Fréttir

Ný heildarlög um RÚV

Ný heildarlög um RÚV

Ný heildarlög um RÚV voru samþykkt á Alþingi fyrr í dag.  Frumvarpið var samþykkt með 35 atkvæðum gegn 4, en 8 sátu hjá. Forsvarsmenn stjórnarflokkanna í málinu, þau Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Skúli Helgason, fögnuðu þessum áfanga og sögðu lögin styrkja faglegt almannaútvarp. Frétt RÚV um málið hér  
Lesa meira
Frá vettvangi eftir bikarúrslitaleik á sunnudag. Mynd:sport.is

BLÍ lýsir furðu sinni á framkomu gagnvart ljósmyndara

Meðfylgjandi ályktun var samþykkt á fundi í stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands í dag þriðjudaginn 12. mars 2013:   Stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands lýsir furðu sinni á að veist sé að starfandi atvinnuljósmyndara á vettvangi að tilefnislausu og krefst þess að hann verði beðinn afsökunar á því að gengið hafi verið fram af offorsi gegn honum þar sem hann var að sinna störfum sínum á bikarúrslitaleik í handknattleik í Laugardalshöll sunnudaginn 10. mars 2013. Það er fráleitt að setja nýjar verklagsreglur á kappleikjum í handbolta án þess að kynna þær fyrirfram og að þær séu þess eðlis að fjölmiðlar geti ekki sinnt eðlilegri fréttaöflun. Við krefjumst þess jafnframt að eðlileg kurteisi verði í hávegum höfð svo allir sem að fréttaöflun komi geti sinnt starfi sínu á sem eðlilegastan og þægilegastan hátt, eins og áratugahefð er fyrir. Við hljótum einnig að fara fram á að fá upplýsingar um það hverjir hafi samþykkt nýjar reglur um aðgang fjölmiðla að kappleikjum í handknattleik og hvenær þær hafi verið samþykktar. Telji menn nauðsynlegt að setja nýjar reglur um aðkomu fjölmiðla að leikjum í handknattleik lýsir stjórn Blaðaljósmyndarafélags Íslands því yfir að hún sé reiðubúin að koma að gerð slíkra reglna.
Lesa meira
Steinunn Stefánsdóttir
Tilkynning

Félag fjölmiðlakvenna harmar brotthvarf Steinunnar

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi um stöðu kvenna í fjölmiðlum sem haldinn var í Sólon í gærkvöldi: Félag fjölmiðlakvenna biður um skýringar á því hvers vegna fjölmiðlafyrirtækið 365 taldi rétt að semja um starfslok Steinunnar Stefánsdóttur sem aðstoðarritsstjóra Fréttablaðsins. Steinunn hefur staðið sem klettur á Fréttablaðinu þau tólf ár sem blaðið hefur komið út. Hún hefur starfað sem aðstoðarritsstjóri á sama tíma og Kári Jónasson, Þorsteinn Pálsson, Jón Kaldal og Ólafur Stephensen vermdu ritstjórastólinn. Hvers vegna kjósið þið forráðamenn 365 að setja enn einn karlinn, Mikael Torfason, í ritstjórastól og er virðist á kostnað hennar?  Stjórn Félag fjölmiðlakvenna harmar þá niðurstöðu að Steinunn víki úr forvarðarsveit Fréttablaðsins. Staða kvenna í efstu stöðum ritstjórna dagblaða og annarra fréttamiðla er rýr. Félag fjölmiðlakvenna telur að nú sé kominn tími til að gera breytingar þar á og fer fram á að konum í áhrifastöðum innan fjölmiðla verði fjölgað. Úr hæfum hópi er að velja. Félag fjölmiðlakvenna.  
Lesa meira
Ómar í fullt starf hjá Bloomberg

Ómar í fullt starf hjá Bloomberg

Bloomberg News hefur fyrst alþjóðlegra fréttaveita ráðið íslenskan blaðamann til starfa en það er Ómar Valdimarsson. Honum er fyrst og síðast ætlað að fjalla um íslensk viðskipti, efnahagsmál og stjórnmál. Ómar hóf störf í gær eftir að hafa sinnt Bloomberg sem verktaki frá því í maí 2009. Ómar segir að hugsanlega verði blaðamönnum fjölgað eftir því sem fram líða stundir. „Helsta breytingin sem er þessu samfara er að nú get ég helgað mig alfarið fréttaöflun fyrir Bloomberg, þó svo að í raun hafi þetta verið fullt starf frá því að ég byrjaði í maí 2009. Til marks um umfangið hefur Bloomberg birt á bilinu 20 til 60 fréttir um atburði á Íslandi í hverjum mánuði, á síðastliðnum fjórum árum. Að sögn Ómars hefur Bloomberg mikinn áhuga á að efla enn frekar fréttaumfjöllun frá Íslandi sem og frá Skandinavíu. Til marks um það starfa hjá Bloomberg alls um 25 blaðamenn í Osló, Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og nú Reykjavík, sem allir helga sig fréttum sem kunna að hafa áhrif á markaði, svo sem skuldabréfamarkaði, hlutabréfamarkaði eða markaði með gjaldmiðla og afleiður. Ómar segir að þessi hópur muni vaxa á komandi árum og það megi leiða líkur að því að eftir því sem eftirspurnin eftir fréttum frá Íslandi aukist muni starfseminni hér á landi vaxa fiskur um hrygg. „Margt af því sem hefur verið sagt og gert á Íslandi í gegnum árin hefur gjarnan verið hugsað til „heimabrúks" af stjórnmálamönnum og aðilum í viðskiptalífinu. Með aukinni fréttaumfjöllun um Ísland er sá tími, að aðilar í áhrifastöðum geti sagt eitthvað eitt hér heima og predikað annað á erlendum vettvangi, liðinn," sagði Ómar.
Lesa meira
Verðlaunahafar. Mynd: Eggert Jóhannsson, mbl.is

Blaðamannaverðlaun veitt

Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir árið 2012 voru afhent í Gerðarsafni fyrr í dag. Verðlaun voru veitt í fjórum flokkum auk þess að veitt voru verðlaun fyrir Mynd ársins, en hana tók Kjartan Þorbjörnsson. Einnig voru veitt verðlaun fyrir myndir og myndskeið í átta flokkum hjá Blaðaljósmyndarafélagi Íslands. Blaðamannaverðlaunin hlutu þessir: Sunna Valgerðardóttir fékk verðlaun fyrir bestu umfjöllun; Jóhann Bjarni Kolbeinsson fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins; Sigmar Guðmundsson fékk verðlaun fyrir viðtal ársins og Ragnar Axelsson fékk blaðamannaverðlaun ársins. Hér á eftir fer rökstuðningur dómnefndar fyrir verðlaununum: Umfjöllun ársins 2012Sunna Valgerðardóttir, Fréttablaðinu, fyrir áhrifamikla, heildstæða og vel unna röð fréttaskýringa um stöðu geðsjúkra. Fréttaskýringaflokkur Sunnu tók með yfirgripsmiklum hætti á flóknu og vandasömu vandamáli sem skoðað var frá mörgum hliðum. Í umfjölluninni voru ýmis álitamál dregin fram í dagsljósið sem ekki hafa farið hátt og nýju ljósi varpað á önnur sem urðu tilefni sjálfstæðra frétta, bæði á forsíðu blaðsins og víðar. Jafnvægi var í umfjölluninni, þar sem teflt var saman í hæfilegum hlutföllum lífsreynslusögum geðfatlaðra einstaklinga og sjónarmiðum hinna ólíku fulltrúa stjórn- og heilbrigðiskerfisins auk þess sem staða mála var borin saman við nágrannalönd. Greinarflokkurinn var vel skrifaður, uppbygging markviss og framsetning var lífleg og aðgengileg fyrir lesendur. Rannsóknarblaðamennska ársins 2012Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttastofu RÚV, fyrir uppljóstrandi og ítarlega umfjöllun um kadmíum í áburði annars vegar og notkun iðnaðarsalts í matvælum hins vegar. Mikilvægt hlutverk blaðamanna er að veita valda- og stjórnkerfum samfélagsins aðhald, ekki síst þeim stofnunum sem sjálfar eiga að veita aðhald og eftirlit. Rannsókn Jóhanns Bjarna á starfsháttum Matvælastofnunar leiddi í ljós að stofnunin hefði brugðist hlutverki sínu í mikilvægum atriðum. Hann upplýsti um að allt of mikið af þungmálminum kadmíum hefði verið í þúsundum tonna af áburði frá Skeljungi sem notaður var vorið 2011 og að Matvælastofnun hefði ekki stöðvað dreifinguna þrátt fyrir að hafa vitað af ágöllum áburðarins, heldur aðeins upplýst söluaðila sem síðan hélt viðskiptavinum sínum óupplýstum í hálft ár. Jóhann Bjarni fylgdi málinu vel eftir og annað mál af svipuðum toga fylgdi beint í kjölfarið þegar hann upplýsti fyrstur manna um að Ölgerðin hafði í stórum stíl selt iðnaðarsalt til matvælaframleiðenda og að hvorki Matvælastofnun né Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur höfðu upplýst um málið eftir að það kom upp innanhúss hjá þeim. Í báðum þessum tilvikum voru fréttirnar og öll undirbúningsvinna traust og til fyrirmyndar, enda vöktu þessi mál almenna athygli og drógu fram í dagsljósið vinnubrögð og starfshætti sem rík ástæða var til að breyta.     Viðtal ársins 2012Sigmar Guðmundsson, Kastljósi, fyrir sérstaklega áhrifaríkt og sterkt viðtal við Eirík Inga Jóhannsson sjómann sem komst lífs af þegar togarinn Hallgrímur fórst. Eiríkur Ingi hafði stórbrotna harmsögu að segja aðeins viku eftir að hann hafði einn komist lífs af úr skelfilegu sjóslysi. Hér var Kastljós með efnivið um harmrænan atburð og alvarlega frásögn sjómannsins. Það er vandaverk sem krefst þekkingar og reynslu blaðamanns að koma bæði atburðinum til skila svo og frásögn sögumanns. Þetta kallaði á óvenjulega lausn. Sigmar Guðmundsson sýndi bæði sögunni og sögumanni verðskuldaða virðingu þegar hann ákvað að þverbrjóta allar reglur Kastljóss um efnismeðferð og lét frásögn Eiríks flæða í fullri lengd og ótruflaða. Ritstjórn og blaðamennska felst iðulega í því að stytta, stýra og spyrja þannig að henti þeim miðli og því formi sem við á hverju sinni. Hér var efnið meðvitað ekki lagað að rammanum heldur ramminn að efninu í þessu lang lengsta sjónvarpsviðtali í manna minnum. Viðfangsefnið var vandmeðfarið, ekki síst í ljósi þess hve stutt var frá slysinu og siðareglur blaðamennskunnar gera miklar kröfur í slíkum tilfellum. Þessum kröfum var mætt með góðum undirbúningi og viðtalið tekið eftir samráð við og samþykki sálfræðings Eiríks Inga og umræður við hann sjálfan. Blaðamannaverðlaun ársins 2012Ragnar Axelsson, Morgunblaðinu, fyrir merka umfjöllun og myndir af stórum pollum á Grænlandsjökli sem voru til marks um óvenju mikla bráðnun jökulsins. Einlægur áhugi Ragnars á mannlífi og náttúru á norðurslóðum hefur á umliðnum árum komið fram í glæsilegri umfjöllun í máli og myndum og vakið alþjóðlega athygli. Umfjöllun hans um fjölda stórra nýrra vatna eða polla norðarlega á Grænlandsjökli sem rekja má til hlýnunar jarðar er engin undantekning. Eftir að hafa sjálfur uppgvötað þessar náttúrufarsbreytingar á jöklinum úr flugvél fór blaðamaðurinn Ragnar Axelsson aftur á staðinn til að mynda og skoða fyrirbærið með það að markmiði að greina umheiminum frá því. En í stað þess að sýna sérfræðingum myndir og segja þeim frá málinu fékk hann Harald Sigurðsson jarðfræðing með sér á staðinn til að leggja mat á þær breytingar sem þarna höfðu orðið. Útkoman var stórglæsileg umfjöllun í máli og myndum sem ber vitni um vönduð vinnubrögð, skipulagningu og útsjónarsemi samfara næmum skilningi á samspili mynda og texta í fjölmiðlun, ekki síst í umfjöllun um umhverfismál.
Lesa meira
Steinunn Stefánsdóttir

Steinunn hættir á Fréttablaðinu

Steinunn Stefánsdóttir hefur hætt sem aðstoðarritstjóri á Fréttablaðinu í kjölfar breytinga sem gerðar voru á yfirstjórn ritstjórnarinnar. Nú eru tveir aðalritstjórar á blaðinu, þeir Mikael Torfason og Ólafur Stephensen. Steinunn segir í tilkynningu til samstarfsmanna að hún hætti í samkomulagi við forstjóra fyrirtækisins. RÚV hefur eftir henni að brotthvarf hennar tengist breytingum á yfirstjórn ritstjórnar enda tæplega þörf á aðstoðarritstjóra með tvo aðalritstjóra. Sjá frétt á vísir.is hér
Lesa meira
Á neðri hæð safnsins opnar einnig á sama tíma gestasýning Blaðaljósmyndarfélgsins. Sýningin ber heit…
Tilkynning

Blaðamannaverðlaun og Myndir ársins

Laugardaginn 9. mars nk. verður sýningin Myndir ársins 2012 opnuð í Gerðarsafni í Kópavogi. Veitt verða ljósmyndaverðlaun í sjö flokkum og tvö bestu myndskeið ársins 2012 verða einnig verðlaunuð. Samhliða verða afhent Blaðamannaverðlaun í fjórum flokkum. Einnig opnar á neðri hæð safnsins gestasýning Blaðaljósmyndarafélasins. Að þessu sinni er það Þórir Guðmundsson sem sýnir myndir sem hann hefur tekið í ferðum sínum fyrir Rauðkross Íslands, sýningin ber hetið ,,Á vettvangi vonar". Þetta er í 19. skipti sem sýningin er haldin í Gerðarsafni og hefur sýningin jafnan verið ein sú fjölsóttasta á safninu. Á sýningunni í ár eru 133 myndir sem valdar voru úr tæplega 1000 myndum sem bárust í forvalið. Sýningin stendur til og með 28. apríl nk. Úr formála sýningarskrárinnar: „Á sýningunni í ár eru 133 myndir og eru flokkarnir þeir sömu og undanfarin ár: Fréttir, íþróttir, portrett, tímarit, umhverfi, daglegt líf og myndaraðir. Veitt eru verðlaun fyrir bestu myndina í öllum flokkum og þar að auki er valin mynd ársins úr öllum innsendum myndum. Það voru tvær þriggja manna dómnefndir auk formanns dómnefndar sem fóru í gegnum þær tæplega 1000 myndir sem bárust í keppnina. Ákveðið var að brydda upp á þeirri nýjung að skipta flokkunum á þessar tvær dómnefndir og reyndist það mjög vel. Bjarni Eiríksson, Dagur Gunnarsson og Karl Petersson skipuðu dómnefndina sem fór í gegnum fréttamyndirnar, íþróttamyndirnar og myndraðirnar. Gísli Egill Hrafnsson, Haraldur Hannes Guðmundsson og Hörður Sveinsson sátu í dómnefndinni sem fór í gegnum tímaritamyndirnar, portrettin, daglegt líf og umhverfi. Sameiginlega völdu dómnefndirnar svo mynd ársins og hafði formaður dómnefndar, Þorkell Þorkelsson, þar atkvæðarétt. Hann var þar að auki dómnefndum innan handar við störfin. Flokkarnir fyrir myndskeiðin eru: Fréttamynd, daglegt líf, lífsbarátta, fagmennska, náttúruhamfarir og landslag. Veitt eru verðlaun fyrir tvö bestu myndskeiðin óháð flokkum. Þriggja manna dómnefnd fór í gegnum myndskeiðin sem bárust í ár. Hana skipuðu: Ingi R. Ingason framleiðandi og kvikmyndatökumaður, Sólveig Kr. Bergmann fréttamaður og Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður. Við viljum þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi og styrktu sýninguna í ár kærlega fyrir gott og ánægjulegt samstarf. Íslandsbanki styrkir sýninguna í ár með veglegum verðlaunum. Einnig viljum við þakka Blaðamannafélagi Íslands fyrir stuðninginn. Samhliða sýningunni kemur út bókin, Myndir ársins 2012, sem Sögur útgáfa gefur út. Í bókinni eru allar myndirnar sem eru á sýningunni auk þess var nokkrum fréttamyndum bætt við. Cristopher Lund sá um prentun ljósmynda á sýningunni og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Við viljum vekja athygli á því að á neðri hæð Gerðarsafns sýnir Þórir Guðmundsson myndir sem hann hefur tekið á vettvangi hjálparstarfs víða um heim, sýningin ber heitið Á vettvangi vonar.“
Lesa meira
Tilkynning

Myndir ársins 2012

Laugardaginn 9. mars nk. verður sýningin Myndir ársins 2012 opnuð í Gerðarsafni í Kópavogi. Veitt verða ljósmyndaverðlaun í sjö flokkum og tvö bestu myndskeið ársins 2012 verða einnig verðlaunuð. Samhliða verða afhent Blaðamannaverðlaun í fjórum flokkum. Einnig opnar á neðri hæð safnsins gestasýning Blaðaljósmyndarafélagsins. Að þessu sinni er það Þórir Guðmundsson sem sýnir myndir sem hann hefur tekið í ferðum sínum fyrir Rauðakross Íslands, sýningin ber heitið: ,,Á vettvangi vonar".Þetta er í 19. skipti sem sýningin er haldin í Gerðarsafni og hefur sýningin jafnan verið ein sú fjölsóttasta á safninu. Á sýningunni í ár eru 133 myndir sem valdar voru úr tæplega 1000 myndum sem bárust í forvalið. Sýningin stendur til og með 28. apríl nk.
Lesa meira
Ritstjórar Fréttablaðsins, Ólafur Stephensen og Mikael Torfason. Mynd: visir.is

Nýir ritstjórar á fríblöðum

Mikael Torfason hættir sem ritstjóri Fréttatímans og í hans stað mun koma Sigríður Dögg Auðunsdóttir. Mikael mun taka við starfi ritstjóra á Fréttablaðinu við hlið Ólafs Stephensen núverandi ritstjóra Fréttablaðsins. Sjá frétt á visir.is hér
Lesa meira
Blaðamannaverðlaun afhent í Gerðarsafni á laugardag

Blaðamannaverðlaun afhent í Gerðarsafni á laugardag

Blaðamannaverðlaun Íslands og viðurkenningar í Myndir ársins, ljósmyndasamkeppni Blaðaljósmyndarafélags Íslands verða afhentar í Gerðarsafni í Kópavogi á laugardaginn, 9. mars kl 15:00. Samhliða verður opnuð sýning BLÍ Myndir ársins og verður athöfnin með svipuðu sniði og undanfarin ár. Eins og fram hefur komið hér á síðunni hefur dómnefnd Blaðamannaverðlaunanna tilnefnt tólf manns til verðlaunanna í fjórum flokkum og mun á laugardag verða tilkynnt hverjir þessara blaðamanna hljóta verðlaunin. Þetta er í tíunda sinn sem verðlaunin eru afhent. Tilnefningarnar má sjá hér
Lesa meira