- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Hannibal Gísli fæddist 13. janúar í Arnardal við Skutulsfjörð. Hann þótti einn litríkasti stjórnmálamaður landsins upp úr miðri síðustu öld, var formaður Alþýðusambands Íslands og formaður Alþýðuflokksins um tíma, einnig Alþýðubandalagsins auk þess að stofna Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Hann gegndi ráðherraembættum 1956-1958 og aftur 1971-1973. Samkvæmt drögum að blaðamannatali því sem byrjað var að taka saman á sjötta ártug síðustu aldar var Hannibal við kennaranám við Johnstrup Statsseminarium í Danmörku 1923-27. Umsókn hans um upptöku í Blaðamannafélag Íslands er dagsett 1. júlí 1953, en hann kveðst þá hafa verið starfandi á Alþýðublaðinu frá 1. janúar 1953. Blaðamennsku kveðst Hannibal hafa hafið við vikublaðið Skutul 1931 og verið þar til 1949, lengst af sem ritstjóri þess og eigandi í nokkur ár. Meðmælendur með Hannibal á umsókninni eru Helgi Sæmundsson, Alþýðublaðinu og Jón Bjarnason, Þjóðviljanum. Hannibal var samkvæmt Alþingismannatali ritstjóri Skutuls á Ísafirði 1935-1938 og 1943-1947 og Alþýðublaðsins árin 1952-1954. Hannibal var bróðir Finnboga Rúts, ritstjóra Alþýðublaðsins um tíma, og er faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem einnig var ritstjóri Alþýðublaðsins í eina tíð, og Ólafs Hannibalssonar, blaðamanns og ritstjóra.