- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Alfreð Þorsteinsson, blaðamaður og stjórnmálamaður, verður jarðsunginn í dag. Hann hóf ungur störf á dagblaðinu Tímanum. Þar starfaði
hann frá 1962-1977 og skrifaði m.a. mikið um íþróttir. Tveir fyrrum samstarfsmenn hans í blaðamennskunni, þeir Kári Jónasson og Gunnar V. Andrésson, minnast blaðamennskuferils hans með þessum orðum í Morgunblaðinu í dag.
„Við vorum eiginlega hvor á sínum vettvangi á ritstjórninni, við ljósmyndun, fréttaskrif og íþróttaumfjöllun. Alfreð var auðvitað íþróttafréttaritari fyrst og fremst í byrjun, en það breyttist svo nokkuð síðar meir, þegar hann fékk umbrotið, pistlaskrif og fleira í fangið. Hann var mjög fylginn sér í íþróttaskrifum, og það átti raunar eftir að fylgja honum síðar meir á öðrum vettvangi, bæði hinum pólitíska og ekki síður í íþróttahreyfingunni.
Það má eiginlega segja að hann hafi virkilega slegið í gegn fyrir hönd Tímans þegar hann hóf að birta skrif um knattleiki gærdagsins í blaðinu daginn eftir. Þetta þykir að vísu sjálfsagt í dag, en ekki á sjöunda áratugnum. Svo notaði hann gjarnan stórar og krassandi fyrirsagnir og rauða eða svarta nonparramma ef svo bar undir. Hann merkti skrif sín alltaf annaðhvort með Alf. eða alf. ólíkt öllum öðrum á ritstjórninni sem merktu skrif sín með einkennisstöfum sínum.
Alfreð veitti íþróttaforystunni oft rækilegt aðhald, með gagnrýni og aðfinnslum, og var oft ekki þakkað fyrir það af forystumönnum á sínum tíma, en þeir urðu svo margir hverjir mestu mátar þegar fram liðu stundir.“