Til varnar blaðamennsku 5. nóvember

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) mun þann 5. nóvember næstkomandi standa fyrir alþjóðlegum baráttudegi undir yfirskriftinni „Til varnar blaðamennsku“ (Stand up for journalism). Þetta er í sjöunda sinn sem þessi baráttudagur er skipulagður og er hugmyndin að fá almenning og fjölmiðlafólk til að íhuga og ræða þær ógnanir og áskoranir sem blaðamennskan stendur frammi fyrir í samtímanum.

Í ár hefur undirbúningsnefndin ákveðið að beina kastljósinu að stöðu blaðamanna í umhverfi síaukinnar samþjöppunar.  Nýir aðilar á fjölmiðlasviðinu, s.s. Google, ógna ekki eingöngu fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum heldur er tilvist lausamanna í blaðamennsku (freelance)  beinlínis í útrýmingarhættu því iðulega standa þeir frammi fyrir því að aðeins einn kaupandi er að efni þeirra. Þetta á sérstaklega við þegar um svæðisbundið efni er að ræða.  Fjármálamenn hafa verið að kaupa upp fjölmiðlagáttir vítt um álfuna og allan heiminn og virðat komast upp með að stjórna fjölmiðlamarkaðnum á eigin forsendum sem oft eru hagsmunir ótengdir fjölmiðlun. Þannig er mjög algengt í suður og austur Evrópu að þeir sem eru í fjölmiðlarekstri séu samhliða í annars konar viðskiptum sem síðan hafa áhrif á ritstjórnarstefnu og flestir þessir eigendur hafa auk þess pólitíska hugmyndafræði á dagskrá sinni.
 Sjá einnig hér