- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sveinn fæddist í Reykjavík 18. september, sonur Einars Ól. Sveinssonar prófessors og Kristjönu Þorsteinsdóttur píanókennara. Sveinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1954. Hann stundaði síðan nám í almennri bókmenntasögu, leiklistarsögu og heimspeki við Stokkhólmsháskóla 1958 og framhaldsnám í samanburðarbókmenntum og frönskum leikbókmenntun við Sorbonne-háskóla 1958-1959 og vorið 1961. Þá stundaði hann framhaldsnám í leikhúsfræðum við Stokkhólmsháskóla 1961-1963 og varð fil.lic. 1963. Sveinn er á félagaskrá Blaðamannafélagsins 1959, en hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu 1955-57 og leikhúsgagnrýnandi þess 1959-1960. Þá mun hann jafnfram hafa verið fréttaritari fyrir blaðið á Stokkhólmsárum sínum og varð um það nokkur umræða innan félagsins hvort slíkur starfi gæti talist gjaldgengur í félaginu. Sveinn var síðan fulltrúi á dagskrárdeild Ríkisútvarpsins 1959-1961. Þá var hann dagskrárstjóri Sjónvarps 1989-1993. Sveinn Einarsson er þó fyrst og fremst þekktur sem einn helsti leikhúsmaður og menningarfrömuður þjóðarinnar. Auk þess að hafa verið leikhússtjóri fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1963-1972 og síðar hjá Þjóðleikhúsinu 1972-1983, hefur hann leikstýrt fjölda leiksýninga og ópera bæði hérlendis og erlendis. Þá hefur hann gegnt ótal trúnaðarstörfum tengdum menningarmálum heima og erlendis, var m.a. varaforseti Alþjóðaleikhússstofnunarinnar ITI (1979-1981), formaður Leiklistarsambands Íslands (1973-1989), Leikskáldafélags Íslands (1985-1989) og íslensku UNESCO-nefndarinnar síðan 1994. Árið 2003 hlaut Sveinn, fyrstur manna, Gullgrímuna, heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands.