- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í drögum þeim að blaðamannatali sem verið var að taka saman á sjötta áratugnum kemur fram að Álfheiður fæddist í Hafnarfirði 8. október 1925. Hún varð stúdent 1945 og fór í framhaldsnám í Háskóla Íslands. Hún segist hafa byrjað í blaðamennsku 1944, fyrst hjá Alþýðublaðinu við þýðingar til 1946, en á Þjóðviljanum frá 1949 við þýðingar o.fl., svo sem umsjón með heimilisþáttum og bæjarpósti. Þegar umsóknin um upptöku í Blaðamannafélagið er dagsett, hinn 6. febrúar 1954, er hún á Þjóðviljanum og hefur hún þá haft blaðamennsku að aðalstarfi frá 1. júlí 1953. Meðmælendur hennar á umsókninni eru Jón Bjarnason á Þjóðviljanum og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson á Alþýðublaðinu.
Við þetta er því að bæta að Álfheiður var dóttir Kjartans Ólafssonar frá Hafnarfirði, lögregluþjóns og lengi bæjarfulltrúa þar, f. 16. maí 1894, d. 1971, og eiginkonu hans, Sigrúnar Guðmundsdóttur, f. 8. ágúst 1894, d. 1980. Álfheiður giftist 27. nóvember 1954 Jóhannesi Jóhannessyni listmálara og gullsmið litlu eftir að hún gekk í Blaðamannafélagið. Strax í menntaskóla hafði hún þýtt sína fyrstu bók, sem gefin var út, en þýðingar gerði hún að ævistarfi, fyrst með verslunarstörfum, blaðamennsku og barnauppeldi, en síðar alfarið. Árið 1977 hóf Álfheiður nám í málvísindum og lauk BS-gráðu í þeim frá Háskóla Íslands 1983. Álfheiður var systir Magnúsar Kjartanssonar, ritstjóra Þjóðviljans og síðar ráðherra.
http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%81lfhei%C3%B0ur_Kjartansd%C3%B3ttir