- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Eiríkur Jónsson segir að síðasta árið sé búið að vera áhugaverður tími í blaðamennsku en hann hóf að reka fréttavefinn eirikurjonsson.is fyrir tæpu ári síðan eða í byrjun mars 2012. Í tilefni þess var hann tekin í stutt spjall.
Eiríkur segist mjög sáttur við að hafa reynt enda lengi dreymt um. ,,Eitthvert fjármagn þarf í starti eins og gefur að skilja en nú er svo komið að vefurinn er svo gott að verða sjálfbær - þó enn geti brugðið til beggja vona eins og víðast hvar annars staðar.
Lærdómurinn er sá að maður verður að standa vaktina sjálfur og fórna hefðbundnum frítíma. Best væri að ráða aðstoðarmann sem stæði vaktina á móti en til þess þarf veltan að verða meiri."
Eiríkur var spurður hvort það væri ekki einmannalegt að starfa einn við vefinn, hvort hann saknaði ekki erils ritstjórna og félagsskapar?
,,Svar við spurningunni er einfalt: Vona að ég þurfi aldrei aftur að starfa á vinnustað með mörgum. Félagsskapurinn? Ég er í reglulegum tengslum við fjölmarga, fréttamenn sem aðra, sem hafa ánægju af að leggja mér lið og gildir það jafnt um fréttaöflun og auglýsingasölu. Fólk er að fíla þetta."
Eiríkur segist aðspurður telja að fleiri fréttamenn hljóti að fara inn á þessa braut. ,,Ekki geta þeir allir farið að vinna á bensínstöð þegar hinir hefðbundnu, gömlu fjölmiðlar leggja upp laupana. Allt á eftir að enda á netinu en það þýðir ekki endilega að þeir eigi eftir að njóta eldanna sem fyrstir kveiktu þá."
Þess má geta að vefurinn er í eigu félagsins Eiríkur Jónsson ehf. sem Eiríkur er alfarið skráður fyrir.
Sigurður Már Jónsson