NUJ mun láta í sér heyra!

Michelle Stanistreet, framkvæmdastjóri hjá NUJ
Michelle Stanistreet, framkvæmdastjóri hjá NUJ

Svo virðist sem samtök blaðamanna í Bretlandi eigi að vera á hliðarlínunni þegar gerðar eru tillögur um nýtt eftirlitskerfi með siðferði og vinnubrögðum í breskum fjölmiðlum líkt og lagt ver til í Leveson skýrslunni. Í það minnsta var einungis ritstjórum og yfirmönnum stóru miðlanna boðið til samráðs við stjórnvöld í gær til að fara yfir þessi mál.

Michelle Stanistreet, framkvæmdastjóri hjá NUJ, Blaðamannasambandi Bretlands ritaði af þessu tilefni grein í Guardian í gær og sagði að þó blaðamönnum hafi ekki verið boðið að kræsingaborði ritstjóra og ráðherra, þá geti menn treyst því að NUJ muni láta heyra í sér með skýrum og áberandi hætti ef þær tillögur sem fram koma kveða ekki á um regluramma sem er í raun og sann óháður stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Það dugi ekki að koma með gamla kerfið kannski örlítið breytt – þá væri starf Leveson nefndarinnar í raun unnið fyrir lítið.

Stanistreet bendir á að í skýrslu Leveson nefndarinnar komi fram að það þurfi að verða almenn umbreyting á þeirri menningu sem ríkir á ritstjórnum í landinu til að koma í veg fyrir að blaðamenn séu í raun þvingaðir og settir í þá stöðu að skrifa og vinna með þeim hætti sem varð tilefni Leveson-rannsóknarinnar. Blaðamannasambandið (NUJ) sé enn að glíma við mál sem komið hafa upp á “virðulegum ritstjórnum” þar sem blaðamenn verða fyrir þrýstingi og einelti - sem bendi til að menn hafi ekki dregið mikla lærdóma af nýliðinni fortíð. Hún bendir á að ritstjórar og útgefendur verði að viðurkenna rétt blaðamanna sem stéttar til að eiga sameiginlegan talsmann í NUJ í þessu endurskoðunarferli öllu, ekki síst vegna þess að rétturinn til virðingar í vinnunni sé best tryggður með aðkomu og viðurkenningu stéttarfélagsins. Blaðamenn og almenningur þurfi að koma að þessu ekki síður en ritstjórarnir, segir Stanistreet.
Sjá grein Stanistreet hér