Eyjólfur Eyjólfsson(1905-1960)

Eyjólfur fæddist í Norðfirði 12. apríl, að því er fram kemur í umsókn hans í drögum að blaðamannatali frá sjötta áratug síðustu aldar. Hann stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík, hóf störf í blaðamennsku 1949 á Þjóðviljanum og umsókn hans um aðild að Blaðamannafélaginu er dagsett 20. desember 1951. Í upplýsingum um helstu æviatriði kemur fram að Eyjólfur fæddist á Skálateigi í Norðfirði, sonur Mekkin Bjarnadóttur og Eyjólfs Jónssonar. Hann vann við bankastörf 1928-1943, verslunarstörf 1943-1948 og blaðamennsku frá 1949. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu mörg ár hann starfaði sem blaðamaður við Þjóðviljann, en fljótlega á sjötta áratugnum réðst hann til Loftleiða, um það leyti sem Loftleiðaævintýrið er að hefjast með lágfargjaldaflugi félagsins milli Bandaríkjanna og Evrópu um Ísland. Eyjólfur var um áratug fulltrúi Loftleiða í Noregi. Hann var nýlega kominn heim til að taka við skrifstofustjórastarfi í aðalstöðvum félagsins á Íslandi þegar hann lést 8. apríl 1960.

Jón Bjarnason á Þjóðviljanum og ritari Blaðamannafélagsins um árabil minnist Eyjólfs í blaðinu og segir m.a.: „Kynni okkar voru þó raunar nokkurra ára gömul, því áður en hann gerðist blaðamaður hafði hann veitt Þjóðviljanum liðsinni á margan hátt, m.a. marga kvöldvaktina unnið í sjálfboðavinnu á þeim árum þegar Þjóðviljinn mátti ekki liðfærri vera - og slíkur drengskapur gleymist ekki,“ segir hann. „Það tímabil sem við Eyjólfur vorum samstarfsmenn við Þjóðviljann kynntist ég bezt hinum mörgu kostum hans og hæfileikum. Hann var alltaf sama prúðmennið, sami öruggi starfsmaðurinn er alltaf mátti treysta fyllilega til þess bezta, og hinn góði félagi. Hlédrægni Eyjólfs mun hins vegar oft hafa orðið þess valdandi að starfshæfni hans hafi ekki verið metin að verðleikum um dagana.“

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=216773&pageId=2788251&lang=is&q=Eyj%F3lfur%20Eyj%F3lfsson