Fréttir

OSCE hefur áhyggjur af samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

OSCE hefur áhyggjur af samþjöppun á fjölmiðlamarkaði

Kosningaeftirlit OSCE/ODHIR gerir ekki alvarlegar athugasemdir við fjölmiðlaumfjöllunina fyrir alþingiskosningarnar í vor, en eftirlitsnefndin hefur skilað skýrslu sinni. Þar kemur fram að umfjöllun fjölmiðla fyrir kosningarnar hafi verð mikil og fjölbreytt og þjónað lýðræðislegum markmiðum, þó hún hafi ekki – sérstaklega í ljósvakamiðlum – verið mjög djúp. Hins vegar gerir nefndin ýmsar athugasemdir varðandi einstök atriði. Meðal þess sem nefndin nefnir sem áhyggjuefni er að mikil samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ógni fjölbreytni í efnisframboði. Telur hún að stjórnvöld ættu að íhuga frekari ráðstafanir til að takmarka samþjöppun  til að koma í veg fyrir einokun og hagsmunaárekstra og kanna hvort hægt sé að setja reglur sem takmarki áhrif tiltekinna einstaklinga, fyrirtækja eða hópa á einn eða fleiri hluta fjölmiðlamarkaðarins. Einnig beri að tryggja fjölbreytni og nægjanlegan fjölda fjölmiðlagátta. Þá leggur eftirlitsnefndin til að staða Fjölmiðlanefndar verði styrkt með auknum valdheimildum og hlutverk hennar gert skýrara til að hún geti fylgt eftir fjölmiðlalögunum.   Skoða þurfi hvort ekki beri að fela Fjölmiðlanefnd sérstakt hlutverk við að fylgjast með kosningum í samstarfi við kerfisbundið eftirlit með kosningabaráttunni. Þá tekur eftirlitsnefndin upp athugasemdir frá því í síðustu skýrslu sinni þegar fjallað var um að heppilegt kynni að vera að RÚV veitti stjórnmálaflokkum frían útsendingartíma fyrir kosningar. Ekki var orðið við því sem kunnugt er, en nefndin segir nú að í ljósi mikilvægis almenningsútvarps í að veita breiða umfjöllun sem sé í jafnvægi, sé skynsamlegt að skoða á ný afstöðuna í þessum efnum. Þá er bent á að mikill fjöldi kannana hafi birst fyrir kosningarnar og ekki hafi alltaf verið ljóst hver gerði þær eða hvaða aðferðafræði var beitt. Leggur nefnid til að settar verði reglur sem kveði á um að greinilega sé sagt frá aðferðafræði kannana, hvenær þær voru gerðar og hver standi að baki þeim. Sjá skýrsluna í heild hér
Lesa meira
Hvetur íslensk stjórnvöld til að tryggja framtíð NJC

Hvetur íslensk stjórnvöld til að tryggja framtíð NJC

Blaðamannafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til þess að leggja sitt af mörkum til þess að Norræna blaðamannamiðstöðin í Árósum (Nordisk Journalistcenter, NJC) verði áfram starfrækt og að fyrirætlanir um að hætta starfsemi þessarar mikilvægu endurmenntunarstofnunar norrænna blaðamanna verði lagðar til hliðar. Þetta kemur fram í bréfi sem Hjálmar Jónsson, formaður BÍ, hefur skrifað forsætisráðherra. Í bréfinu segir:,,Árósanámskeiðin hafa stuðlað að auknum skilningi á norrænu samstarfi og þeim böndum sem tengja norrænu þjóðirnar. Auk þess hafa námskeiðin eflt tengslin milli norrænna blaðamanna og verið mikilvægur vettvangur til fræðslu um Evrópusamstarfið, málefni norðurslóða og stöðu Norðurlandanna í alþjóðlegu samhengi svo nokkuð sé nefnt. Þannig hafa í 50 ár íslenskir blaðamenn sótt mikilvæga þekkingu á norrænu samstarfi til þessarar stofnunar, eins og meðfylgjandi listi yfir þáttakendur ber með sér. Blaðmannafélag Íslands bendir jafnframt á að blaðamenn í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eiga kost á sérhæfðri endurmenntun fyrir blaðamenn, sem nýtur opinbers stuðnings, í sínum heimalöndum. Því er ekki til að dreifa hér á landi, íFæreyjum eða Grænlandi. Norræna blaðamannamiðstöðin hefur því reynst einkar mikilvæg fyrir blaðamenn frá þessum löndum til endurmenntunar."
Lesa meira
Blaðaljósmyndarar þakka fyrir sig

Blaðaljósmyndarar þakka fyrir sig

Blaðaljósmyndarafélag Íslandss, sem stendur að sýningunni Myndir ársins, fór í gær í heimsókn í Íslandsbanka til að gefa þeim umhverfismynd ársins 2012. Með þessu vildu aðstandendur sýningarinnar þakka bankanum fyrir stuðninginn á sýningunni í Gerðarsafni í ár. Meðfylgjandi mynd var tekin af Vilhelm Gunnarssyni við það tækifæri. Á myndinni eru Eyþór Árnason ljósmyndari og sýningastjóri Mynda ársins 2012, Birna Einarsdóttir bankastjóri Ísladsbanka og Már Másson, forstöðumaður samskiptamála.
Lesa meira
Rúnar Pálmason er handhafi Fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 2012. Hér er hann …

Óskað eftir tilnefningum til verðlauna á Degi íslenskrar náttúru

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir tilnefningum til tvennra verðlauna sem afhent verða á Degi íslenskrar náttúru, 16. september næstkomandi. Annars vegar er um að ræða Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og hins vegar Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Fjölmiðlaverðlaunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er ætlað að hvetja til hverskyns umfjöllunar um íslenska náttúru, hvort heldur er í því skyni að vekja athygli á einstakri náttúru landsins eða benda á þær ógnir sem steðja að íslenskri náttúru og mikilvægi þess að varðveita hana og vernda til framtíðar. Verðlaunin verða veitt fjölmiðli, ritstjórn, blaða- eða fréttamanni, dagskrárgerðarfólki eða ljósmyndara sem hafa skarað fram úr með umfjöllun sinni um íslenska náttúru. Til greina koma einstök verkefni eða heildarumfjöllun um íslenska náttúru. Í fyrra voru verðlaunin veitt, Rúnari Pálmasyni, blaðamanni á Morgunblaðinu,  fyrir ítarlega umfjöllun um akstur utan vega.   Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í BrattholtiÞá verður Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt einstaklingi sem hefur unnið markvert starf á sviði náttúruverndar. Sigríður Tómasdóttir, fæddist 24. febrúar 1871 í Brattholti. Sigríður var baráttukona og náttúruverndarsinni sem lagði mikið á sig í baráttu gegn virkjun Gullfoss. Hún var því brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála hér á landi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd. Óskað er eftir tilnefningum til beggja viðurkenninga fyrir 16. ágúst 2013. Tilnefningar með rökstuðningi sendist umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík, eða á netfangið postur@uar.is">postur@uar.is
Lesa meira
Kanadamenn segja sig úr IFJ

Kanadamenn segja sig úr IFJ

Kanadíska blaðamannafélagið CWA/SCA Canada hefur formlega tilkynnt úrsögn sína úr Alþjóðasambandi blaðamanna IFJ (International Federation of Journalists). Í bréfi sem Martin O'Hanlon, framkvæmdastjóri CWA/SCA, hefur sent út til aðildarfélaga kemur fram að úrsögnin tengist óánægju með framvindu mála innan IFJ og þó ekki síst vegna framkvæmdar á síðasta alþjóðaþingi IFJ í Dublin. Í tilkynningu segir O'Hanlon að IFJ treysti á, ofar öllu, á siðferðilegan styrk. Því verði sambandið að vera hafið yfir allan vafa að því leyti og vera á háum siðferðilegum stalli. Og hærri en þeir sem við gagnrýnum, segir O'Hanlon. „Það var þess vegna mjög sorglegt þegar nýafstaðið þing kaus að samþykkja ólögmæta forsetakosningu 7. júní síðastliðinn. Kosningu þar sem komu fram fleiri atkvæði en nam kjörseðlum," segir í tilkynningu Martin O'Hanlon, framkvæmdastjóra CWA/SCA. Hér vísar hann til umdeildrar atkvæðagreiðslu um forseta IFJ, þegar Jim Boumelha var endurkjörin í naumri atkvæðagreiðslu þar sem mótframbjóðandi hans Philippe Leruth frá Belgíu fékk litlu færri atkvæði. Forsetakosningin varð nokkuð söguleg og þegar upp var staðið munaði 13 atkvæðum milli frambjóðenda, Boumelha í hag. Málið vandaðist þegar kom í ljós að það voru fimm aukaatkvæði, þ.e.a.s. fimm atkvæðum meira en útgefnir kjörseðlar.Fundarstjórar greindu þinginu frá því, að þar sem þessi fimm atkvæði hefðu ekki úrslitaáhrif og að báðir frambjóðendur væru því samþykkir, þá yrði það lagt fyrir fundinn að kjósa um lögmæti kosningarinnar. Einnig virtust menn telja að hér væri fremur um mistök að ræða við útdeilingu kjörseðla en sviksamlegt framfæri. Þetta var auðvitað allt hið vandræðalegasta. Þrátt fyrir nokkur mótmæli var kosið um framkvæmdina og fundurinn samþykkti að úrslitin stæðu. Íslenska sendinefndin á þinginu kaus með Philippe Leruth og kaus gegn því að úrslitin stæðu, rétt eins og fulltrúar hinna norrænu sambandanna. Þarna er ljóst að mörg mistök voru gerð, hugsanlega vegna tímaskorts. Ljóst var að margir áttu erfitt með að sætta sig við þetta. Daginn eftir atkvæðagreiðsluna greindi annað þýsku sambandanna, sem átti fulltrúa á þinginu, frá því að það myndi víkja af fundi og endurskoða aðild sína að sambandinu. Sama gerði fulltrúi frá Kanada, Martin O'Hanlon. Martin O'Hanlon hefur nú tilkynnt úrsögn sem var samþykkt af stjórn CWA/SCA Canada en í tilkynningu hans kemur fram að hann telur ekki hægt að segja með vissu að ekki hafi verið brögð í tafli. Hann segir að ef og þegar lögmæt kosning fari fram um forseta IFJ muni CWA/SCA Canada íhuga að ganga aftur í sambandið.
Lesa meira
Svavar og RÚV fara til Strassborgar

Svavar og RÚV fara til Strassborgar

Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður, hefur kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna dóms Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn honum. Ríkisútvarpið stendur með Svavari að kærunni, sem er í hans nafni. Sjá frétt RÚV hér
Lesa meira
Nýr fjölmiðill í undirbúningi

Nýr fjölmiðill í undirbúningi

Þrír landsþekktir blaðamenn ásamt samstarfsmönnum munu síðar í sumar hefja útgáfu á nýjum miðli, Kjarnanum. Blaðamennirnir sem hér um ræðir eru þeir Þórður Snær Júlíusson, sem verður ritstjóri, Magnús Halldórsson og Ægir Þór Eysteinsson. Ægir hefur verið fréttamaður á RÚv en hætti þar fyrir skömmu til að taka þátt í þessu verkefni. Þeir Magnús og Þórður Snær hafa starfað fyrir 365 miðla, einkum í viðskiptafréttum en hættu báðir fyrir skömmu. Þeir hafa verið í lykilhlutverkum í umræðu um eigendaafskipti hjá 365 sem fram hefur farið upp á síðkastið og Magnús skrifaði m.a. grein á Vísi um málið undir yfirskriftinni „Litli karlinn“. Í gær kom það svo fram að til hafi staðið að reka Þórð af Fréttablaðinu fyrir skrif um eigendur, en það ekki náð fram að ganga vegna andstöðu ritstjórans Ólafs Stephensen. Hugmyndin er að Kjarninn byggi á margmiðlun og verður sérstaklega hannaður fyrir spjaldtölvur og snjallsíma en hægt verður að nálganst hann á annan rafrænan hátt einnig. Hann verður ókeypis fyrir notendur. Sjá frétt á mbl.is hér Sjá facebook síðu hér
Lesa meira
Jim Boumelha, forseti IFJ

Jim Boumelha endurkjörinn forseti IFJ

Heimsþing Alþjóða blaðamannasambandsins, IFJ,  sem fundar í Dublin á Írlandi hefur endurkosið Jim Boumelha sem forseta. Þetta er í þriðja sinn sem Boumelha er endurkjörinn sem forseti IFJ en hann var fyrst kjörinn í Moskvu árið 2007. Áður hafði hann verið heiðurs gjaldkeri í stjórninni í tvö tímabil. Áður en hann einbeitti sér alfarið að alþjóðasamtökunum þá var hann í stjórn Blaðamannasambands Breta, NUJ, og formaður þess um hríð.  
Lesa meira
Samantekt af málþingi um ritstjórnarlegt sjálfstæði

Samantekt af málþingi um ritstjórnarlegt sjálfstæði

Fjölmiðlanefnd hefur tekið saman ágrip af erindum og umræðum sem fram fóru á máþingi nefndarinnar um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem haldið var um miðjan maí. Þar voru nokkrir málsmetandi aðilar sem voru með framsögu, þau  Elfa Ýr Gylfadóttir, Pétur Árni Jónsson, Ólafur Stephensen og Björn Vignir Sigurpálsson. Í pallboði bættust í hópinn þær Anna Kristín Jónsdóttir og Guðrún Hálfdánardóttir. Samantekt fjölmiðlanefndar má lesa hér
Lesa meira
Keimlíkir fréttatímar á RÚV og Stöð 2

Keimlíkir fréttatímar á RÚV og Stöð 2

Fréttir á Stöð 2 og í Sjónvarpinu (RÚV) eru keimlíkar að flestu leylti samkvæmt frumniðurstöðum úr rannsókn sem Valgerður Jóhannsdóttir, Ragnar Karlsson og Þorbjörn Broddason hafa gert og kynnt var á þjóðfélagsfræðiráðstefnu Háskólans á Bifröst á dögunum. Það eru heldur fleiri fréttir á RÚV en á Stöð 2 en lengd frétta er nákvæmlega sú sama. Karlar semja meirihluta frétta á báðum stöðvum og er hlutfallið svipað. Viðmælendum var skipt upp í „hagsmunaaðila“, „stjórnmálastéttina“ og „almennig“ og er hlutfallið svipað milli þessara hópa á báðum stöðvum. Höfundar segja að niðurstöðurnar styðji þá tilgátu að samkeppni milli fréttastofanna leiði til samleitni í efnisvali. Hér má sjá upptöku af fyrirlestri Valgerðar Jóhannsdóttur um efnið. Fleiri erindi voru flutt um fjölmiðla á ráðstefnunni:Pólitísk boðskipti á stafrænum tímumSpegill samfélags og samtal í heimabyggð  
Lesa meira