Héraðsmiðlar gegna stóru hlutverki í dag

Hjá Víkurfréttum ehf. starfa í dag um tíu manns en fyrirtækið gefur út samnefnt vikulegt fréttablað á Suðurnesjum sem dreift er inn á öll heimili í fyrirtæki í nærri 9 þúsund eintökum. Blaðið fagnar 30 ára afmæli sínu um þessar mundir. Auk prentútgáfunnar eru starfræktir tveir vefir, fréttavefurinn vf.is sem stofnaður var 1995 og golfvefurinn kylfingur.is sem hóf göngu sína 2005. Starfsmenn Víkurfrétta hafa einnig séð um útgáfu tímaritsins Golfs á Íslandi fyrir Golfsamband Íslands í rúman áratug og Páll Ketilsson verið ritstjóri þess síðan 2003. Einnig hafa starfsmenn VF unnið ýmis önnur prentverk og komið að útgáfum að öðrum blöðum.

Að sögn Páls hefur reksturinn gengið upp og ofan. „Hann var oft erfiður fyrstu árin en byrjaði að vænkast þegar tölvutæknin kom til sögunar. Það var gott fyrir útgefendur sem áttu ekki sína prentsmiðju. Tölvu- og tæknibylting í umbroti og ljósmyndaþættinum hefur gert starfið mun auðveldara svo ekki sé minnst á netvæðinguna. Rekstrargrundvöllur minni fjölmiðla hefur vænkast á þann hátt að starfsmenn geta gert meira en áður, sérhæfingin minni. Hraðinn er meiri, umbrot auðveldara og tekur minni tíma. Þannig hefur tekist að færa „deadline“ nær prentun sem var mikilvægt. Þannig er hægt að vera með opið lengur fyrir auglýsingamóttöku og það skiptir miklu máli því flestir útgefndur héraðsfréttablaða eru háðir auglýsingum og færri reiða sig á áskrift og lausasölu."

Páll segir að með netinu hafi orðið byltingin í fréttamennsku. „Í dag rekum við á VF okkar „dagblað“ á netinu og leggjum mikla áherlsu á góða og öfluga fréttaþjónustu þar. Þróunin í vikublaði hefur orðið þannig að þar eru ekki lengur „nýjustu“ fréttir heldur meira mannlíf og viðtöl/greinar en nýjustu fréttirnar á vefnum. Fyrstu árin birtum við eingöngu efni úr blaðinu á vf.is en nokkrum árum síðar breyttum við því og fórum að leggja meiri áherslu á að nota vefinn sem alvöru fréttamiðil. Í dag er ekki hægt að nætursalta neinar fréttir. Samkeppnin er það hörð og með tilkomu samfélagsmiðla og snjallsíma hefur hún tekið á sig nýja mynd. Gott dæmi um það eru fréttir frá flugdólgi á til til New York nýlega. Þannig varð sá atburður að frétt þegar farþegar tóku myndir og deildu á samfélagsmiðla."

Héraðsmiðlar gegna stóru hlutverki í dag, ekki síður en áður segir Páll. „Þrátt fyrir fjölda miðla á landinu þá eru héraðsmiðlarnir að sinna sínu svæði og birta efni sem stóru miðlarnir gera ekki. Við erum meira í nærsamfélaginu. Því er þessi héraðsfrétta fjölmiðlun mikilvæg fyrir landsbyggðina. Í dag er enn fjöldi héraðsfréttablaða og fréttavefja um allt land og sinnir fréttaþjónustu á sínu svæði. Ég tel að framtíð þeirra sé björt og muni aldrei detta út úr fjölmiðlaflórunni."

Sigurður Már Jónsson