Dómar

2012 Ægir Geirdal Gíslason gegn Steingrími Sævari Ólafssyni

Ægir Geirdal Gíslason, listamaður, höfðaði mál gegn Steingrími Sævari Ólafssyni, ritstjóra Pressunar, vegna umfjöllunar um hann sem birt var á vefmiðlinum www.pressan.is, í kjölfar þess að Ægir bauð sig fram til stjórnlagaþings. Krafðist Ægir þess að tiltekin ummæli yrðu ómerkt og Steingrími gert að greiða honum miskabætur auk kostnaðar við birtingu dóms í einu dagblaði. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. fallist á að þeir sem gæfu kost á sér til trúnaðarstarfa í þágu almennings yrðu að þola umfjöllun á opinberum vettvangi sem snerti hæfni þeirra og eiginleika og hvort þeir væru traustsins verðir. Það gæti hins vegar ekki réttlætt að Ægi væri borin á brýn sú refsiverða háttsemi sem fram hefði komið hjá netmiðlinum. Hefði Ægir hvorki verið fundinn sekur um þá háttsemi sem hann var sakaður um né sætt rannsókn lögreglu af slíku tilefni. Var fallist á að ómerkja hluta þeirra ummæla sem viðhöfð höfðu verið og Ægir krafðist ómerkingar á. Ein ummælana voru birt eftir gildistöku laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og var Steingrímur ekki talinn bera ábyrgð á þeim þar sem þau voru réttilega höfð eftir nafngreindum einstaklingum, sbr. a. lið 1. mgr. 51. gr. laganna. Þá var Steingrími gert að greiða Æ 200.000 krónur í miskabætur.

Lesa meira

2012 - Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jón Trausti Reynisson, Reynir Traustason og DV ehf. Gegn Jóni Snorra Snorrasyni

n Snorri Snorrason, lektor við Viðskiptadeild Háskóla Íslands og forstjóri Sigurplasts, höfðaði mál gegn Inga Frey Vilhjálmssyni, Jóni Trausta Reynissyni, Reyni Traustasyni og DV ehf. vegna umfjöllunar um hann sem birt var annars vegar í prentaðri útgáfu DV og hins vegar netútgáfu þess á www.dv.is. Ummælin fjölluðu um að verið væri að rannsaka Jón vegna mögulegra skattsvika. Krafðist Jón þess m.a. að ummæli um hann yrðu ómerkt, að Ingi, Jón og Reynir yrðu dæmdir til refsingar og gert að greiða honum miskabætur og tiltekna fjárhæð vegna kostnaðar við birtingu dóms í fjölmiðlum. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu ummælanna m.a. með vísan til þess að þau hefðu verið röng og meiðandi fyrir Jón. Þá hefði verið synjað að leiðrétta það sem rangt hefði verið farið með þegar gefinn hefði verið kostur á því. Var Inga, Jóni og Reyni gert að greiða Jóni Snorra miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá var einnig staðfest niðurstaða héraðsdóms um birtingu dóms og forsendna hans í næsta tölublaði DV og í næstu netútgáfu dv.is eftir uppkvaðningu dómsins.

Lesa meira

2011 Frjáls miðlun ehf., Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson gegn Guðríði Arnardóttur, Ólafi Þór Gunnarssyni og Hafsteini Karlssyni

Frjáls miðlun ehf., Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson höfðuðu mál gegn bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar í Kópavogi, Guðríði Arnardóttur, Ólafi Þór Gunnarssyni og Hafsteini Karlssyni vegna ummæla sem þau síðarnefndu höfðu uppi vegna viðskipta Frjálsrar miðlunar ehf. og Kópavogs í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Ekki var fallist á að sýkna bæri Guðríði, Ólaf og Hafstein vegna aðildarskorts, enda máttu lesendur álykta af orðalagi þeirra ummæla sem ómerkingar var krafist á að með þeim væri að minnsta kosti öðrum þræði gefið í skyn að Frjáls miðlun ehf., Brynhildur Gunnarsdóttir og Guðjón Gísli Guðmundsson hefðu krafið Kópavog um greiðslur fyrir þjónustu án þess að fyrir lægi að til þess hefði verið fullt tilefni. Í dómi Hæstaréttar var rakið að umfjöllun um ætlaðar brotalamir í stjórnsýslu Kópavogs í tilefni af skýrslu og greinargerð endurskoðunar­fyrirtækisins Deloitte hf. hefði varðað opinber málefni og átt fullt erindi til almennings. Guðríður Arnardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Hafsteinn Karlsson hefðu verið kjörnir bæjarfulltrúar í Kópavogi þegar ummæli þeirra féllu og höfðu sem slíkir sérstakt aðhalds- og eftirlitshlutverk. Mikilvægt þótti að færi þeirra til að rækja þetta hlutverk yrði ekki heft umfram það sem brýnir lögvarðir hagsmunir annarra krefðust. Í umræðum um ónógt aðhald og eftirlit af hálfu Kópavogs með viðskiptum sveitarfélagsins við Frjálsa miðlun ehf. þótti óhjákvæmilegt að í einhverju mæli yrði fjallað um fyrirtækið og reikningsgerð af þess hálfu. Talið var að Frjáls miðlun ehf. yrði að þola slíka umræðu að vissu marki og var vísað til þess að fyrirtækið hefði um árabil átt verulegan hluta viðskipta sinna við Kópavog. Einnig var bent á að ummæli Guðríðar, Ólafs og Hafsteins hefðu fallið í kjölfar skýrslu og greinargerðar þekkts endurskoðunarfyrirtækis þar sem viss gagnrýni kom fram á fyrirkomulag viðskipta Kópavogs og Frjálsrar miðlunar ehf. Litið var til þess að vafi um það fyrir hvað Kópavogur hafði greitt Frjálsri miðlun ehf. var að hluta til risinn af ófullkominni reikningsgerð félagsins og virtust athugasemdir Deloitte um þetta hafa verið réttmætar. Í greinargerð Deloitte hafði verið gagnrýnt að tveimur verkum sem Frjálsrar miðlunar ehf. var greitt fyrir hefði verið ólokið og óljóst hvort bærinn hefði fengið eitthvað fyrir þá vinnu sem greitt var fyrir. Að mati Hæstaréttar voru ekki komnar fram fullnægjandi skýringar á þessum atriðum af hálfu Frjálsrar miðlunar ehf. Varðandi ummæli Guðríðar um að mögulegt væri að vísa málinu í opinbera rannsókn og til ríkissaksóknara var í dómi Hæstaréttar tekið fram að öllum væri heimilt að kæra ætlaða refsiverða háttsemi til lögreglu eða ákæruvalds, nema fyrirmæli þagnarskyldu stæðu því í vegi. Í ljósi þessa taldi Hæstiréttur að nægilegt tilefni hefði verið til að Guðríður, Ólafur og Hafsteinn viðhöfðu þau ummæli sem krafist var ómerkingar á og að þau hefðu ekki gengið nær Frjálsri miðlun ehf., Brynhildi og Guðjóni en efni stóðu til. Voru Guðríður, Ólafur og Hafsteinn því sýknuð.

Lesa meira

2011 Pálmi Haraldsson gegn Svavari Halldórssyni, Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur og Páli Magnússyni

lmi Haraldsson, kenndur við Fons og þáverandi eigandi Iceland Express, höfðaði mál gegn Svavari Halldórssyni og Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur, fréttamönnum RÚV og Páli Magnússyni, útvarpsstjóra til vara, vegna tiltekinna ummæla sem viðhöfð voru um hann í aðalfréttatíma RÚV kl. 19 hinn 25.mars 2010. Krafðist hann m.a. ómerkingar ummælanna og að Svavar yrði dæmdur til refsingar samkvæmt 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í Hæstarétti var Svavar sýknaður af kröfum Pálma vegna ummæla sem tilgreind voru í staflið a í dómkröfum Pálma„Milljarðar hurfu í reyk“þar sem Svavar hefði ekki verið flytjandi þeirra í skilningi a. liðar 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 og engu breytti í þeim efnum þótt hann hefði samið ummælin. Þá taldi Hæstiréttur að fyrrgreind ummæli og ummælin sem tilgreind voru í staflið e „en þeir peningar finnast hins vegar hvergi“ sem Svavar flutti sjálfur væru sömu merkingar. Í ljósi þessa og þeirrar ábyrgðarraðar sem mælt væri fyrir um í einstökum stafliðum 26. gr. útvarpslaga yrðu ummælin í staflið a ekki ómerkt sérstaklega og var Páll þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfum Pálma. Þá taldist Svavar ekki flytjandi ummæla í stafliðum b og c í skilningi 26. gr. útvarpslaga og var hann því einnig sýknaður vegna þeirra. Óumdeilt var að Svavar væri höfundur ummælanna í stafliðum b, c og d og yrði því hvorki talið að María hefði í skilningi a. liðar 26. gr. útvarpslaga flutt sjálf efni þetta í eigin nafni né teldist hún flytjandi í skilningi b. liðar ákvæðisins. Taldi Hæstiréttur að þulur sem einvörðungu kynnir efni við útsendingu þess, og hefur hvorki samið efnið né á í ljósi starfsskyldna sinna nokkurn ákvörðunarrétt um flutning þess, teldist ekki flytjandi í skilningi b. liðar 26. gr. laganna. Yrði ábyrgð Maríu ekki reist á þessum ákvæðum og var hún því sýknuð af kröfum Pálma. Hæstiréttur taldi að þegar ummælin í staflið e „en þeir peningar finnast hins vegar hvergi“sem Svavar samdi og flutti að loknum inngangi fréttarinnar væru virt í samhengi við önnur ummæli í fréttinni yrðu þau ekki skilin á annan veg en þann að með þeim væri verið að bera Pálma á brýn refsiverða háttsemi sem félli undir ákvæði almennra hegningarlaga. Svavar hefði ekki sýnt fram á að þetta ætti við rök að styðjast og við vinnslu fréttarinnar leitaði hann ekki eftir upplýsingum frá Pálma um efni hennar. Með þessu gætti hann ekki að þeirri skyldu sem fram kæmi í 2. gr. reglna Ríkisútvarpsins frá 1. maí 2008 og gæti ekki talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla sem í fréttinni fólust. Þessi ummæli voru því ómerkt en ekki voru talin efni til að dæma Svavar til refsiábyrgðar vegna flutnings þeirra eða til greiðslu kostnaðar af birtingu dómsins með vísan til þeirrar heimildar sem fram kæmi í 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn var Svavar dæmdur til að greiða Pálma 200.000 krónur í miskabætur.

Lesa meira

2011 Guðríður Haraldsdóttir gegn Apríl Rún Kubischta

Apríl Rún Kubischta höfðaði mál aðallega á hendur Guðríði, en til vara Vilborgu, vegna ummæla sem birtust í tímaritinu Vikunni varðandi umgengnismál Valborgar, móður Aprílar við hana og samskipti við föður hennar. Krafðist Apríl þess að ummælin yrðu ómerkt, að Guðríður, en til vara Valborg, yrði dæmd til refsingar með því að hafa með ærumeiðandi ummælum sínum brotið gegn friðhelgi einkalífs, að henni yrðu dæmdar miskabætur og fjárhæð til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum og þess að forsendur dómsins yrðu birtar í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur félli. Í héraði féll Apríl frá kröfum á hendur Valborgu. Höfundur greinarinnar var ekki nafngreindur, en neðan við inngang greinarinnar sagði: „Texti: Vikan“. Talið var að Guðríður bæri ábyrgð á ummælum í greininni sem ritstjóri blaðsins, sbr. 3. mgr. 15. gr. lagar nr. 57/1956 um prentrétt, og breytti þar engu hvort viðmælandi hennar, Valborg, sem ummælin voru höfð eftir kynni einnig að geta talist höfundur greinarinnar. Fallist var á ógildingu fimm ummæla í greininni með vísan til þess að þau þóttu ýmist móðgandi eða ósannað væri að Apríl hefði látið þau falla. Voru ummælin talin varða við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmd dauð og ómerk samkvæmt 241. gr. sömu laga. Þá var fallist á að Guðríður hefði brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga, en henni ekki gerð refsing. Loks var fallist á kröfu Aprílar um birtingu forsendna og niðurstaðna dómsins í fyrsta tölublaði Vikunnar eftir uppsögu dómsins, en kröfum um greiðslu kostnaðar vegna frekari birtingar hafnað. Þá var Guðríður dæmd til að greiða Apríl 400.000 krónur í miskabætur. 

Lesa meira

2011 Ingi Freyr Vilhjálmsson, Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson gegn Eiði Smára Guðjohnsen

Eiður Smári Guðjohnsen höfðaði mál gegn Inga Frey Vilhjálmssyni blaðamanni, Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni ritstjórum, vegna umfjöllunar dagblaðsins DV um fjármál Eiðs sem birtist í dagblaðinu sjálfu og á vefriti þess. Taldi Eiður að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs hans og að gera ætti Inga, Reyni og Jóni refsingu samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæma þá til að greiða sér miskabætur og fé til að standa straum af birtingu dómsins. Óumdeilt var að Ingi bæri ábyrgð samkvæmt þágildandi 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt á því efni sem birtist í dagblaðinu og hann var nafngreindur sem höfundur að. Á öðru efni báru Reynir og Jón ábyrgð sem ritstjórar dagblaðsins samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Þar sem Ingi hafði engin gögn fært fram um að hann hefði gert athugasemdir við ritstjóra eða útgefendur vefrits DV við það að honum væri þar ítrekað eignað efni um Eið sem hann taldi sig ekki höfund að var talið sannað að hann væri höfundur þess efnis og að kröfum vegna þess væri því réttilega beint að honum. Ekki var fallist á að Reynir og Jón bæru á grundvelli lögjöfnunar frá 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 ábyrgð á efni um Eeið sem birtist á vefriti DV og var ekki merkt tilteknum höfundi. Tekið var fram að 3. mgr. 15. gr. laganna væri í eðli sínu hlutlæg og því undantekning frá meginreglum laga um sök sem grundvöll ábyrgðar. Einnig yrði að gæta varúðar við að byggja refsiheimild á lögjöfnun, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga. Aftur á móti var talið að á Reynir og Jón hefði hvílt eftirlitsskylda sem ritstjórum vefritsins. Saknæm vanræksla þeirra á að sinna þessari eftirlitsskyldu kynni að varða þá ábyrgð og þótti málinu því ekki ranglega beint að þeim vegna þessa efnis. Tekið var fram að þegar metið væri hvar mörkin lægju milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs yrði að líta til stöðu þjóðfélagsmála á hverjum tíma, hvaða málefni bæru hæst í opinberri umræðu og væru almennt talin miklu varða. Þótti umfjöllun DV um lántökur Eiðs lýsa dæmigerðu ferli um afleiðingar útlánastefnu íslenskra viðskiptabanka og áhættusækni íslenskra fjárfesta, sem kynni að hafa átt þátt í því hruni sem varð í íslensku efnahagslífi við fall viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 og hefði haft mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. Við þessar aðstæður gæti skerðing á frelsi fjölmiðla til að fjalla um þessi fjárhagsmálefni Eiðs ekki talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Um umfjöllun dagblaðsins og vefritsins um laun Eiðs frá tilteknu knattspyrnufélagi tók Hæstiréttur fram að Eiður væri þjóðþekktur sem atvinnumaður í knattspyrnu og hefði ekki vikist undan því að vera í sviðsljósi fjölmiðla sem slíkur. Launamál þekktra atvinnuknattspyrnumanna væru reglulega til umfjöllunar í fjölmiðlum og tengdust því starfi Eiðs sem hann væri þjóðþekktur fyrir. Var talið að umfjöllun DV teldist að þessu leyti ekki brot á friðhelgi einkalífs Eiðs. Loks var ekki fallist á að brotið hefði verið gegn friðhelgi einkalífs Eiðs með umfjöllun vefrits DV um spilafíkn Eiðs. Vísað var til þess að um hefði verið að ræða endursögn umfjöllunar sem áður hafði birst opinberlega hjá öðrum fjölmiðlum og að Eiður hefði sjálfur gert spilafíkn sína að umtalsefni í viðtölum. Voru Ingi, Reynid og Jón því sýknaður af kröfum Eiðs. 

Lesa meira

2011 Jón Bjarki Magnússon gegn Kim Gram Laursen

Kim Gram Laurensen höfðaði mál gegn blaðamanninum Jóni Bjarka Magnússyni og krafðist m.a. ómerkingar ummæla sem birst höfðu í grein eftir Jón í DV. Ummælin varða samskipti Kims við dætur sínar og barnsmóður, og aðdróttanir um ofbeldi gagnvart þeim. Því var ekki mótmælt af hálfu Jóns að ummælin hefðu falið í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð Kims í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jón byggði sýknukröfu sína á því blaðamönnum væri í vissum tilvikum heimilt að hafa ummæli eftir viðmælendum sínum og að í ljósi nýrra laga um fjölmiðla nr. 38/2011, sem tóku gildi eftir að málið var höfðað, bæri hann ekki ábyrgð á ummælunum. Það var m.a. niðurstaða Hæstaréttar að þótt ómerking ummæla á grundvelli 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 teldist til refsikenndra viðurlaga væri hún í eðli sínu staðfesting á því að óviðurkvæmileg ummæli skuli vera að engu hafandi. Yrði því úrræði ekki jafnað til íþyngjandi viðurlaga á borð við réttindasviptingu í merkingu 2. mgr. 2. gr. laganna. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummælanna, en miskabætur lækkaðar.

Lesa meira

2011 Jón Bjarki Magnússon gegn Margréti Lilju Guðmundsdóttur

Margrét Lilja Guðmundsdóttir höfðaði mál gegn blaðamanninum Jóni Bjarka Magnússyni og krafðist ómerkingar ummæla sem birst höfðu í þremur tölublöðum DV. Ummælin vörðuðu mál sem Margrét kom að ásamt fleirum, svokallað Aratúnsmál. Jón krafðist sýknu og hélt því m.a. fram að ummælin væru ekki ærumeiðandi, sum þeirra væru höfð eftir öðrum og aðrar væru beinar tilvitnanir í eldri blaðagrein. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ellefu ummæla þar sem í þeim hefðu falist ærumeiðandi aðdróttanir í garð Margrétar í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hvað varðar ummæli sem tekin voru úr grein er birst hafði í dagblaði árið 1987 þótti fram komið að þegar Jón skrifaði sína grein hefði hann haft undir höndum dóm sakadóms Reykjavíkur frá árinu 1987 og hefði niðurstaða dómsins ekki verið í samræmi við ummælin. Því gat Jón ekki hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla sem hann birti í grein sinni um málefnið. Jón var á hinn bóginn sýknaður af kröfu um ómerkingu tveggja ummæla sem lutu að líkamsárás á öryggisvörð. Þá voru miskabætur lækkaðar.

Lesa meira

2011 Heiðar Már Guðjónsson gegn Inga Frey Vilhjálmssyni, Jóni Trausta Reynissyni og Reyni Traustasyni

eiðar Már Guðjónsson höfðaði mál gegn Inga Frey Vilhjálmssyni blaðamanni, ásamt Jóni Trausta Reynissyni og Reyni Traustasyni ritsjórum DV, vegna tiltekinna ummæla um hann sem birt voru annars vegar í prentaðri útgáfu DV og hins vegar netútgáfu þess á www.dv.is. Krafðist Heiðar þess að ummælin yrðu ómerkt og að Inga, Jóni og Reyni yrði annars vegar gert að greiða honum miskabætur vegna þeirra og hins vegar að greiða honum tiltekna fjárhæð fjárhæð vegna kostnaðar við birtingu dóms í fjölmiðlum. Í niðurstöðu Hæstaréttar var það rakið að ummæli þau sem krafist var ómerkingar á hefðu verið sett fram í umfjöllun fjölmiðils um stöðu íslensku krónunnar síðustu árin fyrir þau efnahagsáföll sem dunið hefðu yfir í lok árs 2008. Hefði umfjöllunin einkum lotið að ætluðum þætti Heiðars í gengislækkun íslensku krónunnar og hún þannig átt brýnt erindi til almennings og væri hluti mikilvægrar þjóðfélagsumræðu. Hvað varðaði ummæli í tveimur fyrstu kröfuliðum Heiðars taldi Hæstiréttur að Inga, Jóni og Rreyni yrði ekki gert að leiða frekari sönnur að réttmæti þeirra en þau gögn sem lágu fyrir í málinu. Hvað varðaði ummæli sem birst höfðu í leiðara DV féllst Hæstiréttur á það með héraðsdómi að ummælin teldust til svokallaðra gildisdóma. Þótt ummælin hefðu verið sett fram af smekkleysi og með þeim djúpt tekið í árinni yrði á það fallist að þau hefðu nægileg tengsl við staðreyndir sem um hefði verið fjallað af hálfu Inga, Jóns og Rreynis. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu Inga, Jóns og Rreynis af kröfum Heiðars.

Lesa meira

2010 Guðríður Haraldsdóttir gegn Dante Lynn Kubischta

ante Lynn Kubischta höfðaði mál aðallega á hendur Guðríði Haraldsdóttur, ritstjóra Vikunnar, en til vara Valborgu F. Svanholt Níelsdóttur, fyrrum tengdamóðir stefnda, vegna ummæla um fjölskyldu Dante, sem birtust í tímaritinu Vikunni. Krafðist Dante þess að ummælin yrðu ómerkt, að Guðríður, en til vara Valborg yrði dæmd til refsingar með því að hafa með ærumeiðandi ummælum sínum brotið gegn friðhelgi einkalífs, að honum yrðu dæmdar miskabætur og fjárhæð til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum og þess að forsendur dómsins yrðu birtar í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur félli. Í héraði féll Dante frá öllum kröfum á hendur Valborgu. Höfundur greinarinnar var ekki nafngreindur, en neðan við inngang greinarinnar sagði: „Texti: Vikan“. Viðmælandinn Valborg gat ekki staðfest að orðrétt væri eftir henni haft nema í einu tilviki. Talið var að eins og hér háttaði til bæri Guðríður ábyrgð á ummælum í greininni sem ritstjóri blaðsins, sbr. 3. mgr. 15. gr. lagar nr. 57/1956 um prentrétt, og breytti þá engu um hvort viðmælandi hennar sem ummælin voru höfð eftir kynni einnig að geta talist höfundur greinarinnar. Hafnað var ómerkingu tveggja ummæla með vísan til þess að þau fælu í sér lýsingu á skoðunum og gildismati Valborgar. Með tveimur ummælanna var Dante borin á brýn refsiverð háttsemi og í tveimur ummælum til viðbótar var talin felast staðhæfing um að Dante hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Voru þessi ummæli talin varða við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda fælu þau í sér fullyrðingar sem engum stoðum hefði verið skotið undir né væru réttar, og voru þau dæmd dauð og ómerk. Þá var fallist á að Guðríður hefði brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga, en henni ekki gerð refsing. Loks var fallist á kröfu Dante um birtingu forsendna og niðurstaðna dómsins í fyrsta tölublaði Vikunnar eftir uppsögu dómsins, en kröfum um greiðslu kostnaðar vegna frekari birtingar hafnað. Þá var Guðríður dæmd til að greiða Dante 300.000 krónur í miskabætur. 

Lesa meira

2010 Viggó Valdemar Sigurðsson gegn Unni Valdemarsdóttur, Ragnari Kristni Árnasyni, Benedikt Bóasi Hinrikssyni, Reyni Traustasyni og Birtingi útgáfufélagi ehf.

iggó Valdemar Sigurðsson, fyrverandi landsliðsþjálfari í ahndbolta, höfðaði mál gegn Unni Valdemarsdóttur og Ragnari Kristni Árnasyni, viðmælendum, ásamt Benedikt Bóasi Hinrikssyni, blaðamanni DV, Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, og Birtingi útgáfufélagi ehf. vegna 15 ummæla sem birtust í frétt dagblaðsins DV. Í umfjöllun blaðsins var lýst viðskiptum félags Viggós við Unni og Ragnar  frá sjónarhóli þeirra síðarnefndu en þau töldu að félagið hefði vanefnt skuldbindingar sínar gagnvart sér. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í héraðsdómsstefnu hefði mjög skort á að fjallað væri um hvernig ummæli í einstökum liðum ómerkingarkröfu áfrýjanda gætu talist meiðyrði. Þess í stað hefði verið látið við það sitja að fjalla almennt um að greinin hefði falið í sér aðdróttanir og ærumeiðingar í garð Viggós og að framsetning umfjöllunarinnar hefði verið til þess fallin að meiða æru hans og valda honum álitshnekki. Í stefnunni var í einu lagi vísað til þess að Viggó teldi ummælin varða við 229. gr., 233. gr. a., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en ekki var skýrt hvernig hvert þessara lagaákvæða gæti átt við um ummælin. Sum ummælanna sem krafa Viggós beindist að voru í umfjöllun DV beint höfð eftir Unni eða Ragnaro en önnur voru hluti af frásögn blaðamannsins Benedikts. Í dómi Hæstaréttar var bent á að þrátt fyrir þetta hefði ekki komið fram í stefnu rök fyrir því að Unnur og Ragnar gætu borið ábyrgð á ummælum sem ekki voru höfð eftir þeim. Einnig hefði krafa um að Ragnari yrði gert að þola ómerkingu á öðrum ummælum en þeim sem fram komu á forsíðu verið órökstudd. Að þessu virtu þótti málatilbúnaður Viggós svo óglöggur og ónákvæmur að ófært þótti að leggja efnisdóm á málið. Af þessum sökum var málinu vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi. 

Lesa meira

2009 Helga Haraldsdóttir gegn Ólöfu Ósk Erlendsdóttur, Magnúsi Einarssyni og Erlu Hlynsdóttur og Erla Hlynsdóttir gegn Helgu Haraldsdóttur

elga Haraldsdóttir höfðaði mál til ómerkingar nánar tilgreindra ummæla í fjórtán stafliðum, sem birtust í grein í DV í ágúst 2007. Tilefni greinarinnar var rannsókn á málefnum Guðmunds Jónssonar, forstöðumanns Birgisins, eiginmanns Helgu, sem var sakfelldur með dómi Hæstaréttar í desember 2008 fyrir að hafa ítrekað haft kynferðismök við konur, sem á þeim tíma voru vistmenn á meðferðarheimilinu Birginu, sem Guðmundur veitti forstöðu. Ein þessara kvenna var Ólöf Ósk Erlendsdóttir. Til grundvallar sakfellingu Guðmundar hafði meðal annars verið lagður framburður vitna sem báru jafnframt að Helga hefði verið þátttakandi í kynlífsathöfnum hans og vistkvennanna með hliðstæðum hætti og lýst var í þremur ummælum, sem höfð voru eftir Magnúsi, fyrrum starfsmanni Birgisins, í greininni. Af þeim sökum var litið svo á að sönnur hefðu verið leiddar að þeim ummælum og var ómerking þeirra því ekki reist á 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ein ummæli til viðbótar voru höfð eftir Magnúsi og var talið að í þeim fælist gildisdómur sem ekki varðaði við tilgreind ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga. Var því hafnað kröfu Helgu um ómerkingu þeirra ummæla sem höfð voru eftir Magnúsi. Önnur ummæli í greininni voru höfð eftir Ólöfu, sem kvaðst muna óljóst eftir samtali við blaðamann DV en kannaðist hins vegar ekki við að hafa viðhaft þessi ummæli. Án tillits til þess hvort tekist hefði að leiða sönnur að ummælum í fjórum liðum, sem höfð voru eftir Ólöfu, var talið að líta yrði til þess að talin voru sönnuð ummæli sem höfð voru eftir Magnúsi og lutu á almennan hátt að þátttöku Helgu í kynferðisathöfnum Guðmundar með vistkonum í Birginu. Að því virtu væri ekki séð að ummæli í þessum liðum hefðu verið til þess fallin að verða virðingu Helgu frekari til hnekkis. Voru því ekki forsendur til ómerkingar þeirra samkvæmt 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hvorki talið að fimm önnur ummæli vörðuðu eftir efni sínu við 234. gr. né 235. gr. almennra hegningarlaga og var kröfu Helgu um ómerkingu þeirra hafnað. Eftir stóðu tvíþætt ummæli í einum lið kröfunnar. Fyrri hluti þeirra var talinn fela í sér gildisdóm sem varðaði ekki við tilfærð ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga og voru þau því ekki ómerkt. Hins vegar var talið að með vísan til 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga bæri að ómerkja síðari hluta ummælanna: „... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni við grunnskóla.“ Með þessum orðum væri gefið til kynna að Helga hefði gerst sek um refsivert athæfi, sem ekki hefði verið sannað. Þar sem ekki voru leiddar sönnur að því að þessi ummæli hefðu verið höfð eftir Ólöfu var talið að Erla Hlynsdóttir bæri skaðabótaábyrgð samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, enda hefði hún verið nafngreind með fullnægjandi hætti sem höfundur greinarinnar. Var Erlu gert að greiða Helgu 300.000 krónur í miskabætur og 100.000 krónur til þess að standa straum af kostnaði við birtingu dómsins. 

Lesa meira

2009 Rúnar Þór Róbertsson gegn Sigurjóni Magnúsi Egilssyni og Erlu Hlynsdóttur

Rúnar Þór Róbertsson krafðist þess að ómerkt yrðu nánar tilgreind ummæli sem birtust í DV í júlí 2007. Voru ummælin í grein um sakamál, þar sem Rúnari var gefið að sök innflutningur á kókaíni ætluðu til söludreifingar. Var Erla Hlynsdóttir nafngreind sem höfundur greinarinnar, en Sigurjón Magnús Egilsson var á þeim tíma ritstjóri blaðsins. Rúnar var sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins með héraðsdómi, sem gekk réttri viku eftir birtingu ummælanna í DV, og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti 29. maí 2008. Með þeim málalokum var því þannig hafnað að Rúnar og meðákærði hefðu í þessu tilviki orðið sannir að sök um að vera „kókaínsmyglarar“ og jafnframt að Rúnar hefði í febrúar 2007 tekið bifreið í sínar vörslur „í þeirri trú að kókaínið væri á sínum stað“, en þetta tvennt var fullyrt í þeim ummælum sem Rúnar leitaði ómerkingar á, án nokkurs efnislegs fyrirvara um að þær staðhæfingar væru reistar á ákæru, sem varist væri fyrir dómi. Að virtum málalokum um þá ákæru var talið að þessi ummæli hefðu falið í sér aðdróttun í garð Rúnars og voru ekki efni til annars en að verða við kröfu hans um ómerkingu þeirra. Ekki þóttu skilyrði til að ómerkja önnur ummæli, þar sem þau hefðu aðeins falið í sér lýsingu á staðreyndum, sem lágu fyrir í sakamálinu. Voru Erla og Sigurjón dæmd í sameiningu til að greiða Rúnari 100.000 krónur í miskabætur vegna ummælanna og 50.000 krónur til að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu málsins.

Lesa meira

2008 Franklín Kristinn Stiner gegn Trausta Hafsteinssyni og Sigurjóni Magnúsi Egilssyni

Franklín Kristinn Stiner höfðaði mál á hendur Trausta Hafsteinssyni og Sigurjóni Magnúsi Egilssyni vegna ummæla, um að hann hafi haft vörslur fíkniefna og selt þau og verið umsvifamikill í þeirri sölu, sem birtust í dagblaðinu Blaðinu. Krafðist Franklín þess að ummælin yrðu ómerkt og honum dæmdar miskabætur og fjárhæð til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum. Talið var að Trausti og Sigurjón bæru ábyrgð á ummælunum í Blaðinu sem höfundar greina sem þau birtust í, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Var talið að ummælin snéru öll að atvikum sem hafi gerst fyrir um áratug og hafi öll vísað til Franklíns í þátíð. Hafi sum ummælanna verið sama efnis og hafi birst um Franklín í öðru tímariti 1997. Ekki var talið unnt að fallast á að ummælin væru hreinn uppspuni og tilhæfulaus þar sem fyrir lá að Franklín hafði ítrekað verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir brot á fíkniefnalöggjöfinni. Yrðu ummælin ekki talin óviðurkvæmileg og til þess fallin að sverta ímynd Franklíns, þegar fyrir lægi hvaða ímynd hann hefði sjálfur skapað sér með háttsemi þeirri sem hann hafi verið margdæmdur fyrir. Þá hafi greinarnar að meginstefnu fjallað um starfsaðferðir lögreglu og Franklín nefndur í dæmaskyni um þær. Hafi sú umræða verið þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og átt þannig erindi til almennings. Var kröfum Franklíns um ómerkingu því hafnað og Trausti og Sigurjón sýknaðir af kröfum hans.

Lesa meira

2008 Páli Magnússyni, Helga Seljan Jóhannssyni, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur, Sigmari Guðmundssyni og Þórhalli Gunnarssyni

Lucia Celeste Molina Sierra og Birnir Orri Pétursson höfðuðu mál til heimtu bóta vegna miska sem þau töldu sig hafa orðið fyrir vegna umfjöllunar Páls Magnússonar, Helga Seljan Jóhannessonar, Jóhönnu Vilhjálmsdóttur Sigmari Guðmundssyni og Þórhalli Gunnarssyni, fréttamönnum, í dægurmálaþættinum Kastljósi og í fréttatímum útvarps og sjónvarps Ríkisútvarpsins um umsókn Luciu um íslenskan ríkisborgararétt. Kjarni umfjöllunarinnar var hvort meðferð umsóknarinnar hefði verið óeðlileg og það helgast af tengslum Luciu við þáverandi umhverfisráðherra. Var málatilbúnaður Luciu og Birnis reistur á því að umfjöllunin hefði falið í sér ólögmæta meingerð í þeirra garð. Taldi Hæstiréttur að ætla yrði fjölmiðlum svigrúm til umfjöllunar um málefni sem þetta, sem ætti erindi til almennings og væri hluti af þjóðfélagsumræðu. Viðleitni Helga, Jóhönnu, Sigmars og Þórhalls til að sýna fram á að afgreiðsla umsóknar Luciu væri tortryggileg og að valdi hefði verið misbeitt hefði ekki beinst að Luciu og Birni heldur að þáverandi umhverfisráðherra og allsherjarnefnd Alþingis. Hins vegar var talið að umfjöllun Helga, Jóhönnu, Sigmars og Þórhalls í Kastljósi og viðleitni þeirra til að sýna fram á að meðferð og afgreiðsla umsóknar Luciu hefði verið óeðlileg hefði borið ofurliði vilja þeirra til að fara rétt með staðreyndir og til að leiðrétta rangfærslur og gera viðhlítandi grein fyrir lagagrundvelli málsins. Þótt fallast mætti á með Luciu og Birni að Páll, Helgi, Jóhanna, Sigmar og Þórhallur hefðu í ýmsum atriðum brotið þær skyldur sem á þeim hvíldu í starfi og ekki sýnt Luciu og Birni þá tillitssemi sem ætlast hefði mátt til, þá hefði umfjöllunin um persónuleg atriði sem Luciu og Birni vörðuðu verið svo samofin málefninu að útilokað hefði verið að greina þar skýrlega á milli. Yrðu einstaklingar að nokkru marki að þola að persónuleg málefni, er þá varða, kæmu í slíkum tilvikum til almennrar umfjöllunar. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu af kröfum Luciu og Birni um miskabætur og að ekki væru skilyrði til að dæma refsingu vegna brota á 228. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Lesa meira

2008 Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir gegn Ásgeiri Þór Davíðssyni

Dæmd voru dauð og ómerk ýmis ummæli í grein í tímaritinu Ísafold. Féllst Hæstiréttur á með Ásgeiri Þór Davíðssyni, kenndum við Goldfinger, að í tímaritsgreininni hefðu falist aðdróttanir um refsiverða háttsemi. Hins vegar var talið að tvenn ummæli í greininni væru almenns eðlis og beint að ótilgreindum mönnum en ekki Ásgeiri. Voru Jón Trausti Reynisson og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamenn og höfundar greinarinnar, því sýknuð af kröfu Ásgeirs um ómerkingu þessara ummæla. Voru Ásgeiri dæmdar 500.000 krónur í miskabætur. Þá var fallist á að skilyrði væru til að dæma Jón og Ingibjörgu til greiðslu kostnaðar til að standa straum af birtingu dóms í málinu.

Lesa meira

2008 Ásgeir Þór Davíðsson gegn Björk Eiðsdóttur og Guðrúnu Elínu Arnardóttur

Ásgeir Þór Davíðsson, kenndur við Goldfinger, höfðaði mál á hendur Björk Eiðsdóttur, blaðamanni, og Guðrúnu Elínu Arnardóttir, ristjóra, vegna ummæla sem birtust í tímaritinu Vikunni. Krafðist Ásgeir þess að ummælin yrðu ómerkt, honum dæmdar miskabætur og fjárhæð til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum og þess að forsendur dómsins yrðu birtar í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur félli. Talið var að Björk bæri ábyrgð á ummælum í greininni sem höfundur hennar, sbr. 2. mgr. 15. gr. prentlaga, og breytti þá engu um hvort viðmælandi hennar sem ummælin voru höfð eftir kynni einnig að geta talist höfundur greinarinnar. Með sumum ummælunum var Ásgeiri borin á brýn refsiverð háttsemi. Voru þau ekki talin fela í sér lýsingu á skoðunum eða gildismat heldur fullyrðingar um staðreyndir sem rúmist ekki innan 73. gr. stjórnarskrárinnar. Það sama var talið gilda um eina millifyrirsögn sem Björk bar ábyrgð á. Voru þessi ummæli dæmd dauð og ómerk. Ein ummæli í greininni og tvær millifyrirsagnir voru talin almenns eðlis og ekki beinast að Ásgeiri og var því sýknað vegna þeirra. Þá var Guðrún sýknuð af kröfum Ásgeirs um ógildingu og miskabætur þar sem ummæli á forsíðu tímaritsins, í útdrætti í efnisyfirliti og í leiðara blaðsins, sem hún bar ábyrgð á sem ritstjóri, sbr. 3. mgr. 15. gr. prentlaga, þóttu almenns eðlis. Fallist var á kröfu Ásgeirs um birtingu forsendna og niðurstaðna dómsins í fyrsta tölublaði Vikunnar eftir uppsögu dómsins en kröfum um greiðslu kostnaðar vegna frekari birtingar hafnað. Þá var Björk dæmd til að greiða Á 500.000 krónur í miskabætur.

Lesa meira

2008 365 miðlar ehf. Gegn Magnúsi Ragnarssyni

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjölmiðlafyrirtækisins Skjárinn Miðlar ehf, höfðaði mál á hendur 365 miðlum ehf. til greiðslu miskabóta og ómerkingar á fjórum ummælum sem birtust í dagblöðum félagsins, DV og Fréttablaðinu. Ummælin í DV lutu að hjúskaparslitum Magnúsar en síðari tvö ummælin er birtust í Fréttablaðinu voru fyrirsagnirnar „Maggi glæpur“ og „Geðþekkur geðsjúklingur“ og var mynd af Magnúsi hliðina á síðastgreindri fyrirsögninni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að einkalíf manna, heimili og fjölskylda nytu friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar en í frásögn af hjúskaparslitum einum og sér fælist þó ekki brot á þeirri friðhelgi. Að öðru leyti var fallist á með héraðsdómi að í ummælunum hefði falist ærumeiðandi móðganir sem vörðuðu við 234. gr. almennra hegningarlaga og ærumeiðandi aðdróttanir sem vörðuðu við 235. gr. sömu laga. Niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummælanna og bótaábyrgð 365 ehf. var staðfest og fjárhæð miskabóta talin hæfilega ákveðin 600.000 krónur. Þá var 365 hf. gert að standa straum að birtingu dómsins miðað við tvær birtingar.

Lesa meira

2007 Eiríkur Jónsson gegn Þóru Guðmundsdóttur

Þóra Guðmundsdóttir, í Atlanta, höfðaði mál gegn Eiríki Jónssyni, Mikaeli Torfasyni og Þorsteini Svani Jónssyni til greiðslu miskabóta og ómerkingar á ummælum sem birt höfðu verið á forsíðu og í tímaritsgrein vikuritsins Séð og heyrt í nóvember 2006 og lutu að fasteignaviðskiptum hennar og Þorsteins. Með héraðsdómi voru Mikael og Þorsteinn sýknaðir í málinu en Eiríkur hins vegar talinn bera ábyrgð á þeim hluta ummælanna sem birt höfðu verið í tímaritsgreininni, en óumdeilt var í málinu að greinin væri rituð af Eiríki. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að telja yrði að hluti þeirra ummæla sem Eiríkur hafði ritað í umræddri tímaritsgrein fælu í sér ærumeiðandi móðgun í garð Þóru og vörðuðu því við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá voru önnur ummæli sem Þóra óskaði ómerkingar á talin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun í hennar garð er varðar við 235. gr. almennra hegningarlaga. Var niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummælanna því staðfest. Með vísan til þess að framsetning greinarinnar hefði verið til þess fallin að auka sölu blaðsins var jafnframt staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að Eeiríki bæri að greiða Þóru miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur.

Lesa meira

2007 Guðmundur Gunnarsson gegn Eiði Eiríki Baldvinssyni og Olenu Shchavynska

Á ársfundi Alþýðusambands Íslands 2005 tók Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og í miðstjórn Alþýðusambandsins, til máls í umræðum um kjör erlendra manna sem störfuðu hérlendis á vegum starfsmannaleiga. Að sögn Guðmundar var tilefni umræðu hans upplýsingar frá yfirtrúnaðarmanni stéttarfélaga við Kárahnjúka um nánar tilgreindar ávirðingar í garð stjórnenda félagsins 2b ehf. Í kjölfarið var greint frá atriðum sem tengdust þessari umræðu í aðalfréttatíma Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins sjónvarps í október 2005. Þar lét Guðmundar meðal annars orð falla sem Eiði Eiríki Baldvinssyni, stjórnarmanni 2b, og Olenu Shcavynska, varamaður, töldu ærumeiðandi í sinn garð og höfðuðu þau mál þetta til ómerkingar nánar tiltekinna ummæla, svo og til greiðslu skaðabóta og kostnaðar af birtingu dóms í málinu. Ákveðin ummæli sem höfð voru eftir Guðmundi vörðuðu starfsmannaleigur í fleirtölu og án frekari tilgreiningar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að hvergi yrði séð, að ummæli Guðmundar hefðu að þessu leyti gefið fréttamanni tilefni til að nafngreina 2b ehf. fremur en aðrar starfsmannaleigur eða taka viðtal við Eið frekar en aðra, en Guðmundur gat ekki borið ábyrgð á hvernig fréttarmaðurinn kaus að setja ummæli hans í samhengi við önnur atriði. Ummælin beindust ekki að persónu Eiðs og Olenu, en að því varð að gæta að félag þeirra 2b ehf. átti ekki hlut að málsókninni. Var því Guðmundur sýknaður af kröfu Eiðs og Olenu um ómerkingu þessara ummæla. Þá var krafist ómerkingar á ummælum Guðmundar er vísuðu til háttsemi konu af ákveðnu þjóðerni án þess að hún væri nafngreind. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi staðfesti Guðmundur að konan, sem hann vísaði til í tilgreindum ummælum, væri Olena. Talið var að Guðmundur hefði með þessum ummælum sínum sakað Olenu um ámælisverða háttsemi, sem sönnur hefðu ekki verið færðar fyrir og var með þeim vegið að æru hennar. Voru þessi ummæli Guðmundar því ómerkt samkvæmt kröfu Olenu. Að lokum var krafist ómerkingar á ummælum Guðmundar um uppgjör félagsins 2b ehf. á launagreiðslum til starfsmanna sinna. Ekki var mótmælt af hálfu Guðmundar að ummælin vörðuðu 2b ehf. en því hins vegar borið við að ummælin hefðu verið réttmæt. Fyrir lágu í málinu tólf óáfrýjaðir héraðsdómar þar sem 2b ehf. var gert að standa skil á nánar tilgreindum fjárhæðum vegna vangreiddra launa. Ekki var fallist á þau rök Olenu og Eiðs að þær vanefndir yrðu réttlættar með því að um mistök eða misskilning hafi verið að ræða. Þóttu því ekki næg efni til þess að ómerkja þau ummæli Guðmundar. Vegna þeirra ummæla sem ómerkt voru var Guðmundi gert að greiða Olenu miskabætur og fjárhæð til þess að standa straum af kostnaði af opinberri birtingu niðurstöðu dómsins.

Lesa meira

2007 Hrefna Kristmundsdóttir Júlíus Jón Þorsteinsson og Elí Sigursteinn Þorsteinsson gegn Ríkisútvarpinu ohf.

 Árið 2002 sýndi Ríkisútvarpið kvikmynd úr þáttaröðinni Sönn Íslensk sakamál í sjónvarpi úr þáttaröð er framleidd var af félaginu Hugsjón ehf. Efni myndarinnar var sótt í þann atburð þegar Þorsteini Guðnasyni, eiginmanni áfrýjandans Hrefnu Kristmundsdóttir og föður annarra áfrýjenda, var ráðinn bani á vinnustað sínum í Reykjavík. Áfrýjendur byggðu á því að eins og fjallað hefði verið um efnið í myndinni hefði verið vegið harkalega að friðhelgi einkalífs þeirra og kröfðust þau því miskabóta úr hendi Ríkisútvarpsins. Áfrýjendur höfðuðu málið upphaflega gegn Ríkisútvarpinu og Brautarholt 8, sem var þá nýtt heiti á félaginu Hugsjón ehf, en fyrir aðalmeðferð máls í héraði var B tekið til gjaldþrotaskipta. Óumdeilt var í málinu að félagið Hugsjón ehf, sem var framleiðandi myndarinnar, réði efnistökum og framsetningu hennar og að nafns Hugsjónar var getið í lok myndarinnar. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að a. liður 26. gr. útvarpslaga verði ekki skýrður á annan veg en þann að félagið hefði verið flytjandi í merkingu ákvæðisins og réði þar engum úrslitum að það hefði ekki jafnframt lagt til þá tækni, sem þyrfti til að dreifa efninu til áhorfenda. Með vísan til meginreglu 26. gr., um að sá sem flytur sjálfur efni í eigin nafni beri ábyrgð á því, bar félagið Hugsjón ábyrgð á myndinni. Ábyrgð stefnda gat því aðeins komið til að enginn annar væri fyrir hendi skv. a. til c. lið 26. gr., en 26. gr. útvarpslaga yrði ekki skýrð svo að ógjaldfærni eða andlát þess, sem ber ábyrgð samkvæmt a. lið greinarinnar gæti leitt til þess að ábyrgð, sem ekki var fyrir hendi í upphafi, yrði síðar lögð á útvarpsstjóra sbr. d. lið 26. gr. Að öllu virtu var Ríkisútvarpið sýknað af kröfum áfrýjenda vegna aðildarskorts.

Lesa meira

2007 Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason gegn A og gagnsök

 september 2005 hóf Fréttablaðið að birta án samþykkis gagnáfrýjanda A upp úr tölvupóstsamskiptum hennar við ýmsa nafnkunna einstaklinga á árunum 2001-2003, þar á meðal B. Fékk A lagt lögbann við frekari birtingu úr tölvupóstunum en áður hafði birst umfjöllun í dagblaðinu DV um ætlað ástarsamband A og B. Aðaláfrýjendurnir Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, ritstjórar blaðsins DV, byggðu á því að birting efnisins hefði verið vítalaus í skjóli tjáningarfrelsis þeirra samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem hið birta efni hefði staðið í beinum tengslum við opinbera umræðu, sem mikið hefði farið fyrir á þessum tíma og upplýsingarnar í blaðagreininni hefðu því átt erindi til almennings. Með vísan til þeirrar ríku verndar sem 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar veitir einkalífi manna, taldi Hæstiréttur að ekki yrði séð hvaða erindi þessar viðbótarupplýsingar hefðu átt til almennings, enda var hvorki leitast við í fréttaflutningi DV að skýra gildi þeirra fyrir málefnið, sem til umræðu var í þjóðfélaginu, né hefðu aðaláfrýjendur fært fyrir því haldbærar skýringar. Var því fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að Jónas og Mikael hefðu brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með birtingu efnisins auk þess sem A voru dæmdar miskabætur.

Lesa meira

2006 Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason gegn Gunnari Hrafni Birgissyni og Gunnar Hrafn Birgisson gegn Jónasi Kristjánssyni, Mikael Torfasyni og 365 miðlum eh

Gunnar Hrafn Birgisson, sálfræðingur, höfðaði mál á hendur ritstjórunum Jónasi Kristjánssyni og Mikael Torfasyni og útgáfufélaginu 365 miðlum vegna ummæla sem birtust í blaðinu DV og lutu að ítrekuðum staðhæfingum um að 150 kvartanir og klögumál hefðu verið borin upp við félagið Félag ábyrgra feðra vegna starfa Gunnars. Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að ummælin hefðu átt það sammerkt að fela í sér fullyrðingar um staðreyndir og að þau yrðu ekki réttlætt með því að um gildisdóma hefði verið að ræða. Jafnframt voru ummælin dregin upp á mjög áberandi hátt og til þess fallin að varpa rýrð á störf Gunnars. Ritstjórum og útgefanda hefði mátt vera fulljóst að atlaga blaðsins gegn Gunnari hlyti að bitna harkalega á honum þegar höfð væru í huga þau trúnaðarstörf, sem hann gegndi í viðkvæmum málum og því hefði verið enn ríkari þörf á vandaðri könnun staðreynda. Fyrir Hæstarétti breytti Gunnar kröfum sínum þannig að til vara var öllum kröfum hans beint að 365 miðlum, en að Jónasi og Mikael að 365 miðlum frágengnum. Var fallist á að Gunnari hefði verið heimilt að breyta kröfum sínum í þetta horf fyrir Hæstarétti, enda hefðu þær rúmast innan upphaflegrar kröfugerðar hans og að hann hefði val að þessu leyti. Þar sem ábyrgð, að höfundi frágengnum, yrði ekki lögð bæði á ritstjóra og útgefanda sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt voru Jónas og Mikael sýknaðir. Að öllu virtu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummæla, en ekki þóttu efni til að beita refsingu. Einnig voru Gunnari dæmdar miskabætur úr hendi 365 miðla og fjárhæð til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms.

Lesa meira

2006 Garðar Örn Úlfarsson gegn Ásbirni K. Morthens og Ásbjörn K. Morthens gegn Garðari Erni Úlfarssyni og 365 prentmiðlum ehf.

Ásbjörn K."Bubbi" Morthens, tónlistamaður  krafðist þess að forsíðufyrirsögnin ,,Bubbi fallinn“ í vikublaðinu Hér & nú og samhljóða fyrirsögn á blaðsíðu 16 til 17 í sama tölublaði yrði dæmd dauð og ómerk. Þá krafðist hann þess að Garðar Örn Úlfarsson, ritstjóri vikublaðsins, og 365 prentmiðlum ehf, útgefandi þess, yrðu dæmdir óskipt eða hvor um sig til að greiða honum 20.000.000 króna í miskabætur. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt yrði ábyrgð á efni sem birtist í riti ekki lögð bæði á útgefanda þess og ritstjóra að höfundi frágengnum heldur aðeins annan hvorn þeirra. Samkvæmt því og þar sem Garðar hafði verið talinn bera bótaábyrgð í héraði og Ásbjörn ekki krafist þess að 365 prentmiðlar yrði dæmdur í stað hans var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu útgefandans. Ekki var talið unnt að skilja forsíðufyrirsögnina öðruvísi en svo að fullyrt væri að Ásbjörn væri byrjaður að neyta vímuefna, enda væri þorra þjóðarinnar kunnugt um vímuefnaneyslu hans fyrr á árum. Eins og fullyrðingin var fram sett var hún talin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun og voru ummælin dæmd dauð og ómerk. Hins vegar var ekki talið að samhljóða fyrirsögn á blaðsíðu 16 til 17 í tölublaðinu fæli í sér fullyrðingu um vímuefnanotkun Ásbjörns eða aðdróttun í skilningi hegningarlaga, enda væri hún í samhengi við texta þar sem greint var frá því að Ásbjörn hefði hafið reykingar á ný. Fallist var á að Ásbjörn ætti rétt á miskabótum úr hendi Garðars vegna þeirra ummæla sem birtust á forsíðu tölublaðsins. Miskabótakrafa Ásbjörns var einnig reist á því að friðhelgi einkalífs hans hefði verið rofin með óheimilli birtingu mynda og umfjöllun um einkamálefni hans í umræddu tölublaði. Vísað var til þess að umræddar myndir hefðu verið teknar án samþykkis eða vitundar Ásbjörns og að friðhelgi einkalífs nyti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar metnar væru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setti tjáningarfrelsinu var talið skipta grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, gæti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og ætti þannig erindi til almennings. Ekki var talið að þær myndir sem til umfjöllunar væru tengdust á nokkurn hátt slíkri umræðu. Vísað var til þess að Ásbjörn hefði verið á ferð um Reykjavík á bifreið sinni þegar umræddar myndir voru teknar og var talið að hann hefði við þær aðstæður með réttu mátt vænta þess að friðhelgi einkalífs síns yrði virt. Hefði sú friðhelgi verið brotin með birtingu umræddra mynda og verið framin meingerð gegn friði og persónu Ásbjörns sem Garðar bæri miskabótaábyrgð á. Þar sem Ásbjörn hafði oftar en einu sinni gert baráttu sína við tóbaksfíkn að umræðuefni í viðtölum við fjölmiðla var ekki talið að ummæli á 17. síðu tölublaðsins um reykingar hans gætu talist brot á friðhelgi einkalífs hans. Samkvæmt framansögðu var talið að Ásbjörn ætti rétt til miskabóta úr hendi Garðars bæði vegna ærumeiðandi aðdróttana og brota á friðhelgi einkalífs og þótti fjárhæð þeirra hæfilega ákveðin 700.000 krónur.

Lesa meira

2005 Jónína Benediktsdóttir gegn 365-prentmiðlum ehf. Og Kára Jónassyni

Jónína Benediktsdóttir krafðist staðfestingar á lögbanni sem hún hafði fengið lagt við því að 365 Prentmiðlar birti í Fréttablaðinu eða öðrum fjölmiðlum í hans eigu gögn sem hún taldi hafa verið fengin úr tölvupósthólfi sínu með ólögmætum hætti. Hún krafðist einnig staðfestingar á ákvörðun sýslumanns um að taka í sínar hendur tiltekin gögn í vörslum 365 Prentmiðla. Ekki var hins vegar gerð krafa um þau réttindi, sem Jónína leitaði verndar á til bráðabirgða með lögbanni, og ekki heldur um að fyrrgreind gögn yrðu afhent henni. Var kröfugerð Jónínu að þessu leyti talin í andstöðu við 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 og því ekki unnt að leysa úr öðru en því hvort formleg og efnisleg skilyrði væru til að staðfesta lögbannsgerðina. Talið var að krafa Jónínu um lögbann væri í senn of víðtæk og óákveðin til þess að taka mætti hana til greina og var kröfu hennar um staðfestingu lögbannsins því hafnað. Ekki var talið að krafa Jónínu um staðfestingu á ákvörðun sýslumanns um töku fyrrgreindra gagna úr vörslum 365 Prentmiðla kæmi til álita, þar sem ekki yrði leitað sjálfstæðs dóms um slíka ráðstöfun. Jónína krafðist þess jafnframt að Kára Jónassyni, ritstjóra Fréttablaðsins, yrði gerð refsing fyrir brot gegn 2. mgr. 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kom ekki til álita að Kára yrði gerð refsing samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laganna þar sem ætluðum verknaði hans var ekki lýst með þeim hætti í héraðsdómsstefnu og dómkrafa um refsingu við það miðuð að ákvæðið gæti átt við. Fallist var á með Jónínu að skrif Fréttablaðsins um fjárhagsleg málefni hennar hafi lotið að einkamálefnum í merkingu 229. gr. laganna, svo og það efni þessara skrifa, þar sem greint var frá hvatningum Jónínu og öðrum hlut hennar sjálfrar í ráðagerðum um að kæra nafngreinda menn. Litið var til þess að skrif Fréttablaðsins hefðu haft að geyma efni, sem ætti erindi til almennings og varðaði mál, sem miklar deilur hefðu staðið um í þjóðfélaginu. Þótt jafnframt hefði verið greint frá fjárhagsmálefnum Jónínu í umfjöllun Fréttablaðsins var talið að þau væru svo samfléttuð fréttaefninu í heild að ekki yrði greint á milli. Var fallist á með 365 Prentmiðlum að ekki hefði verið gengið nær einkalífi Jónínu en óhjákvæmilegt væri í opinberri umræðu um málefni sem varðaði almenning. Að þessu virtu var lagt til grundvallar að nægar ástæður hefðu verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa blaðsins og Kára ekki gerð refsing samkvæmt ákvæðinu.

Lesa meira

2005 Hrefna Kristmundsdóttir, Júlíus Jón Þorsteinsson og Elí Sigursteinn Þorsteinsson gegn Ríkisútvarpinu og þrotabúi Brautarholts 8 ehf

Hrefna Kristmundsdóttir, Júlíus Jón Þorsteinsson og Elí Sigursteinn Þorsteinsson höfðuðu mál til greiðslu miskabóta úr hendi Ríkisútvarssins og þrotabúi Brautarholts 8 ehf. Vísuðu þau til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um heimild til aðilasamlags. Fallist var á að skilyrði aðilasamlags væru fyrir hendi í málinu til sóknar og varnar. Hrefna, Júlíus og Elí gáfu hins vegar þær skýringar á kröfugerð sinni fyrir dómi að um væri að ræða sameiginlega kröfu þeirra þriggja á hendur Ríkisútvarpinu og Brautarholti. Talið var að til að neyta fyrrgreindrar heimildar til aðilasamlags hefði þeim Hrefnu, Júlíusi og Elí verið nauðsyn að gera hvert fyrir sig sérstaka kröfu og þar sem það hefði ekki verið gert væri krafa þeirra ódómtæk og var málinu vísað frá dómi af sjálfsdáðum.

Lesa meira

2005 n George Shelton gegn Indriða H. Þorlákssyni

Edwin George Shelton krafðist þess að ummæli Indriða H. Þorlákssonar, fyrverandi ríkisskattstjóra, í grein, sem birtist í Morgunblaðinu, yrðu dæmd dauð og ómerk og að Indriði greiddi sér bætur vegna þeirra, en hann taldi ummælin ærumeiðandi. Lutu þau að því að nafngreindur maður hefði skrifað grein ásamt „þekktum dönskum sérfræðingi í skattasniðgöngumálum“, þar sem beinlínis hafi verið gefnar leiðbeiningar og lagt á ráðin hvernig færa mætti fé skattfrjálst úr landi. Ljóst þótti að með þessum ummælum væri átt við Edwin. Þá var vísað til þess að orðið skattasniðganga hefði enga einhlíta merkingu, en þó talið að í því fælist sú háttsemi að komast hjá því að greiða skatta. Þegar ummælin voru metin í ljósi þess, sem fram kom í greininni í heild, var ekki talið að í þeim fælist refsiverð ærumeiðing samkvæmt 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga. Var Indriði því sýknaður af kröfum Edwins.

Lesa meira

2003 Árni Matthías Mathiesen gegn Magnúsi Þór Hafsteinssyni

gnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda Flokknum, krafðist þess að tiltekin ummæli Árna Matthíass Mathiesens, sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokks,  yrðu ómerkt, auk þess sem Árna yrði gert að sæta refsingu og greiða Magnúsi miskabætur. Fallist var á það með Árna að ummælum hans um sviðsetningu frétta hafi verið beint að fréttastofu sjónvarpsins, en ekki Magnúsi og gat Magnús því ekki átt aðild að kröfu á hendur Árna vegna þeirra ummæla. Var Árni samkvæmt því sýknaður af kröfum Magnúsar í þessum þætti málsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Talið var að Magnús hefði, með því að hasla sér völl í stjórnmáladeilu með þeim hætti sem hann gerði, mátt búast við því að andsvör kæmu frá Árna. Að atvikum málsins virtum þóttu ekki efni til að fallast á að Árni hefði veist að æru Magnúsar með því að haga orðum sínum á þann hátt, sem hann gerði. Litið var til þess að Áarni hafi ekki átt upptökin að umræðunni, heldur hafi orð hans fallið að gefnu tilefni frá Magnúsi. Sú aðstaða að Árni var stjórnmálamaður og gegndi embætti sjávarútvegsráðherra gat hér engu breytt um þá niðurstöðu að með orðum hans var ekki farið út fyrir mörk leyfilegs tjáningarfrelsis. Var Árni sýknaður af kröfum Magnúsar.

Lesa meira

2002 Korea Ginseng Corporation gegn Heilsuverslun Íslands ehf. og Ólafi Erni Karlssyni

Heilvdverslun Íslands ehf., sem meðal annars flutti inn kínverskt ginseng, gaf út blað sem hafði að geyma heilsíðuviðtal við mann að nafni Luc Delmulle, doktor í efnafræði og auglýsingu fyrir þessa tiltekna tegund ginsengs. Í viðtalinu lýsti Luc Delmulle því meðal annars hvernig staðið væri að ræktun ginsengs í Kóreu og Kína, þar á meðal muninum á notkun áburðar og skordýraeiturs. Var sérstaklega fjallað um rautt ginseng. Af þessu tilefni höfðaði Korea Ginseng Corporation, kóreanskt ríkisfyrirtæki og stærsti framleiðandi ginsengs þar í landi, mál á hendur Heildverslun Íslands ehf. og Ólafi Erni Karlssyni, framkvæmdastjóra þess, þar sem gerð var krafa um að nánar tiltekin ummæli í viðtalinu yrðu dæmd ómerk. Var Korea Ginseng Corporation sá framleiðandi, sem langmest hafði selt af ginsengi hér á landi, en framleiðsla félagsins var seld undir vörumerkinu Rautt eðalginseng. Talið var að ummælunum í viðtalinu væri beint að Korea Ginseng Corporation með þeim hætti að játa yrði því aðild að meiðyrðamáli, sbr. 3. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga. Hafi Luc Delmulle ekki nafngreint sig sem höfund þess sem Heildverslun Íslands ehf. hafði eftir honum í viðtalinu. Var kröfu Heildverslunar Íslands ehf. og Ólafs um sýknu á grundvelli aðildarskorts því hafnað. Talið var að ýmsar staðhæfingar í viðtalinu um samanburð á ræktun ginsengs í Kóreu og Kína væru rangar. Hafi viðtalið falið í sér óréttmæta árás á framleiðsluvörur þeirra, sem stóðu í samkeppni við Heildverslun Íslands ehf. um sölu á ginseng á íslenskum markaði og brotið í bága við ákvæði samkeppnislaga. Kröfur Korea Ginseng Corporation væru aftur á móti ekki reistar á þeim grundvelli að brotin hafi verið ákvæði laga, er vörðuðu óréttmæta viðskiptahætti heldur væri málið rekið til verndar æru félagsins á grundvelli ákvæða XXV. kafla almennra hegningarlaga. Vörðuðu ummælin, sem Korea Ginseng Corporation krefðist þess að yrðu dæmd ómerk, ræktun ginsengjurtarinnar í Kóreu almennt. Fælist því ekki í þeim refsiverð aðdróttun samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Yrði því ekki komist hjá því að sýkna Heildverslun Íslands ehf. og Ólaf.

Lesa meira

2002 Hrönn Sveinsdóttir Árni Sveinsson Böðvar Bjarki Pétursson Inga Rut Sigurðardóttir og Tuttugu geitur sf. (Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Ungfrú Íslandi ehf. Elvu Dögg Melsteð o.fl.

Ungfrú Ísland ehf. o.fl. kröfðust þess að lagt yrði lögbann við því að Hrönn Sveinsdóttir o.fl. gæfu út, sýndu eða birtu opinberlega með öðrum hætti kvikmynd sem sýndi og fjallaði um fegurðarsamkeppni. Hafði Hrönn Sveinsdóttir, sem var einn keppenda, ýmist sjálf tekið eða fengið aðra til að taka upp á myndband talsvert efni frá undirbúningi og framkvæmd keppninnar, sem sneri bæði að henni sjálfri og öðrum keppendum. Hafði hún í framhaldi af því notað efni úr þessum upptökum við gerð kvikmyndar, sem var kynnt opinberlega að fyrirhugað væri að sýna almenningi. Héraðsdómari taldi að Hrönn o.fl. þyrftu að bera hallann af því að neita að sýna kvikmyndina við meðferð málsins, og að aðrir lögbannsbeiðendur en Ungfrú Ísland ehf. hefðu á þeim grunni nægilega gert sennilegt að með sýningu kvikmyndarinnar yrði vegið að friðhelgi einkalífs þeirra. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lögðu Hrönn o.fl. fram eintak af kvikmyndinni. Í dómi Hæstaréttar segir að Hrönn o.fl. hafi lítið sem ekkert vísað til þessa eintaks af myndinni í málatilbúnaði sínum fyrir réttinum. Liggi þannig ekki nægilega fyrir hvað Hrönn o.fl. telji sannað með þessu gagni í einstökum atriðum. Til þess verði einnig að líta að í greinargerð þeirra sé tekið fram að þetta eintak af kvikmyndinni sé aðeins til afnota fyrir dómendur, en um helmingur keppenda hafi ásamt lögmanni horft á þessa gerð hennar og geti á þeim grunni tjáð sig um verkið ef efni séu talin til þess. Með þessu háttalagi við gagnaöflun hafi Hrönn o.fl. virt að vettugi þá grundvallarreglu einkamálaréttarfars að jafnræðis beri að gæta um rétt málsaðila til að kynna sér og tjá sig um sönnunargögn gagnaðila síns. Auk þessa hafi Hrönn o.fl. með því að leggja fyrst fram á þessu stigi eintak af kvikmyndinni raskað í öllum meginatriðum þeim grundvelli, sem þau hafi kosið sjálf að reisa málatilbúnað sinn á fyrir héraðsdómi. Þegar alls þessa sé gætt séu ekki skilyrði til að taka tillit til þessa sönnunargagns við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti. Var hinn kærði úrskurðar því staðfestur.

Lesa meira

2001 Jón Steinar Gunnlaugsson gegn X

X höfðaði mál fyrir héraðsdómi gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni, lögmanni, vegna ummæla sem hann lét falla í opinberri umræðu um dóm Hæstaréttar í máli nr. 286/1999 en með þeim dómi var faðir X sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn X er hún var barn. Héraðsdómur taldi Jón hafa með ummælum sínum gert á hlut X í sjö tilvikum og ógilti úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna, sem hafði hafnað því að Jón hafi brotið góða lögmannshætti. Kröfu X, um að viðurkennt yrði að Jón hafi brotið góða lögmannshætti „með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum“ á tilteknu tímabili um umrætt hæstaréttarmál, var vísað frá dómi, þar sem krafan þótti í senn of óljós og óákveðin til þess að efnisdómur yrði lagður á hana. Þá var tekið fram að X hefði ekki með réttu átt að beina dómkröfu um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar lögmanna að henni, heldur eingöngu að Jón, sem gagnaðila X fyrir nefndinni. Talið var að þegar leyst væri úr því hvort einstök ummæli Jóns skyldu varða hann bótaábyrgð og valda því að úrskurður nefndarinnar yrði felldur úr gildi yrði að meta tjáningarfrelsi Jóns gagnvart rétti X til friðhelgi einkalífs og æruverndar. Var talið að tiltekin ummæli Jóns yrðu ekki skilin öðru vísi en svo að hann hafi með þeim borið X á brýn að hafa gegn betri vitund sett fram rangar sakir á hendur föður sínum. Í umræddum sýknudómi Hæstaréttar væri því hins vegar ekki slegið föstu að ásakanir X á hendur föður sínum hafi verið efnislega rangar. Þá hafi orðfæri Jóns um kvartanir X yfir ósæmilegu atferli kennara er hún var 15 eða 16 ára gömul gefið til kynna að ásakanir X hafi varðað annars konar og alvarlegri athafnir en var í reynd. Þótti Jón hafa brotið gegn X með þessum ummælum og var hann dæmdur til greiðslu miskabóta vegna þeirra. Ekki var talið að Jón hafi gert á hlut X með ummælum sínum er vörðuðu efni bréfs er X hafði skrifað föður sínum þegar hann dvaldist í útlöndum haustið 1995. Við ákvörðun á fjárhæð miskabóta var tekið tillit til þeirra aðstæðna sem voru ríkjandi þegar J lét ummæli sín falla og markmiðs hans með þátttöku í umræðunni, en jafnframt til þess að þau bitnuðu á X, sem hafi á engan hátt gefið honum réttmætt tilefni til að vega að persónu sinni og æru. Þá var úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna felldur úr gildi að því leyti sem hann varðaði ummæli sem voru talin fela í sér ólögmæta meingerð gagnvart X.

Lesa meira

2000 Kjartan Gunnarsson gegn Sigurði G. Guðjónssyni

Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, krafðist ómerkingar á tilteknum ummælum Sigurðs G. Guðjónssonar, hæstaréttarlögmanns, sem birtust í dagblaði. Hann taldi að  í þeim fælust ærumeiðandi aðdróttanir um sig. Voru umrædd greinarskrif Sigurðs innlegg í heita þjóðfélagsumræðu í tengslum við svokallað FBA mál og báru með sér hvassa gagnrýni á forystumenn Sjálfstæðiflokksins, en Kjartan gegndi meðal annars stöðu framkvæmdastjóra flokksins. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu Sigurðs. Taldi Hæstiréttur að ekki yrði lagt á Sigurð að sanna ummælin þar sem sönnunarfærslan myndi reynast honum óhæfilega erfið. Þá kom fram að Kjartan væri framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og hefði einnig gegnt tilteknum stöðum eftir tilnefningu flokksins. Þegar litið væri til áberandi stöðu hans innan Sjálfstæðisflokksins yrði hann að una því að um þessi tengsl væri fjallað á opinberum vettvangi og bæri að fara varlega við að hefta slíka umræðu.

Lesa meira

1998 Ákæruvaldið gegn Ingólfi Erni Margeirssyni

Ingólfur Ernir Margeirson (ritstjóri Alþýðublaðsins) var ákærður fyrir hlutdeild í broti gegn 230. gr. alm. hgl. með því að hafa í samvinnu við lækninn Esra Seraja Pétursson skráð og birt frásögn Esra af einkamálefnum fyrrum sjúklings hans. Ingólfur var sakfelldur og dæmdur til greiðslu sektar, enda var talið, m.a. með vísan til þeirra hagsmuna sem í húfi voru, að sakfellingin væri samrýmanleg ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegra mannrétttindasáttmála um tjáningarfrelsi. Þá var talið að almennar reglur um hlutdeild ættu við um brot gegn 230. gr. alm. hgl.

Lesa meira

1997 Sigurður Helgi Guðjónsson gegn Húsnæðisstofnun ríkisins Sigurði E. Guðmundssyni, o.fl.

Húsnæðisstofnun ríkisins, framkvæmdarstjóri hennar og starfsmenn lögfræðideildar hennar, höfðuðu mál gegn Húseigandafélaginu og framkvæmdastjóra þess, Sigurði Helga Guðjónssyni, vegna ummæla, sem Sigurður lét falla um Húsnæðisstofnunina í kvöldfréttartíma Stöðvar 2 og í morgunfréttum Bylgjunnar í október og nóvember 1996. Krafðist Húsnæðisstofnunin þess, að tiltekin ummæli yrðu dæmd ómerk og fallist á aðrar kröfur. Félagsmenn í Húseigandafélaginu voru á sjöunda þúsund talsins og hafði Sigurður þurft að eiga margháttuð  samskipti við Húseigendafélagið, ýmist vegna hagsmuna einstakra félagsmanna eða þeirra allra í heild. Áttu félagsmenn því augljósa hagsmuni af því hvernig til tækist með opinbera stjórnsýslu á þessu sviði. Húsnæðistofnunin var opinber stofnun og fór með málefni, sem snertu hagsmuni margra. Var ljóst, að slík stofnun gæti kallað yfir sig harða gagnrýni. Ummæli framkvæmdarstjórans voru mörg óvægin og harkaleg. Við ákvörðun þess, hvort hann hefði með þeim farið úr fyrir mörk tjáningarfrelsisins féllst Hæstiréttur á það að játa verði mönnum rúmu tjáningarfrelsi á því sviði, sem hér um ræddi. Var einnig fallist á, að mörg ummælin hefðu falið í sér gildisdóma, þar sem Sigurður hefði lagt mat sitt á staðreyndir, sem hann hefði talið vera fyrir hendi. Sigurður hefði gert grein fyrir misbrestum í starfsemi Húsnæðismálastofnunar og lögfræðideildar hennar og var talið, að með því hefði verið rennt nægum stoðum undir þá niðurstöðu, að ekki hefði verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með því að lýsa skoðunum, sem í flestum þessara gildisdóma birtust. Hæstiréttur ómerkti aðeins örlítinn hluta ummælanna og sýknaði Sigurð af kröfum um refsingu, greiðslu miskabóta og kostnað við birtingu dómsins.

Lesa meira

1997 Ákæruvaldið gegn Hrafni Jökulssyni

Hrafn Jökulsson (Alþýðuflokk) var sóttur til saka fyrir að hafa í blaðagrein kallað Harald Johannessen, þáverandi forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins, glæpamannaframleiðanda ríkisins. Grein Hrafns þótti snúa að samfélagslegu málefni, sem eðlilegt væri, að kæmi til almennrar umræðu. Í slíkri umræðu yrðu stjórnvöld að þola að gagnrýni væri beint að þeim, þótt orðfæri kynni að verða hvasst. Þótt Harald Johanssen verða sæta því, að stofnunin yrði samsömuð honum með notkun nafns hans. Var því ekki talið að Hrafn hefði brotið gegn 234.gr. eða 235.gr. almennra hegningarlaga.

Lesa meira

1996 Reynir Sigursteinsson og Halldór Gunnarsson gegn Hjalta Jóni Sveinssyni Birni Eiríkssyni og Bókaútgáfunni Skjaldborg hf.

Reynir Sigursteinsson og Halldór Gunnarsson höfðuðu meiðyrðamál vegna ummæla í leiðara og grein í tímaritinu Hestinum, sem var gefið út af Bókaútgáfunni Skjaldborg hf. Var leiðarinn auðkenndur nafni ritstjórans Hjalta Jóns Sveinssonar, en greinin ekki nafngreind höfundarnafni. Bar ritstjórinn Hjalti, því ábyrgðina og var framkvæmdarstjóri Bókaútgáfunnar Skjaldborgar hf. sýknaður á grundvelli aðildarskorts. Enda þótt ummælin fælu í sér gagnrýni á mennina og fyrirtæki þeirra, fólu engin þeirra í sér ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun. Í málinu var upplýst að til grundvallar skrifunum lá meðal annars skýrsla mannanna til nánar tiltekinnar lánastofnunar. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að efni skýrslunnar hafi verið svo á vitorði manna, að frásögn ritstjórans hafi ekki verið brot á 229.gr. almennra hegningarlaga. Ekki sé skýrt komið fram hvar höfundarréttur að skýrslunni liggi og því ekki um brot á honum að ræða. Voru ritstjórinn og Bókaútgáfan Skjaldborg hf. því sýknuð af kröfum mannanna.

Lesa meira

1995 Sigurður Már Jónsson gegn Jóni Halldóri Bergssyni - Meiðyrði

Í kjölfar greinar sem birtist um Jón Halldór Bergsson í vikublaðinu Pressunni, höfðaði Jón mál á hendur ritstjórnarfulltrúanum Sigurði Má Jónssyni, auk annarra. Héraðsdómur ómerkti ummælin, þar sem umfjöllun stefndu um Jón hefði farið út fyrir þau mörk, sem setja yrði prentfrelsi, þ.e. að í skjóli þess séu ekki gerðar tilefnislausar og grófar árásir á æru manna. Héraðsdómur dæmdi Jóni einnig miskabætur úr hendi stefndu. Þá voru Sigurður og Guðrún Kristjánsdóttir, sem titluð voru sem höfundar umræddrar greinar, dæmd til sektargreiðslu fyrir brot gegn 235. gr. laga nr. 19/1940. Sigurður áfrýjaði héraðsdómi. Talið var í ljós leitt að nafn Sigurðar hefði verði sett undir viðkomandi grein án samþykkis hans. Þegar könnuð voru þau ummæli sem héraðsdómur taldi Sigurð bera ábyrgð á, kom í ljós, að þau fjölluðu ekki um efni sem Sigurður hafði tekið saman um Jón. Samkvæmt þessu voru ekki talin hafa verið færð nægjanleg rök fyrir því að Sigurður bæri ábyrgð á hinum umdeildu ummælum og var hann því sýknaður af kröfum Jóns.

Lesa meira

1994 Sigurður Ingvason gegn Skipatækni hf. - Meiðyrði

Hlutafélagið Skipatækni krafðist þess að tiltekin ummæli Sigurðs Ingvasonar í tengslum við hönnun og byggingu ferju yrðu dæmd dauð og ómerk, hann dæmdur til þess að greiða Skipatækni bætur og látinn sæta refsingu. Vísað var til þess að málið hefði tvisvar áður komið til umfjöllunar dómstóla. Þegar síðara málið hafði verið höfðað höfðu meir en sex mánuðir liðið frá því ummæli Sigurðar voru viðhöfð. Talið var að mál sem ekki væri réttilega höfðað gæti ekki slitið málshöfðunarfresti og hefði því frestur samkvæmt 29. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til þess að hafa uppi refsikröfu verið liðinn þegar síðara málið var höfðað. Ummæli Sigurðar sem vörðuðu ásakanir um að einkaleyfi hans hefði ekki verið virt voru ómerkt svo og ummæli um tengsl Skiparækni við skipasmíðastöðina sem annaðist smíði ferjunnar. Hins vegar var hafnað kröfu um ómerkingu ummæla sem vörðuðu ásakanir um ófagleg vinnubrögð, en talið var að Sigurður hefði haft rúmt frelsi til þess að koma skoðunum sínum á framfæri við þær aðstæður sem fyrir hendi voru. Sigurður var dæmdur til að greiða Skipatækni bætur samkvæmt 1. gr. laga nr. 71/1928 um vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum vegna ásakana um óeðlileg tengsl Skipatækni við skipasmíðastöðina.

Lesa meira

1994 Pétur Pétursson gegn Ólafi Sigurgeirssyni og gagnsök - Meiðyrði

 máli nr. 498/1993 var upphafleg krafa Péturs Péturssonar, læknis, í málinu þess efnis að því yrði vísað frá dómi og varð héraðsdómari við þeirri kröfu með dómi 21. febrúar 1992. Með dómi Hæstaréttar 20. mars 1992 var frávísunardómurinn felldur úr gildi. Eftir frávísunardóm héraðsdóms en áður en dómur Hæstaréttar var kveðinn upp birtust ýmis ummæli Péturs í fjölmiðlum landsins um Ólaf Sigurgeirsson, lögmann vaxtaræktar- og kraftlyftingamannanna. Ólafur krafðist ómerkingar ummælana og að Pétur yrði dæmdur til refsingar. Dæmt að tvenn ummæli af fimm skyldu vera ómerk en Pétur var að öðru leyti sýknaður af kröfum Ólafs. Einn dómari skilaði sératkvæði og vildi sýknað Pétur af öllum kröfum.

Lesa meira

1993 Pétur Pétursson gegn Ásgeiri Ólafssyni, Birgi Viðarssyni, Einari Sigurjónssyni, og 22 öðrum - Meiðyrði

Pétur Pétursson læknir hélt því fram í Ríkisútvarpinu að notkun hormónalyfja væri orðin algeng meðal vaxtaræktar- og kraftlyftingamanna og að notkun þessara lyfja gæti orsakað alvarlega sjúkdóma. Tuttugu og sex aðilar sem allir voru í hópi vaxtaræktar- og kraftlyftingamanna töldu að sér vegið með þessum ummælum og kröfðust þess að Pétur yrði dæmdur til að greiða þeim miskabætur, að ummæli hans yrðu dæmd dauð og ómerk, að Pétur yrði dæmdur til fangelsisvistar og að hann yrði dæmdur til að greiða fyrir birtingu dóms í málinu. Samkvæmt Hrd. 1992:556 var talið að vaxtaræktar- og kraftlyftingamennirnir gætu höfðað mál þetta. Talið var að brýnt tilefni hefði verið fyrir Pétur að vara við misnotkun hormónalyfja í íþróttum og var vísað til grundvallarreglna um tjáningarfrelsi og þess hve ummæli Péturs voru almenns eðlis og beindust að stórum hópi manna. Pétur var sýknaður af öllum kröfum. Einn dómari skilaði sératkvæði með sömu niðurstöðu og meirihluti dómara en breyttum rökstuðningi.

Lesa meira

1993 Úlfar Nathanaelsson gegn Blaði hf., Gunnari Smára Egilssyni, Sigurði Má Jónssyni og Sigurjóni Magnúsi Egilssyni. - Meiðyrði

Staðfestur var frávísunarúrskurður héraðsdóms í ærumeiðingarmáli Úlfars Nathanielssons gegn Blaði Hr, Gunnari Smára Egilssyni, Sigurði Má Jónssyni og Sigurjóni Magnúsyni. Tekið var fram í dómi Hæstaréttar að í meiðyrðamáli væri óhjákvæmilegt að tilgreina í stefnu þau ummæli í meiðyrðamáli sem átalin væru, og rök fyrir því að ærumeiðingar fælust í þeim. Þá var tekið fram að sérstaklega ætti að fjalla um einstök ummæli, ástæður fyrir því, að beita ætti viðurlögum vegna þeirra, og lýsing á því í hver flokk ærumeiðinga hver einstök átalinna ummæla ættu að falla, og rök fyrir því.

Lesa meira

1992 Kristján Þorvaldsson,Þóra Kristin Ásgeirsdóttir og Blað hf. Gegn Gallerí Borg hf. og Úlfari Þormóðssyni og gagnsök - Meiðyrði

Í vikublaðinu Pressunni birtist grein um Gallerí Borg sem var verslun með listmuni og Úlfar Þormóðsson, framkvæmdarstjóra hennar, undir fyrirsögninni: „Gallerí Borg beitti fyrir sig rannsóknum sem aldrei fóru fram“. Á forsíðu blaðsins var kynning greinarinnar mjög áberandi með yfirskriftinni: „Úlfar í Gallerí Borg“ en síðan aðalfyrirsögnin, með mjög stóru letri: „Laug til um rannsóknir á málverkum“. Í undirfyrirsögn á forsíðu sagði: „Þegar tvö málverk sem sögð voru eftir S... málara komu til sölu í Gallerí Borg sagði Úlfar að þær hefðu verið gegnumlýstar til að kanna aldur þeirra. Það var aldrei gert. Úlfar segist nú hafa misskilið sérfræðingana. Þetta er ekki eina dæmið um vafasöm málverk eða viðskiptahætti Gallerí Borgar“ Greinin var birt á 8. og 9. bls. Pressunnar og var í henni að finna fleiri vafasöm ummæli um Gallerí Borg og Úlfar. Undir greinina rituðu fullum nöfnum Kristján Þorvaldsson, ritstjóri og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, blaðamaður Pressunnar. Gallerí Borg og Úlfar kröfðust ómerkingar ummælanna, refsingar og greiðslu bóta og kostnaðar við birtingu dóms í þremur dagblöðum. Ummæli í 11 töluliðum voru ómerkt en hafnað var kröfu um ómerkingu ummæla í 2 töluliðum. Úlfari voru dæmdar miskabætur kr. 100.000 og Gallerí Borg bætur fyrir röskun á viðskiptavild og stöðu fyrirtækisins, kr. 200.000. Kristján var dæmdur til greiðslu sektar, kr. 25.000 og Þóra kr. 8.000. Þá voru Kristján og Þóra dæmd til greiðslu kostnaðar við birtingu dómsins kr. 150.000. Kristján bar einn ábyrgð á ummælum á forsíðu blaðsins en Kristján og Þóra sameiginlega á öðru efni blaðsins og skiptist ábyrgð þeirra á bótagreiðslum í hlutföllum í samræmi við það. Fallist var á að heimta mætti dæmdar fjárhæðir af þrotabúi Blaðs hf. sem var útgefandi blaðsins.

Lesa meira

1991 Ákæruvaldið gegn Halli Magnússyni - Meiðyrði

Hallur Magnússon, blaðamaður, var dæmdur fyrir brot á 108. gr. almennra hegningarlaga vegna ærumeiðandi ummæla um séra Þóri Stephensen, sem þá hafði ekki látið af embætti dómkirkjuprests í Reykjavík, en var orðin staðarhaldari í Viðey. Birtust ummælin í grein í dagblaði, en tilefni þeirra voru framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar við kirkjugarðinn í Viðey. Sem staðarhaldari var Þórir starfsmaður Reykjavíkurborgar og þannig í opinberu starfi í skilningi 73. gr. laga nr. 8/1986. Ummælin voru árás á hann sem opinberan starfsmann og persónulega. Sum ummælin stöfuðu af misskilningi varðandi staðreyndir, sem Hallur hirti ekki um að kynna sér til hlítar. Að nokkru fólust í greininni lýsingar á skoðunum Halls, sem settar voru fram hörðum orðum. Hallur var dæmdur til að greiða 60.000 króna sekt í ríkissjóð og 150.000 krónur í miskabætur skv. 1. mgr. 264. gr. alm. hgl. Þá voru átalin ummæli ómerkt. Halli var gert að greiða sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins.

Lesa meira

1991 Skarphéðinn Ólafsson gegn Heiðari Guðbrandssyni -Meiðyrði

Heiðar Guðbrandsson krafðist ómerkingar ummæla sem birtust í dagblaðinu DV og miskabóta úr hendi Skarphéðins Ólafssonar. Ósætti hafði orðið milli Heiðars og Skarphéðins og sakaði Heiðar Sskarphéðinn um að hafa ekki haldið uppi aga, en Skarphéðinn sakaði Heiðar um að hafa lagt hendur á nemendur. Talið varð að frásagnir í DV hafi verið færðar í stílinn og væri sú framsetning á ábyrgð blaðsins. Þá var talið að samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs fæli orðtakið að leggja hendur á einhvern ekki í sér eindregna skírskotun til líkamlegs ofbeldis. Hvor hafi lýst sínum skoðunum í blaðafregnunum. Í ljósi þessa var talið að ummæli Skarphéðins hafi verið innan marka þess tjáningarfrelsis sem varið sé af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Var Skarphéðinn því sýknaður af kröfu Heiðars.

Lesa meira

1989 Ákæruvaldið gegn Halli Magnússyni - Meiðyrði

Ákæruvaldið höfðaði mál gegn Halli Magnússyni fyrir ærumeiðandi ummæli um Þóri Stephensen (Sjálfstæðisflokk), prest og staðarhaldara í Viðey. Hallur ritaði grein undir fullu nafni, sem birt var í dagblaðinu Tímanum. Sakadómur Reykjavíkur dæmdi Hall sekan og ummælin dauð og ómerk. Hæstiréttur vísaði málinu frá vegna óviðunandi málatilbúnaðars Ákæruvaldsins, og þar með er dómur í héraði felldur úr gildi.

Lesa meira

1989 Ákæruvaldið gegn Halli Magnússyni - Meiðyrði

Ákæruvaldið höfðaði mál gegn Halli Magnússyni, blaðamanni, vegna ærumeiðandi ummæla um opinberan starfsmann, Þóri Stephensen, dómkirkjuprest í Reykjavík, sem Hallur ritaði yndir fullu nafni og birtust í dagblaðinu Tímanum. Ummælin vörðuðu starf Þóris sem dómkirkjuprests og tímabundið starf hans sem staðarhaldara í Viðey. Í þessu dómsmáli er tekist á um kröfu verjanda Halls um að ríkissaksóknari víki sæti vegna ummæla sem hann lét falla um málið í tímariti, eftir að ákæra var gefin út í málinu. Kröfunni var hafnað hjá sakadómi Reykjavíkur og staðfest í Hæstarétti.

Lesa meira

1988 Útgáfufélag Þjóðviljans, Árni Bergmann og Össur Skarphéðinsson gegn Guðmundi G. Þórarinssyni - Meiðyrði

 frétt Þjóðviljans er nafn Guðmundar G. Þórarinssonar tengt fyrirtæki sem grunur var um skattsvik í. Guðmundur telur að sér vegið með þessum aðdróttunum. Árni Bergmann og Össur Skarphéðinsson (Alþýðuflokkur og Samfylking) voru ritstjórar og báru ábyrgð á efninu, en Lúðvík Geirsson, blaðamaður skrifaði greinarnar. Málinu var skotið til siðanefndar Blaðamannafélagsins sem taldi brot Lúðvíks alvarlegt. Bæjarþing Reykjavíkjur dæmdi ummælin ómerk og Árna og Össur seka í málinu. Hæstiréttur staðfestu dóminn og dæmdi til miskabóta og birtingu dóms.

Lesa meira

1986 Ákæruvaldið gegn Þorgeiri Þorgeirssyni - Meiðyrði

Hinn 7. desember 1986 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Þorgeir Þorgeirsson, rithöfund, undir fyrirsögninni, Hugum nú að. Opið bréf til Jóns Helgasonar dómsmálaráðherra. Er þar tekið fyrir til umfjöllunar svonefnt Skaftamál og í því sambandi meðal annars margvíslegt ofbeldi og meiðingar þar sem höfundur telur að lögreglumenn beiti fólk í löggæslustörfum. Í greininni krafðist hann þess að fram færi opinber rannsókn þessara mála. Þorgeir var ákærður fyrir brot gegn 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna ýmissa ummæla í greininni. Talið var að í ummælum fælust ýmis aðfróttanir eða skammaryrði og móðganir í garð ótiltekinna starfsmanna lögregluliðs Reykjavíkur og með ummælum braut Þorgeir gegn ofangreindri lagagrein. Var hann dæmdur í 10.000 kr. sekt og var vararefsing ákveðin 8 daga varðhald.

Lesa meira

1982 Ákæruvaldið gegn Jónasi Kristjánssyni - Meiðyrði

Ákæruvaldið höfðaði mál gegn Jónasi Kristjánssyni, sem var ritstjóri Dagblaðsins þegar greinarnar sem um ræðir voru birtar. Tvær greinar í blaðinu eru taldar ófægja störf lögreglunnar. Greinarnar voru auðkenndar með upphafsstöfum höfunda, sem Hæstiréttur taldi ekki nægilega auðkenningu og því var Jónas sem ritjstjóri talinn ábyrjur fyrir efninu. Ummælin vörðuðu störf lögreglunnar í Reykjavík. Sakadómur Reykjavíkur dæmdi Jónas sekan í málinu og til greiðslu sektar. Hæstiréttur staðfesti dóminn, en féll frá kröfu um birtingu dóms í Dagblaðinu.

Lesa meira

1980 Jósafat Arngrímsson    gegn Vilmundi Gylfasyni, Ríkisútvarpinu og menntamálaráðherra og fjármálaráðherra f. h, ríkissjóðs - Meiðyrði

Jósafat Arngrímsson stefndi Vilmundi Gylfasyni fyrir ummæli sem hann lét falla í sjónvarpinu og gerði kröfu um að Vilmundur, Ríkisútvarpinu og Fjármálaráðherra yrði gert að greiða fébætur. Vilmundur var stjórnandi þátta í sjónvarpinu þar sem að Jósafat taldi að Vilmundur hefði haft um sig meiðandi ummæli. Ummælin vörðuðu mál sem að Jósafat hafði verið sakfelldur fyrir. Dómur Bæjarþings Reykjavíkur dæmdi sýknu í málinu. Hæstiréttur staðfesti þann dóm, en ómerkti ummælin þar að auki.

Lesa meira

1979 Þórarinn Þórarinsson gegn Kristjáni Péturssyni og Hauki Guðmundssyni - Meiðyrði

Þórarinn Þórarinsson áfrýjaði dómi til Hæstaréttar vegna ummæla um Hauk Guðmundsson, rannsóknarlögreglumann, og Kristján Pétursson, tollstarfsmann, í grein í dagblaðinu Tímanum, þar sem Þórarinn var ritstjóri og ábyrgðarmaður. Greinin sem sem um ræðir var ekki skrifuð undir höfundarnafni og því ber Þórarinn ábyrgð á ummælunum. Ummælin fjölluðu um störf þeirra og meintar þvinganir þeirra gagnvart vitnum. Ummælin voru gerð ómerk og Þórarni gert að greiða miskabætur og málskostnað fyrir Hæstarétti.

Lesa meira

1977 Bjarni Helga, Björn Stef,Hreggviður Jóns, Jónatan Þórm, Ólafur Ingólf, Stefán Skarphéð, Unnar Stef, Þorsteinn Sæm, Þorvaldur Búa, Þór Vilhjálm, Ragnar Ingim, og Valdimar J. Magn. gegn Ragnari Arnalds - meiðyrði

Áfrýjendur eru hópur manna kenndir við Varið land, er skutu máli gegn Ragnari til hæstaréttar. Hæstiréttur staðfesti dóm Bæjarþings Reykjavíkur í málinu. Tilefni málsins voru ummæli Ragnars Arnalds, alþingismanns (Alþýðubandalagið) um Varið Land í Ríkisútvarpinu. Ummælin voru dæmd dauð og ómerk, en ummælin voru ekki talin refsiverð og því fallið frá kröfu um refsingu og greiðslu fébóta.

Lesa meira

1977 Ákæruvaldið gegn Matthíasi Johannessen, Styrmi Gunnarssyni og Sigmund Jóhannssyni - Meiðyrði

Málið fjallar um tvær myndir sem Sigmund Jóhannesson teiknaði fyrir, og voru birtar í Morgunblaðinu og auðkenndar með skírnarnafni hans. Einnig skrifaði Sigmund myndtexta við myndirnar. Þessi auðkenning telst ekki næg til að Sigmund beri ábyrgð á myndunum og er hann því sýkn. Matthías Johannesen og Styrmir Gunnarsson voru ritsjórar Morgunblaðsins og bera því ábyrgð, og er þeim gert að greiða bætur til kæranda Karl Schütz, sem umræddar myndir fjalla um. Karl Schütz var á þessum tíma ráðunautur Sakadóms Reykjavíkur og taldist því opinber starfsmaður. Einnig er þeim Mattíhasi og Styrmi gert að greiða fébætur til Karl Schütz.

Lesa meira

1977 Bjarni Helga, Björn Stef,Hreggviður Jóns, Jónatan Þórm,  Ólafur Ingólf, Stefán Skarphéð, Unnar Stef, Þorsteinn Sæm,  Þorvaldur Búa, Þór Vilhjálm, Ragnar Ingim, og Valdimar J. Magn. gegn Einari Braga Sigurðsyni - Meyðyrði

Áfrýjendur eru hópur manna kenndir við Varið land, sem skutu máli til Hæstaréttar vegna ummæla í dagblaði Þjóðviljans og kosningarblaði þess. Báðar greinarnar eru merktar höfundarnafninu Einar Braga án föðurnafns, en Hæstiréttur telur það næga nafngreiningu. Ummælin eru talin varða æru áfrýjenda, og gerð dauð og ómerk. Einari Braga er gert að greiða sekt, málskostnað og kosta britingu dóms. Dómur Bæjarþings Reykjavíkur var efnilega eins.

Lesa meira

1977 Jónatan Þórmundsson, Þór Vilhjálmssón og Ragnar Ingimarsson gegn Svavari Gestssyni og gagnsök - Meiðyrði

Jónatan Þórmundsson, Þór Vilhjálmssón og Ragnar Ingimarsson skutu máli til Hæstaréttar vegna ummæla í dagblaðinu Þjóðviljanum þar sem Svavar Gestsson er ábyrgðarmaður. Ummælin varða hópinn Varið Land, en áfrýjendurnir eru meðlimir í honum. Ummælin töldust ekki refsiverð, en voru gerð ómerk. Bæjarþing Reykjavíkur dæmdi efnislega sömu niðurstöðu.

Lesa meira

1977 Bjarni Helga, Björn Stef, Hreggviður Jóns, Jónatan Þórm,   Ólafur Ingólf,   Stefán Skarphéð, Unnar Stef, Þorsteinn Sæm, Þorvaldur Búas, Þór Vilhjál, Ragnar Ingim, Valdimar J. Magn,   gegn Svavari Gestssyni og gagnsök - Meiðyrði

Áfrýjendur skutu máli til Hæstaréttar og gerðu kröfu um að ummæli í 17 tölublöðum Þjóðviljans yrðu gerð dauð og ómerk, að Svavar Gestsson yrði dæmdur til refsingar, miskabóta og að kosta birtingu dómsins. Ummælin vörðuðu hópinn Varið land. Svavar krafðist sýknu. Svavar var ábyrgðarmaður blaðsins, en greinarnar sem um ræðir voru ekki skrifaðar undir höfundarnafni, að undanskildri einni sem var auðkennd með stöfunum ÞH, en sú auðkenning taldist ekki nægileg og Svavar því talinn ábyrgur allra ummælana. Ummælin voru gerð dauð og ómerk, Svavar dæmdur til greiðslu sektar, málskostnaðar og birtingu dómsins. Bograrþing Reykjavíkur dæmdi til efnislega sömu niðurstöðu.

Lesa meira

1977 Katrín Guðmundsdóttir gegn Jóni Sigurðssyni, Magnúsi Kristinssyni, Vilhjálmi Árnasyni og Guðrúnu Sigurðardóttur - Meiðyrði

Katrín Guðmundsdóttir, fyrrum forstöðukona Skálatúnsheimilisins, skaut máli til Hæstaréttar og krafðist þess að stefndu yrðu dæmd til refsingar, ummæli gerð dauð og ómerk og til að kosta birtingu dómsins. Stefndu Jón Sigurðsson, Magnús Kristinsson, Vilhjálmur Árnason og Guðrún Sigurðardóttir rituðu grein undir höfundarnafninu Stjórn Skálatúnsheimilisins sem birtist í dagblaðinu Vísi. Ummæli í greininni votu talin óviðurkvæmileg og gerð ómerk, en ekki þótti tilefni til refsingar eða miskabóta.

Lesa meira

1976 Bjarni Helga, Björn Stef, Hreggviður Jóns, Jónatan Þórmunds, Ólafur Ingólfs, Stefán Skarphéðins, Unnar Stefáns, Þorsteinn Sæm, Þorvaldur Búas, Þór Vilhjálms, Ragnar Ingimars og Valdimar J. Magn.,    gegn Helga Sæmundssyni - Meiðyrði

Í  Alþýðublaðinu birtust ummæli sem talin voru vera ærumeiðandi fyrir hópinn Varið Land. Stefndi er Helgi Sæmundsson, ritstjóri Alþýðublaðsins. Í dómsmáli voru tvenn ummæli ómerkt, en ekki talin varða refsingu. Sýknað var af bótakröfu og kröfu um greiðslu birtingarkostnaðar. Sýknað var af kröfu varðandi fern ummæli og málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti, en dæmt er að dóminn skyli birta í Alþýðublaðinu.

Lesa meira

1976 Gunnar Finnbogason gegn Skúla. Benediktssyni og Árvakri h/f og Skúli Benediktsson gegn Gunnari Finnbogasyni - Meiðyrði

Í Morgunblaðinu birtust tvær greinar eftir Skúla Benediktsson undir fullu nafni. Gunnar Finnabogason telur þessar greinar ærumeiðandi gagnvart sér. Farið er fram á að útgáfufélag Morgunblaðsins, Árvakur h/f, birti dóminn. Bæjarþing Reykjavíkur taldi ummælin ærumeiðandi og dæmdi Skúla sýknan af refsi- og fébótakröfu, en ummæli hans um Gunnar dauð og ómerk. Hæstiréttur vísaði málinu frá hvað útgáfufélagið Árvak varðar, Skúla sekan og til greiðslu sektar auk þess að ummælin voru gerð dauð og ómer.

Lesa meira

1976 Jónatan Þórmundsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þór Vilhjálmsson og Ragnar Ingimarsson gegn Gesti Guðmundssyni - Meiðyrði

Fjórir háskólakennarar úr þeim hópi sem forgöngu höfðu árið 1974 um undirskriftasöfnunina undir kjörorðinu Varið land stefndu Gesti Guðmundssyni fyrir ummæli í tveimur greinum í Stúdentablaðinu. Gestur var þá tilgreindur ritstjóri þess. Ummælin voru ómerkt. Gestur var sektaður um 10.000 kr. Vegna ummæla, sýknað var af miskabótakröfu (sératkvæði), en Gesti gert að greiða 25.000 kr. til að kosta birtingu dóms. Þá var dæmt, að dóminn skyldi birta í S-blaði og Gesti gert að greiða alls 80.000 kr. í málskostnað.

Lesa meira

1976 Jónatan Þórmundsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þór Vilhjálmsson og Ragnar Ingimarsson gegn Rúnari Ármanni Arthúrssyni - Meiðyrði

Fjórir háskólakennarar úr þeim hópi sem forgöngu höfðu árið 1974 um undirskriftasöfnunina undir kjörorðinu Varið land stefndu Rúnari Ármanni Artúrssyni fyrir ummæli í tveim greinum í Stúdentablaðinu og bréfi Rúnars til háskólarektors. Nokkur af ummælunum voru ómerkt. Felld var niður refsing þar sem hegningarauki kæmi einn til greina, en refsing hefði ekki orðið þyngri þótt sum ummælin hefði verið dæmt í máli, sem áður var til lykta leitt og háskólakennararnir höfðuðu ásamt fleiri mönnum. Sýknað var af miskabótakröfu en Rúnar dæmdur til að greiða 25.000 kr. til að kosta birtingu dóms og 75.000 kr. í málskostnað. Einnig segir í dómnum að hann skuli birta í Stúdentablaðinu.

Lesa meira

1976 Bjarni Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson o.fl gegn Rúnari Ármanni Arthúrssyni - Meiðyrði

Í Stúdentablaðinu birtist 1974 grein eftir ritstjóra þess, Rúnar Ármann Artúrsson, um undirskriftasöfnun Varins lands. Af 14 forgöngumönnum söfnunarinnar höfðuðu 12 mál gegn Rúnari vegna ummæla sem tilgreind voru í 9 líðum. Öll ummælin voru ómerkt og RÚnar var sektaður um 25.000 kr. Til að kosta dómsbirtingu, dæmt var að birta skyldi dóminn í blaðinu og Rúnar dæmdur til að greiða alls 100.000 kr. í málskostnað.

Lesa meira

1976 Garðar Viborg gegn Bjarna Helgasyni, Birni Stefánssyni,  Hreggviði Jónssyni, Jónatan Þórmundssýni og fleirum og gagnsök. Meiðyrði

Garðar Víborg skaut máli til Hæstaréttar vegna dóms Bæjarþings Reykjavíkur sem hann hlaut fyrir ummæli í blaðinu Nýju Landi þar sem hann var ábyrgðarmaður. Málið varðar ummæli um hópinn Varið land og greinarskrif þeirra. Blaðið birti grein sem útdrátt úr ræðu Ingu Birnu Jónsdóttur.  Garðar var því ekki talinn ábyrgur fyrir ummælunum. Einnig er um að ræða fréttagrein sem birtist einnig í Nýju landi, en hún er fréttatilkynning frá framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins. Dómurinn skal birtur í fyrsta eða öðru tölublaði Nýs Lands. Ummælin voru dæmd ómerk, en ekki var dæmd refsing eða fébætur.

Lesa meira

1976 Grétar Guðni Guðmundsson gegn Sigurjóni Ragnarssyni, Þorvaldi Guðmundssyni,    Erling Aspelund og Jóni Hjaltasyni - Meiðyrði

Grétar Guðni Guðmundsson, framreiðslumaður, skaut máli til Hæstaréttar vegna ummæla stjórnarmanna Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda, Sigurjóns Ragnarssons, Þorvalds Guðmundssons, Erlings Aspelund og Jóns Hjaltasons í greinagerð sem afhent var fréttamönnum á blaðamannafundi. Krafist var refsingar samkvæmt 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara 235 gr. eða 234 gr. Einnig var krafist ómerkingar ummæla sem fram komu í greinagerðinni. Hæstiréttur staðfesti dóm Bæjarþings Reykjavíkur sem kvað á um sýknu stefndu, Sigurjóns, Þorvalds, Erlings og Jóns.

Lesa meira

1975 Bjarni Helga, Björn Stef, Hreggviður Jóns, Jónatan Þórmunds, Ólafur Ingólfs, Stefán Skarphéðins, Unnar Stef, Þorsteinn Sæm, Þorvaldur Búa, Þór Vilhjálms, Ragnar Ingimars, og Valdimar J. Mag. gegn Degi Þorleifssyni en til vara Svavari Gests

Í Þjóðviljanum birtust greinar eftir Dag Þorleifsson sem auðkenndar voru með upphafsstöfum hans, en Svavar Gestsson var þá ritstjóri blaðsins. Svavar var talinn ábyrgur ummælunum vegna þess að auðkenning Dags var ekki talin nægjanleg. Greinarnar sem stefnt er út af vörðuðu hópinn Varið land. Í þeim kemur fram að forgangsmenn söfunarinnar hafi reynt að fá ólögráða og vanheila til að skrifa undir söfnunina, sem og fólk í munnlegu umboði annara. Öll ummælin voru ómerkt og talin mjög meiðandi. Svavar var dæmdur til sektar og til greiðslu miskabóta.

Lesa meira

1975 Bjarni Helga,  Björn Stef, Hreggviður Jóns, Jónatan Þórmunds, Ólafur Ingólfs, Stefán Skarphéðins, Unnar Stef, Þorsteinn Sæm, Þorvaldur Búa, Þór Vilhjálms,   Ragnar Ingimars, og Valdimar J. Mag. gegn Úlfari Þormóðssyni aðallega, en til vara Sv

Úlfar Þormóðsson ritaði greinar í Þjóðviljann um hópinn Varið land. Greinarnar voru auðkenndar með skammstöfun hans og dómurinn taldi það ekki næga auðkenningu þannig að ritstjóri blaðsins, Svavar Gestsson ber ábyrgð á ummælunum. 12 forgangsmenn undirskriftasöfnunar fyrir Varið Land höfðuðu mál vegna þessara greina. Með ummælunum er hópurinn tengdur við bandarískt hneykslismál. Nokkur ummælanna voru ómerkt, Svavar var dæmdur til sektar, en sýknaður af miskabótakröfu.

Lesa meira

1975 Bjarni Helgas., Björn Stefáns., Hreggviður Jóns., Jónatan Þórmunds., Ólafur Ingólfs,, Stefán Skarphéðins., Unnar Stefáns., Þorsteinn Sæmunds., Þorvaldur Búas., Þór Vilhjálms., Ragnar Ingimars. og Valdimar J. Magnús.  gegn Guðsteini Þengilssyni

12 einstaklingar í sem staðið höfðu fyrir undirskriftasöfnun fyrir Varið Land höfðuðu mál gegn Guðsteini Þengilssyni vegna ummæla í blaðnu Þjóðviljanum, en Guðseinn er tilgreindur höfundur greinarinnar með fullu nafni. Í greininni er ýjað að því að hópurinn hafi hagsmunatengsl af því að Ísland yrði hersetið áfram og fleira því tengt. Ummælin voru gerð ómerk og Guðsteini gert að greiða sekt.

Lesa meira

1974 Sveinn Benediktsson gegn Agnari Bogasyni og gagnsök - Meiðyrði

Sveinn Benedikstsson, stjórnarformaður Sílarverksmiðju Ríkissins, höfðaði mál vegna ummæla um hann í nafnlausri grein í Mánudagsblaðinu (hægrisinnað vikublað) þar sem Agnar Bogason var tilgreinsdur sem ritstjóri og ábyrgðarmaður. Greinin fjallar um kaup á skipi fyrir Síldaverksmiðju Ríkissins, og ýjað að því að Sveinn hafi kosið að kaupa gallað skip í stað góðra, þar sem að hann fekk sölulaun fyrir. Í kjöfar birtingu greinarinnar í Mánudagsblaðinu svaraði Sveinn henni í Morgunblaðinu með nokkuð meiðandi ummælum í garð Agnars. Agnar var dæmdur til sektar og ummælin gerð ómerk.

Lesa meira

1967 Magnús Thorlacius  gegn  Einari Braga Sigurðssyni - Meiðyrði

Í meiðyrðamáli, er lögmaðurinn Magnús Thorlacius höfðaði gegn ritsjóranum Einari Braga Sigurðssyni, lagði Einar fram greinagerð, þar sem sveigt var mjög að Magnúsi. Síðan birti hann greinagerðina í blaðinu Frjálsri Þjóð, er hann ritstýrði. Dæmt var, að ummælin væru meiðandi fyrir Magnús, en ekki hefði verið næg ástæða til að refsa Einari fyrir þau meðan einungis var um að ræða refsinæmi þeirra í varnarskjali fyrir dómi. Hins vegar varðaði birting ummælana í vikublaðinu Frjálsri Þjóð refsingu samkvæmt 135. gr. almennra hegingarlaga. Við ákvörðun refsingar var þess gætt að Magnús hafði haft nokkur harðyrði um Einar Braga í málsskjölum. Ummælin vou ómerkt. Þá var Einari dæmt skylt að sjá svo til að birtar væru forsendur og dómsorð í málinu í blaðinu Frjálsri Þjóð.

Lesa meira

1966 Ívar H. Jónsson gegn   Sigurgeiri Jónssyni - Meiðyrði

Í dagblaðinu Þjóðviljanum birtust ummæli, sem fólu í sér aðdróttun um, að bæjarfógetinn í Kópavogi, Sigurgeir Jónsson, hefði gerst sekur um valdníðslu. Sigurgeir stefndi út af þessum ummælum. Höfundur fréttagreinarinnar, sem hin umstefndu ummæli birtust í, var ekki nafngreindur. Ívar H. Jónsson sem ábyrgðarmaður dagblaðsins bar refsi- og fébótaábyrgð á efni greinarinnar. Firrti það Í ekki ábyrgð, þótt ummælin væru höfð eftir tilteknum manni á almennum blaðamannafundi, sem sá maður boðaði til. Birting ummælanna vörðuðu við 235. gr. almennra hegningarlaga. Greinin fjallaði um blaðamannafund sem Þórður Þorsteinsson boðaði til, eftir að Sigurgeir lokaði verslun hans á páskadag. Var refsing Ívars ákveðin kr. 1500 sekt í ríkisstjóð (vararefsing í þrjá daga). Enn fremur voru ummælin ómerkt. Þá var Ívar dæmdur til að greiða Sigurgeiri fébætur að fjárhæð 5000 kr. Í hérðasdómi var Ívar skyldaður til að birta forsendur og niðurstöðu dómsins í 1. eða 2. tölublaði Þjóðviljans, sem út kæmi á eftir lögbirtingu dómsins. Ekki var gerð krafa um birtingu dóms Hæstaréttar.

Lesa meira

1966 Einar Bragi Sigurðsson, Kristján Jóhannesson, Sigurjón Þorbergsson, Stefán Pálsson og Haraldur Henrysson gegn Lárusi Jóhannessyni og gagnsök - Meiðyrði

Lárus Jóhannesson, fyrverandi hæstaréttardómari og alþingismaður Sjálfstæðisflokks, höfðaði mál út af ummælum, sem birtust í vikublaðinu Frjálsri þjóð. Málið var höfðað gegn Einari Braga Sigurðssyni, ábyrgðarmanni ásamt útgefendum, þeim Kristjáni Jóhannessyni, Sigurjóni Þorbregssyni og Haraldri Henryssini. Ummælin vörðuðu viðskipti Lárusar, sonar hans og þriðja manns, en sagt var frá viðskiptum þeirra við Búnaðarbankann í greininni sem um ræðir. Lárus taldi ummælin hafa verið svo meiðandi fyrir sig að hann hafi þurft að segja af sér sem hæstaréttardómari. Dómurinn taldi fjölmörg ummælana voru meiðandi og móðgandi fyrir Lárus og vörðuðu við Almenn hegningarlög. Einar Bragi, ábyrgðarmaður blaðsins, bar ábyrgð á ummælunum. Var Einari gert að greiða Lárusi fébætur að fjárhæð kr. 40.000. Við úrlausn krafna um fébætur var höfð í huga forsaga blaðaskrifa þeirra, sem málið reif af, og að ekki var viðeigandi eins og á stóð, að Lárus stofnaði til ákveðinna bankaviðskipta. Einnig var þess gætt á hinn bóginn, að veist var harkalega að Lárusi með margendurteknum stóryrðum.

Lesa meira

1966 Ólöf Guðmundsdóttir, Guðrún Sigurðardóttir, Agnes Sigurðardóttir, Þórður Sigurðsson, Leifur Sigurðsson, Karl Sigurðsson,Rafn Sigurðsson,  Ástheiður Sveinsdóttir fyrir hönd sna og ófjárráða dætra sinna,   Helgu Jónu Ólafsdóttur, Ólafar Eddu ólafsdó

Útgáfufyrirtækið Setberg h/f gaf út bókina "Hin Hvítu Segl" sem voru æviminningar Andrésar Péturssonar Matthíassonar og Jóhannes Helgi var sagnamaður. Talið var að í bók þessari væru niðrandi ummæli um Sigurð Hallbjarnarson, sem látin var fyrir mörgum árum. Ekkja Sigurðar, svo og börn hans, höfðuðu þá mál gegn þeim Andrési og Jóhannesi, svo og útgefendum bókarinnar Setbergi og Arnbirni Kristinsson og Sigurði Kristinsson, og kröfðust refsingar vegna ummælanna, ómerkingar og fébóta. Meðan málið var rekið í héraði andaðist einn stefnenda, sonur Sigurðar. Var því þá lýst yfir að ekkja hans og ófjárráða dætur gengju inn í málið í hans stað, að öðru leiti en því, er varðaði aðild að refsikröfu. Dæmt var, að ekkjan fyrir sína hönd og ófjárráða barna sinna ætti ekki aðild máls þessa. Á það var fallist að ummælin í bókinni væru niðrandi fyrir minningu Sigurðar heitins. Var því þeim Andrési og Jóhannesi, svo og útgefendum Arnbirni og Sigurjóni, dæmd refsing. Þá voru ummæli ómerkt. Hins vegar var sýknað um kröfu um fégjald.

Lesa meira

1965 Magnús Thorlacius gegn Einari Braga Sigurðssyni og gagnsök - Meiðyrði

Magnús Thorlacius, lögmaður skaut málinu til Hæstaréttar vegna ummæla í blaðinu Frjálsri Þjóð sem að Einar Bragi Sigurðsson ritstýrði. Í grein í blaðinu voru ummæli sem Magnús taldi meiðandi gagnvart sér, en þar var fjallað um lögfræðinga almennt og sérstaklega mál sem hann hafði rakið, og ýjað að því að hann hefði féflett skjólstæðing sinn. Dómurinn gerði ummælin dauð og ómerk og Einar til greiðslu sektar.

Lesa meira

1962 Einar Olgeirsson gegn  Eyjólfi Konráði Jónssyni og gagnsök - Meiðyrði

Eyjólfur Konráð Jónsson, ritstjóri Morgunblaðsins höfðaði mál gegn Einari Olgeirssyni (Kommúnistaflokkurinn, Sósíalostaflokkurinn og Alþýðubandalagið), alþingismanni vegna ummæla í Þjóðviljanum, og krafðist þess að tiltekin ummæli yrðu dæmd ómerk og Einari dæmd refsing fyrir, ásamt fébótum til að standa skil á birtingu dóms og miskabóta. Í greininni var gefið í skyn að Morgunblaðið hvetti til orbeldisárása og skrifi gegn kommúnismanum, Eyjólfi líkt við Gobbels og fleira. Hæstiréttur staðfesti úrskurð Bæjarþings Reykjavíkur um ómerkingu ummælana með vísan til þess að þau væri mjög meiðandi fyrir Eyjólf. Einari var dæmt að greiða sekt, miskabætur og málskostnað.

Lesa meira

1957 Hafþór Guðmundsson gegn Agnari Bogasyni - Meiðyrði

Hafþór Guðmundsson, lögfræðingur, höfðaði mál gegn Agnari Bogasyni, ritstjóra Mánudagsblaðsins, vegna ummæla í Mánudagsblaðinu er vörðuðu starfshætti Hafþórs sem lögfræðings. Ummælin voru ómerkt og Agnar dæmdur til greiðslu bóta og birtingarkostnaðs.

Lesa meira

1957 Magnús Kjartansson gegn Ingvari S. Ingvarssyni og gagnsök. - Meiðyrði

Ingvar Ingvarsson, framkvæmdastjóri Glersteypunnar, höfðaði mál gegn Magnúsi Kjartanssyni, ritstjóra, vegna ummæla í greinum í Þjóðviljanum. Greinarnar fjölluðu um fjárhagsörðugleika og vanefndir Glersteypunnar til starfsmanna sinna. Ummælin voru ómerkt, og Magnús dæmdur til sektar og greiðslu miskabóta til Ingvars.

Lesa meira

1955 Ragnar Jónsson og Tómas Guðmundsson gegn Guðlaugi Rósinkranz og gagnsök - Meiðyrði

Guðlaugur Rósin­kranz þjóðleikhússtjóri, kenndur við Samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn, höfðaði málið vegna ummæla í grein í tímaritinu Helgafell, en Ragnar Jónsson (Ragnar í Smára) og Tómas Guðmundsson eru ritstjórar tímaritsins. Greinin var rituð undir dulnefni og í henni var ýjað að vanhæfni Guðlaugs til að gegna embætti Þjóðleikhússtjóra sem hann hafði nýlaga verið settur í. Ummælin voru ómerkt, stefndu gerð refsing og gert skylt að birta niðurstöður dómsins.

Lesa meira

1953 Jón Antonsson gegn Braga Sigurjónssyni - Meiðyrði

Jón Antonsson, kaupmaður, höfðaði mál gegn Braga Sigurjónssyni, ristjóra Alþýðumannsins og ráðherra Alþýðuflokksins, þar sem hann krafðist þess að tiltekin ummæli í vikublaðinu Alþýðumaðurinn yrðu dæmd dauð og ómerk. Ummælin varða Jón og störf hans sem leigusala. Farið var fram á frávísun á gagnsök í málinu en því var hafnað í úrskurði bæjarþings Akureyrar og staðfest í Hæstarétti. Því er ekki tekin efnisleg niðurstaða til málsins á þessu stigi.

Lesa meira

1950 Ólafur Pétursson gegn Sigurði Guðmundssyni og gagnsök. Meiðyrði

Ólafur Pétursson, íslenskur samstarfsmaður nasista á tíma seinni heimstyrjaldarinnar, höfðaði mál gegn Sigurði Guðmundssyni, ritstjóra blaðsins Þjóðviljans vegna ummæla í 5 tölublöðum þess sem hann taldi hafa verið sett fram á ótilhlýðilegan hátt og varða við hegningalög. Héraðsdómur tók ekki til skoðunar einstök ummæli og það þótti nægur ágalli á málsmeðferð til þess að dómur hérðasdóms var ómerktur og sendur aftur til málsmeðferðar, en í héraði hafði Sigurður verðið dæmdur sekur og ummælin ómerkt. Ummælin vörðuðu fortíð Ólafs í Noregi.

Lesa meira

1950 Guðbrandur Ísberg gegn Guðjóni Hallgrímssyni  og gagnsök Meiðyrði

Guðjón Hallgrímsson, bóndi, höfðaði mál gegn Guðbrandi Ísberg sýslumanni á Blönduósi. Stefnt er fyrir ummæli í dagblaðinu Tímanum og í gagnsök er stefnt fyrir ummæli í einkabréfi. Ummælin í Tímanum eru í grein eftitr Guðjón þar sem hann fer yfir samskipti sín sem skattanefndarmaður við sýslumanninn Guðbrand. Ummælin voru dæmd dauð og ómerk og Guðbrandur og Guðjón til greiðslu sektar, enda ummælin refsiverð.

Lesa meira

1934 Ólafur Thors gegn Einari Magnússyni og gagnsök Meiðyrði

Ólafur Thors, alþingismaður sjálfstæðisflokksins, höfðaði mál gegn Einari Magnússyni, ábyrgðarmanni Alþýðublaðsins, vegna ummæla í Alþýðublaðinu, sem birtust í óundirrtaðri grein.  Ummælin vörðuðu Norska samninginn, samning um síldarkaup. Er þar vegið að Ólafi Thors sem er einn eigandi og framkvæmdastjóri Kveldúlfs, en hann gerði samninginn sem um ræðir. Ummælin voru gerð ómerk og Einar dæmdur til greiðslu sektar.

Lesa meira

1932 Felix Guðmundsson gegn Guðmundi Hannessyni og gagnsök

Guðmundur Hannesson, alþingismaður sjálfstæðisflokks, höfðaði mál gegn Felix Guðmundssyni, vegna ummæla í grein í blaðinu Sókn, sem Felix er ábyrgðarmaður fyrir. Í greininni er ýjað að þvi að Gunnar taki fé fyrir að skrifa lognar greinar í Morgunblaðið og fái laun frá vínsölum fyrir. Ummælin voru ómerkt og Felix gert að greiða sekt fyrir.

Lesa meira

1931 Ólafur Thors gegn Gísla Guðmundssyni Meiðyrði

Málið er höfðað af Ólafi Thors, alþingismanni Sjálfstæðisflokks gegn ritstjóra Tímans, Gísla Guðmundssyni lögfræðings vegna ummæla í grein í Tímanum undir dulmerkjum. Ummælin varða stjórnmálaskoðanir og þar er Ólafur meðal annars taldur upp sem einn svæsnustu andstæðinga Framsóknarflokksins. Ummælin voru gerð dauð og ómerkt, enda talin meiðandi fyrir Ólaf, og Gísli dæmdur til greiðslu sektar.

Lesa meira

1926 Tryggvi Þórhallsson gegn Garðari Gíslasyni Meiðyrði

Garðar Gíslason, Stórkaupmaður skaut málinu til Hæstaréttar vegna ummæla í blaðinu Tímanum, sem Tryggvi Þórhalsson var ritstjóri að á þeim tíma. Greinarnar voru þónokkrar og ýmist nafnlausar eða merktar með dulnefnum þannig að ritstjórinn var talinn bera ábyrgð á innihaldi þeirra. Hluti ummæla sem stefnt var vegna, voru orðin fyrnd þegar málið var höfðað. Ummælin sem stefnt var vegna vörðuðu viðskiptahætti Garðars, og ýjað að því að þeir væru ekki heiðarlegir. Ummælin voru dæmd dauð og ómerk og Tryggvi til greiðslu sektar ásamt fébóta.

Lesa meira

1926 Sigurður Briem gegn Tryggva Þórhallssyni

Málinu er skotið til Hæstaréttar vegna ummæla í nokkrum tölublaða Tímans um Sigurð Briem, aðalpóstmeistara og áfrýjanda. Sigurður telur ummælin hafa vegið að æru sinni og heiðri. Tryggvi Þórhallsson var á þessum tíma ritstjóri Tímans, en síðar varð hann forsætisráðherra Framsóknarfloksins. Ummælin varða ákveðin mál á Alþingi sem Sigurður var hluthafi að sem aðalpóstmeistari. Dæmt var að ummælin skyldu vera dauð og marklaus, og Tryggvi til greiðslu sektar.

Lesa meira

1925 Helgi Sveinsson gegn Sigurði Kristjánssyni og gagnsök - Meiðyrði

Aðaláfrýjandi, Helgi Sveinsson, fyrverandi útibússtjóri Íslandsbanka á Ísafirði skaut málinu til Hæstaréttar vegna ummæla í blaðinu Vesturlandi þar sem að Sigurður Kristjánsson, stefndi, er ritstjóri. Krafðist hann að ummæli yrðu gerð ómerk, að Sigurði yrði gerð refsing og gert að greiða fébætur sér til handa. Ummælin varða störf Helga sem útibússtjóra og viðskiptahætti hans. Ummælin sem kært var út af voru dæmt dauð og marklaus og Sigurð til greiðslu sektar.

Lesa meira

Mál 22/1922 Ólafur Friðriksson gegn stjórn Íslandsbanka - Meiðyrði

 Stjórn Íslandsbanka hefur lögsótt ritstjóra Alþýðublaðsins, Ólaf Friðriksson með 5 sérstökum málum til sekta fyrir meiðyrði og til skaðabóta fyrir álitsspjöll í 5 sjálfstæðum greinum og hafði Ó verið sektaður í  öllum málunum fyrir meiðyrði og þau ómerkt, en dæmdur í einu í lagi í 1. málinu til skaðabóta fyrir allar greinarnar. Hæstiréttur staðfesti síðastnefndan dóm, en einum var þangað skotið.

Lesa meira

59/1924 Samband íslenskra samvinnufjelaga gegn Birni Kristjánssyni og gagnsök. Meiðyrði (sýkna)

 Málinu var skotið til Hæstaréttar af báðum málsaðilum, Sambandi Íslenskra samvinnufélaga og Birni Kristjánssyni, ristjóra blaðsins Verslunarólagið. Meiðandi ummæli voru höfð í blaðinu Verslunarólaginu um ónafngreinda starfsmenn sambandsins. Sum ummælanna voru ómerkt og sýknað af skaðabótakröfu.

 

Lesa meira