Fréttir

Tilkynning

Málþing um tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda

Málþing um tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda verður haldið 22. janúar kl. 13 - 16.30 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Að því stendur mennta- og menningarráðuneytið og stýrihópur um framkvæmd þingsályktunar um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Dagskrá: Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: Ávarp. Ása Ólafsdóttir, dósent í HÍ og formaður stýrihópsins: Starf og hlutverk IMMI hópsins. Dr. Thomas Hoeren, deildarforseti lagadeildar Háskólans í Munster í Þýskalandi: Wistleblowers - the conflict between the right of information and anonymity. David Leigh, ritstjóri yfir rannsóknarblaðamennsku hjá breska dagblaðinu The Guardian: Wistleblowers in UK and how they have been helpful in processing the news and what specifically can be done in the question of "high-risk information sources" Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður og aðaleigandi Birtings: Tjáningarfrelsi blaðamanna í ljósi nýlegra dóma." Að loknum erindum far afram pallborðsumræður með frumbælendum en auk þeirra situr í pallborði Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður og einn flutningsmanna tillögunnar. Fundar- og umræðustjóri: Þóra Arnórsdóttir
Lesa meira
Að mestu sameiginlegt almannarými innflytjenda og annarra Norðmanna

Að mestu sameiginlegt almannarými innflytjenda og annarra Norðmanna

Samkvæmt rannsókn sem Háskólinn í Osló og greiningadeild NRK, norska ríkisútvarpsins standa að er fjölmiðlaneysla innflytjenda í Noregi mjög svipuð því sem gerist hjá Norðmönnum almennt. Af þessu er dregin sú ályktun að almannarými fjölmiðla í Noregi sé ekki með áberadi hætti skipt upp í hólf, og að stærstum hluta séu allir, innflytjendur og aðrir að deila sama almannarými. Rannsóknin byggir á könnun meðal 900 innflytjenda þar sem þeir eru spurðir um fjölmiðlaneyslu sína og meða þess sem í ljós kom er að átta af hverjum tíu þeirra nota fjölmiðla á hverjum degi. Flestir nota Netið daglega eða 90% og síðan sjónvarp eða 66%, en til samanburðar má nefna að 95% af Norðmönnum í heild nota netið daglega og 81% horfa daglega á sjónvarp. Þá kemur í ljós að það eru stærstu fjölmiðlarnir í Noregi sem innflytjendur nota mest, NRK er sterkt og sömuleiðis dagblaðið VG. Þetta er svipað mynstur og hjá Norðmönnum almennt. Sjá meira hér og hér
Lesa meira
,,Allt á eftir að enda á netinu

,,Allt á eftir að enda á netinu"

Eiríkur Jónsson segir að síðasta árið sé búið að vera áhugaverður tími í blaðamennsku en hann hóf að reka fréttavefinn eirikurjonsson.is fyrir tæpu ári síðan eða í byrjun mars 2012. Í tilefni þess var hann tekin í stutt spjall. Eiríkur segist mjög sáttur við að hafa reynt enda lengi dreymt um. ,,Eitthvert fjármagn þarf í starti eins og gefur að skilja en nú er svo komið að vefurinn er svo gott að verða sjálfbær - þó enn geti brugðið til beggja vona eins og víðast hvar annars staðar. Lærdómurinn er sá að maður verður að standa vaktina sjálfur og fórna hefðbundnum frítíma. Best væri að ráða aðstoðarmann sem stæði vaktina á móti en til þess þarf veltan að verða meiri." Eiríkur var spurður hvort það væri ekki einmannalegt að starfa einn við vefinn, hvort hann saknaði ekki erils ritstjórna og félagsskapar? ,,Svar við spurningunni er einfalt: Vona að ég þurfi aldrei aftur að starfa á vinnustað með mörgum. Félagsskapurinn? Ég er í reglulegum tengslum við fjölmarga, fréttamenn sem aðra, sem hafa ánægju af að leggja mér lið og gildir það jafnt um fréttaöflun og auglýsingasölu. Fólk er að fíla þetta." Eiríkur segist aðspurður telja að fleiri fréttamenn hljóti að fara inn á þessa braut. ,,Ekki geta þeir allir farið að vinna á bensínstöð þegar hinir hefðbundnu, gömlu fjölmiðlar leggja upp laupana. Allt á eftir að enda á netinu en það þýðir ekki endilega að þeir eigi eftir að njóta eldanna sem fyrstir kveiktu þá." Þess má geta að vefurinn er í eigu félagsins Eiríkur Jónsson ehf. sem Eiríkur er alfarið skráður fyrir. Sigurður Már Jónsson
Lesa meira
Tilnefningarfrestur til 11. febrúar!

Tilnefningarfrestur til 11. febrúar!

Rétt er að minna á að frestur til að skila inn tilnefningum til Blaðamannaverðlauna fyrir árið 2012 er til kl 12:00 mánudaginn 11. febrúar 2013.  Tilnefningar  ásamt fylgigögnum skulu annað hvort berast til skrifstofu Blaðamannafélagsins, Síðumúla 23, Reykjavík  eða vera skilað rafrænt á sérstöku tilnefningarformi sem finna má með því að smella á hnappinn "Tilnefnið hér" , sem er hér til hliðar. Í samræmi við samþykkt síðasta aðalfundar hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað úr þremur í fjóra og hefur flokkurinn "Viðtal ársins" nú bæst við en fyrir voru verðlaunaflokkarnir "Blaðamannaverðlaun ársins"; "Rannsóknarblaðamennska ársins"; og "Besta umfjöllun árins". Í greinargerð með tillögu stjórnar fyrir aðalfund sagði meðal annars um tilefni þessarar breytingar að  næstum áratugs reynsla er nú komin á Blaðamannaverðlaun B.Í. Fram hafi komið hjá talsmönnum dómnefndar í gegnum árin að skynsamlegt kynni að vera að bæta við einum eða tveimur verðlaunaflokkum til þess að verðlaunin næðu til fjölbreyttari flóru blaðamennsku á Íslandi. Síðan segir í greinargerðinni:  " Þegar þessi mál hefur borið á góma hefur það jafnan verið ótti við að verðlaunaflokkum fjöldi of mikið. Vissulega má til sanns vegar færa að brýnt sé varlega í að fjölga flokkum. Of margir flokkar geta gengisfellt verðlaunin og gert þau ómarkvissari. Hins vegar er stjórn BÍ sammála því áliti talsmanna dómnefndar í gegnum árin að óhætt væri að fjölga um einn.  Í ljósi þess að þeir flokkar sem nú þegar er verðlaunað fyrir byggja að verulegu leyti á fréttatengdu efni, er mikilvægt að draga fram það sem vel er gert í annars konar blaðamennsku. Því er gerð tillaga um að bæta við aðeins einum flokki, “Viðtal ársins”."
Lesa meira

Sívakandi umræða um hlutlægni og trúverðugleika

Trúverðugleiki og hlutlægni er mikið rætt málefni meðal norskra blaðamanna og á dögunum kom upp mál í íþróttafréttum NRK, norska ríkisútvarpsins, þar sem þetta var í brennidepli. Málsatvik voru þannig að eftir keppni í skíðagöngu þar sem norska liðið vann var tekið viðtal við einn liðsmanninn þar sem hann var meðal annars spurður um keppnina og árangurinn og þar sem viðmælandinn átti afmæli sama dag var hann spurður hvort hann hefði getað óskað sér að fá betri afmælisgjöf en þennan sigur. Í sjálfu sér hefur enginn gert athugasemd við spurningarnar eða svörin og þetta var sýnt bæði í sjónvarpsfréttaþætti NRK, Dagsrevyen og á vef NRK. Það sem hins vegar hefur verið tilefni umræðunnar er að sá sem tók viðtalið – og var með hljóðnema í mynd merktan NRK – var félagi í skíðagönguliðinu. Það var semsé landsliðsmaður að taka viðtal við liðsfélaga sinn um keppni sem þeir voru báðir að taka þátt í.  Á síðu norska Blaðamannsins (journslisten.no) er fjallað um þetta og talað við fréttastjóra íþróttafrétta hjá NRK sem afsakar þetta og talar um að þetta hafi verið mistök og hann segir að tilhneiging hafi verið komin upp hjá stofnuninni að túlka reglur um lausamenn sem taka viðtöl of rúmt. Stundum þurfi að fá inn lausamenn til viðtala, en reglan sem um slíkt gildi sé að það sé þá fólk ótengt því sem fjallað er um til að tryggja trúverðugleika, hlutlægni og hlutleysi. Það hafi ekki verið í þessu tilfelli meðal annars vegna þess að slaknað hafi á eftirflgni með reglum, en því hafi nú verið kippt í liðinn þannig að svona nokkuð ætti ekki að koma fyrir aftur. Sjá einnig hér
Lesa meira
Michelle Stanistreet, framkvæmdastjóri hjá NUJ

NUJ mun láta í sér heyra!

Svo virðist sem samtök blaðamanna í Bretlandi eigi að vera á hliðarlínunni þegar gerðar eru tillögur um nýtt eftirlitskerfi með siðferði og vinnubrögðum í breskum fjölmiðlum líkt og lagt ver til í Leveson skýrslunni. Í það minnsta var einungis ritstjórum og yfirmönnum stóru miðlanna boðið til samráðs við stjórnvöld í gær til að fara yfir þessi mál. Michelle Stanistreet, framkvæmdastjóri hjá NUJ, Blaðamannasambandi Bretlands ritaði af þessu tilefni grein í Guardian í gær og sagði að þó blaðamönnum hafi ekki verið boðið að kræsingaborði ritstjóra og ráðherra, þá geti menn treyst því að NUJ muni láta heyra í sér með skýrum og áberandi hætti ef þær tillögur sem fram koma kveða ekki á um regluramma sem er í raun og sann óháður stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Það dugi ekki að koma með gamla kerfið kannski örlítið breytt – þá væri starf Leveson nefndarinnar í raun unnið fyrir lítið. Stanistreet bendir á að í skýrslu Leveson nefndarinnar komi fram að það þurfi að verða almenn umbreyting á þeirri menningu sem ríkir á ritstjórnum í landinu til að koma í veg fyrir að blaðamenn séu í raun þvingaðir og settir í þá stöðu að skrifa og vinna með þeim hætti sem varð tilefni Leveson-rannsóknarinnar. Blaðamannasambandið (NUJ) sé enn að glíma við mál sem komið hafa upp á “virðulegum ritstjórnum” þar sem blaðamenn verða fyrir þrýstingi og einelti - sem bendi til að menn hafi ekki dregið mikla lærdóma af nýliðinni fortíð. Hún bendir á að ritstjórar og útgefendur verði að viðurkenna rétt blaðamanna sem stéttar til að eiga sameiginlegan talsmann í NUJ í þessu endurskoðunarferli öllu, ekki síst vegna þess að rétturinn til virðingar í vinnunni sé best tryggður með aðkomu og viðurkenningu stéttarfélagsins. Blaðamenn og almenningur þurfi að koma að þessu ekki síður en ritstjórarnir, segir Stanistreet.Sjá grein Stanistreet hér
Lesa meira
Tilkynning

Sagan að baki Nude Magazine

Jóhanna Björg Christensen margmiðlunarhönnuður svarar spurningunni hvað hún var að pæla. Fyrst gaf hún út tímarit á vefnum í miðri stafrænu byltingunni 2010, þegar allir hlupu sem hraðast frá prentinu. Nú hyggst hún gefa tímaritið út á prenti. Getur þetta gengið? Staðsetning: Skúlatúni 2, ReykjavíkTími: Föstudaginn 18. janúar, kl. 8.30 - 10.00.
Lesa meira

Heilt sveitarfélag skilaði upplaginu

Páll Ketillsson ritstjóri Víkurfrétta skrifaði eftirfarandi leiðara í blað vikunnar í tilefni 30 ára afmælis blaðsins: „Gleði, þakklæti og heppni eru orð sem koma upp í huga manns þegar maður lítur til baka yfir þrjátíu ára starfsemi Víkurfrétta ehf. en fyrirtækið fagnaði 30 ára afmæli sl. mánudag 7. janúar. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki á Íslandi lifi svo lengi en það hefur tekist þó vissulega hafi reksturinn ekki alltaf verið dans á rósum. Á þessum langa tíma í sögu Víkurfrétta hefur gengið á ýmsu í umhverfi fyrirtækja, stór bankakreppa 2008 sem hafði alvarlegustu áhrif á samfélagið í seinni tíð er alls ekki eina áfallið sem hefur dunið yfir. Það voru líka minni kreppur í atvinnulífinu hér á árum áður. Á forsíðu Víkurfrétta í janúar 1983 þegar nýir eigendur tóku við blaðinu voru tvær fréttir um atvinnuleysi. Það er því ekkert nýtt að atvinnumálin hafi verið ofarlega í huga Suðurnesjamanna.Með samstilltu átaki frábærs starfsfólks VF hefur tekist að halda úti útgáfunni en auðvitað með góðu samstarfi við fyrirtæki á Suðurnesjum. Það er ljóst að mannauðurinn í fyrirtækjum skiptir mestu máli, ekki tækin og tólin. Þannig hefur það verið hjá okkur. Margir hafa komið að málum á löngum tíma, vinir, ættingjar og fjölskyldan. En það hafa ekki allir alltaf verið ánægðir og það fylgir því í rekstri fjölmiðils sem nær inn á öll heimili á Suðurnesjum og víðar. Það er ekki alltaf hægt að gera svo öllum líki. Einn dag fyrir margt löngu síðan var upplagi Víkurfrétta úr einu bæjarfélagi hér á Suðurnesjum þá vikuna skilað til baka á skrifstofuna því blaðið hafði fjallað um viðkvæm og erfið mál. Það er ekki auðvelt og kannski ástæðan fyrir því að hægt er að gagnrýna okkur á vissan hátt fyrir að vera ekki með harða rannsóknarblaðamennsku. Það hefur verið okkar stefna að fara varlega. Við búum í litlu samfélagi og við skilum fréttablaði inn á hvert heimili á svæðinu í hverri viku. Því fylgir mikil ábyrgð og það höfum við reynt að hafa í huga. Það má þó ekki gleyma því að fjölmiðlar þurfa að vera gagnrýnir, veita aðhald og halda uppi umræðu og það höfum við reynt að gera eftir bestu samvisku. Því er þó ekki að neita að í fjölmiðlun og blaðaútgáfu hefur ör tækni og þróun haft jákvæð áhrif á reksturinn. Það hefur hjálpað okkur á Víkurfréttum að halda úti stöðugri útgáfu blaðs og síðan fréttavefs. Markmiðið er að gera það eins vel og hægt er. Halda úti öflugri fréttaþjónustu og vera málsvari Suðurnesjamanna. Í erfiðri stöðu atvinnulífsins hefur VF haldið uppi vörnum fyrir svæðið og hvatt stjórnvöld og aðra sem hafa áhrif að gera betur en gert hefur verið. Það er nefnilega víða sem Suðurnesin hafa átt undir högg að sækja í framlögum ríkis, til dæmis til skóla og annarra stofnana og skilning til umhverfis atvinnulífs. Víkurfréttir eru óháð stjórnmálaflokkum en hafa alla tíð haft hagsmuni Suðurnesja í fararbroddi. Víkurfréttir eru á hinn bóginn vissulega háð því hvernig gangi í atvinnulífinu almennt eins og flest fyrirtæki á Suðurnesjum. Við stefnum að því að halda áfram á sömu braut í útgáfunni. Með góðri samvinnu við Suðurnesjamenn hér eftir sem hingað til vonum við að það takist. Sterkur fjölmiðill skiptir svæðið miklu máli. Á þessum merku tímamótum þökkum við Suðurnesjamönnum samfylgdina og samstarfið og vonum að það haldi áfram um ókomna tíð." Páll Ketilsson.
Lesa meira
Fundaröð um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands
Tilkynning

Fundaröð um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands

4. fundur - Stjórnarskráin og lýðræðið: Kosningakerfið - Persónukjör - Þjóðaratkvæðagreiðslur. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 16. janúar kl. 12-14 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Fjórði fundur í fundaröð Háskóla Íslands í samstarfi við HA, HR og Bifröst, þar sem fræðimenn á ýmsum sviðum fjalla um ferlið fram að þessu og einstaka þætti í tillögum stjórnlagaráðs. Framsögumenn eru: Gunnar Helgi KristinssonÓlafur Þ. HarðarsonJón ÓlafssonÁgúst Þór Árnason Fundarstjóri er:  Ragnhildur Helgadóttir Allir velkomnir
Lesa meira

Héraðsmiðlar gegna stóru hlutverki í dag

Hjá Víkurfréttum ehf. starfa í dag um tíu manns en fyrirtækið gefur út samnefnt vikulegt fréttablað á Suðurnesjum sem dreift er inn á öll heimili í fyrirtæki í nærri 9 þúsund eintökum. Blaðið fagnar 30 ára afmæli sínu um þessar mundir. Auk prentútgáfunnar eru starfræktir tveir vefir, fréttavefurinn vf.is sem stofnaður var 1995 og golfvefurinn kylfingur.is sem hóf göngu sína 2005. Starfsmenn Víkurfrétta hafa einnig séð um útgáfu tímaritsins Golfs á Íslandi fyrir Golfsamband Íslands í rúman áratug og Páll Ketilsson verið ritstjóri þess síðan 2003. Einnig hafa starfsmenn VF unnið ýmis önnur prentverk og komið að útgáfum að öðrum blöðum. Að sögn Páls hefur reksturinn gengið upp og ofan. „Hann var oft erfiður fyrstu árin en byrjaði að vænkast þegar tölvutæknin kom til sögunar. Það var gott fyrir útgefendur sem áttu ekki sína prentsmiðju. Tölvu- og tæknibylting í umbroti og ljósmyndaþættinum hefur gert starfið mun auðveldara svo ekki sé minnst á netvæðinguna. Rekstrargrundvöllur minni fjölmiðla hefur vænkast á þann hátt að starfsmenn geta gert meira en áður, sérhæfingin minni. Hraðinn er meiri, umbrot auðveldara og tekur minni tíma. Þannig hefur tekist að færa „deadline“ nær prentun sem var mikilvægt. Þannig er hægt að vera með opið lengur fyrir auglýsingamóttöku og það skiptir miklu máli því flestir útgefndur héraðsfréttablaða eru háðir auglýsingum og færri reiða sig á áskrift og lausasölu." Páll segir að með netinu hafi orðið byltingin í fréttamennsku. „Í dag rekum við á VF okkar „dagblað“ á netinu og leggjum mikla áherlsu á góða og öfluga fréttaþjónustu þar. Þróunin í vikublaði hefur orðið þannig að þar eru ekki lengur „nýjustu“ fréttir heldur meira mannlíf og viðtöl/greinar en nýjustu fréttirnar á vefnum. Fyrstu árin birtum við eingöngu efni úr blaðinu á vf.is en nokkrum árum síðar breyttum við því og fórum að leggja meiri áherslu á að nota vefinn sem alvöru fréttamiðil. Í dag er ekki hægt að nætursalta neinar fréttir. Samkeppnin er það hörð og með tilkomu samfélagsmiðla og snjallsíma hefur hún tekið á sig nýja mynd. Gott dæmi um það eru fréttir frá flugdólgi á til til New York nýlega. Þannig varð sá atburður að frétt þegar farþegar tóku myndir og deildu á samfélagsmiðla." Héraðsmiðlar gegna stóru hlutverki í dag, ekki síður en áður segir Páll. „Þrátt fyrir fjölda miðla á landinu þá eru héraðsmiðlarnir að sinna sínu svæði og birta efni sem stóru miðlarnir gera ekki. Við erum meira í nærsamfélaginu. Því er þessi héraðsfrétta fjölmiðlun mikilvæg fyrir landsbyggðina. Í dag er enn fjöldi héraðsfréttablaða og fréttavefja um allt land og sinnir fréttaþjónustu á sínu svæði. Ég tel að framtíð þeirra sé björt og muni aldrei detta út úr fjölmiðlaflórunni." Sigurður Már Jónsson
Lesa meira