- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Samkvæmt gögnum sem Alþjóðafjölmiðlastofnunin IPI hefur safnað týndu 66 blaðamenn og aðrir fjölmiðlastarfsmenn lífi, starfs síns vegna, á árinu 2022. Það er töluverð fjölgun frá árinu á undan, en alls voru 45 blaðamenn drepnir í heiminum á árinu 2021.
Stóraukið ofbeldi í garð blaðamanna í Mexíkó og af völdum innrásar Rússa í Úkraínu skýrir að mestu þennan aukna fjölda drepinna blaðamanna. Fjórtán blaðamenn voru myrtir í Mexíkó á árinu, en það er mesti fjöldi síðan árið 2017. Átta blaðamenn sem fluttu fréttir af stríðinu í Úkraínu týndu lífi á vettvangi, bæði úkraínskir og erlendir.
Einnig áttu sér stað á árinu sláandi árásir á blaðamenn, eins og til að mynda þegar fréttakona Al Jazeera, Shireen Abu Akleh, var skotin til bana af ísraelskum hermönnum á vettvangi á Vestubakkanum í maí.
Meðal þess sem kynti undir ofbeldi gegn fjölmiðlafólki á árinu var hvernig réttarkerfi margra ríkja brugðust því hlutverki sínu að draga þá til ábyrgðar á gjörðum sínum sem slíka glæpi drýgja. IPI skorar á stjórnvöld í ríkjum heims að tryggja réttaröryggi blaðamanna og að binda enda á refsileysi fyrir glæpi sem unnir eru gegn lífi þeirra og limum. Öllum ríkjum heims beri að vernda blaðamenn og starfsemi þeirra.
IPI hefur í aldarfjórðung birt árlegar skýrslur um dráp á blaðamönnum í heiminum, þ.e. síðan árið 1997. Allur gagnagrunnurinn frá þessum 25 árum, IPI Database of Killed Journalists, er aðgengilegur á vef stofnunarinnar. Skýrslan fyrir árið 2022 var birt nú á fimmtudaginn, 29. desember. Eins og áður segir voru samkvæmt henni 66 blaðamenn drepnir á árinu í heiminum öllum, starfa sinna vegna.
Gagnagrunni IPI um blaðamannadráp er skipt upp í fimm flokka. Í þeim fyrsta eru blaðamenn sem voru beinlínis myrtir vegna starfa sinna, en þeir voru 39 á árinu. Sjö stríðsfréttamenn dóu á vettvangi, fjórum fleiri en í þessum flokki árið áður. Tveir fórust í róstum og tveir létu lífið við að sinna rannsóknarblaðamennskuverkefnum. Í sextán tilfellum voru aðstlður og ástæða andlátsins óljós, en líkur á að það tengdist störfum þeirra.
Gagnagrunnurinn nær til blaðamanna, blaðaljósmyndara og annarra fjölmiðlastarfsmanna sem leggja með störfum sínum eitthvað til fréttaflutnings, svo sem myndatökumenn. Tölfræðigrunnur IPI byggir á sem nákvæmastri skráningu allra árása á blaðamenn út um allan heim. Stofnunin vinnur náið með neti samstarfsaðila, aðallega samtökum blaðamanna á hverjum stað, einkum til að afla upplýsinga um hvort andlát viðkomandi blaðamanns hafi tengst starfi hans eða ekki.
Meðfylgjandi upplýsingagrafík má nálgast, með fullri gagnvirkni, í frétt af birtingu skýrslunnar á vef IPI, hér.