Heilt sveitarfélag skilaði upplaginu

Páll Ketillsson ritstjóri Víkurfrétta skrifaði eftirfarandi leiðara í blað vikunnar í tilefni 30 ára afmælis blaðsins:

„Gleði, þakklæti og heppni eru orð sem koma upp í huga manns þegar maður lítur til baka yfir þrjátíu ára starfsemi Víkurfrétta ehf. en fyrirtækið fagnaði 30 ára afmæli sl. mánudag 7. janúar.

Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki á Íslandi lifi svo lengi en það hefur tekist þó vissulega hafi reksturinn ekki alltaf verið dans á rósum. Á þessum langa tíma í sögu Víkurfrétta hefur gengið á ýmsu í umhverfi fyrirtækja, stór bankakreppa 2008 sem hafði alvarlegustu áhrif á samfélagið í seinni tíð er alls ekki eina áfallið sem hefur dunið yfir. Það voru líka minni kreppur í atvinnulífinu hér á árum áður. Á forsíðu Víkurfrétta í janúar 1983 þegar nýir eigendur tóku við blaðinu voru tvær fréttir um atvinnuleysi. Það er því ekkert nýtt að atvinnumálin hafi verið ofarlega í huga Suðurnesjamanna.
Með samstilltu átaki frábærs starfsfólks VF hefur tekist að halda úti útgáfunni en auðvitað með góðu samstarfi við fyrirtæki á Suðurnesjum. Það er ljóst að mannauðurinn í fyrirtækjum skiptir mestu máli, ekki tækin og tólin. Þannig hefur það verið hjá okkur. Margir hafa komið að málum á löngum tíma, vinir, ættingjar og fjölskyldan. En það hafa ekki allir alltaf verið ánægðir og það fylgir því í rekstri fjölmiðils sem nær inn á öll heimili á Suðurnesjum og víðar. Það er ekki alltaf hægt að gera svo öllum líki. Einn dag fyrir margt löngu síðan var upplagi Víkurfrétta úr einu bæjarfélagi hér á Suðurnesjum þá vikuna skilað til baka á skrifstofuna því blaðið hafði fjallað um viðkvæm og erfið mál. Það er ekki auðvelt og kannski ástæðan fyrir því að hægt er að gagnrýna okkur á vissan hátt fyrir að vera ekki með harða rannsóknarblaðamennsku. Það hefur verið okkar stefna að fara varlega. Við búum í litlu samfélagi og við skilum fréttablaði inn á hvert heimili á svæðinu í hverri viku. Því fylgir mikil ábyrgð og það höfum við reynt að hafa í huga. Það má þó ekki gleyma því að fjölmiðlar þurfa að vera gagnrýnir, veita aðhald og halda uppi umræðu og það höfum við reynt að gera eftir bestu samvisku.

Því er þó ekki að neita að í fjölmiðlun og blaðaútgáfu hefur ör tækni og þróun haft jákvæð áhrif á reksturinn. Það hefur hjálpað okkur á Víkurfréttum að halda úti stöðugri útgáfu blaðs og síðan fréttavefs. Markmiðið er að gera það eins vel og hægt er. Halda úti öflugri fréttaþjónustu og vera málsvari Suðurnesjamanna. Í erfiðri stöðu atvinnulífsins hefur VF haldið uppi vörnum fyrir svæðið og hvatt stjórnvöld og aðra sem hafa áhrif að gera betur en gert hefur verið. Það er nefnilega víða sem Suðurnesin hafa átt undir högg að sækja í framlögum ríkis, til dæmis til skóla og annarra stofnana og skilning til umhverfis atvinnulífs. Víkurfréttir eru óháð stjórnmálaflokkum en hafa alla tíð haft hagsmuni Suðurnesja í fararbroddi. Víkurfréttir eru á hinn bóginn vissulega háð því hvernig gangi í atvinnulífinu almennt eins og flest fyrirtæki á Suðurnesjum.

Við stefnum að því að halda áfram á sömu braut í útgáfunni. Með góðri samvinnu við Suðurnesjamenn hér eftir sem hingað til vonum við að það takist. Sterkur fjölmiðill skiptir svæðið miklu máli. Á þessum merku tímamótum þökkum við Suðurnesjamönnum samfylgdina og samstarfið og vonum að það haldi áfram um ókomna tíð."

Páll Ketilsson.