Fréttir

Frá fundi norsku siðanefndarinnar

Brot á siðareglum að lesa inn á Lotto-auglýsingu

Norska fjölmiðlasiðanefndin ( Pressens faglige utvalg) hefur úrskurðar að TV2 í Noregi hafi brotið gegn nokkrum ákvæðum siðareglna með því að heimila að þekktur  íþróttafréttamaður  stöðvarinnar, Øyvind Alsaker ,  læsi inn á sjónvarpsauglýsingu fyrir Lottóið.  Er litið svo á af meirihluta siðanefndarinnar að  fjárhagsleg tengsl TV2 við Lottóið séu mikil og sterk vegna auglýsingahagsmuna og að gengi hafi verið of langt þegar þekktur íþróttafréttamaður stöðvarinnar sé látin fara með auglýsingatexta fyrir Lottó eins og um lýsingu á kappleik væri að ræða. Sjá meira hér
Lesa meira
Mikill sigur!

Mikill sigur!

„Ég fagna þessari niðurstöðu  og þetta er mikill sigur sem sýnir að  það þarf að festa betur í sessi meginreglur tjáningarfrelsis á íslandi,“ segir Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í morgun í máli Erlu Hlynsdóttur gegn íslenska ríkinu.  Hjálmar  segir  þröngan skilning á mikilvægi tjáningarfrelsis fjölmiðla margsinnis hafa komið fram í dómum íslenskra dómstóla á umliðnum árum og þeir hafi þannig  lagt stein í götu blaðamennsku og fjölmiðlunar í landinu. Það sé óskandi að nú verði breyting á, því tjáningarfrelsið sé hornsteinn lýðræðislegra samfélagshátta og ekkert annað meðal  jafn öflugt til til að uppræta spillingu og ranglæti. Í dómi MDE í morgun er niðurstaðan sú að ís­lenska ríkið hafi brotið 10. grein ­sátt­málans   sem fjall­ar um tján­ing­ar­frelsið, en Mann­rétt­inda­sátt­mál­inn hef­ur verið lög­festur á Íslandi. Íslenska rík­inu er gert að greiða Erlu 8.000 evr­ur í bæt­ur, en það svar­ar til um 1.200 þúsund króna. Sjá frekari umfjöllun og viðbrögð Erlu hérSjá dóminn í heild sinni hér  
Lesa meira
Til varnar blaðamennsku 5. nóvember

Til varnar blaðamennsku 5. nóvember

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) mun þann 5. nóvember næstkomandi standa fyrir alþjóðlegum baráttudegi undir yfirskriftinni „Til varnar blaðamennsku“ (Stand up for journalism). Þetta er í sjöunda sinn sem þessi baráttudagur er skipulagður og er hugmyndin að fá almenning og fjölmiðlafólk til að íhuga og ræða þær ógnanir og áskoranir sem blaðamennskan stendur frammi fyrir í samtímanum. Í ár hefur undirbúningsnefndin ákveðið að beina kastljósinu að stöðu blaðamanna í umhverfi síaukinnar samþjöppunar.  Nýir aðilar á fjölmiðlasviðinu, s.s. Google, ógna ekki eingöngu fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum heldur er tilvist lausamanna í blaðamennsku (freelance)  beinlínis í útrýmingarhættu því iðulega standa þeir frammi fyrir því að aðeins einn kaupandi er að efni þeirra. Þetta á sérstaklega við þegar um svæðisbundið efni er að ræða.  Fjármálamenn hafa verið að kaupa upp fjölmiðlagáttir vítt um álfuna og allan heiminn og virðat komast upp með að stjórna fjölmiðlamarkaðnum á eigin forsendum sem oft eru hagsmunir ótengdir fjölmiðlun. Þannig er mjög algengt í suður og austur Evrópu að þeir sem eru í fjölmiðlarekstri séu samhliða í annars konar viðskiptum sem síðan hafa áhrif á ritstjórnarstefnu og flestir þessir eigendur hafa auk þess pólitíska hugmyndafræði á dagskrá sinni. Sjá einnig hér  
Lesa meira
Ræða hvernig á að bregðast við stjórnvaldsnjósnum

Ræða hvernig á að bregðast við stjórnvaldsnjósnum

Undanfarin misseri hafa áhyggjur almennings og þó sérstaklega blaðamanna og samtaka þeirra af fjölda- persónunjósnum  stjórnvalda og annarra vaxið verulega. Það eru ekki síst þær upplýsingar sem komu fram með skjölunum sem Edward Snowden afhjúpaði sem  stuðlað hafa að vaxandi áhyggjum og umræðum. Frá því að Snowden málið kom fyrst upp hafa mörg fleiri tilvik um njósnir yfirvalda þar á meðal lögreglu  dregið fram þá hættu sem trúnaðarsamband blaðamanna og heimildarmanna er komið í af þessum sökum.  Það hefur verið njósnað um blaðamenn og gögn úr símum þeirra hafa verið haldlögð með leynd og samskipti þeirra á ýmsan hátt hleruð.  Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) í samvinnu við Blaðamannasamband Bretlands (NUJ) hafa nú blásið til alþjóðlegrar ráðstefnu í London til að ræða hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun og tryggja heimildavernd og sjálfstæði blaðamanna. Ráðstefnan hefst á fimmtudag, 16. október og munu þar koma saman blaðamenn og starfsmenn fjölmiðla, stjórnmálamenn, lögfræðingar og baráttufólk fyrir borgaralegum réttunum víða að úr heiminum. Sjá einnig hér  
Lesa meira
Prentverk í hættu vegna samdráttar hjá prentmiðlum

Prentverk í hættu vegna samdráttar hjá prentmiðlum

  Samdráttur í útbreiðslu prentmiðla, einkum vikublaða og tímarita ógna nú tilvist Aller prentsmiðjunnar í Noregi  en þar vinna nú  rúmlega 90 manns mest grafískir hönnuðir.  Prentsmiðjan er í eigu danskra aðila og hafa tekjur hennar farið minnkandi undanfarin ár samhliða erfiðleikum í prentaðri útgáfu og minnkandi lestri.  Þannig var afkoman fyrir skatta  jákvæð upp á um 15 milljónir norskra króna árið 2010 en var í fyrra neikvæð um  rúmar 10 milljónir.  Prentsmiðjan er staðsett í Nittedal rétt utan við Osló og er til umræðu að flytja verkefni hennar til systurverksmiðju í Tostrup í Danmörku. Hins vegar  hafa verið viðraðar áhyggjur af því að ef þróunin verði  jafn neikvæð í útbreiðslu og lestri prentmiðla sé tilverugrundvelli beggja prentsmiðjanna í raun ógnað. Sjá meira hér  
Lesa meira
Meiðyrðalöggjöfin og tjáningarfrelsi fjölmiðla

Meiðyrðalöggjöfin og tjáningarfrelsi fjölmiðla

Málþing  á vegum Orators , félags langanema við HÍ, verður haldið miðvikudaginn 8. október nk. klukkan 12:00 í sal 101 í Lögbergi. Yfirskrift málþingsins er: Meiðyrðalöggjöfin og tjáningarfrelsi fjölmiðla. Meiðyrðamál hafa á undanförnum misserum hlotið mikla umfjöllun og hefur sú spurning vaknað hvort að tímabært sé að endurskoða þá löggjöf er snýr að slíkum málum. Refsirammi hegningarlaga er frá árinu 1940 og mörgum finnst sem breytt viðhorf til tjáningarfrelsis kalli á að refsiramminn verði færður til nútímahorfs. Þá verða meiðyrðamál gegn fjölmiðlum sífellt algengari og álitaefni er hvort að sú þróun feli í sér aðför gegn tjáningarfrelsi þeirra. Starf fjölmiðla einkennist af miklum hraða auk þess sem mikill hluti samskipta manna fer fram í gegnum vefmiðla. Samspil alls þessa hefur vakið upp fjölmörg álitaefni um meiðyrðalöggjöfina og það tjáningarfrelsi sem varið er af stjórnarskránni. Framsögumenn á málþinginu verða: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður og varaformaður fjölmiðlanefndar Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri og ritstjóri Blaðamannsins, fagrits Blaðamannafélags Íslands. Fundarstjóri verður Linda Ramdani, funda- og menningarmálastjóri Orators.   Lex lögmannsstofa er aðalstyrktaraðili fræðastarfs Orators.   Málþingið er opið öllum. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta á þennan áhugaverða viðburð.
Lesa meira
Torben Schou

Topp námskeið í sjónvarpsfrásögn

 Í haust gefst íslenskum blaðamönnum tækifæri til að setjast á námskeið með einum af reyndasta sjónvarpsmanni Danmenrkur, Torben Schou.  Námskeiðið heitir frásögn í sjónvarpi (TV-storytelling) og verður haldið í Reykjavík dagana 22.-23. nóvember. Þar miðlar Torben Schou af reynslu sinni á sviði  gerða heimildamynda, frétta, írótta og skemmtunar fyrir sjónvarp.  Það er Norræni blaðamannaskólinn NJC sem býður þessi námskeið og Endurmenntunarsjóður Blaðamannafélagins veitir styrki til félagsmanna vegna þessa námskeiðs.   Aðgangur er takmarkaður á námskeiðið og allar nánari upplýsingar veitir Sigrún Stefánsdóttir, sviðsforseti hug- og félagsvísindadeildar HA og umsóknir um setu á námskeiðinu ættu einnig að berast til hennar. Sigrún hefur netfangið sigruns@unak.is Sjá einnig  bls1.pdf  bls.2.pdf
Lesa meira
Kjarninn verður fréttavefur

Kjarninn verður fréttavefur

Kjarninn hættir í dag að koma út sem stafrænt fréttatímarit en verðu þess í stað að fréttavef. Í tilkynningu frá Kjarnanum segir m.a.: " Í dag stígum við fyrsta skrefið í þeim breytingum með því að kynna til leiks nýjan og öflugan fréttavef Kjarnans. Á honum mun ritstjórn Kjarnans sinna daglegri fréttaþjónustu samkvæmt sömu viðmiðum og við höfum starfað eftir hingað til, með áherslu á gæði og dýpt. Og við ætlum að vera þrælskemmtileg líka. Nýi fréttavefurinn mun bjóða upp á reglulegar fréttir af öllu því sem ritstjórn Kjarnans telur að skipti mestu máli hverju sinni á innlendum og erlendum vettvangi, daglegar fréttaskýringar, hlaðvörp, myndbönd, pistla, aðsendar greinar, fullt af föstum liðum og allskyns aðra skemmtilega efnisflokka. Áfram sem áður mun stór hópur vandaðra pistla- og greinahöfunda sjá okkur fyrir efni auk þess sem til stendur að fjölga þeim enn meira." Sjá fréttavefinn kjarninn.is hér
Lesa meira
Enn rekstrarerfiðleikar hjá RÚV

Enn rekstrarerfiðleikar hjá RÚV

  RÚV stendur enn frammi fyrir umtalsverðum rekstrarvanda og í gær gat félagið ekki greitt 190 milljón króna afborgun af skuldabréfi og fékk þriggja mánaða frest til þess.  Niðurskurðar og hagræðingaraðgerðir sem þegar hafa komið til framkvæmda duga ekki til að ná endum saman samkvæmt tilkynningu frá RÚV, en þar kemur fram að undirbúningur sé hafinn að sölu eigna til að lækka skuldir en ekki hefur enn verið gefið út hvort farið verður út í frekari hagræðingu eða uppsagnir á starfsfólki. Hér má sjá tilkynningu RÚV um fjárhagsstöðuna  
Lesa meira
Grímur Sigurðsson, útvarpsvirkjameistari, er hér á svipuðum aldri og hann var þegar hann horfði fyrs…

Ráðstefna um um tjáningarfrelsi og samfélagslega ábyrgð

Háskólinn á Akureyri efnir til ráðstefnu að Sólborg á Akureyri á mánudaginn kemur, 29. september þar sem umfjöllunarefnið er tjáningarfrelsi og samfélagsleg ábyrgð. Sex erindi verða flutt af innlendum og erlendum fræðimönnum. Ráðsetnan er öllum opin en hún fer fram á ensku fyrir hádegi, en erindi og umræður verða á íslensku eftir hádegi.  Tilefni ráðstefnunnar er að um þessar mundir eru 80 ár liðin frá því að fyrst var horft á sjónvarp á Íslandi, en það gerðu þeir Grímur SIgurðsson, síðar útvarpsvirkjameistari og F.L. Hogg, breskur verkfræðingur sem hingað hafði komið á vegum trúboðans Arthurs Gook og Sjónarhæðarsafnaðarins. Þeir horfðu á tilraunaútsendingar frá Crystal Palace Studios í London á bernskuskeiði sjónvarps í heiminum, milli 1934 og 1935.  Af þessu tilefni verður jafnframt afhjúpuð "söguvarða" við Eyrarlandsveg þar sem þessarar tilrauna í sjónvarpsmálum er minnst. Hér má sjá dagskrá ráðstefnunnar:   Tjáningarfrelsi og félagsleg ábyrgð - Kenningar og útfærsla Ráðstefna haldin í Háskólanum á Akureyri 29. September, stofu M102   Í tilefni af því að  um þessar mundir eru liðin 80 ár frá því að fyrst var horft á sjónvarp á Íslandi (Akureyri) efnir námslína í fjölmiðlafræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri til opinnar ráðstefnu um tjáningarfrelsið og þá félagslegu ábyrgð sem því fylgir.    10:00 Ráðstefnan sett  Ráðstefnustjóri: Sigrún Stefánsdóttir 10:15 Thomas Hoeren, prófessor við   Muenster háskóla í Þýskalandi: „Legal challenges for a free press and its social responsibilities“  10:50  Markus Meckl, prófessor við Háskólann á Akureyri: „Two concepts of freedom English and German“ 11:20 Mikael Karlsson, fyrrv. Prófessor við Háskóla Íslands: „Free Speech, Freedom of the Press, and the Tapestry of Lies“  12:00  Pallborðsumræður með frummælendum 12: 30  Hádegishlé 13:30 Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri og Sigurður Kristinsson prófessor við Háskólann á Akureyri: „Íslenskir blaðamenn og kenningar um fagstéttir“ 14:05 Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar: Réttindi og skyldur fjölmiðla, með hliðsjón af 26. grein laga um fölmiðla -  Snertifletir við Siðanefnd BÍ. 14:40 Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri: „Ábyrgð fjölmiðla – kynjahugmyndir ungmenna“  15: 15  Pallborðsumræður með frummælendum  15: 45 Málþingsslit  *** 16:00  Afhjúpun söguvörðu um fyrsta sjónvarp á Íslandi á útsýnisstað á Eyrarlandsvegi.  
Lesa meira