- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Ólafur Gaukur fæddist í Reykjavík 11. ágúst. Í drögum að blaðamannatali frá sjötta áratug síðustu aldar kveðst hann vera stúdent að mennt, og þegar hann sendir inn upplýsingar um sig í blaðamannatal Blaðamannafélags Íslands starfar hann á Tímanum. Hann segist þar hafa byrjað í blaðamennsku 15. september 1954 og gengið í Blaðamannafélagið 1. desember 1955. Um helstu æviatriði segir hann: „Foreldrar: Bergþóra Einarsdóttir og Þórhallur Þorgilsson, bókavörður. Nám: Gagnfræðaskóli Reykvíkinga, Menntaskólinn í Reykjavík og loks stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1949. Síðan starfað að hljóðfæraleik sem aðalstarf til 1954, þá að blaðamennsku.“
Við þetta er því að bæta að Ólafur Gaukur staldraði ekki lengi við í blaðamennsku heldur sneri sér aftur að hljóðfæraleik og varð einn helsti brautryðjandi dægur- og jasstónlistar á Íslandi sem gítarleikari, lagahöfundur, hljómsveitarstjóri, útsetjari, textahöfundur, plötuútgefandi og kennari, eins og segir á vefnum Guitarparty. Þar segir einnig: „Aðeins fimmtán ára gamall stofnaði Ólafur Gaukur sitt fyrsta tríó og á menntaskólaárum sínum hóf hann að leika með vinsælustu danshljómsveitum landsins, m.a. KK sextett, auk þess að stýra eigin hljómsveitum og mun Sextett Ólafs Gauks vera þeirra þekktust. Hann stýrði einnig einum af fyrstu sjónvarpsþáttunum, Hér gala gaukar, á upphafsárum sjónvarpsins. Ólafur Gaukur lauk prófi í tónsmíðum og kvikmyndatónlist frá Grove School of Music í Los Angeles á níunda áratugnum. Hann stofnaði Gítarskóla Ólafs Gauks árið 1975 og rak hann til æviloka. Fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar hlaut hann ýmsar viðurkenningar. Hann hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2006, árið 2008 var hann sæmdur Hinni íslensku fálkaorðu og sama ár var hann kjörinn heiðursfélagi í Félagi tónskálda og textahöfunda. Árið 2009 sæmdu gítarleikarar Ólaf Gullnöglinni. Ólafur lést 12. júní árið 2011, tæplega 81 árs að aldri.“
http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%93lafur_Gaukur_%C3%9E%C3%B3rhallsson