Fleiri afbrot, minni umfjöllun - færri afbrot, meiri umfjöllun?!

Vísbendingar eru um að umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um afbrot hafi aukist þegar afbrotum fækkaði en að það hafi hins vegar dregið úr henni þegar hegningalagabrotum fjölgaði. Þetta kemur fram í nýrri meistararitgerð Jóns Heiðars Gunnarssonar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Jón Heiðar skoðaði gögn frá Creditinfo  um fréttir af afbrotum á árunum 2006 - 2013  og bar það saman við hegningalagabrot á landsvísu fyrir sama tímabil.

 Hér má sjá ritgerðina í heild sinni, en útdráttur Jóns Heiðars hljóðar svona:

Viðfangsefni þessarar rannsóknar og ritgerðar er að kanna sambandið á milli fjölmiðla og afbrota, auk þess sem leitast er við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningu: „Eru rökrétt tengsl á milli afbrotatíðni og umfjöllunar fjölmiðla á Íslandi?“ Til að svara þessari spurningu var notast við megindlega rannsóknaraðferð þar sem fréttir af afbrotum á árunum 2006 – 2013 voru skoðaðar ásamt því að afmörkuð tímabil voru greind niður á kerfisbundinn hátt. Notast var við gagnagrunn Creditinfo til að nálgast fréttir frá fyrrnefndu tímabili. Markmiðið er að auka skilning á umfjöllun fjölmiðla um afbrot og skoða hvað megi fara betur í meðferð íslenskra fréttamanna á viðfangsefninu. Niðurstöður komu á óvart því þær sýna fram á að neikvætt rökrétt samband er á milli afbrotatíðni og umfjöllunar fjölmiðla um afbrot þ.e. það ríkir andhverfusamband þarna á milli. Rannsóknin leiddi í ljós að á rannsóknartímabilinu dregur úr umfjöllun fjölmiðla um afbrot þegar hegningarlagabrotum fjölgar og á sama hátt eykst fjölmiðlaumfjöllun um afbrot þegar þeim fækkar. Þó eru ýmsir þættir sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar, en til að mynda hóf Creditinfo ekki að skrásetja netfréttir fyrr en árið 2010.