Valtýr Stefánsson(1893-1963)

Valtýr fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann stundaði nám í gagnfræðaskólanum á Akureyri, en lauk síðan stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1911. Hóf síðan nám við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn og lauk kandidatsprófi í búnaðarfræðum árið 1914. Síðan stundaði hann framhaldsnám við Landbúnaðarháskólann árin 1915-1917 og vann þá jafnframt við jarðarbótadeild danska Heiðafélagsins. Árin 1920-1923 var hann ráðunautur Búnaðarfélags Íslands og kynntist þannig vel öllum landsháttum. Hann var ritstjóri og meðútgefandi landbúnaðarblaðsins Freys árin 1923-1925. Hinn 1. apríl 1924 gerðist hann ritstjóri Morgunblaðsins, ásamt Jóni Kjartanssyni, og var hann ritstjóri blaðsins um áratuga skeið. Hann varð jafnframt einn af stærstu hluthöfum Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Valtýr lét víða til sín taka í félagsmálum, var um tíma bæjarfulltrúi í Reykjavík og hann var formaður Skógræktarfélags Íslands árin 1940-1961. Skógrækt var honum jafnan hjartfólgið áhugamál og átti það áreiðanlega þátt í að Blaðamannafélag Íslands kom sér upp gróðursetningarreit í Heiðmörk um 1950. Valtýr var formaður Blaðamannafélags Íslands í tvígang, og var gerður að heiðursfélaga. Í riti sínu Blöð og blaðamenn 1733-1944 segir Vilhjálmur Þ. Gíslasom: „Valtýr Stefánsson tamdi sér nýja grein íslenzkrar blaðamennsku, viðtöl við margskonar fólk um persónuleg og opinber mál,“  segir hann þar, og síðar: „Í öðrum greinum lét Valtýr Stefánsson ýmis stjórnmál til sín taka s.s. í Reykjavíkurbréfi. Hann hneigðist æ meir að því, eftir því að á leið, að stjórnmáladeilur mættu ekki yfirgnæfa efni góðs blaðs.“

Ívar Guðmundsson, sem Valtýr réð ungan á blaðið og varð fréttaritstjóri í ritstjóratíð Valtýs, fjallar um læriföður sinn í 50 ára afmælisblaði Morgunblaðsins 1963: „En Valtýr Stefánsson var ekki einungis fóstri okkar blaðamanna á Morgunblaðinu, sem áttum því láni að fagna að hann studdi okkur fyrstu sporin. Hann var fóstri allra íslenzkra blaðamanna, sem meta og styðja heiðarlega og sanna blaðamennsku.Enginn á - og enginn mun gera - tilkall til þeirrar nafnbótar, sem Valtýr Stefánsson á einn í annálum. Hann var faðir nútíma blaðamennsku á Íslandi.“ Í drögum þeim að blaðamannatali sem byrjað var að taka saman á sjötta áratug síðustu aldar er eyðublað með nafni og mynd af Valtý en aðrar upplýsingar eru ókomnar. Myndin er sú sem hér er notuð. Jakob F. Ásgeirsson hefur ritað ævisögu Valtýs Stefánssonar.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=251797&pageId=3483076&lang=is&q=Valt%FDr%20Stef%E1nsson

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=112180&pageId=1349424&lang=is&q=Valt%FDr%20Stef%E1nsson

http://is.wikipedia.org/wiki/Valt%C3%BDr_Stef%C3%A1nsson