Bjarni Sigtryggsson (1946- )

 

Bjarni fæddist á Húsavík 12. febrúar, sonur Bryndísar Bjarnadóttur og Sigtryggs Þórhallssonar. Hann lauk viðskiptafræðiprófi af markaðssviði frá Norges Markedshö skole í Osló, og nam ferðamál við svæðisháskólann í Lillehammer á árunum í Noregi.

Það var fyrir orð Sigurjóns Jóhannssonar að Bjarni kom til starfa við umbrot á Alþýðublaðinu árið 1969. Hann fór þá strax einnig að skrifa fréttir og annast umsjón með sérþáttum í blaðinu. Hann tók við fréttastjórn eftir að Gísli Ástþórsson kom til starfa á blaðinu nokkru síðar, og var samfellt á Alþýðublaðinu til 1976. Þá fór hann norður til Akureyrar að ritstýra flokksblaðinu Alþýðumanninum, sem hann gerði, fyrst í fullu starfi og svo í hjástarfi til 1982.

Á Akureyri hóf Bjarni aukastarf við morgunþætti Páls Heiðars Jónssonar í útvarpinu og leysti hann stundum af við stjórn þáttarins. Árin 1982-1985 var hann við nám í Noregi en vann á útvarpinu á sumrin, kom þangað í fullt starf á fréttastofuna síðsumars 1985 og var þá þar í eitt ár.

Eftir starf við hótelstjórn og sem aðstoðarmaður ráðherra réðst Bjarni aftur til starfa hjá útvarpinu 1991 og var þar við fréttir og dagskrárgerð til 1994 þegar hann fór til starfa í utanríkisráðuneytinu og var þar til starfsloka 2016.

Þegar Bjarni byrjaði á Alþýðublaðinu var Kristján Bersi Ólafsson ritstjóri en Sighvatur Björgvinsson stjórnmálaritstjóri. Vilhelm G. Kristinsson var fréttastjóri og Sigurjón Jóhannsson ritstjórnarfulltrúi en Bjarni minnist í fljótu bragði sem starfsfélaga Helga E. Helgasonar, Þorgríms Gestssonar, Gissurar Sigurðssonar, Sigtryggs Sigtryggsonar, Halldórs Halldórssonar, Steinunnar Briem og Sigvalda Hjálmarssonar á ritstjórninni. Hallur Símonarson vann þar um skeið líka og Örn Eiðsson skrifaði um íþróttir, svo einhverjir séu nefndir og komu við sögu í íslenskri blaðamennsku á þessum árum.

Bjarni og Sigtryggur Sigtryggson, lengst af fréttastjóri á Morgunblaðinu, eru bræður.

 

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/16705/

https://timarit.is/files/19100486