- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Andrés Kristjánsson (1915-1990) Í drögum að blaðamannatali segir í ódagsettri umsókn hans um upptöku í Blaðamannafélag Íslands að hann hafi lokið kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1937, en hafið störf á Tímanum 1946 og starfað þar síðan. Fram kemur að Andrés er fæddur í Syðritungu, Tjörneshreppi í S-Þingeyjarsýslu, 10. september 1915. Foreldrar hans voru Friðfinna Sörensdóttir og Kristján Júlíus Jóhannesson, hjón í Syðritungu. Ólst Andrés þar upp, svo og á Héðinshöfða og Húsavík og síðar í Hriflu í Ljósavatnshreppi til tvítugsaldurs. Kennari í Reykdælahreppi 1937-38 og kennari við barna- og unglingaskóla 1938-42. Andrés var kennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík 1942-46 og við Samvinnuskólann 1944-49.
Við þetta er því að bæta að Andrés varð fréttaritstjóri Tímans 1953-60 og ritstjóri blaðsins 1960-1973. Hann varð þá fræðslustjóri og skólafulltrúi í Kópavogi 1974-77. Tvívegis var Andrés formaður Blaðamannafélags Íslands, 1955-56 og 1960-61, og gegndi auk þess fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum á vegum hins opinbera og ýmissa félagasamtaka. Þá var hann afkastamikill rithöfundur og þýddi auk þess fjölmargar bækur. Í eftirmælum um Andrés sagði náinn samstarfsmaður hans til margra ára, Indriði G. Þorsteinsson, ritstjóri: „Sagt hefur verið að blaðamennska sé hættulegt starf og þeir sem hana stunda til langframa geti ekki búist við að verða langlífir. Og dæmi eru þess að blaðamennska taki sinn skatt. En Andrés var ekki í þeim hópi, þótt vinnan væri á köflum hreint ótrúlega mikil. Í þau skipti sem ég hitti Andrés hin síðari árin var hann með öllu óbreyttur. Hann var glaður og reifur eins og jafnan áður og brá á gamanmál eins og í vinnunni forðum. Það er mikil eftirsjá í Andrési Kristjánssyni. Með engum hef ég unnið sem var mér kærari vinnufélagi. En eins og hann sagði sjálfur, eigum við blaðamenn ekki að dvelja of lengi við að lesa það sem við skrifuðum í gær. Við eigum aðeins að standa okkur vel á hverjum nýjum degi.“
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=280817&pageId=4058106&lang=is&q=Andr%E9s%20Kristj%E1nsson