Jón Kjartansson(1893-1962)

Jón fæddist á Skál í Kirkjubæjarhreppi í V-Skaftafellssýslu 20. júlí, sonur Kjartans Ólafssonar, bónda þar, og eiginkonu hans, Oddnýjar Runólfsdóttur. Jón Kjartansson svarar beiðni Skúla Skúlasonar, þáverandi formanns Blaðamannafélagsins, um að fylla út eyðublað með upplýsingum um ævi og störf „til þess að þær geti orðið stofn að heimildum um íslenska blaðamenn,“ nærri áratug fyrr en drög að blaðamannatali verða til á sjötta áratug síðustu aldar og tíundað er hér í sérstökum kafla.

Í svörum Jóns kemur fram að hann dvaldist á Skál, síðan á Velli á Rangárvöllum, þá í Neðri-Dal í Mýrdal, en lengst í Suður-Vík í Mýrdal þar til hann fluttist til Reykjavíkur. Hann stundaði fyrst nám við Gagnfræðaskólann á Akureyri, en nam síðan við Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan stúdentsprófi 1915. Hann stundaði að því búnu nám við lagadeild Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan sem lögfræðingur 1919. Jón Kjartansson varð þvínæst fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík 1920-1923, en varð þingmaður V-Skaftfellinga 1924-1927 og varaþingmaður 1961-1962. Jón segist hafa byrjað í blaðamennsku 1. apríl 1924 og þá á Morgunblaðinu, þar sem hann varð ritstjóri, og var það hans aðalstarf ásamt því að ritstýra Lesbók og vikublaðinu Ísafold ásamt Valtý Stefánssyni. Helsta sérgrein Jóns í blaðamennsku var ritun stjórnmálagreina. Hann var ritstjóri Morgunblaðsins til 1947, er hann varð sýslumaður Skaftafellssýslu, en því starfi gegndi hann til æviloka.

http://www.althingi.is/altext/cv.php4?nfaerslunr=323

http://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Kjartansson