Sívakandi umræða um hlutlægni og trúverðugleika

"Hver er fréttamaðurinn?" Þannig spyr Journalisten.no

Trúverðugleiki og hlutlægni er mikið rætt málefni meðal norskra blaðamanna og á dögunum kom upp mál í íþróttafréttum NRK, norska ríkisútvarpsins, þar sem þetta var í brennidepli. Málsatvik voru þannig að eftir keppni í skíðagöngu þar sem norska liðið vann var tekið viðtal við einn liðsmanninn þar sem hann var meðal annars spurður um keppnina og árangurinn og þar sem viðmælandinn átti afmæli sama dag var hann spurður hvort hann hefði getað óskað sér að fá betri afmælisgjöf en þennan sigur. Í sjálfu sér hefur enginn gert athugasemd við spurningarnar eða svörin og þetta var sýnt bæði í sjónvarpsfréttaþætti NRK, Dagsrevyen og á vef NRK. Það sem hins vegar hefur verið tilefni umræðunnar er að sá sem tók viðtalið – og var með hljóðnema í mynd merktan NRK – var félagi í skíðagönguliðinu. Það var semsé landsliðsmaður að taka viðtal við liðsfélaga sinn um keppni sem þeir voru báðir að taka þátt í.  Á síðu norska Blaðamannsins (journslisten.no) er fjallað um þetta og talað við fréttastjóra íþróttafrétta hjá NRK sem afsakar þetta og talar um að þetta hafi verið mistök og hann segir að tilhneiging hafi verið komin upp hjá stofnuninni að túlka reglur um lausamenn sem taka viðtöl of rúmt. Stundum þurfi að fá inn lausamenn til viðtala, en reglan sem um slíkt gildi sé að það sé þá fólk ótengt því sem fjallað er um til að tryggja trúverðugleika, hlutlægni og hlutleysi. Það hafi ekki verið í þessu tilfelli meðal annars vegna þess að slaknað hafi á eftirflgni með reglum, en því hafi nú verið kippt í liðinn þannig að svona nokkuð ætti ekki að koma fyrir aftur.

Sjá einnig hér