Blaðamennska á Íslandi er lífstíll

Blaðamenn á Íslandi virðast sætta sig við mikið álag og lág laun meðal annars vega þess að þeim þykir starfið skemmtilegt, spennandi og fjölbreytt. Þeir líta á það sem lífsstíl og eiga því erfitt með að samræma vinnu og einkalíf og missa því gjarnan af gæðastundum með vinum og fjölskyldu. Þetta má lesa út úr niðurstöðum úr viðtalsrannsókn Svanhvítar Ljósbjargar Guðmundsdóttur  sem hún gerði sem lokaverkefni í meistaranámi sínu í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands.  Hún byggði á viðtölum við starfandi og fyrrverandi blaðamenn sem greindu frá reynslu sinni og viðhorfum.

Ritgerðina í heild má sjá hér, en úrdráttur Svanhvítar Ljósbjargar er svohljóðandi:

 Það er eitthvað heillandi við blaðamennskuna og hún hefur löngum þótt vera áhugavert starf. Þrátt fyrir að blaðamenn séu almennt ánægðir í starfi eru hins vegar margir þeirra sem kjósa að hætta störfum og sérstaklega virðist það eiga við um konur, þrátt fyrir að meiri líkur séu á að þær hafi menntað sig í faginu.
Markmið þessarar rannsóknar er að skoða aðstöðu blaðamanna á Íslandi, álag í starfi, starfsaldur, vinnustaðamenningu og kynjamismunun og þá með sérstakri áherslu á konur og af hverju þær virðast eiga styttri starfsaldur á fjölmiðlum en karlar. Til að skoða þetta voru settar fram þrjár rannsóknarspurningar:
1. Hvaða starfstengdu þættir móta helst að blaðamenn séu ánægðir í starfi?
2. Hvers vegna eiga konur styttri starfsaldur á fjölmiðlum en karlar?
3. Hvaða áhrif hefur starf blaðamannsins á samræmingu vinnu og einkalífs?

Til að fá svör við þessum spurningum og fleirum var notuð eigindleg aðferðafræði. Tekin voru hálfopin viðtöl við tólf einstaklinga, karla og konur, sem starfa sem blaðamenn eða höfðu áður starfað sem blaðamenn. Notast var við snjóboltaúrtak við framkvæmd rannsóknarinnar. Auk þess var safnað saman upplýsingum um fjölda og kynjahlutfall útskrifaðra nema úr fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar sem og upplýsingum um fjölda blaðamanna og kynjahlutfall í Blaðamannafélagi Íslands. Að endingu fékkst tölfræði um fjölda blaðamanna, kynjahlutfall, aldur og starfsaldur frá fjórum íslenskum prent- og vefmiðlum.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þeir blaðamenn sem rætt var við voru almennt mjög sáttir í störfum sínum. Þeim fannst starfið skemmtilegt, spennandi og fjölbreytt ásamt því að vera samfélagslega mikilvægt. Gallar starfsins voru hins vegar þeir að álagið var gríðarlega mikið, á köflum svo mikið að það ógnar heilsu einstaklinganna, og launin voru of lág. Þrátt fyrir gallana upplifðu blaðamenn starf sitt sem nokkurs konar lífsstíl sem fylgir þeim alltaf enda eru þeir alltaf vakandi fyrir fréttum. Að hluta til vegna þess að blaðamennskan verður nokkurs konar lífstíll viðurkenndu flestir viðmælendurnir að þeir ættu erfitt með að samræma vinnu og einkalíf og að þeir misstu reglulega af gæðastundum með vinum og fjölskyldu. Það virðist vera fórnarkostnaður sem margir eru tilbúnir að sætta sig við enda upplifðu viðmælendurnir sem það væri í raun bara hluti af starfinu.
Eins gefa niðurstöður rannsóknarinnar það til kynna að umhverfi fjölmiðlanna sé almennt erfitt og krefjandi, fyrir bæði konur og karla. Hins vegar er það enn erfiðara fyrir konur því ofan á þessa galla blaðamennskunnar þurfa konur frekar að berjast fyrir sinni stöðu á fjölmiðlum. Þær fá frekar mál sem njóta ekki virðingar og það þarf mikla baráttu til að þær fái „stóru málin“. Eins gátu margar konurnar nefnt eitt eða jafnvel tvö dæmi um kynjamismunun og í sumum tilvikum hafði það greinilega haft mikil áhrif á þær. Rannsóknir sýna að konur sjá ennþá um meirihluta barnauppeldis og heimilisstarfa og þegar því er bætt við baráttuna sem þær þurfa að heyja til að fá sanngjörn tækifæri í vinnunni skýrir það líklega hvers vegna margar þeirra velja að hætta í blaðamennsku.