- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Indriði fæddist í Skagafirði 18. apríl. Í drögum að blaðamannatali frá því á sjötta áratugnum er umsókn hans um upptöku í Blaðamannafélag Íslands dagsett 22. nóvember 1952. Hann er þá starfandi á Tímanum og hefur verið frá því í apríl á því ári og haft fréttamennsku að aðalstarfi. Varðandi nám nefnir Indriði Laugarvatn 1942-1943. Meðmælendur á umsókn hans eru Jón Helgason og Guðni Þórðarson, báðir á Tímanum. Í æviágripi hans segir: Fæddur í Gilhaga í Skagafirði, bjó víða um Skagafjörð, unz ég fluttist þaðan 1939 til Akureyrar. Menntaskólinn þar einn vetur, Laugarvatn einn vetur. Sölumaður hjá heildverzlun á Akureyri í tvö ár. Síðan bifreiðastjóri. Foreldrar: Þorsteinn Magnússon frá Gilhaga, og Anna Jósepsdóttir, nú búsett í Reykjavík. Indriði hefur þannig nýlega hafið störf sem blaðamaður á Tímanum þegar þetta er ritað. Hann var síðan blaðamaður á Alþýðublaðinu 1959-1962, en 1962 varð hann ritstjóri Tímans. Árið 1973 lét hann af því starfi þegar hann gerðist framkvæmdastjóri þjóðhátíðarinnar á Þingvöllum 1974. Hann stundaði síðan ritstörf, en varð aftur ritstjóri Tímans 1987-1991. Indriði var formaður Blaðamannafélags Íslands 1960. Hann hlaut viðurkenningu úr Móðurmálssjóði Björns Jónssonar 1961.
Eftir Indriða liggja skáldsögur, smásögur, ævisögur og leikrit. Meðal þekktustu verka hans eru skáldsögurnar Sjötíu og níu af stöðinni og Land og synir, sem báðar voru kvikmyndaðar. Þá liggja eftir Indriða ævisögur Stefáns Íslandi, Jóhannesar Kjarvals og Hermanns Jónassonar. Indriði hefur verið talinn einn af frumkvöðlum í íslenskri kvikmyndagerð. Hann lét gjarnan til sín taka í þjóðmálaumræðunni og var lengst af virkur forystumaður í samtökum rithöfunda. Síðustu ár sín skrifaði Indriði m.a. sjónvarpsgagnrýni í Morgunblaðið. Indriði er faðir Friðriks Indriðasonar blaðamanns svo og Arnaldar Indriðasonar, fyrrum blaðamanns og nú rithöfundar.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=187401&pageId=2438096&lang=is&q=Indri%F0i%20G
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=133267&pageId=1978119&lang=is&q=Indri%F0i%20G
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/97813/
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/816753/
http://www.jonas.is/kennsla/1962-1964-hja-indrida-ritstjora/