Fréttir

Vinningshafarnir í fyrra, Páll Steingrímsson og Vigdís Finnbogadóttir ásamt Siguði inga Jóhannssyni …

Tilnefninarfrestur til umhverfisverðlauna til 18. ágúst

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir tilnefningum til tvennra verðlauna sem afhent verða á Degi íslenskrar náttúru, 16. september næstkomandi. Annars vegar er um að ræða Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hins vegar Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.Tilnefningar vegna verðlaunanna skulu berast fyrir 18. ágúst 2014  Fjölmiðlaverðlaunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana og vernda til framtíðar. Verðlaunin verða veitt fjölmiðli, ritstjórn, blaða- eða fréttamanni, dagskrárgerðarfólki eða ljósmyndara sem hafa skarað fram úr með umfjöllun sinni um íslenska náttúru. Til greina koma einstök verkefni eða heildarumfjöllun um íslenska náttúru Á síðasta ári  féll Páll Steingrímsson, kvikmyndagerðarmaður þessi verðlaun en við sama tækifæri var  Vigdísi Finnbogadóttur veitt Náttúruverndarviðurkenning  Sigríðar í Brattholti. Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali Páls sagði:  „Heimildamyndir Páls Steingrímssonar skipta mörgum tugum frá Vestmannaeyjagosinu 1973 og fram á þennan dag. Megináhersla hans hefur verið á náttúrulífsmyndir, svo sem fuglasögurnar sem hann hefur fengist við hin síðustu ár, og áhrif manna á umhverfið. Starf Páls að fræðslu og vernd íslenskrar náttúru er langt og farsælt og hefur borið hróður hans og landsins um heimsbyggðina. Páll hefur enda hlotið viðurkenningar bæði hér á landi og erlendis fyrir störf sín, m.a. heiðursverðlaun Eddu.“ Sjá einnig hér  
Lesa meira
Sótt að fjölmiðlum: staðan í Austur - Evrópu og Rússlandi

Sótt að fjölmiðlum: staðan í Austur - Evrópu og Rússlandi

 Blaðamenn í Austur - Evrópu og Rússlandi, þeim ríkjum sem áður tilheyrðu Sovét-blokkinni, búa í dag víða við mjög erfiðar aðstæður þar sem ritskoðun af ýmsu tagi er áberandi og iðulega framkvæmd með mjög „fáguðum“ hætti, en líka með mjög grófum og augljósum aðferðum.  Öfgakennd ofbeldisverk  s.s. líkamlegar árásir eða beinlínis manndráp eru aðeins toppurinn á ísjakanum í þessum efnum.  Þúsundir fjölmiðlamanna standa daglega frammi fyrir þrýstingi, lögsóknum, hótunum, fangelsunum,  ástæðulausum uppsögnum eða öðrum aðferðum til ritskoðunar þegar þeir sinna vinnu sinni í þessum ríkjum. Þetta kemur fram í nýrri samantekt sem IFJ hefur gert í samvinnu veið blaðamannafélög á svæðinu og birt er í skýrslu sem heitir „Media Under Attack: Balkans and Former Soviet Union Press Freedom Review, January 2011- December 2013“. Þar er farið yfir stöðuna í einstökum löndum og á svæðinu í heild. Sjá skýrsluna hér  
Lesa meira
Blaðamennska á Íslandi er lífstíll

Blaðamennska á Íslandi er lífstíll

Blaðamenn á Íslandi virðast sætta sig við mikið álag og lág laun meðal annars vega þess að þeim þykir starfið skemmtilegt, spennandi og fjölbreytt. Þeir líta á það sem lífsstíl og eiga því erfitt með að samræma vinnu og einkalíf og missa því gjarnan af gæðastundum með vinum og fjölskyldu. Þetta má lesa út úr niðurstöðum úr viðtalsrannsókn Svanhvítar Ljósbjargar Guðmundsdóttur  sem hún gerði sem lokaverkefni í meistaranámi sínu í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands.  Hún byggði á viðtölum við starfandi og fyrrverandi blaðamenn sem greindu frá reynslu sinni og viðhorfum. Ritgerðina í heild má sjá hér, en úrdráttur Svanhvítar Ljósbjargar er svohljóðandi:  Það er eitthvað heillandi við blaðamennskuna og hún hefur löngum þótt vera áhugavert starf. Þrátt fyrir að blaðamenn séu almennt ánægðir í starfi eru hins vegar margir þeirra sem kjósa að hætta störfum og sérstaklega virðist það eiga við um konur, þrátt fyrir að meiri líkur séu á að þær hafi menntað sig í faginu. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða aðstöðu blaðamanna á Íslandi, álag í starfi, starfsaldur, vinnustaðamenningu og kynjamismunun og þá með sérstakri áherslu á konur og af hverju þær virðast eiga styttri starfsaldur á fjölmiðlum en karlar. Til að skoða þetta voru settar fram þrjár rannsóknarspurningar: 1. Hvaða starfstengdu þættir móta helst að blaðamenn séu ánægðir í starfi? 2. Hvers vegna eiga konur styttri starfsaldur á fjölmiðlum en karlar? 3. Hvaða áhrif hefur starf blaðamannsins á samræmingu vinnu og einkalífs? Til að fá svör við þessum spurningum og fleirum var notuð eigindleg aðferðafræði. Tekin voru hálfopin viðtöl við tólf einstaklinga, karla og konur, sem starfa sem blaðamenn eða höfðu áður starfað sem blaðamenn. Notast var við snjóboltaúrtak við framkvæmd rannsóknarinnar. Auk þess var safnað saman upplýsingum um fjölda og kynjahlutfall útskrifaðra nema úr fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar sem og upplýsingum um fjölda blaðamanna og kynjahlutfall í Blaðamannafélagi Íslands. Að endingu fékkst tölfræði um fjölda blaðamanna, kynjahlutfall, aldur og starfsaldur frá fjórum íslenskum prent- og vefmiðlum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þeir blaðamenn sem rætt var við voru almennt mjög sáttir í störfum sínum. Þeim fannst starfið skemmtilegt, spennandi og fjölbreytt ásamt því að vera samfélagslega mikilvægt. Gallar starfsins voru hins vegar þeir að álagið var gríðarlega mikið, á köflum svo mikið að það ógnar heilsu einstaklinganna, og launin voru of lág. Þrátt fyrir gallana upplifðu blaðamenn starf sitt sem nokkurs konar lífsstíl sem fylgir þeim alltaf enda eru þeir alltaf vakandi fyrir fréttum. Að hluta til vegna þess að blaðamennskan verður nokkurs konar lífstíll viðurkenndu flestir viðmælendurnir að þeir ættu erfitt með að samræma vinnu og einkalíf og að þeir misstu reglulega af gæðastundum með vinum og fjölskyldu. Það virðist vera fórnarkostnaður sem margir eru tilbúnir að sætta sig við enda upplifðu viðmælendurnir sem það væri í raun bara hluti af starfinu. Eins gefa niðurstöður rannsóknarinnar það til kynna að umhverfi fjölmiðlanna sé almennt erfitt og krefjandi, fyrir bæði konur og karla. Hins vegar er það enn erfiðara fyrir konur því ofan á þessa galla blaðamennskunnar þurfa konur frekar að berjast fyrir sinni stöðu á fjölmiðlum. Þær fá frekar mál sem njóta ekki virðingar og það þarf mikla baráttu til að þær fái „stóru málin“. Eins gátu margar konurnar nefnt eitt eða jafnvel tvö dæmi um kynjamismunun og í sumum tilvikum hafði það greinilega haft mikil áhrif á þær. Rannsóknir sýna að konur sjá ennþá um meirihluta barnauppeldis og heimilisstarfa og þegar því er bætt við baráttuna sem þær þurfa að heyja til að fá sanngjörn tækifæri í vinnunni skýrir það líklega hvers vegna margar þeirra velja að hætta í blaðamennsku.  
Lesa meira
Fordæma fangelsisdóma

Fordæma fangelsisdóma

Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) er meðal þeirra fjölda mörgu sem hafa fordæmt dóma yfir blaðamönnum Al Jazeera í Kaíró í Egyptalandi í gær. Sambandið hefur skorað á stjórnvöld í Egyptalandi að grípa inn í málið og láta blaðamennina þrjá lausa enda hafi þeir verið sakfelldir fyrir það að vinna vinnuna sína.  Sjá meira hér Og fréttir hér og  hér  
Lesa meira
Fleiri afbrot, minni umfjöllun - færri afbrot, meiri umfjöllun?!

Fleiri afbrot, minni umfjöllun - færri afbrot, meiri umfjöllun?!

Vísbendingar eru um að umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um afbrot hafi aukist þegar afbrotum fækkaði en að það hafi hins vegar dregið úr henni þegar hegningalagabrotum fjölgaði. Þetta kemur fram í nýrri meistararitgerð Jóns Heiðars Gunnarssonar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Jón Heiðar skoðaði gögn frá Creditinfo  um fréttir af afbrotum á árunum 2006 - 2013  og bar það saman við hegningalagabrot á landsvísu fyrir sama tímabil.  Hér má sjá ritgerðina í heild sinni, en útdráttur Jóns Heiðars hljóðar svona:Viðfangsefni þessarar rannsóknar og ritgerðar er að kanna sambandið á milli fjölmiðla og afbrota, auk þess sem leitast er við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningu: „Eru rökrétt tengsl á milli afbrotatíðni og umfjöllunar fjölmiðla á Íslandi?“ Til að svara þessari spurningu var notast við megindlega rannsóknaraðferð þar sem fréttir af afbrotum á árunum 2006 – 2013 voru skoðaðar ásamt því að afmörkuð tímabil voru greind niður á kerfisbundinn hátt. Notast var við gagnagrunn Creditinfo til að nálgast fréttir frá fyrrnefndu tímabili. Markmiðið er að auka skilning á umfjöllun fjölmiðla um afbrot og skoða hvað megi fara betur í meðferð íslenskra fréttamanna á viðfangsefninu. Niðurstöður komu á óvart því þær sýna fram á að neikvætt rökrétt samband er á milli afbrotatíðni og umfjöllunar fjölmiðla um afbrot þ.e. það ríkir andhverfusamband þarna á milli. Rannsóknin leiddi í ljós að á rannsóknartímabilinu dregur úr umfjöllun fjölmiðla um afbrot þegar hegningarlagabrotum fjölgar og á sama hátt eykst fjölmiðlaumfjöllun um afbrot þegar þeim fækkar. Þó eru ýmsir þættir sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar, en til að mynda hóf Creditinfo ekki að skrásetja netfréttir fyrr en árið 2010.      
Lesa meira
Fréttabréf EFJ

Fréttabréf EFJ

Fréttabréf Evrópusambands blaðamanna er komið út á rafrænu formi á ensku (auk fleiri tungumála). Í fréttabréfinu er fjallað um stöðu og horfur blaðamennskunnar víða um álfuna og sérstaklega er því fagnað í leiðara hve margir af nýkjörnum þingmönnum á Evrópuþinginu hafa lýst yfir stuðningi við átak sambandsins um að taka upp málefni fjölmiðla á kjörtímabilinu, einkum atriðum sem varða fjölbreytni fjölmiðla. Sjá fréttabréfið hér
Lesa meira
Fagnar niðurstöðu Hæstaréttar

Fagnar niðurstöðu Hæstaréttar

„Ég fagna því að Hæstiréttur standi með blaðamönnum í því að standa vörð um heimildarmenn sína. Það er lykilatriði fyrir starf blaðamanna að þeir haldi trúnað við heimildarmenn,“ sagði Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands í viðtali við Morgunblaðið í morgun.  Formaður Blaðamannafélagsins telur það ánægjuefni að íslenskir dómstólar skilji mikilvægi þess að blaðamenn haldi trúnað við heimildamenn, enda hafi öll rök í málinu hnigið að þessari niðurstöðu.  Hjálmar Jónsson undirstrikar þó að engin ástæða sé til að efast um að blaðamenn myndu hafa staðið  vörð um heimildamenn sína, óháð því hver niðurstaða dómstóla hefði orðið. Tilefni þessara ummæla er niðurstaða Hæstaréttar í „Lekamálinu“ svokallaða, en rétturinn staðfesti að blaðamönnum bæri ekki að gefa upp heimildamenn sína.  Blaðamannafélagið hafði áður ályktað um málið með mjög afgerandi hætti eins og sjá má hér.  Samantekt Hæstaréttar má sjá hér á eftir en dóminn í heild má lesa hér.  Í tengslum við rannsókn ætlaðra brota á þagnarskyldu samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 krafðist L þess að X, fréttastjóri vefmiðilsins mbl.is, skýrði frá því fyrir dómi hver hefði ritað frétt sem birtist á umræddum vefmiðli 20. nóvember 2014 og byggði á minnisblaði innanríkisráðuneytisins um málefni tiltekins hælisleitanda. Þess var og krafist að X greindi frá því með hvaða hætti vefmiðillinn hefði komist yfir minnisblaðið og frá hverjum það hefði borist. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 gæti dómari ákveðið að vitni svaraði spurningum um atriði, sem því væri ella óheimilt að svara samkvæmt a. til d. lið 2. mgr. 119. gr. laganna, ef vitnisburðurinn gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls og að ríkari hagsmunir væru af því að spurningunum yrði svarað en að trúnaður héldi. Fallast yrði á það með L að það gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamáls gegn viðkomandi starfsmanni eða starfsmönnum ráðuneytisins að varpa ljósi á með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað hefði borist blaðamanni mbl.is. Á hinn bóginn yrði að telja að þótt mikilsverðir hagsmunir væru tengdir því að upplýsa ætluð brot væru sakargiftir í málinu ekki nógu alvarlegar til þess að X yrði gert að gefa upp heimildarmann mbl.is fyrir fréttaflutning fjölmiðilsins greint sinn. Væri því ekki fullnægt skilyrðum ákvæðisins til að víkja frá heimildarvernd a. liðar 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar, kom fram að frá meginreglunni um vernd heimildarmanna fjölmiðla yrði því aðeins vikið að í húfi væru mjög veigamiklir almannahagsmunir sem vægju augljóslega þyngra en hagsmunir fjölmiðla af því að halda trúnaði við heimildarmenn sína. Málefni þeirra sem leitað hefðu hælis hér á landi hefðu verið mikið rædd á opinberum vettvangi og því væri eðlilegt að um þau væri fjallað á opinberum vettvangi. Yrði að teknu tilliti til þess ekki talið að L hefði sýnt fram á að hagsmunir X af því að halda trúnað við höfund og heimildarmann fréttarinnar ættu að víkja fyrir þeim hagsmunum að henni skyldi gert skylt að svara spurningum L í því skyni að upplýsa málið.  
Lesa meira
Héraðsfréttamenn líta á sig sem samfélagssmiði

Héraðsfréttamenn líta á sig sem samfélagssmiði

 Ritstjórar á héraðsfréttablöðum beita sjálfsritskoðun samkvæmt eigindlegri viðtalsrannsókn Björns Þorlákssonar í lokaritgerð hans í MA námi blaða- og fréttamennsku við  HÍ.  Niðurstaða Björns er að nálægðarvandi og erfið rekstrarskilyrði verði til þess að blaðamenn í dreifbyli kjósi frekar að leggja áherslu á hlutverk „samfélagssmiðsins“ en  aðalhaldshlutverk sitt eða það sem iðulega er kallað varðhundshlutverk. Úrdráttur úr ritgerð Björns er svohljóðandi:  Eitt meginhlutverk fjölmiðla er að veita valdi aðhald og spyrja gagnrýninna spurninga. Oft er þetta aðhaldshlutverk kallað varðhundshlutverkið. Fjölmiðlar þykja mikilvægur öryggisventill í lýðræðissamfélögum og hefur verið vísað til fjölmiðla sem fjórða valdsins. Aukin krafa um sjálfstæði og aðhald fjölmiðla kom fram á Íslandi í Rannsóknarskýrslu Alþingis á sama tíma og ytri skilyrði til fjölmiðlarekstrar versnuðu eftir efnahagskreppuna árið 2008. Fækkað hefur í stétt blaðamanna og ekki síst í dreifðari byggðum. Tekjuöflun fréttamiðla veltur að mestu á auglýsingum. Áskrifendum hefðbundinna fjölmiðla fækkar, blaðamennska færist í ríkari mæli yfir í netheima þar sem áhersla á að fréttir selji vel hefur farið vaxandi. Í þessari ritgerð verður spurt hvernig héraðsfréttablöð á Íslandi hafi brugðist við opinberu ákalli um mikilvægi sjálfstæðrar og gagnrýninnar fréttamennsku. Niðurstaðan styður við fyrri rannsóknir, að vegna nálægðarvanda og efnahagsskilyrða kjósi blaðamenn í dreifðri byggð enn að leggja mesta áherslu á að binda eigið nærsamfélag saman, það sem kallað er samfélagssmiðshlutverk í ritgerðinni. Lítil áhersla sé á aðhald gegn valdhöfum. Ritstjórar héraðsfréttablaða beiti sjálfsritskoðun. Rof hafi orðið á eldveggjum milli ritstjórna og auglýsingadeilda. Lögð sé áhersla á milda fréttastefnu, sem forvirka aðgerð gegn aðkasti sem vekur spurningu um burði héraðsfjölmiðla til að sinna lýðræðislegum skyldum.“ Sjá ritgerðina í heild hér    
Lesa meira
Hvetja til alþjóðlegrar samstöðu um að taka á ofbeldi gegn blaðamönnum

Hvetja til alþjóðlegrar samstöðu um að taka á ofbeldi gegn blaðamönnum

 Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) lagði til á sérstökum umræðufundi Manréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf í vikunni að farið yrði í samrædar aðgerðir til efla öryggi blaðamanna vítt um heim.  Umræðuefni fundarins var einmitt  um öryggismál í fjölmiðlum.  Það var Erenst Sagaga formaður mannréttindamála hjá IFJ sem talaði fyrir hönd sambandsins á fundinum og hvatti aðildarríki Sþ til að standa sameiginlega að baki átaki þar sem  stjórnvöld víða um lönd væru fengin til að taka með afgerandi hætti á ofbeldi og árásum gegn blaðamönnum í stað þess að  láta ofbeldið viðgangast óátalið.   Sjá nánar hér  
Lesa meira
Konur síður með fyrstu fréttir

Konur síður með fyrstu fréttir

Í rann­sókn­ sem Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður gerði sem lokaverkefni í meistaranámi í blaða-og fréttamennsku við HÍ á niðurröðun frétta í fréttatímum Stöðvar 2 og RÚV kom fram nokkur munur á milli stöðva hvað varðar hlut kvenna í fyrstu fréttum. Kon­ur á Stöð 2 fluttu 18 sinnum fyrstu frétt­ir í des­em­ber og fe­brú­ar, eða 30% þeirra, og karl­ar 70%. Á RÚV var minni mun­ur­inn, þar sem kon­ur fluttu 43% fyrstu frétta en karl­menn 57%. Um þetta er fjallað á frétt á mbl.is sem má  nálgast hér.    Úrdráttur Arnhildar úr ritgerðinni hljóðar svo: Fræðimenn hafa haldið því fram að fjölmiðlaumhverfið sé karllægt. Þá hefur því verið haldið fram að konur hafi ekki aðgengi að öllum efnisflokkum til jafns á við karla og að efni eftir þær sé minna metið. Þessi rannsókn snýr að efnistökum og röðun efnis eftir karlkyns og kvenkyns fréttamenn á tveimur ljósvakamiðlum, RÚV og Stöð 2. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafnmikils metið. Þá var kannað hvort fréttamenn teldu áhuga, aðgengi eða aðra þætti ráða því hvaða málaflokka fréttamenn fjölluðu um og hversu framarlega fréttir þeirra röðuðust. Loks voru viðhorf fréttamanna til fréttamats, jafnréttismála og stöðu kynjanna á vinnustað könnuð. Rannsóknin samanstendur af innihaldsgreiningu, vettvangsathugun og djúpviðtölum. Innihaldsgreiningin fólst í greiningu fyrstu frétta kvöldfréttatímans á báðum stöðvum í tvo mánuði og allra frétta fréttatímans í einn mánuð. Fréttirnar voru greindar eftir kyni fréttamanns, röðun og efnisflokkum. Tekin voru tíu djúpviðtöl við fréttamenn og stjórnendur á miðlunum. Niðurstöður vettvangsathugunar voru ásamt niðurstöðum innihaldsgreiningar-innar notaðar sem samræðugrundvöllur í þeim. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að það er munur á efnistökum karla og kvenna. Þá röðuðust fréttir karla frekar framarlega í fréttatímann en fréttir kvenna. Munur á efnistökum karla og kvenna var mun meiri á Stöð 2 en á RÚV. Fréttamenn töldu efnistök frekar ráðast af áhuga heldur en aðgengi. Aðgengi kann þó að vera skert á sumum sviðum vegna þess að hefð er komin á að karlar sinni þeim. Konur á Stöð 2 upplifðu að fréttir þeirra væru ekki jafn mikils metnar og fréttir karla en konur á RÚV upplifðu það síður. Þá lýstu konur því frekar yfir að þær vildu breyta fréttamatinu á miðlinum svo málaflokkar sem konur fjölluðu mikið um fengju meira vægi. Sjá ritgerðina í heild hér
Lesa meira