- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Egill Ólafsson, gjaldkeri stjórnar Blaðamannafélags Íslands og blaðamaður á Morgunblaðinu og mbl.is, varð bráðkvaddur síðastliðinn miðvikudaginn 28. janúar, 52 ára að aldri.
Egill fæddist 16. nóvember 1962, sonur hjónanna Ólafar Guðmundsdóttur og Ólafs Egilssonar. Hann ólst upp í Borgarnesi og á Mýrum, gekk í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og lauk BA-prófi í sagnfræði frá HÍ árið 1989. Að námi loknu hóf Egill feril sinn sem sem blaðamaður, fyrstu árin á Tímanum. Egill hóf síðan störf á Morgunblaðinu árið 1993 og starfaði þar til dánardags, aðallega á mbl.is seinni árin. Hann gegndi um hríð starfi fréttastjóra Morgunblaðsins. Í ársbyrjun árið 2014 fór hann í tveggja ára leyfi til að skrifa sögu Borgarness og var kominn vel á veg með það verk er hann féll frá.
Egill var á námsárum sínum formaður nemendafélags FB, formaður félags sagnfræðinema við HÍ, sat í stjórn Sagnfræðingafélags Íslands um tíma og sat um árabil í stjórn Blaðamannafélags Íslands. Hann var afkastamikill og sérstaklega vandaður blaðamaður og vel liðinn samstarfsmaður.
Egill var kvæntur Unni Lárusdóttur, upplýsingafræðingi hjá innanríkisráðuneytinu, og eignuðust þau tvö börn; Ólaf Lárus sem starfar í veitingarekstri og sinnir myndlist og Urði menntaskólanema.
Stjórn og aðrir félagar Egils í Blaðamannafélagi Íslands senda aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.