- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í drögum að blaðamannatali kemur fram að Bjarni fæddist í Reykjavík 27. ágúst. Hann segist hafa stundað nám í menntaskóla og háskóla, en þegar kemur að spurningunni á eyðublaðinu: Blaðamaður hjá... svarar hann Lögbirtingablaðinu, enda Bjarni kunnur fyrir gamansemi. Hann kveðst hafa byrjað blaðamennsku 1929, hafa starfað á Morgunblaðinu 1929-1930 og hjá Vísi 1943-1944, „auk þess um skeið ritstjóri einhvers íþróttablaðs (með Garðari S. Gíslasyni) og í stuttan tíma ritstjóri Úrvals í veikindum Gísla Ólafssonar (1944 eða 1945), ritstjóri Stúdentablaðsins með fleirum eða einn saman 1928-1930.“ Hann kveðst hafa gengið í Blaðamannafélag Íslands 1943 og hann var formaður þess 1946-1947. Um helstu æviatriði segir hann: „Hefur þýtt nokkrar bækur, allmörg leikrit, gömul og ný, sett leikrit á svið fyrir menntaskólanemendur (1936-1938), gamanóperu fyrir Tónlistarfélagið (1937) og samið (ásamt öðrum) revíurnar „Fornar dyggðir“ (1939-1940), „Hver maður sinn skammt“ (1941) og „Halló Ameríka“ (1942). Fréttaritari fyrir Times, London, síðan 1942.“
Við þetta er að bæta að Bjarni er kunnastur fyrir störf sín sem blaðafulltrúi utanríkisráðuneytisins frá lýðveldisstofnun og um árabil. Í grein í Morgunblaðinu í byrjun febrúar 1975 minnist Sveinn Benediktsson, útgerðarmaður, Bjarna Guðmundssonar: „Bjarni var ekki fullra 19 ára er hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1927. Stundaði hann nám í norrænum fræðum við Háskóla Íslands í þrjú ár og síðan nám i blaðamennsku í Berlín og í bókmenntum o.fl. við Sorbonne-háskólann í París. Árið 1932 kom hann aftur heim og starfaði að skrifstofu- og verzlunarstörfum, blaðamennsku og útgerð. Í nokkur ár var hann fulltrúi hjá fyrirtækinu Kol & salt. Árið 1944 varð hann blaðafulltrúi í utanríkisráðuneytinu. Upp frá því starfaði hann hjá íslenzku utanríkisþjónustunni, mest hér heima, en var þó um tíma sendiráðsritari í París,“ segir Sveinn, og bætir við: „Á yngri árum sínum starfaði Bjarni hjá mér um tíma að skrifstofustörfum og við útgerð. Var hann undra fljótur að kynnast mönnum og málefnum. Hann var aufúsugestur og hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom, þá, eins og jafnan fyrr og síðar. Bjarni samdi nokkur sönglög, svo sem hið alkunna lag við kvæði Þórbergs Þórðarsonar: „Seltjarnarnesið er litið og lágt“. Reyndar nefnir Sveinn það einnig á öðrum stað í greininni að Bjarni eigi heiðurinn að textanum alkunna „Hvað getur hann Stebbi gert að því þótt hann sé sætur.“
Bjarni var faðir Hildar, fréttakonu á Ríkisútvarpinu.
http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/383062/