- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sigurður Hreiðar fæddist 28. mars í Mosfellssveit. Foreldrar hans voru Hreiðar Gottskálksson og Helga Sigurdís Björnsdóttir. Hann stundaði nám við framhaldsskóla á Skógum, en settist síðan í Samvinnuskólann og útskrifaðist þaðan 1959. Hann lauk síðar prófi í ensku við háskólann. Sigurður Hreiðar er í félagatalinu frá því í febrúar 1960 skráður félagi nr. 60. Hann hóf blaðamannsferilinn á Samvinnunni, starfaði síðan á Tímanum og síðar á dagblaðinu Mynd þann skamma tíma sem það lifði árið 1962. Eftir það flutti Sigurður sig yfir á Vikuna sem blaðamaður og varð seinna ritstjóri blaðsins auk þess sem hann var um 17 ára skeið ritstjóri tímaritsins Úrvals. Hann starfaði um eins árs skeið á Vísi, en þegar Dagblaðið var stofnað árið 1975 var Sigurður í hópi allmarga Vísismanna sem þá söðluðu um og hófu störf á nýja blaðinu, Sigurður reyndar með því fororði að hann ætlaði að hjálpa til að hleypa blaðinu af stokkunum, en snúa sér síðan að kennslu. Sigurður hefur þó alla tíð verið viðloðandi blaðamennsku og ritstörf með einum eða öðrum hætti, frumherji í reynsluakstri bíla hérlendis ásamt Gísla Sigurðssyni. Hann hefur verið virkur í þeim félagsskap blaðamanna sem skrifa um og reynsluaka bílum og skrifaði Sögu bílsins á Íslandi 1904 til 2004 auk fleiri bóka.