Fréttir

Danir fá fréttaverðlaun Blaðamannaverðlauna Evrópu

Danir fá fréttaverðlaun Blaðamannaverðlauna Evrópu

Í gær var upplýst um hverjir fengu Blaðamannaverðlauna Evrópu 2012 (European Press Prize) en þessi verðlaun eru nú veitt í fyrsta sinn. Um er að ræða samstarfsverkefni fjölmiðlastofnana í Danmörku, Hollandi, Bretlandi og Tékklandi en tilnefninga er leitað frá allri Evrópu. Formleg afhending verðlaunanna verður hins vegar ekki fyrr en 26. febrúar næstkomandi. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum: fréttaverðlaun, dálkahöfundaverðlaun, ritstýringarverðlaun, og frumkvöðlaverðlaun. Fréttaverðlaunin fóru til blaðamanna á Jyllands Posten, þeirra Orla Borg, Carsten Ellegaard Christensen og Morten Pihl fyrir röð frétta um Morten Storm sem var njósnari fyrir dönsku leyiþjónustuna. Dálkahöfundaverðlaunin fóru til Grikkjans Nikos Chrysoloras, sem starfar við dagblaðið Kathimerini, fyrir grein hans “Hvers vegna Grikkir verða að vera í evrusamstarfinu”. Greinin var birt í blöðum um alla Evrópu. Ritstýringarverðlaunin féllu í hlut Ihor Pochynok, aðalritstjóra 'Express' í Úkraínu sem er staðbundið blað í Lviv þar í landi. Blaðið þykir dæmi um öflugt héraðsblað sem tekið hefur afgerandi forustu í staðbundinni umræðu og á köflum líka í umræðu á landsvísu. Frumkvöðlaverðlaunin fékk Paul Lewis frá Bretlandi ritstjóra sérverkefna hjá The Guardian í London. Viðurkenningin er fyrir verkefnið “Reading the Riots” eða Lesið í mótmælin, en hann ásamt háskólakennaranum Tim Newburn og 30 öðrum rannsakendum greindu með nýstárlegum hætti í meira en ár óerðirnar í Englandi sumarið 2011.   Formaður dómnefndar var Harold Evans lávarður og fyrrum ritstjóri Sunday Times og núverandi ritstjóri hjá Reuters. Hann sagði í tilefni af tilkynningunni um verðlaunahafana, að það hafi verið mikil áskorun að meta tilnefningarnar frá 32 löndum alls staðar að úr Evrópu. Menning og saga landanna væri ólík og því hafi fjölbreytnin verið mikil. Hins vegar hafi gæði, ransóknarvinna og eldmóður við að afhjúpa sannleikann verið samnefnari sem náði yfir öll landamæri. Aðrir í dómnefnd voru Sylvie Kauffmann frá Le Monde, Yevgenia Albats, aðalritstjori hjá New York Times í Moskvu og Jørgen Ejbøl, stjórnarformaður JP/Politiken og varaformaður í Jyllands Posten stofnuninni. Verðlaunahafar fá 10.000 evrur í verðlaunafé.   Minna má á að frestur til að skila inn tilnefningum til Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands rennur út á hádegi 11. febrúar Sjá meira hér
Lesa meira
Leiðir til fækkunar héraðsfréttablaða

Leiðir til fækkunar héraðsfréttablaða

Íslandspóstur hefur sagt upp dreifingarsamningi sínum við héraðsfréttarblaðið Austurgluggann. Að sögn Ragnars Sigurðssonar, ritstjóra Austurgluggans, hefur þessi breyting í för með sér 25% hækkun á póstburðargjöldum. „Við gerðum nýjan samning við Íslandspóst 2011 sem hafði í för með sér um 15% hækkun. Í síðustu viku barst mér svo bréf þar sem tilkynnt var um að afláttarkjör Austurgluggans væru afnumin frá 1. apríl nk. Þessi breyting hækkar okkar póstburðargjöld um 25%.” Að sögn Ragnars hittir þetta útgáfuna á afar brotthættum tíma. Reksturinn hefur verið skorin niður umtalsvert á undanförnum árum og ljóst að ekki verður gengið lengra í þeim efnum. „Við höfum engan annan kost í stöðunni að hækka áskriftarverð til samræmis við þessa gífurlegu hækkun rekstrarkostnaðar. Vonandi sýna áskrifendur því skilning.” Ragnar segir að mikil barátta sé við að halda rekstrinum stöðugum. „Við höfum verið að greiða niður skuldir undanfarin ár og skorið niður í starfseminni. En hækkandi kostnaður eins og póstburðargjöld, eldsneyti og fleira hóf að bitna verulega á rekstrinum í fyrra. Við erum í áskriftaröflun sem stendur og hún gengur vel, við höfum gert samstarfssamninga vegna vinnslu fréttabréfa s.s. Fljótsdalsstöðvarfréttir og ýmislegt annað til að mæta þessari kostnaðaraukningu. Í miðri þeirri baráttu bætist svo á 25 % hækkun póstburðargjalda svo eðlilega er hljóðið í mér ekki gott.” Ragnar segir að engin vafi sé á því að þessir breyttu skilmálar Íslandspóst séu mjög hamlandi fyrir héraðsfréttablöð eins og Austurgluggann. „Íslandspóstur tekur af þau aflsáttarkjör sem Austurglugginn hefur haft og birtir nýtt afláttarkerfi sem miðar að því að þú þarft að dreifa fleiri en tilkennum fjölda blaða til að fá ákveðin aflsátt. Blað eins og Austurglugginn er á mjög litlum markaði þ.e. markaðssvæðið Austurland, við leitumst við að þjónusta svæðinu sem gerir það að verkum að við eigum aldrei möguleika á því að ná niður póstburðargjöldunum þar sem fjöldi mögulegra viðskiptavina á Austurlandi eru ekki í samræmi við þau viðmið sem Íslandspóstur setur. Þetta leiðir á endanum til fækkun héraðsfréttablaða og styrkir stöðu frídreifingarblaða.”
Lesa meira
Launahækkun um mánaðarmót

Launahækkun um mánaðarmót

Öll laun og kjaratengdir liðir hækka um 3,25% frá og með næstu mánaðamótum 1. feb.  Samkvæmt kjarasamningum eiga blaðamenn að vera á fyrirframgreiddum launum. Febrúarlaunin eiga því að vera 3,25% hærri en laun fyrir janúar og það gildir bæði um laun og yfirgreiðslur, ef um þær er að ræða. Meðfylgjandi er launataflan sem gildir frá mánaðamótum
Lesa meira
Stjórn BÍ mótmælir aðför að héraðsfréttablöðum

Stjórn BÍ mótmælir aðför að héraðsfréttablöðum

Stjórn Blaðamannafélagsins samþykkti ályktun á fundi sínum í dag vegna mikillar hækkunar á póstburðargjöldum til héraðsfréttablaða. Ályktunin er eftirfarandi: „Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir áhyggjum sínum af fyrirhugaðri hækkun Íslandspósts á póstburðargjöldum. Ljóst er að hækkunin mun koma sér mjög illa fyrir fréttablöð á landsbyggðinni og í sumum tilfellum höggva nærri starfsgrundvelli þeirra. Íslandspóstur er einokunarfélag í eigu ríkisins og hefur þannig örlög þessara viðskiptavina sinna í hendi sér. Það er því furðulegt að hækkun af þessari stærðargráðu sé skellt á héraðsfréttablöðin án nokkurs fyrirvara eða án nokkurra viðræðna. Héraðsfréttablöð eru mikilvæg upplýsingaveita í hinum dreifðu byggðum landsins. Þau njóta engra styrkja eða aðstoðar sem slík en nú virðist einokunarfyrirtæki ríkisins ætla að veita þeim rekstrarlegt náðarhögg. Stjórn Blaðamannafélags Íslands telur þetta aðför að héraðsfréttablöðum landsins.“  
Lesa meira
Assange gagnrýnir Hollywoodkvikmynd

Assange gagnrýnir Hollywoodkvikmynd

Stofnandi WkiLeaks, Julian Assange, gagnrýndi nú fyrir helgina harðlega nýja Hollywoodkvikmynd sem verið er að gera um WikiLeaks, hann sjálfan og samstarfsmenn hans. Assange var að tala í gegnum fjarfundabúnað á fundi Málfundafélags háskólanema í Oxford, en hann er sem kunnugt er fastur í sendiráði Ekvador í London. Í ræðu sinni kallaði hann myndina “samfellda áróðurs árás”. Hann upplýsti að hann hefði komist yfir handrit að myndinni “Fimmta valdið” sem á að koma fyrir almenningssjónir í nóvember næstkomandi. “Þetta er einfaldlega lygi á lygi ofan. Þetta er samfelld áróðursárás á WikiLeaks og á heiður starfsfólksins sem unnið hefur með mér,” sagði Assange. Hann sagði einnig að með þessari mynd væri verið að hella olíu á eldinn varðandi stríðið gegn Írak með því gefa til kynna að þar væri verið að vinna að gerð kjarnorkuvopna. Sjá einnig hér
Lesa meira
Tilkynning

Málþing: Mannréttindi á upplausnartímum

Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar og Guðfræðistofnun Háskóla Íslands efna til málþings föstudaginn 25. janúar í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands kl. 13:30. Heiti málþingsins er Mannréttindi á upplausnartímum. Athyglinni verður meðal annars beint að stöðu mannréttinda og þróun á ólgutímum, réttindum hópa andstætt réttindum einstaklinga, átökum strangtrúarmanna og veraldlega sinnaðra í Mið-Austurlöndum. Fyrirlesarar eru Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International, og Magnús Þorkell Bernharðsson, dósent í sögu Miðausturlanda við Williams College í Bandaríkjunum. Stjórnandi málþingsins er Ævar Kjartansson, guðfræðingur og dagskrárgerðarmaður. Dagskrá: 13:30-14:45 Fyrirlestrar 14:45-15:05 Kaffihlé 15:05-16:00 Umræður Hlutverk Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar er að vinna að rannsóknum og fræðslu í trúarbragðafræði og guðfræði í þeim tilgangi að auka þekkingu og skilning á trúarbrögðum heimsins og stuðla að sáttargjörð ólíkra trúarviðhorfa, vinna gegn tortryggni og efla skilning og umburðarlyndi. Stofnunin er í eigu Þjóðkirkjunnar
Lesa meira
Meiðyrðalöggjöf nýtt til þöggunar

Meiðyrðalöggjöf nýtt til þöggunar

Meiðyrðamál eru að verða tæki til þöggunar í samfélaginu og margir sem þau höfða er fólk sem hefur lent í erfiðri þjóðfélagsumræðu eða á vafasama fortíð. Það stefnir fyrir fjöldann allan af ummælum í þeirri von að eihver þeirra haldi. Dómstólar líta ekki heildstætt á málin heldur taka þátt í þessu og dæma í himinháar fésektir. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Hreins Loftssonar hæstaréttarlögmanns og eiganda útgáfufélagsins Birtings á málþingi um vernd afhjúpenda sem haldið var í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins í dag. Hreinn upplýsti að útgafufélagið Birtingur hafi á árunum 2008-2011 fengið á sig 15 meiðyrðamál og kostnaður útgáfunnar og blaðamanna hafi í heild numið hátt í 30 milljónum. Slíkt sé mikill herkostnaður bæði fyrir blaðamenn og litla útgáfu, enda hafi þetta stefnt starfseminni í tvísýnu. Hreinn var harðorður í garð íslenska dómskerfisins og fór sérstaklega yfir þau tvö mál sem farið hafa til Strassborgar og dæmt var í síðastliðið sumar. Í báðum þeim málum hafi Mannréttindadómstóllinn gagnrýnt harðlega málsmeðferð og efnistök íslenskra dómstóla, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Meðal annars hafi verið gagnrýnt að Hæstiréttur hafi synjað blaðamanni um áfrýjun í öðru málinu á grundvelli þess að upphæðin sem um var að tefla væri undir viðmiðunarmörkum áfrýjunar. Slíkt hafi í raun verið furðulegt enda nýleg dæmi um annað, og málið hafi haft mikla þýðingu, ekki síst fyrir viðkomandi blaðamann – öfugt við niðurstöðu Hæstaréttar. Raunar sagði Hreinn að það væri “grunsamlegt” hvernig tilteknir dómarar virtust dæma blaðamenn til sekta en staðnæmdust að því er virtist við þau sektarmörk sem eru skilyrði fyrir áfrýjun. Þannig væri komið í veg fyrir áfrýjun og umfjöllun í Hæstarétti um málin. Hreinn sagði að vissulega væri ábyrgð blaðamanna mikil og í einhverjum tilfellum hafi þeir gert mistök og verið sekir um óvönduð vinnubrögð. Hins vegar væri það alls ekki alltaf og í þeim málum sem farið hafa til MDE hafi dómstóllinn einmitt hrosað viðkomandi blaðamönnum sérstaklega fyrir vinnubrögð. Hann benti einnig á að það væri áhyggjuefni að afstaða stjórnvalda virtist ekki hafa breyst mikið þrátt fyrir dómana sem féllu gegn ríkinu í fyrra sumar, því í síðustu viku hafi verið ákveðið að hafna sáttaumleitunum í þeim tveim málum sem MDE hefur ákveðið að taka til efnismeðferðar.
Lesa meira
Hlutverk og ábyrgð fjölmiðla í aðdraganda kosninga

Hlutverk og ábyrgð fjölmiðla í aðdraganda kosninga

Málþing um fjölmiðla og kosningar verður haldið nk á miðvikudag, 23. janúar kl. 14-17 í Öskju stofu 132. Það eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og meistaranám í blaða- og fréttamennsku við HÍ sem standa fyrir málinginu. Tilefni þess eru ábendingar ÖSE um að ekki giltu hér á landi opinberar reglur um störf eða skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga. Fjölmörg ríki hafa sett reglur er lúta að atriðum er varða umfjöllun og störf fjölmiðla í tengslum við kosningar. Í kjölfar eftirlits með kosningum til Alþingis árið 2009 benti eftirlitsnefnd  Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) á að hér á landi giltu ekki reglur um störf eða skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga.  Kom nefndin með ábendingar um að íhuga mætti lagasetningu um starfsemi fjölmiðla í tengslum við kosningar. Ábendingar nefndarinnar voru einkum þrjár:   1. Að skoða hvort rétt sé að veita Útvarpsréttarnefnd (fjölmiðlanefnd) leiðbeiningarhlutverk varðandi mikilvægi fjölmiðla í aðdraganda kosninga og að setja reglur um umfjöllun fjölmiðla um kosningabaráttuna. 2. Útvarpsréttarnefnd (Fjölmiðlanefnd) gæti kannað möguleikana á því að gefa út leiðbeiningar um pólitískar auglýsingar. Það væri æskilegt að gerð væri skýr grein fyrir því hvað er keyptur útsendingartími þannig að viðskiptalegt eðli skilaboðanna væri öllum ljóst. Þessi athugasemd tengdist m.a. uppákomu sem varð hjá INN vegna selds útsendingartíma til stjórnmálaflokka. 3. Setja mætti í lög ákvæði um gjaldfrjálsan útsendingartíma hjá sjónvarpsstöðvum til að tryggja festu í þessum málum milli kosinga. Þessi athugasemd kom að hluta í tengslum við ákvörðun RÚV að bjóða flokkum upp á ókeypis útsendingartíma, en með því skilyrði að allir flokkar vildu þiggja hann. Á daginn kom að gömlu flokkarnir töldu ekki svara kostnaði að eyða í vinnslu fyrir slíka Menntamálaráðherra hefur skipað nefnd með fulltrúum allra flokka til fara yfir athugasemdir ÖSE og gera tillögur til úrbóta Dagskrá: 1. Finnur Beck, form. nefndar menntamálaráðherra um málið, opnar málþingið2. Elfa Ýr Gylfadóttir  framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar3. Guðbjörg Hildur Kolbeins fjölmiðlafræðingur4. Margrét Sverrisdóttir, verkefnastjóri5. Ólafur Stephensen ritstjóri6. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður. Pallborð með frummælendum ásamt Ólafi Þ Harðarsyni prófessor og Frey Einarssyni,  ritstjóra. Fundarstjóri er Þór Jónsson, blaðamaður.
Lesa meira
Hinn virti þýski fræðimaður, Thomas Horen verður meðal frummælenda

Tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda

Áhugavert málþing sem ber yfirskriftina “Tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda” verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins nk. þriðjudag, 22. janúar milli kl 13:00-16:30. Það er mennta- og menningarmálaráðuneytið og stýrihópur um framkvæmd þingsályktunar um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis sem standa fyrir málþinginu. Það var þann 16. júní 2010 sem Alþingi samþykkti þingsályktun þess efnis að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er talið að leita verði leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð. Það var mat flutningsmanna tillögunnar að nauðsynlegt væri gera tilteknar lagabreytingar til að hrinda efni hennar í framkvæmd, þ.á m. um vernd afhjúpenda en fyrirmynd að slíkri löggjöf er að finna í ýmsum nágrannaríkjum Íslands. Með slíkri vernd er reynt að vernda réttarstöðu afhjúpenda, hvort heldur hjá hinu opinbera eða í einkageiranum, þegar þeir hafa upplýsingar sem eiga erindi til alls almennings. Þann 3. maí 2012 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra stýrihóp og er honum ætlað að leiða vinnu ráðuneytisins við greiningu og úttekt á lagaumhverfinu hér á landi og erlendis með tilliti til efnis þingsályktunarinnar og með hliðsjón af þjóðréttarskuldbindingum Íslands. Með málþinginu verður leitast við að varpa ljósi á þær tillögur sem lagðar eru fram í þingsályktuninni. Jafnframt munu frummælendur fjalla um ólík málefni tengd tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda og hvert beri að stefna í tengslum við lagasmíð um afhjúpendur á Íslandi. Dr. Thomas Hoeren veitti framsögumönnum þingsályktunartillögunnar ráðgjöf við vinnu hennar og David Leigh kom að því að afhjúpa eitt umfangsmesta spillingarmál síðari ára. Dagskrá: Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra: Ávarp Ása Ólafsdóttir, dósent í Í og formaður stýrihópsins: Starf og hlutverk IMMI hópsins”. Dr. Thomas Horen, deildarforseti lagadeildar Háskólans i Munster í Þýskalandi: “Whistleblowing – the conflict between the right to information and anonymity.” David Leigh, ritsjtóri yfir rannsóknarblaðamennsku hjá breska dagblaðinu The Guardian, „Whistleblower in UK and how they have been helpful in processing the news and what specifcally can be done in the guestion of „high-risk information sources“. Hreinn Loftsson, hæstaréttarlögmaður og aðaleigandi Birtings: “Tháningarfrelsi blaðamanna í ljósi nýlegra dóma”. Að loknum erindum fara fram pallborðsumræður með frummælendum en auk þeirra situr í pallborði Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður og einn flutningsmanna þingsályktunartillögunnar. Fundar og umræðustjóri: Þóra Arnórsdóttir
Lesa meira
Tilkynning

Hlutverk og ábyrgð fjölmiðla í aðdraganda kosninga

Málþing verður haldið miðvikudaginn 23. janúar kl. 14-17 í Öskju stofu 132 á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og meistaranáms í blaða- og fréttamennsku við HÍ í tilefni ábendingar ÖSE um að ekki giltu hér á landi opinberar reglur um störf eða skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga. Dagskrá: 1. Finnur Beck, lögfræðingur, opnar málþingið2. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar3. Guðbjörg Hildur Kolbeins fjölmiðlafræðingur4. Margrét Sverrisdóttir, verkefnastjóri5. Ólafur Stephensen ritstjóri6. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður. Pallborð með frummælendum ásamt Ólafi Þ Harðarsyni prófessor og Frey Einarssyni, ritstjóra. Fundarstjóri er Þór Jónsson, blaðamaður. Fjölmörg ríki hafa sett reglur er lúta að atriðum er varða umfjöllun og störf fjölmiðla í tengslum við kosningar. Í kjölfar eftirlits með kosningum til Alþingis árið 2009 benti eftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) á að hér á landi giltu ekki reglur um störf eða skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga. Kom nefndin með ábendingar um að íhuga mætti lagasetningu um starfsemi fjölmiðla í tengslum við kosningar þ.m.t. um pólítískar auglýsingar og veitingu útsendingartíma til framboð. Menntamálaráðherra hefur skipað nefnd með fulltrúum allra flokka til fara yfir athugasemdir ÖSE og gera tillögur til úrbóta.
Lesa meira