- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Þórður Snær skrifar greinina undir yfirskriftinni „álit“, enda sé hún „yfirlits- og skoðanagrein“ sem hann skrifi í eigin nafni, en ekki sem ritstjóri eða blaðamaður Kjarnans.
Í greininni upplýsir Þórður Snær að tilefni skrifanna að þessu sinni sé „að fyrir nokkrum dögum síðan fengum ég og lögmaður minn afhent öll gögn máls vegna umræddrar rannsóknar. Gögnin eru umfangsmikil og afar fréttnæm, í þeim eru upplýsingar sem eiga mikið erindi við almenning og varpa skýru ljósi á það sem átt hefur sér stað.“
Hann upplýsir ennfremur að samhliða birtingu greinarinnar hafi hann „afhent Blaðamannafélagi Íslands öll gögn málsins, enda varðar það störf, starfsaðstæður og frelsi allra blaðamanna. Það er gert svo fagfélag stéttarinnar geti metið sjálfstætt að hér sé ekkert slitið úr samhengi.“ Hann bætir þessari athugasemd við: „Verði ákveðið að fara á eftir mér fyrir að deila þeim gögnum með fagfélagi blaðamanna, þá verður einfaldlega að hafa það.“
Formaður Blaðamannafélagsins hefur veitt umræddum gögnum viðtöku fyrir hönd félagsins.
Í greininni rekur Þórður Snær atburðarásina og það sem gögn málsins sýna að hafi átt sér stað - og hvað hafi ekki átt sér stað.
Niðurlag greinarinnar hljóðar svo:
„Í niðurlagi greinargerðar Eyþórs Þorbergssonar aðstoðarsaksóknara fyrir Landsrétti segir: „Það er ekki einfalt að rannsaka sakamál sem rekið er í fjölmiðlum af jafn miklu offorsi og raun ber vitni. [...] Fjölmiðlaumfjöllun þar sem leynt og ljóst er reynt að hafa áhrif á rannsókn lögreglu, á ákæruvaldið og niðurstöður er ekki sæmandi réttarríki.“
Þar telur gerandi sig vera þolanda.
Það sem er ekki sæmandi réttarríki er sú aðför að frjálsi fjölmiðlun sem átt hefur sér stað á Íslandi á undanförnum árum af hendi eins stærsta fyrirtækis landsins, sem beitt hefur fjármagni og áhrifum til að reyna að hafa æruna og lífsviðurværið af blaðamönnum sem opinberuðu möguleg lögbrot þess.
Um er að ræða aðför að fólki fyrir að vinna vinnuna sína eða nýta stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt. Vegna þess varð fólk skotspónn ofsókna alþjóðlegs stórfyrirtækis og fótgönguliða þess, sem að uppistöðu virðist vera fólk með afar lágan siðferðisþröskuld, enga virðingu fyrir samfélagssáttmálanum og litla mannlega reisn.
Umfjöllun okkar um hina svokölluðu „Skæruliðadeild Samherja“ opinberaði skýrt að stjórnendur, starfsmenn og ráðgjafar Samherja voru saman í þessari vegferð við að skapa ótta hjá öðrum blaðamönnum, og eftir atvikum öðru fólki með skoðanir á samfélagsmálum, sem settir voru í skotlínu „Skæruliðadeildar“ fyrirtækisins svo þeir hræðist að fjalla um fyrirtækið. Allt er þetta gert eftir samþykkt „mannanna“, æðstu stjórnenda Samherja, og til að þóknast þeim.
Ljóst hefur verið frá upphafi að umfjöllunin byggði á ýmsum gögnum sem voru ekki afhent með vitund og vilja þeirra sem áttu þau. Frá því var greint skilmerkilega.
Þrátt fyrir að fyrirtækið Samherji hafi beðist opinberlega afsökunar á að hafa „gengið of langt“ í aðgerðum sínum gagnvart blaðamönnum sýna gögn málsins, og staðfest atferli fólks á þess vegum á undanförnum mánuðum, að lítil meining var á bakvið þá afsökunarbeiðni. Enn er unnið skipulega að því að grafa undan blaðamönnum og reynt að skapa aðstæður sem gera þá vanhæfa til að fjalla frekar um málefni fyrirtækisins.
Það sem er ekki sæmandi réttarríki eru kælingartilburðir lögreglunnar í heimabæ Samherja gagnvart sömu blaðamönnum, sem virðast hafa sama markmið og til þess gerðir að senda skýr skilaboð um að þeir skuli passa sig á hvað þeir skrifi um í framtíðinni.
Sá tími og orka sem farið hefur í þennan farsa skapar auk þess gríðarlegt álag sem dregur úr getu til að sinna daglegum störfum af fullum krafti. Það er íþyngjandi, jafnt faglega sem persónulega, að sitja undir fjarstæðukenndum ásökunum mánuðum saman og ég get vel viðurkennt að það hefur fengið mig til að hugsa um hvort það sé á sjálfan mig, fjölskyldu og samstarfsfélaga leggjandi að stunda þá blaðamennsku sem Kjarninn hefur einbeitt sér að frá stofnun fyrir níu árum. Svarið er enn sem komið er áfram já.
En í mínum huga er það sem er minnst sæmandi réttarríki aðkoma háttsettra stjórnmálamanna að þessari vegferð. Með henni erum við komin á slóðir sem Ísland gefur sig ekki út fyrir að vera á. Þar er eitt að valdamesti stjórnmálamaður landsins leggist á vogaskálarnar með þeim hætti sem hann gerði, og að aðstoðarmaður yfirmanns löggæslumála í landinu hafi fylgt í kjölfarið með blessun yfirmanns síns. En annað og þungbærara er dugleysi þeirra sem veita þeim vald. Áhrifafólk sem maður taldi að myndi standa upp fyrir lýðræðinu og frjálsri fjölmiðlun, en hefur setið sem fastast.
Með þögn sinni og aðgerðarleysi hafa þau veitt vegferðinni falskt réttmæti.
Skömm þess fólks er mikil.“