Fréttir

Frá málþinginu í síðustu viku

Samantekt úr erindum framsögumanna

Fjölmiðlanefnd hefur tekið saman helstu atriði úr ræðum framsögumanna á málþingi um ritstjórnarlegt sjálfsstæði sem fjalað hefur verið um hér á press.is. Þessi samantekt fyllir velúpp í þau göt sem eru á frásögninni sem finna má hér á síðunni og því bendum við á að þessa samantekt sem sett er fram undir yfirskriftinni"Óþarfar umferðarreglur?". Sjá samantektina hér.
Lesa meira
Frá fundinum í gær.

Fjörugut pressukvöld

Fjörugar umræður spunnust á málþingi um ritstjórnarlegt sjálfstæði  sem Fjölmiðlanefnd og Blaðamannafélagið stóðu fyrir í gærkvöldi. Frummælendur voru þau Þóra Kristín Ásgeirsdóttir,  Þórður Snær Júlíusson, Sævar Freyr Þráinsson, Hallgrímur Thorsteinsson og Elfa Ýr Gylfadóttir, en fundarstjóri var Arna Schram. Í framsögum reifuðu frummælendur hugmyndir sínar um  ritstjórnarlegt sjálfstæði og  voru menn almennt sammála um mikilvægi þess þótt snúið gæti reynst að skilgreina nákvæmlega hvað í því fælist og hvernig það yrði best tryggt.  Press mun á næstunni reyna  að  birta þær framsögur sem voru byggðu á skrifuðum texta og reifa efni annarra. Hér á eftir verður riðið á vaðið með framsögu Þórðar Snæs.  Almennt voru frummælendur sammála um að  ýmsar hættur steðjuðu að ritstjórnarlegu sjálfstæði en talsverður samhljómur var með þeim í lokaorðum  um að rekstrargrunnur og veikur efnahagur fjölmiðla ásamt erfiðum starfsskilyrðum blaðamanna væru sérstaklega varhugaverð hvað þetta varðar. Fundurinn var vel sóttur og umræður fjörugar sem áður segir þannig að dagskráin teygðist nokkuð frá því sem áformað hafði verið. Framsaga Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans: Takk fyrir að leyfa mér taka þátt í þessari þörfu umræðu. Fyrir mér felst sjálfstæði ritstjórna í því að aðrir hagsmunir en að upplýsa lesendur, áhorfendur eða áhlustendur eiga ekki að ráða för við vinnslu frétta. Trúnaður ritstjórna á að liggja við lesendur og enga aðra. Hvernig eigi að tryggja að þetta sjálfstæði ritstjórna sé við lýði er hins vegar allt annað mál. Það hefur verið reynt með því að setja lög. Eigendur hafa einnig sett reglur sem hafa fengið allskonar mismunandi nöfn; siðareglur, ritstjórnarreglur, reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði osfr. Ekkert af þessu hefur virkað.  *** Ég er þeirrar skoðunar að ritstjórnarlegu sjálfstæði sé ekki hægt að koma á með orðum á blaði eða lögum sem fylgja ekki einu sinni heimildir til að sinna eftirliti með framfylgni ritstjórnarlegs sjálfstæðis. Það er ritstjórnin sjálf sem verður að móta þær reglur sem hún vinnur eftir sem tryggja það sjálfstæði. Þær geta til að mynda tekið mið af siðareglum stéttarfélags okkar, þótt þær reglur séu fjarri því fullkomnar. Sú ritstjórn sem vinnur saman þarf að koma sér saman um hvernig hún ætlar að verja sjálfstæði sitt gagnvart eigendum,gagnvart stjórnmálamönnum, gagnvart áhrifaöflum í atvinnulífinu. Í raun gagnvart öllum þeim sem hafa áhuga á, hagsmuni eða vilja til að hafa áhrif á fréttaflutning. Slíkt getur byggt á formlegum reglum en líka á óformlegum skilningi og óformlegum vinnureglum sem stuðst er við við vinnslu frétta. Til að slíkt vinnulag sé tækt þá þarf að ríkja traust á milli þeirra sem skipa ritstjórn hverju sinni. Ég held að ég sé ekki að opinbera neitt leyndarmál þegar ég segi að sú öra starfsmannavelta, það atvinnuóöryggi sem íslenskir blaðamenn búa við og sá stanslausi niðurskurður sem starfsemi fjölmiðla hefur orðið fyrir undanfarin misseri dragi úr líkum þess að slíkt traust og slíkt vinnulag verði að veruleika.  *** Ég hef unnið í um áratug í blaðamennsku á Íslandi. Ég tók það saman áðan að ég hafi unnið á sex mismunandi fjölmiðlum á þeim tíma, ef við teljum Blaðið og 24 stundir sem einn og ég sleppi því að tvítelja Fréttablaðið. Á þeim tíma hef ég unnið undir tíu mismunandi ritstjórum, ef ég sleppi því að telja Ólaf Stephensen þrisvar, en ég hef unnið undir honum á þremur mismunandi fjölmiðlum. Og ég er alls ekkert einsdæmi.  Það er því miður veruleiki mjög margra blaðamanna að skipta ört um starfsvettvang. Það eru ýmiskonar ástæður fyrir þessu. Nánast árlegar hræringar á mörgum af stærstu fjölmiðlum landsins gera það að verkum að oft opnast tækifæri á að fara í störf sem eru meira spennandi eða borga betur. Líkt og í flestum geirum er það hvati að fara til fyrirtækis sem starfar á þínu sérsviði sem er með meiri útbreiðslu og vill borga þér betri laun. Metnaður til að hafa meiri áhrif fer þá saman við hagsmuni buddunar. Það hefur hins vegar líka komið fyrir að ég hef hætt störfum á fjölmiðlum vegna þess að mér fannst afskipti eigenda af lögmætum og réttum fréttaflutningi verulega óeðlileg. Í þeim tilfellum hafa eigendur, eða fulltúar eigenda, meðal annars farið fram á það við yfirmenn mína að ég yrði rekinn vegna skrifa sem tengdust þeim. Við slíkar aðstæður hefur mér þótt eðlilegt að segja einfaldlega upp, þar sem mínar hugmyndir um ritstjórnarlegt sjálfstæði og varðveiðslu trúverðugleika fjölmiðla fóru augljóslega ekki saman við hugmyndir eigendanna. Sem launamaður er fráleitt að gera kröfu til fyrirtækis sem maður starfar hjá að það breytist á þann hátt sem maður kýs. Ef maður er ósáttur, eða veit að eigendur fyrirtækisins eru ósáttir við sig, þá hefur maður einungis eitt að gera: að segja upp og vinna annarsstaðar. *** Kjarninn, miðillinn sem ég á hlut í og ritstýri í dag, varð eiginlega til vegna vilja okkar sem að honum standa til að koma á algjöru ritstjórnarlegu sjálfstæði. Í samfélagi eins og því íslenska, þar sem nándin er mikil, vilji hagsmunaaðila til að eiga og hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun er skýr, og allir þekkja annað hvort einhvern eða þekkja einhvern sem þekkir hann, þá blasti það við okkur að eina leiðin til þessa væri sú að ritstjórnin og samstarfsmenn hennar ættu einfaldlega alltaf meirihluta í fjölmiðlafyrirtækinu. Með þeim hætti verjum við okkar ristjórnarlega sjálfstæði frá skipunum eða afskiptum að ofan án þess að það hafi áhrif á atvinnuöryggi okkar. Annað sem við gerðum er að stofna ekki til skulda. Og það er algilt. Við skuldum engum og gerum upp við alla. Þannig verjum við sjálfstæði okkar enn frekar. Það er líka mjög áhugavert að vera ritstjóri á fjölmiðli þar sem aðrir meðlimir ritstjórnar geta trompað ritstjórnarvaldið með eigendavaldi sínu. Hlutverk mitt sem ritstjóra er því fjarri því að deila og drottna. Það get ég ekki. Skoðun og sýn allra á ritstjórn er jafn rétthá og vægi allra atkvæða er jafn mikið. Mitt hlutverk sem ritstjóra felst því í utanumhaldi og skipulagningu, auk fréttaskrifa til jafns við aðra og að koma fram fyrir hönd miðilsins út á við. Þá er ég líka ábyrgðarmaður útgáfunnar. Inn á við er vald mitt ekkert meira en hinna eigendanna. *** Það er mín skoðun, eftir að hafa harkað í þessari tilraun til sjálfstæðrar og gagnrýnar blaðamennsku sem Kjarninn er í næstum 16 mánuði, að þetta vinnulag er bæði mun heilbrigðara en þau vinnuumhverfi sem ég hef starfað í áður og að það skili mun vandaðri vinnu. Við erum mjög óhrædd við að gagnrýna fréttir hvors annars og veita hvoru öðru aðhald. Þegar við gerum mistök gerum við þau saman. En við stöndum líka fast saman þegar á móti blæs og þungi hagsmunaaðila leggst á okkur. Það gerist mun oftar en flestir átta sig á, sérstaklega á svona umbrotartímum eins og eru núna í íslensku samfélagi. Sá trúverðugleiki sem við höfum byggt upp á þeim tíma sem við höfum starfað sannar fyrir mér að þetta sé að minnsta kosti ein leið til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði. Það vantraust sem ríkir gagnvart nánast öllum öðrum einkafjölmiðlum, sem reknir eru með öðrum hætti, staðfestir það líka. Þetta vinnulag gæti auðvitað breyst ef við vöxum og ráðum inn fleira starfsfólk, sem hlýtur alltaf að vera stefna lítils fjölmiðlafyrirtækis. Þá þurfum við að endurskoða það vinnulag og ákveða hvernig sjálfstæði stærri ritstjórnar verði háttað. Ég get ekki svarað því nú hvernig við munum leysa það mál, en ég er þess fullviss að sú reynsla sem við höfum af störfum á öðrum fjölmiðlum muni hjálpa okkur við að sniðganga það sem við eigum ekki að gera, og sú reynsla sem við höfum safnað í bankann undanfarið tæpt eitt og hálft ár mun nýtast við að finna nýjan farsælan farveg. Það er verkefni sem ég hræðist nákvæmlega ekkert.  
Lesa meira
Ritstjórnarlegt sjálfstæði - í aðdraganda málþings

Ritstjórnarlegt sjálfstæði - í aðdraganda málþings

Í tilefni af málþingi Blaðamannafélagsins um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem haldið verður annað kvöld kl 20 í Kornhlöðunni er hér birt grein sem Birgir Guðmundsson skrifaði í Blaðamanninn í desember 2013. Greinin er smantekt á stöðu þessara mála eins og þau stóðu þá og hvernig Blaðamannafélagið hefur brugðist við og er gagnlegur bakgrunnur fyrir umræðuna sem fram fer á málþinginu á morgun.     Ritstjórnarlegt sjálfstæði – Um hlutverk Blaðamannafélagsins í reglusetningu og eftirliti með brotum á reglum Talsverð umræða hefur spunnist um ritstjórnarlegt sjálfstæði í kjölfar greinaskrifa Magnúsar  Halldórssonar á vísir.is og síðan mannabreytinga á ritstjórn Fréttablaðsins. Ljóst er að mál af því tagi sem þarna kom upp – í rauninni algerlega óháð því hvort var um raunveruleg afskipti eigenda að ræða eða ekki – eru til þess fallin að valda ákveðnum kælingaráhrifum hjá stéttinni allri, ekki bara Fréttablaðsfólki.  Tillaga um sérstakt fagráð hjá Blaðamannafélaginu er áhugaverður farvegur fyrir mál af þessu tagi. Umræðan um ritstjórnarlegt sjálfstæði og afskipti eigenda af ritstjórnarákvörðunum beinir sjónum blaðamanna að (veikri?) stöðu stéttarinnar og jafnvel í einhverjum tilfellum gæti hún hvatt til sjálfsritskoðunar. Því  verður spurningin um ritstjórnarlegt sjálfstæði sérstaklega mikilvæg ekki  síst þegar við bætist að í fjölmiðlalögum  frá 2011 er sérstakt ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði og þetta ákvæði  var raunar endurskoðað nokkuð við þinglokin í vor þegar samþykktar voru breytingar og viðauki við fjölmiðlalögin. Þar var þó fyrst og fremst um orðalagsbreytingarv að ræða. Ákvæðið um ritstjórnarlegt sjálfstæði var sett í lögin með stuðningi Blaðamannafélagsins þó félaginu hafi vissulega verið ljóst að útfærsla þess kynni að vera vandasöm og erfitt gæti reynst að fylgja eftir og tryggja að ekki verði farið í kringum þau ákvæði sem í reglunum eru sett. Það er einkum tvennt í þessum reglum sem skiptir máli út frá sjónarhóli Blaðamannafélagsins.  Í fyrsta lagi það sem segir í 1. málsgrein 24. greinar að reglurnar skuli „mótaðar í samráði við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra eða samtök“. Með þessu ákvæði er tryggt að Blaðamannafélagið á aðkomu að málinu og að starfsmenn á tilteknum ritstjórnum þurfa ekki að standa sjálfir frammi fyrir yfirmönnum sínum og eigendum við að sjóða slíkar reglur saman.  Hitt atriðið sem skiptir miklu máli út frá sjónarhóli Blaðamannafélagsins eru ákvæðin í annari málsgrein greinarinnar og þó sérstaklega það sem varðar skilyrði fyrir uppsögn. Í þessari málsgrein er fjallað um starfsskilyrði blaða- og fréttamanna við að framfylgja ritstjórnar- eða dagskrárstefnu viðkomandi fjölmiðils, þá starfshætti sem eiga að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði gagnvart eigendum og síðast en ekki síst skilyrði áminningar og uppsagnar blaðamanna og yfirmanna á ritstjórnum.  Minni hætta á geðþótta Spyrja má hvers vegna Blaðamannafélagið lagði áherslu á þessi atriði á sínum tíma þegar til dæmis fulltrúar félagsins voru kallaðir fyrir þingnefnd við afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi á sínum tíma? Svarið er í raun einfalt. Í fyrsta lagi er auðveldara fyrir félagið sem slíkt að vera í forsvari við gerð þessara samninga en einstaka félagsmenn. Í öðru lagi er það lykilatriði að hafa uppsagnar- og áminningarferli í opnum og fastmótuðum farvegi þannig að geðþótti eða sérhagsmunir geti síður ráðið ferðinni í slíkum málum. Sjónarmiðið var að gera eigendum og stjórnendum erfiðara fyrir um að reka fólk án málefnalegra skýringa og þannig koma í veg fyrir „refsiaðgerðir“ ef blaðamaður fylgdi frekar eigin sannfæringu um sannleikann, en því sem hentaði hagsmunum útgefenda hverju sinni. Vissulega gerðu menn sér grein fyrir að aldrei yrði að fullu tryggt ritstjórnarlegt frelsi einstakra blaðamanna enda var það raunar ekki endilega markmiðið, heldur voru settar ákveðnar girðingar og það gert erfiðara að áminna eða segja upp starfsfólki og tryggt að ef til slíkra úrræða er gripið liggi fyrir skýringar sem hægt sé að opinbera   Reglur fyrir fréttamiðla Fjölmiðlanefnd hefur á sinni könnu að framfylgja fjölmiðlalögunum og í lögum er kveðið á um að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði skuli birtar á vef Fjölmiðlanefndar og á heimasíðum viðkomandi miðils.  Hins vegar er litla leiðsögn að finna í lögunum um hvernig beri að útfæra framkvæmdina eða eftirlitið með því að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði séu uppfylltar. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir að ekki þurfi allir fjölmiðlar að setja sér reglur af þessu tagi.  „Samkvæmt 24. gr. laga um fjölmiðla skal fjölmiðlaveita setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og f réttatengdu efni. Ákvæðið á því einungis við um þær fjölmiðlaveitur sem hafa starfsmenn sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Sumar  fjölmiðlaveitur sem hafa leyfi eða eru skráðar hjá fjölmiðlanefnd falla ekki undir ákvæðið. Þær reglur sem staðfestar hafa verið af Fjölmiðlanefnd eru birtar á heimasíðu nefndarinnar. Í þeim tilvikum sem fallist hefur verið á að 24. gr. eigi ekki við um starfsemi fjölmiðlaveitunnar hefur niðurstaða nefndarinnar þess efnis verið birt á heimasíðu fjölmiðlanefndar,“ segir Elfa Ýr. Varðandi þá spurningu hvort erfitt hafi verið að fá miðlana sem eiga að skila slíkum reglum til að skila þeim segir Elfa að með bréfum sem send voru til fjölmiðla, í lok september 2012, hafi þess verið óskað að slíkar reglur ærust nefndinni eigi síðar en 3. desember 2012. Nefndin sendi síðan ítrekun til þeirra fjölmiðlaveitna sem ekki skiluðu reglum innan þess frests og hafa nú allar fjölmiðlaveitur sem fengu sent bréf þar um sent fjölmiðlanefnd reglur til staðfestingar eða erindi vegna þeirra. Hún segir nefndina þó ekki búna að afgreiða alveg öll erindi eða reglur sem borist hafa (í lok mars).   Eingöngu „lögmætiseftirlit“ Aðspurð um hvort lagt sé efnislegt mat á reglur sem skilað er inn áður en Fjölmiðlanefnd samþykkir þær og birtir þær á heimasíðu sinni segir Elfa Ýr það aðeins gert að takmörkuðu leyti. „Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. kemur fram að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði skuli sendar Fjölmiðlanefnd til staðfestingar. Í slíkri staðfestingu felst einvörðungu lögmætiseftirlit samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar líkt og segir í greinargerð með frumvarpi til laga um fjölmiðla. Fjölmiðlanefnd kemur því eingöngu með athugasemdir við slíkar reglur telji hún ákvæði þeirra fara í bága við lög,“ segir Elfa Ýr. Samkvæmt þessu skoðar Fjölmiðlanefnd aðeins hvort í reglunum eru ákvæði í samræmi við grein 24, en skiptir sér hins vegar ekkert af því hvernig þessi ákvæði eru. Efla Ýr orðar þetta þannig að Fjölmiðlanefnd hafi þar af leiðandi einungis „óskað eftir breytingum í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið með fullnægjandi hætti að mati nefndarinnar verið fjallað um þau atriði sem kveðið er á um í a, b eða c lið 24. gr. laga um fjölmiðla.“ Þannig að ef í reglunum einhvers tiltekins fjölmiðils er að finna ákvæði um starfsskilyrði við að framfylgja ritstjórnarstefnu, starfshætti varðandi ritstjórnarlegt sjálfstæði og skilyrði áminningar og uppsagnar, þá eru reglurnar gjaldgengar frá sjónarhóli Fjölmiðlanefndar. Fjölmiðlanefnd tekur hins vegar ekki að sér að fylgjast með hvernig þessar reglur hafa orðið til, þ.e. hvort þær hafi verið unnar í samráði við starfsmenn og fagfélög þeirra (Blaðamannafélagið og Félag fréttamanna) og virðist því litið svo á að það sé á ábyrgð starfsmanna sjálfra og þá Blaðamannafélagsins að fylgjast með því að reglurnar séu unnar í samræmi við fyrirmæli laganna.   Fjölmiðlanefnd óheimilt að hafa afskipti Raunar er það mat Elfu Ýrar að fjölmiðlanefnd hafi ekki heimild til að skipta sér af þessari samningsgerð. „Samkvæmt lögum er það fjölmiðlaveitan sem setur sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði en slíkar reglur skulu þó mótaðar í samráði við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra. Fjölmiðlanefnd upplýsti Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna á RÚV um það í bréfi í haust að verið væri að óska eftir reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Samkvæmt lögum hefur fjölmiðlanefnd engar heimildir til að hlutast til um það með hvaða hætti slíkar reglur eru ákvarðaðar. Þess vegna var ákveðið að upplýsa fagfélög blaðamanna um að óskað væri eftir slíkum reglum frá fjölmiðlaveitum þannig að bæði fagfélögin gætu haft aðkomu að setningu slíkra reglna sem og félagsmenn þeirra,“ segir Elfa.   Eftirlit og þátttaka í setningu reglna um ritstjórnarlegt sjálfstæði á hinumýmsu fjölmiðlum er því sameiginlegt verkefni starfsmanna og Blaðamannafélagsins og þó svo að frumskyldan hljóti að liggja hjá starfsmönnum tiltekins fjölmiðils að fylgjast með þessum málum þá má segja að félagið hlýtur að hafa þarna hönd í bagga og þar með bætist við þann verkefnalista sem forysta og starfsmenn þess þurfa að huga að með reglulegum hætti. Lögin gera ráð fyrir að reglurnar séu endurskoðaðar árlega og spurning hvort Blaðamannafélagið þarf ekki að formfesta eftirfylgnina með þessum málum á einhvern hátt. Það er því til marks um árvekni stjórnar BÍ að á nýafstöðnum aðalfundi bar hún fram tillögu um sérstakt fagráð undir stjórn varaformanns félagsins, sem m.a. myndi taka að sér verkefni sem þetta. Að fagráðinu verður vikið betur síðar. Viðmiðunarreglur BÍ Stjórn Blaðamannafélagsins brást raunar strax síðstliðið haust við upplýsingum um að Fjölmiðlanefnd væri að ganga eftir þessum reglum frá fjölmiðlum, og setti saman viðmið um slíkar reglur og hvað félagið legði áherslu á að væri í slíkum reglum. Þetta var síðan birt á heimasíðu félagsins þannig að bæði stjórnendur fjölmiðla og félagsmenn í félaginu sem unnu á fjölmiðlum þar sem slíkar reglur voru í smíðum, höfðu upplýsingar og leiðarvísi um hvernig þessar reglur gætu litið út. Í ljós hefur komið að fjölmörg fjölmiðlafyrirtæki, einkum þau minni hafa tekið þessi viðmið og gert að sínum og þar með uppfyllt þá lagaskyldu að þetta sé gert í samráði við fagfélög starfsmanna. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gerð kerfisbundin úttekt á því hvort þær reglur sem fjölmiðlar almennt hafa sett sér eru í raun í samræmi við þessi viðmið BÍ eða ekki, virðist það þó í fljótu bragði vera. Óvíst er hins vegar um stór fyrirtæki eins og 365 miðla, en þar hafa reglur enn ekki verið birtar. Reglur annarra fyrirtækja s.s. DV og Árvakurs hafa hins vegar komið fram en eru ekki að öllu leyti það sem lagt er til í tillögum BÍ. Spurning er hvort og þá hvenær félagið eigi að gera athugasemdir við slíkt og hvort það eigi til dæmis að vera í formföstum farvegi. Nokkuð ljóst er að þetta yrði meðal annars hlutverk hins nýja fagráðs.   Almenningsálitið sterkasta vopnið Ekki er þó björninn unninn þótt reglur hafi verið settar með ásættanlegum hætti. Þeim þarf að fylgja eftir og grípa inn í ef þær eru brotnar. Hvað þetta varðar er ljóst að Fjölmiðlanefnd lítur ekki á það sem hlutverk sitt að fylgjast með að þessar reglur séu ekki brotnar. Um það er Elfa Ýr mjög skýr þegar hún segir að Fjölmiðlanefnd hafi „engar heimildir samkvæmt lögum til að hafa eftirlit með því hvort reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði sé framfylgt. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þess sé vænst að það aðhald sem viðkomandi starfsmenn, eftir atvikum stéttarfélög þeirra, veita en síðast en ekki síst almenningur verði öllum viðurlögum yfirsterkara.“ Þessi orð Eflu Ýrar ríma við þá staðreynd að refsiákvæði í fjölmiðlalögunum ná ekki til 24. gr. Hér er því greinilegt að Blaðamannafélaginu eru fengnar í hendur ákveðin vopn til að standa vörð um ritstjórnarlegt sjálfstæði félaga sinna, en um leið er lögð á félagið og félagsmenn sú kvöð að hafa  eftirlit með þessum nýju réttindum sjálfir. Það kemur því í hlut blaðamanna og Blaðamannafélagsins að benda á og taka við ábendingum um brot á reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði og leita eftir leiðréttingu og/eða gera málið opinbert.  Fomlegur farvegur hjá BÍ Með því að aðfundur hefur falið stjórn, að tillögu stjórnarinnar – að stofna sérstakt fagráð, er kominn fram vettvangur innan félagsins sem getur tekið við slíkum ábendingum eða umkvörtunum, aðili sem getur þá fjallað um bæði endurskoðun og setningu reglna og svo um hugsanleg brot á þessum sömu reglum. Samkvæmt tillögu stjórnarinnar sem aðalfundurinn samþykkti á tilgangur fagráðsins að vera að „að taka á móti nýjum faglegum verkefnum sem félaginu ber að taka að sér, m.a. í tengslum við breytt lagaumhverfi og nýja stöðu fjölmiðla og blaðamanna í landinu“. Stjórn félagsins hefur nokkuð frjálsar hendur um hvernig starf fagráðsins mótast, en hitt er nokkuð ljóst að fagráðið er hin formlega umgjörð sem reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði fær á vettvangi Blaðamannafélagsins.                                                                                               -BG  
Lesa meira
Magnús Geir Þórðarson tekur við verðlaununum úr hendi Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra.

RÚV fær umhverfisverðlaun

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti í dag í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, RÚV – hljóðvarpi og sjónvarpi, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hann Tómasi J. Knútssyni, Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Tilnefndir til fjölmiðlaverðlaunanna voru: -Gunnþóra Gunnarsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu fyrir greinaflokkinn Útivist og afþreying þar sem sjónum var beint að áhugaverðum náttúruperlum í öllum landshlutum á hnitmiðaðan, einfaldan og fallegan hátt. -Just.In.Iceland fyrir að nýta sér Netið og gagnvirkni þess til að kynna sérstöðu Íslands fyrir umheiminum með því að skapa stafrænan vettvang til að birta og deila fagmannlega teknum ljósmyndum af íslenskri náttúru og lífríki. -RÚV, hljóðvarp og sjónvarp fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum á liðnu ári. Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir: Umræða og umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum hefur verið eins og rauður þráður í upplýsingamiðlun fjölmiðilsins [RÚV] á síðastliðnum tólf mánuðum, mikil að vöxtum, alhliða, upplýsandi og gagnrýnin. Öll mikilvægustu sjónarmið málanna hafa komið fram en ekki verður gert upp á milli einstakra þátta, RÚV er tilnefnt til verðlaunanna í einu lagi. Er það niðurstaða dómnefndar að sú umfjöllun samantekin verðskuldi fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 enda hafi mikilvægum hagsmunum og réttindum almennings hvað snertir náttúruna og umhverfið verið gerð ítarleg skil frá öllum hliðum málanna. Sjá einnig hér
Lesa meira
Pressukvöld um ritstjórnarlegt sjálfstæði - Fjölmiðlanefnd fær erindi vegna DV

Pressukvöld um ritstjórnarlegt sjálfstæði - Fjölmiðlanefnd fær erindi vegna DV

Atli Þór Fanndal, fyrrum blaðamaður á DV, hefur óskað eftir því við Fjölmiðlanefnd að hún kanni hvort fjárhagsleg tengsl Reynis Traustasonar og Guðmundar Kristjánssonar í Brimi brjóti í bága við reglur Fjölmiðlalaga og ritstjórnarreglur DV um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Um þetta hefur Atli Þór ritað langt erindi sem hann birtir á Facebook. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem formlega er gerð athugasemd til Fjölmiðlanefndar vegna ákvæðis um ritstjórnarlegt sjálftæði í fjölmiðlalögunum. Í þessu sambandi er ástæða til að minna á pressukvöld Blaðamannafélagsins á fimmtudag í Kornhlöðunni þar sem fjallað verður um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Lesning á athugasemd Atla Þórs kann að vera fróðlegur undirbúningur fyrir þá umræðu!  Sjá endurrit erindis Atla Þórs hér á Eyjunni
Lesa meira
Málþing - Hvað ógnar ritstjórnarlegu sjálfstæði?

Málþing - Hvað ógnar ritstjórnarlegu sjálfstæði?

Hvers vegna er ritstjórnarlegt sjálfstæði mikilvægt? Fyrir hverja? Hvernig er hægt að tryggja það? Með betra starfsöryggi blaðamanna? Hvað ógnar því? Þetta og fleira verður rætt á málþingi Blaðamannafélags Íslands og fjölmiðlanefndar sem fram fer í Kornhlöðunni fimmtudagskvöldið 18. september. Málþingið hefst kl.  kl. 20:00 og eru allir velkomnir. Í pallborði verða: Þóra Kristín Ásgeirsdóttir blaðamaður og fyrrv. formaður BÍ, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV og Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. Fundarstjóri verður Arna Schram, fyrrv. formaður BÍ. Að loknum framsögum verða fyrirspurnir og almennar umræður. Miðað er við að málþingið standi yfir til kl. 22:30. Í boði verður kaffi og léttar veitingar á hóflegu verði fyrir félagsmenn
Lesa meira
Forustumenn blaðamanna á Gaza í heimsókn

IFj í stuðningsheimsókn á Gaza

Leiðtogar Aljóðasambands blaðamanna (IFJ) hafa verið í tveggja daga stuðningsheimsókn á Gazasvæðinu þar sem þeir hittu forustumenn Blaðamannafélags Palestínu og hóp egypskra blaðamanna. Þetta er fyrsta heimsókn  erlends stéttarfélags eða fagfélags til Gaza frá því að samnið var um vopnahlé þann 26. ágúst. Fram kom hjá Jim Boumelha formanni IFJ í heimsókninni að hann teldi nauðsynlegt að Ísrael yrði látið svara til saka um ólöglegar aðgerðir sínar á Gazasvæðinu og hann sagði ennfremur:  „Þegar Ísraelsher hætti loftárásum sínum var samfélag blaðamanna á svæðinu rétt eins og samfélagið allt í áfalli og sárum. Sautján blaðamenn dóu, 19 særðust,  á annan tug missi heimili sitt og 11 fjölmiðlafyrirtæki voru beinlínis gerð að beinum skotmörkum.“  Þetta var hræðilegur glæpur og það liggja fyrir óyggjandi sannanir fyrir því að stjórnvöld í Ísrael  fylgdi stefnu þar sem fjölmiðlar og blaðamenn voru skilgreind skotmörk.“ Sjá einnig hér
Lesa meira
Stefnuyfirlýsing EFJ

Stefnuyfirlýsing EFJ

 Fyrir Evrópuþingskosningarnar í sumar gekkst Evrópusamband blaðamanna (EFJ) fyrir undirskriftasöfnun meðal frambjóðenda til Evrópuþingsins þar sem farið var fram á stuðning við 10 megin stefnumál sem EFJ telur mikilvæg til að tryggja frjálsa og fjölbreytta fjölmiðlun í álfunni.  Um 200 frambjóðendur skrifuðu undir þessa yfirlýsingu og um 50 þeirra náðu kjöri á Evrópuþingið. EFJ hefur nú birt nöfn þeirra sem undir þeta skrifuðu ásamt stefnumálunum 10  á heimasíðu sinni. Stefnumálin voru þessi:  1. Lýðræði þarf á sjálfstæðri blaðamennsku að halda  2. Evrópa þar fá fjölbreytni í fjölmiðlum að halda  3. Fundafrelsi og frelsi til að semja um eigin kjör á að vera fyrir alla   4. Höfundaréttur – sanngjarnir samningar fyrir alla  5. Vinnuskilyrði hafa áhrif á gæði blaðamennsku  6. Blaðamennska er samfélagsgæði  7. Rannsóknarblaðamennska krefst ffrjáls aðgangs að upplýsingum  8. Fjárfesta ber í framtíð blaðamennsku  9. Vinnuöryggi  10. Bygga á upp traust og ábyrgð með siðlegri blaðamennsku.  Sjá meira hér  
Lesa meira
Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV

Hallgrímur ritstýrir DV

Hallgrímur Thorsteinsson er tekinn við sem nýr ritstjóri á DV en Reynir Traustason hefur verið leystur undan störfum sínum fyrir blaðið. Hallgrímur segist í samtali við RÚV vonast til að deilur í eigendahópi verði settar niður sem fyrst og  að hann sjái „engin skrímsli undir rúminu“  varðandi eignarhaldið og að menn hafi farið fram úr sér í vangaveltum um þöggun á blaðinu. Athygli vekur að Reynir Traustason virðist enn bundin ráðningarböndum við blaðið þó hann hafi þar engar skyldur og  samkvæmt bréfi sem hann birti á Facebook  megi ekki koma inn á ritstjórnina, nota netfang sitt þar eða skrifa í eða hafa afskipti af DV eða dv.is. Þetta á að gilda í jafnvel  fram til mánaðarmóta  til að gefa nýrri stjórn ráðrúm til að „kanna fjárhag félagsins og rekstur á þessu ári“.  Um þetta segir Reynir á Facebook: „Sú aðför sem nú stendur yfir gagnvart mér er sú ógeðslegasta sem ég hef upplifað. Í stað þess að segja mér upp með mannsbrag er mér skipað að fara í frí og gefið til kynna að eitthvað misjafnt sé í pokahorninu.“ Sjá meira hér  
Lesa meira
Nýtt merki og vefslóð EFJ

Nýtt merki og vefslóð EFJ

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hefur á undanförnum mánuðum verið að vinna í upplýsingamálum sínum og hefur vilja gera sig sýnilegra en það hefur verið innan Aljóðasambands blaðamanna (IFJ). Líður í þessu hefur verið vinna í vefsíðu EFJ sem hægt hefur verið að nálgast með því að fara í gegnum vefsíðu Alþjóðasambandsins. Nú hefur verið útbúin sérstök slóð á vefsíðu EFJ sem er http://www.europeanjournalists.org/  og  jafnframt hefur verið kynnt til sögunnar nýtt merki eða logo fyrir samtökin. Nýja merkið má sjá hér að ofan.  
Lesa meira