Fréttir

Atkvæðagreiðsla um samninga

Atkvæðagreiðsla um samninga

Nýr kjarasamningur Blaðamannafélags Íslands við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Árvakurs, 365 og RÚV verður borinn undir atkvæði í leynilegri atkvæðgreiðslu næstkomandi miðvikudag 19. febrúar 2014 í húsnæði BÍ að Síðumúla 23, 3. hæð. Kjörfundur stendur yfir frá 10-16.  Auk þess verða haldnir kynningafundir um samninginn á 365 klukkan 10.30 í húsnæði BÍ klukkan 12.00 og á Morgunblaðinu klukkan 14.30, þar sem einnig verður hægt að greiða atkvæði um kjarasamninginn.  Allir fullgildir félagar í BÍ geta greitt atkvæði nema starfsmenn DV, Birtings og Fréttatímans, þar sem gerðir hafa verið sérsamningar.       Sjá samning hér
Lesa meira
Jón Rúnar Pálsson, fulltrúi SA, Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Hjálmar Jónsson, formaður BÍ. …

BÍ og SA skrifa undir kjarasamning

Blaðamannafélag Íslands og Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Árvakurs, 365 og RÚV, undirrituðu kjarasamning nú fyrir helgi, en áður hafði BÍ samið við Fréttatímann, DV og Birting. Þeir samningar voru samþykktir með afgerandi hætti á viðkomandi fjölmiðlum og að sögn Hjálmars Jónssonar formanns BÍ verða þessir samningar bornir undir atkvæði á næstu dögum. Samningurinn nú er að mestu samhljóða samningum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá í desember með 2,8% launahækkun afturvirkt frá 1. janúar. Hjálmar segir sömu hugsun í þessum samningi og almennu samningunum, að hér sé um aðfararsamning að lengri samningi að ræða og er gildistíminn út þetta ár. Hjálmar segir það hafa verið mat samninganefndarinnar að betra væri að tryggja félagsmönnum þessar hækkanir núna og nota tímann til að undirbúa vel næstu lotu. Sjá kjarasamning hér
Lesa meira
Tilnefningar dómnefndar

Tilnefningar dómnefndar

  Dómnefnd Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands hefur skilað af sér tilnefningum fyrir árið 2013. Dómnefndin gerir þrjár tilnefningar í hverjum flokki verðlaunanna, sem eru fjórir: Viðtal ársins 2013; Rannsóknarblaðamennska ársins 2013; Umfjöllun ársins 2013; og Blaðamannaverðlaun ársins 2013.  Flokkarnir eru allir jafngildir. Tilnefningar dómnefndar eru eftirfarandi:   Viðtal ársins 2013Kristjana Guðbrandsdóttir, DV Fyrir upplýsandi og vel skrifað viðtal við Gunnar Smára Egilsson þar sem hann gefur afar fróðlega innsýn inn í heim fjölmiðla og ákvarðanir sem þar eru teknar auk þess að kryfja sjálfan sig og reynslu sína til mergjar. Orri Páll Ormarsson, MorgunblaðinuFyrir einstakt viðtal við Eyþór Eyjólfsson um ólíka stöðu samkynhneigðra milli heimshluta, þróun tíðarandans og hjartaáfallið sem hann fékk þegar hann sá maka sinn, Junya Nakano, látinn. Stígur Helgason, Fréttablaðinu Fyrir áhrifaríkt viðtal við Maríu Rut Kristinsdóttur sem upplifði kynferðisofbeldi sem hún tókst á við með aðstoð menntamálaráðherra. Nú formaður Stúdentaráðs berst hún við ráðherrann á opinberum vígstöðvum. Rannsóknarblaðamennska ársins 2013Eva Bjarnadóttir, Fréttablaðið Fyrir greinargóða og yfirgripsmikla umfjöllun um viðkvæm málefni sem sjaldan er fjallað um, sjálfræðissviptingu og nauðungarvistun geðsjúkra. Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson, DV  Fyrir upplýsandi og athyglisverða umfjöllun um hælisleitendur og fyrir að fylgja því m.a. vel eftir hvort mögulega hafi verið brotið á réttindum einstaklinga í hópi þeirra. Ægir Þór Eysteinsson, Kjarninn Fyrir markverða samantekt á rekstri, starfsháttum og lánveitingum Sparisjóðs Keflavíkur og sér í lagi fyrir úttekt á því hvernig stofnfjárbréf sjóðsins gengu kaupum og sölum árin fyrir fall hans.   Umfjöllun ársins 2013Fréttastofa 365 Fyrir heildstæðan og ítarlegan fréttaflutning af skotárás í Hraunbæ þar sem stuðst var við fjölbreytt form fjölmiðla til að koma öllum hliðum sögunnar til skila. Ritstjórn Kastljóss Fyrir áhrifamikla umfjöllun um kynferðisbrot og afleiðingar þeirra með afhjúpun á brotum manns til áratuga. Í kjölfarið kom viðtal við tvo menn sem kærðu kynferðisbrot árið 2005 og ítarleg umfjöllun um útskúfun ungrar konu frá litlu samfélagi eftir að hún kærði mann fyrir nauðgun. Ritstjórn RÚV Fyrir umfangsmikla umfjöllun fyrir Alþingiskosningarnar 2013 þar sem tókst að koma sjónarmiðum allra 15 framboða á framfæri og gera baráttumál þeirra aðgengileg almenningi á þann hátt sem mikilvægt er í lýðræðisríki. Blaðamannaverðlaun ársins vegna 2013Bergljót Baldursdóttir Fréttastofu RíkisútvarpsinsFyrir víðtæka umfjöllun um ýmis vísindi og rannsóknir, ekki síst heilbrigðismál. Með sérhæfingu tekst henni að sýna erfiða stöðu í heilbrigðiskerfi landsmanna í fjárveitingum, húsnæði, tækjabúnaði, starfsmannamálum og vanda sjúklinga. Jafnframt hefur hún sýnt fram á góðan árangur heilbrigðisstarfsmanna við erfiðar aðstæður. Helgi Seljan Kastljósi RíkisútvarpsinsFyrir margháttaða og ítarlega umfjöllun um fjármál, heilbrigðismál og lögreglu- og fangelsismál. Helgi hefur með víðfeðmri gagnaöflun beint kastljósinu að skattamálum stóriðjufyrirtækja, málefnum geðsjúkra, meðal annars fanga, og að kynferðisofbeldi. Svavar Hávarðsson Fréttablaðinu Fyrir yfirgripsmikil og vönduð skrif um ólík efni. Má þar nefna umfjöllun um vandamál tengd virkjun háhitasvæða sem fram hafa komið í Hellisheiðarvirkjun og rekstri hennar, síldardauða í Kolgrafafirði þar sem skoðaðar voru ýmsar hliðar á samspili manna og náttúru og um raforkusölu Íslands til Evrópulanda um sæstreng.   Tilkynnt verður um hver hreppir verðlaunin í hverjum flokki við athöfn í Gerðarsafni á laugardag eftir viku.
Lesa meira
Politiken gefur auglýsingar til að dómsmál komist í Hæstarétt

Politiken gefur auglýsingar til að dómsmál komist í Hæstarétt

Dagblaðið Politiken í Danmörku hefur heitið því að gefa stuðnings- og fjáröflunarsamtökum blaðamannsins Jörgen Dragsdahl þrjár ókeypis auglýsingar í blaðinu til að styðja hann í málarekstri fyrir Hæstarétti. Um er að ræða langvinnt mál milli Dragsdahl og Bent Jensen prófessors í sagnfræði, sem sakaði Dragsdahl um að hafa verið KGB njósnari á sínum tíma. Dragsdahl sem starfaði m.a. á vinstri blaðinu Information hefur alfarið hafnað þessu og fór í mál við Jensen. Hann vann málið í undirrétti en tapaði í millirétti og nú er málið semsé á leið til Hæstaréttar, og svo virðist sem margir leggi þunga áherslu á að málið fái afgreiðslu þar. Bæði starfsmenn á Information og nú Ritstjóri Politiken telja mikilvægt að þetta mál og öll umræðan um stöðu fólks gagnvart sagnfræðirannsóknum og ásökunum af þessu tagi fái meðferð fyrir æðsta dómstól landsins og til þess þurfi fjármagn sem bæði Politiken og Starfsmannafélag Information hafa nú lagt í púkkið. Í báðum tilvikum er lögð áhersla á að með þessu sé ekki verið að lýsa yfir stuðningi við annan hvorn aðilann, heldur einungis að tryggja að málið fái afgreiðslu í Hæstarétti. Sjá einnig hér
Lesa meira
Sjónvarpsstöð sætir hótunum og hunsun

Sjónvarpsstöð sætir hótunum og hunsun

Bæði Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hafa tekið undir fordæmingu Blaðmannasamtaka Rússlands á fordæmalausum aðgerðum yfirvalda gegn sjónvarpsstöðinni Dozhd, en stöðinni hefur hótað lokun vegna þess að hún var með umdeilda könnun á netinu sem tengdist umsátrinu um Leningrad í Seinni heimstyrjöldinni. Í könnuninni, sem birtist þann 26. janúar síðast liðinn, var spurt hvort réttara hefði verið af Sovétríkjunum að gefast upp og láta Leningrad eftir Þjóðverjum og bjarga þannig mörg hundruð þúsund mannslífum. Samkvæmt umfjöllun um könnunina í fölmiðlum í Rússlandi stuðaði hún fjölmarga landsmenn og spurningar hafa vaknað um siðlegt gildi hennar. Í framhaldinu hófu flest kapal- og gervihnattadreifikerfi að skrúfað fyrir merki stöðvarinnar strax 29. janúar. Sjónvarpsstöðin hefur beðist opinberlega afsökunar á þessari könnun, en engu að síður hafa stjórnvöld hótað að loka stöðinni fyrir tilraun til þess að „endurvekja nazisma“. Rússneska þingið hefur samþykkt þingsályktun þar sem opinber rannsókn er fyrirskipuð á könnuninni og hvort réttmæt ástæða sé fyrir því að loka stöðinni Blaðamannasamtök Rússland hafa ekki tekið undir siðferðilegt gildi könnunarinnar eða varið hana á neinn hátt, en benda hins vegar á að engin lög hafi verið brotin. „Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi blásið málið út þannig að það er komið úr öllum hlutföllum,“ segir Jim Boumelha, forseti Alþjóðasambands blaðamanna. „Það er nokkuð ljóst að þetta er enn ein tilraun til að takmarka tjáningarfrelsi og gagnrýni fjölmiðla,“ segir hann enn fremur. Mogens Blicher Bjerregård formaður Evrópusambands blaðamanna tekur í sama streng og segir að vaxandi tilhneigingar hafi gætt í Rússlandi hjá stjórnvöldum að höfða ýmist meiðyrðamál eða beinlínis sakamál gegn blaðamönnum í því skyni að tempra gagnrýni blaðamanna. „Það verður að stöðva,“ segir Bjerregård. Sjá einnig hér
Lesa meira
Blaðamennska á átakasvæðum

Blaðamennska á átakasvæðum

Almennur fundur um blaðamennsku á átakasvæðum verður haldinn í stofu 132 í Öskju í Öskju, HÍ föstudaginn 14. febrúar. Störf fréttafólks er hvergi jafn hættulegt og á svæðum ófriðar, átaka og veikra lýðræðislegra stoða. Á fundinum munu þrír blaðamenn, sem allir hafa starfað á átakasvæðum fara með stutta tölu. Þeir Fahad Shah frá Kasmír, Jasmin Rexhepi frá Kosovo og Mazen Maaroof frá Líbanon munu fjalla um eigin reynslu og áskoranir sem þeir og aðrir blaðamenn á ófriðarsvæðum horfast í augu við. Þeir munu ræða ástand mála í heimalandi sínu og tengja það við hlutverk og störf blaðamanna . Fundaboðendur eru: Blaðamannafélag Íslands, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Alþjóðamálastofnun, Meistaranám í blaða- og fréttamennsku, Miðstöð Rannsóknarblaðamennsku, Nýlistasafnið, DV, Reykjavík vikublað og Grapevine. Í þættinum Sjónmál á Rás 1 var í gær rætt við Auði Ingólfsdóttur lektor í alþjóðastjórnmálum á Bifröst um stöðu fjölmiðla og þær hættur sem steðja að fjölmiðlamönnum meðal annars á átakasvæðum í norður Afríku. Viðtalið byrjar á 01:07 Sjá hér
Lesa meira
Kjarasamningar samþykktir

Kjarasamningar samþykktir

Nýir kjarasamningar Blaðamannafélags Íslands við Fréttatímann, DV og Birting voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á almennum félagsfundum á fjölmiðlunum í dag þar sem samningarnir voru kynntir og greidd um þá atkvæði. Kjörsókn var hvergi undir 50%. Kjarasamningarnir eru því orðnir bindnandi og gilda afturvirkt frá 1. Jan út þetta ár. Samningarnir eru í öllum aðalatriðum samhljóða þeim aðfararsamningi sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér á dögunum. Enn er ósamið við Samtök atvinnulífsins, sem fara með samningsumboð fyrir Árvakur, 365 og RÚV, og hefur Blaðamannafélagið vísað kjaradeilunni til ríkissáttasemjara og óskað eftir meðalgöngu hans. Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara næstkomandi þriðjudag.
Lesa meira
Samningur við Birting og Fréttatímann

Samningur við Birting og Fréttatímann

  Blaðamannafélag Íslands hefur undirritað nýja kjarasamninga við útgáfuféllagið Birting, stærsta útgefanda tímarita í landinu, og Fréttatímann. Áður hafði verið gerður kjarasamningur við DV. Viðræður við aðra fjölmiðla, sem standa utan Samtaka atvinnulífsins, ganga vel. Kjarasamningarnir verða bornir undir atkvæði á viðkomandi vinnustöðum á morgun, miðvikudag. Fyrsta fundinum í kjaradeilu Blaðamannafélagsins við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara lauk fyrir stundu. Fundurinn var með öllu árangurslaus. Nýr fundur hefur verið boðaður að viku liðinni. Samtök atvinnulífsins fara með samningsumboð fyrir Árvakur, útgefanda Morgunblaðsins og mbl.is, 365, útgefanda Fréttablaðsins, Vísis og Stöðvar 2 og Ríkisútvarpið.
Lesa meira
Fjölmiðlar og pólitískir fjölmiðlanotendur

Fjölmiðlar og pólitískir fjölmiðlanotendur

Áhorfendur Fox News sjónvarpsstöðvarinnar í Bandaríkjunum eru  miklu íhaldssamari en áhorfendur helstu keppinauta þeirra, CNN og MSNBC. Þannig segjast aðeins 10% áhorfenda stöðvarinnar vera frjálslyndir, um 23% vera miðjusinnaðir og 60% segjast íhaldssamir. Þetta kemur fram á síðu Pew Research Center og byggir á könnun frá 2012. Ekki munu vera til sambærilegar tölur fyrir Ísland en þó má benda á nýlega grein í Stjórnmálum og stjórnsýslu þar sem viðhorf stjórnmálamanna til íslenskra fjölmiðla voru kortlögð. Þar kemur fram að það fer eftir því hvar í flokki stjórnmálamenn standa hvort þeir telja hina ýmsu miðla halla til hægri eða vinstri eða hvort þeir eru hlutlausir í fréttaumfjöllunum sínum eða ekki. Í meðfylgjandi töflu má sjá einkunnir sem frambjóðendur  í síðustu Alþingiskosningum gáfu fjölmiðlum á fimm þrepa mælikvarða þar sem einkunnin 1= alveg hlutlaus og einkunnin 5= mjög hlutdrægur. Eins og sjá má í neðstu línu töflunnar er RÚV talið minnst hlutdrægt en Morgunblaðið hlutdrægast. Breytileikinn er hins vegar umtalsverður eftir flokkum.
Lesa meira
BÍ og DV gera kjarasamning

BÍ og DV gera kjarasamning

Blaðamannafélag Íslands og útgefendur dagsblaðsins DV og dv.is hafa undirritað nýjan kjarasamning, sem gildir til áramóta. Samningaviðræðurnar áttu sér skammann aðdraganda og gengu mjög vel. Samningurinn verður borinn undir atkvæði til samþykktar eða synjunar síðar í þessari viku. Viðræðum við aðra fjölmiðla, sem standa utan Samtaka atvinnulifsins, miðar vel. Kjaradeildu Blaðamannafélagsins við Samtök atvinnulífsins hefur verið vísað til ríkissáttasemjara og hefur sáttasemjari boðað til fundar í deilunni á morgun, þriðjudag. Samtök atvinnulífsins fara með samninsgumboð fyrir Árvakur, útgefanda Morgunblaðsins, 365 og RÚV.
Lesa meira