja snúast því ekki um hugsanlegt brot á siðareglum blaðamanna (og því síður um leinhvers konar lögbrot). Þau snúast um það hvort innanhússreglur RÚV hafi verið brotnar. Svo virðist, af ummælum útvarpsstjóra að dæma, að þessar innanhússreglur muni nú teknar til endurskoðunar, enda ljóst að mikil óvissa er um hvað það þýðir séu þær brotnar.