- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Jakob Ólafur fæddist 13. mars á Hranastöðum í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Þórey Helgadóttir frá Leifsstöðum í Öngulsstaðahreppi og Pétur Ólafsson, bóndi, oddviti og sýslunefndarmaður á Hranastöðum. Hann lauk kennaraprófi 1928 og sinnti síðan kennslu í Eyjafirði og í Grímsey. Jakob var ritstjóri Íslendings, blaðs sjálfstæðismanna á Akureyri, árin 1937-1945, síðan aftur 1949-1950 og loks frá 1951 til ársloka 1965. Hann þótti smekkvís á mál og stíl, var landskunnur hagyrðingur og hann þýddi upphaflega söguna um Línu langsokk á íslensku. Um hann segir Gísli Jónsson, menntaskólakennari, m.a. í minningarorðum í Íslendingi: „Jakob Ó. Péturssyni var ákaflega létt um mál. Hann gat skrifað fyrirhafnarlítið um sundurleitustu efni, en slíkt verður óhjákvæmilegt hlutskipti manns, sem einn verður stundum um allt að fjalla á litlu og fátæku vikublaði. Í pólitískum snerrum var Jakob í senn vígfimur og markvís í besta lagi, en aldrei rætinn eða gífuryrtur. Hann gat með réttu sagt í lok ritstjórnarferils síns, að hann hefði verið vinur ritstjóra allra hinna bæjarblaðanna.“