Fagna viðurkenningu Leveson - skýrslu á "samviskuákvæði"

Blaðamannafélagið í Bretlandi hefur fagnað hinni svokölluðu Leveson- skýrslu og bendir á að í henni komi fram stuðningur við tillögur félagsins og Blaðamannafélags Írlands um að sett verði sértök ákvæði inn í regluramma og ráðningarsamninga um að blaðamenn geti neitað að vinna störf sem þeir telji siðlaus eða sem brjóti gegn sannfæringu þeirra. Nú hefur Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og Evrópusamband blaðamanna (EFJ) lýst yfir stuðningi við þessa tillögu bresku félaganna og leggja til að hún hafi forgang við vinnu við nýja laga- og reglugerðarumgjörð fyrir starfsemi fjölmiðlafólks. Tillögurnar sem hér um ræðir er að finna í hinni viðamiklu skýrslu sem kennd er við Leveson lávarð og unnin var upp í kjölfar hneykslismála og ósiðlegra vinnubragða, m.a. símhlerana og innbrota í símakerfi bæði þekktra og minna þekktra einstaklinga. NUJ, breska Blaðamannafélagið hafði áður kallað eftir því að nýjar reglur af þessu tagi yrðu settar þar sem siðareglur Kvörtunarnefndarinnar (siðanefnd) Press Complaints Commission höfðu ekki dugað til að halda uppi nægjanlega miklum gæðum í fréttaflutningi.

Í skýrslu Leveson segir á einum stað að það hafi slegið hann “að finna dæmi þess að blaðamenn hafi upplifað sig undir verulegum þrýstingi að gera hluti sem gegn sannfæringu sinni og sem þeir töldu ósiðlega og brjóta gegn siðareglum. Því legg ég til að hin nýja sjálfs-efirlitsstofnun eða skipulagseining (e. self-regulationg body) komi sér upp farvegi fyrir uppljóstrun um slíka huti og hvetji jafnramt til þess að í ráðningarsamningum blaðamanna komi sérstakt samviskuákvæði, sem tryggi blaðamenn sem neita að vinna verk af þessu tagi.”

Forseti Alþjóðasambands blaðamanna, Jim Boumelha, fagnar þessum hluta skýrslunnar og bendir á að vitnisburður NUJ fyrir nefnd Levesons hafi skipt miklu máli. “Í vitnisburði NUJ kom það skýrt fram að mikill þrýstingur hefur verið settur á marga blaðamenn. Of oft hafa of margir blaðamenn staðið frammi fyrir þeim valkosti að vinna verk sem þeim líður illa með að vinna eða  missa starfið ella. Valdið liggur hjá ritstjórum og útgefendum. Ef við viljum að blaðamenn vinni í samræmi við siðareglur þá þurfa þeir að geta treyst því að óhætt sé fyrir þá að virða reglur fagfélags þeirra og geta hafnað því að vinna tiltekin verk án þess að óttast refsiaðgerðir,” segir Boumelha.

“Ég óska NUJ til hamingju með að hafa unnið þennan áfangasigur í baráttunni fyrir að fá viðurkennt samviskuákvæði,” segir Arne König formaður Evrópusambands blaðamanna. “Samviskuákvæði” eins og hér um ræðir eru þegar í gildi í siðareglum eða regluumhverfi fjölmiðlafólks í mörgum löndum Evrópu og birtist í ýmsum myndum. Þess má geta að ákvæði af þessum toga var í drögum að siðareglum sem stjórn Blaðamannafélagsins kynnti í fyrra vetur, en sem náðu ekki að verða afgreiddar. Sömuleiðis er  ákvæði af þessu tagi í þeim leiðbeiningum sem Blaðamannafélags Íslands hefur sett fram varðandi reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem kveðið er á um í fjölmiðlalöögum og finna má hé á síðunni en þar segir m.a.:

"Það er stefna fjölmiðlaveitu að í umboði ritstjóra hafi starfsmenn á ritstjórn sem heild fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði. Í því felst að þeir þurfa ekki að taka tillit til skoðana eða hagsmuna eigenda eða viðskiptamanna miðilsins, ef siðareglur BÍ, samviska þeirra og sannfæring segir þeim að ekki sé rétt að gera slíkt. Blaða- og fréttamanni verður ekki gert að vinna verkefni sem stangast á við sannfæringu hans eða samvisku eða teljast niðurlægjandi. Blaðamaður tekur ekki við verkefnum frá öðrum en yfirmanni á ritstjórn."