Haraldur J. Hamar (1935-2023)

 

Haraldur fæddist á Ísafirði 25. ágúst. Í drögum að blaðamannatali er umsókn hans um upptöku í Blaðamannafélag Íslands dagsett 28. ágúst 1956. Þar kemur fram að Haraldur hefur stundað nám við Menntaskólann á Akureyri og hafið störf í blaðamennsku 10. nóvember 1955 á Morgunblaðinu. Aðrar upplýsingar er ekki að finna í umsókninni. Haraldur starfaði á Morgunblaðinu í um áratug, síðustu árin sem umsjónarmaður Lesbókar ásamt Sigurði A. Magnússyni um tíma, en hóf í september 1963 útgáfu tímaritsins Iceland Review á ensku ásamt Heimi Hannessyni, en tók síðan algjörlega við útgáfunni. Tímaritið Atlantica var frá upphafi þess blaðs hluti útgáfustarfsins ásamt ýmsu öðru, fjölbreyttri bókaútgáfu á ýmsum tungumálum og útgáfu blaða íslenskra flugfélaga. Árið 1975 hóf Haraldur útgáfu á News From Iceland í nafni Iceland Review. Kom blaðið út mánaðarlega og var með dreifingu víða um lönd líkt og Iceland Review. News from Iceland telst fyrsta reglubundna fréttaþjónustan á ensku frá Íslandi. Með tilkomu netsins urðu síðan þær breytingar 1995 að Daily News From Iceland fór að birta daglegar Íslandsfréttir á ensku netinu, sem aftur varð til þess að hin mánaðarlega prentútgáfa News From Iceland lagðist af ári síðar, kannski fyrsta fórnarlamb þeirrar tæknibyltingar sem fréttaflutningur á netinu hefur haft á blöðin. Haraldur hætti sem útgefandi árið 1999, en þá sameinaðist útgáfufyrirtæki hans Vöku-Helgafelli. Árið síðar sameinuðust Vaka og Mál og menning í Eddu og 2002 keypti útgáfufyrirtækið Heimur þessa útgáfu sem Haraldur hafði hafið og hann hætti endanlega afskiptum af henni.

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=975630&issId=53520&lang=da

http://www.icelandreview.com/icelandreview/daily_life/Fifty_Years_%28PS%29_0_394826.news.aspx