- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sveinbjörn fæddist í Görðum á Akranesi, sonur Hallgríms prests Jónssonar, bróðursonar Skúla fógeta, og Guðrúnar konu hans Egilsdóttur, systur Sveinbjarnar Egilssonar rektors. Hann stofnaði ásamt fleirum Þjóðólf, fyrsta eiginlega, íslenska fréttablaðið (þ.e. ekki tímarit), varð fyrsti ritstjóri þess 1848 og gegndi því starfi til 1852. Hann hefur verið talinn eiga stóran þátt í að hefja Jónas Hallgrímsson á stall þjóðskálds með skrifum sínum í Þjóðólfi. Um Sveinbjörn segir Guðjón Friðriksson í Í nýjustu fréttum! - sögu fjölmiðlunar frá upphafi til vorra daga að þar sem hann hafi alist upp hjá móðurbróður sínum, Sveinbirni Egilssyni, komi ekki á óvart hversu gott vald hann hafi haft á íslensku máli, enda sé Þjóðólfur skrifaður af fjöri og eldmóð undir hans ritstjórn. „Sveinbjörn Hallgrímsson var fyrsti atvinnublaðamaðurinn, var ör og heitur í lund og sást ekki alltaf fyrir í skrifum sínum og gerðum,“ segir Guðjón.