Héraðsfréttamenn líta á sig sem samfélagssmiði

 Ritstjórar á héraðsfréttablöðum beita sjálfsritskoðun samkvæmt eigindlegri viðtalsrannsókn Björns Þorlákssonar í lokaritgerð hans í MA námi blaða- og fréttamennsku við  HÍ.  Niðurstaða Björns er að nálægðarvandi og erfið rekstrarskilyrði verði til þess að blaðamenn í dreifbyli kjósi frekar að leggja áherslu á hlutverk „samfélagssmiðsins“ en  aðalhaldshlutverk sitt eða það sem iðulega er kallað varðhundshlutverk.

Úrdráttur úr ritgerð Björns er svohljóðandi: 

Eitt meginhlutverk fjölmiðla er að veita valdi aðhald og spyrja gagnrýninna spurninga. Oft er þetta aðhaldshlutverk kallað varðhundshlutverkið. Fjölmiðlar þykja mikilvægur öryggisventill í lýðræðissamfélögum og hefur verið vísað til fjölmiðla sem fjórða valdsins. Aukin krafa um sjálfstæði og aðhald fjölmiðla kom fram á Íslandi í Rannsóknarskýrslu Alþingis á sama tíma og ytri skilyrði til fjölmiðlarekstrar versnuðu eftir efnahagskreppuna árið 2008. Fækkað hefur í stétt blaðamanna og ekki síst í dreifðari byggðum. Tekjuöflun fréttamiðla veltur að mestu á auglýsingum. Áskrifendum hefðbundinna fjölmiðla fækkar, blaðamennska færist í ríkari mæli yfir í netheima þar sem áhersla á að fréttir selji vel hefur farið vaxandi. Í þessari ritgerð verður spurt hvernig héraðsfréttablöð á Íslandi hafi brugðist við opinberu ákalli um mikilvægi sjálfstæðrar og gagnrýninnar fréttamennsku. Niðurstaðan styður við fyrri rannsóknir, að vegna nálægðarvanda og efnahagsskilyrða kjósi blaðamenn í dreifðri byggð enn að leggja mesta áherslu á að binda eigið nærsamfélag saman, það sem kallað er samfélagssmiðshlutverk í ritgerðinni. Lítil áhersla sé á aðhald gegn valdhöfum. Ritstjórar héraðsfréttablaða beiti sjálfsritskoðun. Rof hafi orðið á eldveggjum milli ritstjórna og auglýsingadeilda. Lögð sé áhersla á milda fréttastefnu, sem forvirka aðgerð gegn aðkasti sem vekur spurningu um burði héraðsfjölmiðla til að sinna lýðræðislegum skyldum.“

Sjá ritgerðina í heild hér