Neikvæð umræða um múslima áberandi

Frá 11. september 2001 hafa neikvæðar ímyndir af múslimum verið meira áberandi í bandarískum fjölmiðlum en jákvæðar. Þetta gerist þrátt fyrir að mikil umræða hafi verið frá 2001 -2008 um að óheppilegt og hættulegt væri að gera mikið úr sjónarmiðum öfgafólks með reiði- og óttablöndnum skilaboðum í fjölmiðlum. Það sem hefur gerst er að hin gríðarlega áhersla sem fjölmiðlar hafa lagt á fréttir af samtökum sem hafa verið áberandi neikvæð út í múslima hefur styrkt stöðu þessara samtaka í opinberri umræðu. „Afleiðingarnar af þessari fjölmiðlaumræðu er sú að öfgasamtökin sem fá þessa miklu dekkun hafa í raun náð að endurskilgreina hvað eru öfgar og hvað er meginstraumsumræða,“ segir Christopher Bail, félagsfræðingur við University of North Carolina og Univeristy of Michigan. Hann gerði rannsókn þar sem hann bar saman fréttatilkynningar frá ýmsum hópum og samtökum, bæði múslimskum, and-múslimskum, kristnum og einnig frá spunafyrirtækjum og bar þær saman við fréttir sem birtust í blöðum og ljósvakamiðlum (um 50 þúsund fréttir). Flestar tilkynningarnar (75%) náðu ekki í gegn, til birtingar, en þær sem voru tilfinningaþrungnar og vöktu upp ótta eða reiði voru líklegastar til að verða birtar. Niðurstöðurnar voru birtar í American Sociological Review nú um mánaðarmótin.

Sjá einnig hér