2012 Ægir Geirdal Gíslason gegn Steingrími Sævari Ólafssyni
Ægir Geirdal Gíslason, listamaður, höfðaði mál gegn Steingrími Sævari Ólafssyni, ritstjóra Pressunar, vegna umfjöllunar um hann sem birt var á vefmiðlinum www.pressan.is, í kjölfar þess að Ægir bauð sig fram til stjórnlagaþings. Krafðist Ægir þess að tiltekin ummæli yrðu ómerkt og Steingrími gert að greiða honum miskabætur auk kostnaðar við birtingu dóms í einu dagblaði. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. fallist á að þeir sem gæfu kost á sér til trúnaðarstarfa í þágu almennings yrðu að þola umfjöllun á opinberum vettvangi sem snerti hæfni þeirra og eiginleika og hvort þeir væru traustsins verðir. Það gæti hins vegar ekki réttlætt að Ægi væri borin á brýn sú refsiverða háttsemi sem fram hefði komið hjá netmiðlinum. Hefði Ægir hvorki verið fundinn sekur um þá háttsemi sem hann var sakaður um né sætt rannsókn lögreglu af slíku tilefni. Var fallist á að ómerkja hluta þeirra ummæla sem viðhöfð höfðu verið og Ægir krafðist ómerkingar á. Ein ummælana voru birt eftir gildistöku laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og var Steingrímur ekki talinn bera ábyrgð á þeim þar sem þau voru réttilega höfð eftir nafngreindum einstaklingum, sbr. a. lið 1. mgr. 51. gr. laganna. Þá var Steingrími gert að greiða Æ 200.000 krónur í miskabætur.