Fréttir

Fréttastofa RÚV nýtur mests trausts

Fréttastofa RÚV nýtur mests trausts

MMR kannaði traust almennings til helstu sjónvarps-, prent- og netfréttamiðla. Af þeim fréttamiðlum sem kannaðir voru báru svarendur mest traust til fréttastofu RÚV. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 75,3% bera mikið traust til Fréttastofu RÚV og 8,2% sögðust bera lítið traust til hennar. Í flokki netfréttamiðla var Mbl.is sá fréttamiðill sem naut mest trausts meðal almennings og var einnig sá fréttamiðill sem naut mest trausts að undaskildri fréttastofu RÚV. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 51,0% bera mikið traust til Mbl.is sem þó eru færri en í desember 2008 þegar 64,0% sögðust bera mikið traust til Mbl.is.Netfréttamiðillinn Visir.is naut einnig nokkurs traust meðal svarenda og hefur traust til Visir.is aukist frá maí 2009 þegar 24,4% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Visir.is, borið saman við 34,8% nú. Þeir prentmiðlar sem nutu mest trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 44,8% bera mikið traust til Morgunblaðsins en 40,6% sögðust bera mikið traust til Fréttablaðsins. Sjá meira hér  
Lesa meira
Met í fangelsun blaðamanna í ár

Met í fangelsun blaðamanna í ár

 Fangelsun blaðamanna og ritstjóra sem eru gagnrýnir á stjórnvöld vítt um heiminn hefur náð nýjum hæðum á þessu ári. Ástæðan er að hluta til sú að stjórnvöld í fjölmörgum löndum hafa beitt fyrir sig löggjöf um hryðuverk og annari löggjöf sem á að vera til varnar hagsmunum ríkisins. Þetta er megin niðurstaðan úr skýrslu sem Committee to Protect Journalists hefur birt.  Sjá skýrsluna hér  
Lesa meira
Breskir ritstjórar fallast á öflugra eftirlit en vija ekki fá yfir sig lagasetningu

Breskir ritstjórar fallast á öflugra eftirlit en vija ekki fá yfir sig lagasetningu

Ritstjórar helstu dagblaða í Bretlandi hittust fyrir helgina til að ræða hugmyndir um nýjan eftirlitsaðila með fjölmiðlum sem hefði mun víðtækari valdheimildir og tæki til ráðstöfunar en núverandi kerfi gerir ráð fyrir. Ritstjórarnirfunduðu undir talsverðum þrýstingi frá stjórnvöldum, einkum frá David Cameron, forsætisráðherra og féllust ritstjórarnir á að efla og styrkja eftirlitið með ýrri stofnun eins og rætt hefur verið um. Hins vegar þræddu ritstjórarnir nokkuð þröngan stig í þessu, því hugmyndirnar sem Leveson lávarður setti fram í skýrslu sinni gengu nokkuð lengra en ritstjórarnir voru tilbúnir til að sætta sig við. Þannig höfnuðu þeir róttækustu hugmyndinni í skýrslunni sem gekk út á að setja lög sem myndu búa til valdamikið og opinbert eftirlitskerfi með fjölmiðlum. Með þessari afstöðu sinni taka ritstjórarnir í stórum dráttum sömu afstöðu til tillagna skýrslunnar og Cameron forsætisráðherra hefur gert. Cameron hefur átt í nokkrum orðahnippingum við pólitíska adstæðinga vegna þess hversu tregur hann hefur verið að fallast á tillögur um að lögfesta eftirlit stjórnvalda með fjölmiðlum. Hefur hann sagt að ef stjórnmálamenn fari inn á þá braut sé 300 ára saga prentrelsis í hættu. Ef lög af þessu tagi séu á annað borð til staðar sé ákveðinn þröskuldur yfirstiginn og stjórnmálamenn gætu freistast til að víkka þau út smá saman, sem myndi þýða að stöðugt vaxandi eftirlit og ritskoðun með fjölmiðlum. Sjá einnig hér
Lesa meira
Simon Kruse Rasmussen

Er einhver þarna úti?

„Er einhver þarna úti?“ Þannig hljómar yfirskriftin á nýrri rannsóknarskýrslu sem sýnir að erlendum fréttariturum danskra fjölmiðla hefur fækkað um þriðjung frá því fjöldi þeirra var siðast kannaður árið 1998. Rannsóknin nær til stærri dagblaða í Danmörku og DR og TV2. Alls hefur erlendum fréttariturum fækkað úr 60 árið 1998 og niður í 39 árið 2012. Fréttariturum í Brussel hefur fækkað um næstum helming, eða úr 15 niður í 8 og fjöldinn í Berlín hefur farið úr 8 árið 1998 og niður í 3 í ár. Í dag eru nær engir fastráðnir fréttaritarar í Austur Evrópu, en á móti hefur fréttariturum heldur fjölgað í Kína. Það er fréttaritari Berlinske Medier í Moskvu, Simon Kruse Rasmunssen, sem tók þessa skýrslu saman. Hann segir að það kerfi sem áður var algengt, að miðlarnir höfðu fasta fréttaritara í útlöndum, hafi breyst og nú séu færri fastir fréttaritarar erlendis en fleiri blaðamenn sem eru á ferðinni og fari milli landa. Hann segir að þetta sé skynsamleg ráðstöfun út frá hagræðingarsjónarmiði. „Starfsstöðinni í Kabúl er bara lokað ef þungamiðja fréttanna færist til Norður Afríku i arabíska vorið,“ segir hann. En Rasmunssen bendir á að þetta sé ekki endilega heppilegt fyrir þá blaðamenn sem sendir eru á vettvang. „Þeir fréttamenn sem ég hef talað við segja að það sé mjög erfitt að þróa staðbundin tengsl og þekkingu, eða læra tungumál þegar unnið er með þessum hætti og því er hætt við að blaðamennskan verði mun yfirborðskenndari en ella,“ segir Simon Kruse. Sjá einnig hér og hér
Lesa meira
Forsíðumyndin úr New York Post

Er þetta í lagi? Hvað finnst þér?

Dagblaðið The New York Post framkallaði gríðarleg viðbrögð, mótmæli og hneykslan þegar það birti í gær mynd á forsíðu af manni sem hrint hafði verið niður á spor neðanjarðarlestar. Hann komst ekki upp og  lest kom brunandi að og keyrði á manninn nokkrum sekúndum eftir að myndin var tekin. Hann dó samstundis.Textinn var „Dæmdur: hrint niður á lestarteina, þessi maður er um það bil að deyja“.  Sá sem tók myndina er free-lance ljósmyndari og segir hann og ritstjórn New York Post að hann hafi ekki haft líkamsstyrk til að dragamanninn upp en hann hafi hins vegar reynt að gera lestarstjóranum viðvartmeð því að smella af flassi sínu ítrekað. Þetta þykir mörgum ekki boðleg afsökun og alvarlegar siðferðilegar spurningar vakna um hvort ljósmyndari hafi átt að reyna að aðstoða frekar en taka mynd, hvort réttlætanlegt sé að birta myndina og hvort yfirskriftin sé við hæfi. Sjá ítarlega umræðu hér
Lesa meira
Tilkynning

Forseti ráðherrar og ríkisstjórn –breyting á stjórnarskrá

Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn - Nýskipan framkvæmdarvaldsins - Starfshættir ríkisstjórna - Stjórnarmyndanir - Hlutverk forseta Íslands - Skipun embættismanna Þetta er yfirskrift fundar á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í fundaröð um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands. Fundurinn verður á morgun, miðvikudaginn 5. desember kl. 12-14 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Framsögumenn og þátttakendur í pallborði: Stefanía Óskarsdóttir, Gunnar Helgi Kristinsson, Skúli Magnússon og Guðni Th. Jóhannesson. Ómar H. Kristmundsson stjórnar fundi.
Lesa meira
Fagna viðurkenningu Leveson - skýrslu á

Fagna viðurkenningu Leveson - skýrslu á "samviskuákvæði"

Blaðamannafélagið í Bretlandi hefur fagnað hinni svokölluðu Leveson- skýrslu og bendir á að í henni komi fram stuðningur við tillögur félagsins og Blaðamannafélags Írlands um að sett verði sértök ákvæði inn í regluramma og ráðningarsamninga um að blaðamenn geti neitað að vinna störf sem þeir telji siðlaus eða sem brjóti gegn sannfæringu þeirra. Nú hefur Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og Evrópusamband blaðamanna (EFJ) lýst yfir stuðningi við þessa tillögu bresku félaganna og leggja til að hún hafi forgang við vinnu við nýja laga- og reglugerðarumgjörð fyrir starfsemi fjölmiðlafólks. Tillögurnar sem hér um ræðir er að finna í hinni viðamiklu skýrslu sem kennd er við Leveson lávarð og unnin var upp í kjölfar hneykslismála og ósiðlegra vinnubragða, m.a. símhlerana og innbrota í símakerfi bæði þekktra og minna þekktra einstaklinga. NUJ, breska Blaðamannafélagið hafði áður kallað eftir því að nýjar reglur af þessu tagi yrðu settar þar sem siðareglur Kvörtunarnefndarinnar (siðanefnd) Press Complaints Commission höfðu ekki dugað til að halda uppi nægjanlega miklum gæðum í fréttaflutningi. Í skýrslu Leveson segir á einum stað að það hafi slegið hann “að finna dæmi þess að blaðamenn hafi upplifað sig undir verulegum þrýstingi að gera hluti sem gegn sannfæringu sinni og sem þeir töldu ósiðlega og brjóta gegn siðareglum. Því legg ég til að hin nýja sjálfs-efirlitsstofnun eða skipulagseining (e. self-regulationg body) komi sér upp farvegi fyrir uppljóstrun um slíka huti og hvetji jafnramt til þess að í ráðningarsamningum blaðamanna komi sérstakt samviskuákvæði, sem tryggi blaðamenn sem neita að vinna verk af þessu tagi.” Forseti Alþjóðasambands blaðamanna, Jim Boumelha, fagnar þessum hluta skýrslunnar og bendir á að vitnisburður NUJ fyrir nefnd Levesons hafi skipt miklu máli. “Í vitnisburði NUJ kom það skýrt fram að mikill þrýstingur hefur verið settur á marga blaðamenn. Of oft hafa of margir blaðamenn staðið frammi fyrir þeim valkosti að vinna verk sem þeim líður illa með að vinna eða  missa starfið ella. Valdið liggur hjá ritstjórum og útgefendum. Ef við viljum að blaðamenn vinni í samræmi við siðareglur þá þurfa þeir að geta treyst því að óhætt sé fyrir þá að virða reglur fagfélags þeirra og geta hafnað því að vinna tiltekin verk án þess að óttast refsiaðgerðir,” segir Boumelha. “Ég óska NUJ til hamingju með að hafa unnið þennan áfangasigur í baráttunni fyrir að fá viðurkennt samviskuákvæði,” segir Arne König formaður Evrópusambands blaðamanna. “Samviskuákvæði” eins og hér um ræðir eru þegar í gildi í siðareglum eða regluumhverfi fjölmiðlafólks í mörgum löndum Evrópu og birtist í ýmsum myndum. Þess má geta að ákvæði af þessum toga var í drögum að siðareglum sem stjórn Blaðamannafélagsins kynnti í fyrra vetur, en sem náðu ekki að verða afgreiddar. Sömuleiðis er  ákvæði af þessu tagi í þeim leiðbeiningum sem Blaðamannafélags Íslands hefur sett fram varðandi reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem kveðið er á um í fjölmiðlalöögum og finna má hé á síðunni en þar segir m.a.: "Það er stefna fjölmiðlaveitu að í umboði ritstjóra hafi starfsmenn á ritstjórn sem heild fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði. Í því felst að þeir þurfa ekki að taka tillit til skoðana eða hagsmuna eigenda eða viðskiptamanna miðilsins, ef siðareglur BÍ, samviska þeirra og sannfæring segir þeim að ekki sé rétt að gera slíkt. Blaða- og fréttamanni verður ekki gert að vinna verkefni sem stangast á við sannfæringu hans eða samvisku eða teljast niðurlægjandi. Blaðamaður tekur ekki við verkefnum frá öðrum en yfirmanni á ritstjórn."    
Lesa meira
Neikvæð umræða um múslima áberandi

Neikvæð umræða um múslima áberandi

Frá 11. september 2001 hafa neikvæðar ímyndir af múslimum verið meira áberandi í bandarískum fjölmiðlum en jákvæðar. Þetta gerist þrátt fyrir að mikil umræða hafi verið frá 2001 -2008 um að óheppilegt og hættulegt væri að gera mikið úr sjónarmiðum öfgafólks með reiði- og óttablöndnum skilaboðum í fjölmiðlum. Það sem hefur gerst er að hin gríðarlega áhersla sem fjölmiðlar hafa lagt á fréttir af samtökum sem hafa verið áberandi neikvæð út í múslima hefur styrkt stöðu þessara samtaka í opinberri umræðu. „Afleiðingarnar af þessari fjölmiðlaumræðu er sú að öfgasamtökin sem fá þessa miklu dekkun hafa í raun náð að endurskilgreina hvað eru öfgar og hvað er meginstraumsumræða,“ segir Christopher Bail, félagsfræðingur við University of North Carolina og Univeristy of Michigan. Hann gerði rannsókn þar sem hann bar saman fréttatilkynningar frá ýmsum hópum og samtökum, bæði múslimskum, and-múslimskum, kristnum og einnig frá spunafyrirtækjum og bar þær saman við fréttir sem birtust í blöðum og ljósvakamiðlum (um 50 þúsund fréttir). Flestar tilkynningarnar (75%) náðu ekki í gegn, til birtingar, en þær sem voru tilfinningaþrungnar og vöktu upp ótta eða reiði voru líklegastar til að verða birtar. Niðurstöðurnar voru birtar í American Sociological Review nú um mánaðarmótin. Sjá einnig hér
Lesa meira
Fjölmiðlar og atvinna í brennidepli

Fjölmiðlar og atvinna í brennidepli

Í nýjasta hefti Arbeidsliv i Norden er athyglinni beint að stöðunni á fjölmiðlamarkaði á Norðurlöndum. Í leiðara er talað um að tilefnið séu uppsagnir hjá fjölmörgum fjölmiðlahúsum, niðurskurður í rekstri og hagræðing. Hjá dagblöðum fækkar lesendum og ný tækni hefur mikil áhrif. Niðurstaðan eru blaðamenn án atvinnu og margir þaulreyndir blaðamenn fara á eftirlaun áður en þeir ná aldri til þess. Spurt er: Hvað áhrif hefur þetta? Sjá fjölmargar áhugaverðar greinar hér
Lesa meira
Tilkynning

Jólauppbót

Jólauppbót samkvæmt kjarasamningum Blaðamannafélagsins fyrir þá sem hafa verið í fullu starfi allt árið er 50.500 kr. og hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma á árinu. Uppbótina ber að greiða út á tímabilinu 1.-15. desember.
Lesa meira