Anna G. Bjarnason (1933-1998)

Í drögum að blaðamannatali því sem byrjað var að taka saman á sjötta áratug síðustu aldar skrifar Anna í umsókn sinni um upptöku í Blaðamannafélag Íslands að hún hafi hafið störf í blaðamennsku á Morgunblaðinu 15. maí 1952, en umsóknin er dagsett 12. apríl 1953. Meðmælendur hennar eru Sigurður Bjarnason, ritstjóri á Morgunblaðinu, og Jón Magnússon, fréttastjóri á Ríkisútvarpinu. Um helstu æviatriði segir að Anna sé fædd í Reykjavík 13. september 1933, foreldrar frú Anna G. Bjarnason (Jónsdóttir Árnasonar prests) hjúkrunarkona, og Gunnar Bjarnason (Nic. Bjarnasonar verslunarmanns), verkfræðingur og kennari við Vélskólann í Reykjavík. Innritaðist í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar fyrsta bekk árið 1947, útskrifaður gagnfræðingur 1949. Innritaðist í þriðja bekk Verzlunarskóla Íslands 1949 og útskrifaðist úr fjórða bekk 1951. Síðan í maí 1951 starfað við blaðamennsku við Morgunblaðið.

Við þetta er því að bæta að Anna starfaði í fullu starfi við Morgunblaðið til 1955 en síðan í hlutastarfi til 1962. Síðar starfaði hún m.a. sem skrifstofustjóri Vélskólans, læknaritari og blaðamaður á Vísi og við Dagblaðið, þar sem hún sérhæfði sig í skrifum um neytendamál og telst brautryðjandi á því sviði. Hún var ritstjóri og útgefandi Mosfellspóstsins 1980­-1987 og rak gestamóttöku fyrir Íslendinga í Flórída 1989-1997. Anna var kunnur pistlahöfundur í Ríkisútvarpinu og greinar hennar birtust í ýmsum blöðum og tímaritum. Eiginmaður Önnu var Atli Steinarsson, blaðamaður til margra ára og stjórnarmaður í Blaðamannafélagi Íslands um árabil.

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/396024/

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/396036/?searchid=15a46b1b5562bc626f2d11e9f204d6767f6040ba&item_num=4