Kanadamenn segja sig úr IFJ

Kanadíska blaðamannafélagið CWA/SCA Canada hefur formlega tilkynnt úrsögn sína úr Alþjóðasambandi blaðamanna IFJ (International Federation of Journalists). Í bréfi sem Martin O'Hanlon, framkvæmdastjóri CWA/SCA, hefur sent út til aðildarfélaga kemur fram að úrsögnin tengist óánægju með framvindu mála innan IFJ og þó ekki síst vegna framkvæmdar á síðasta alþjóðaþingi IFJ í Dublin.

Í tilkynningu segir O'Hanlon að IFJ treysti á, ofar öllu, á siðferðilegan styrk. Því verði sambandið að vera hafið yfir allan vafa að því leyti og vera á háum siðferðilegum stalli. Og hærri en þeir sem við gagnrýnum, segir O'Hanlon.

„Það var þess vegna mjög sorglegt þegar nýafstaðið þing kaus að samþykkja ólögmæta forsetakosningu 7. júní síðastliðinn. Kosningu þar sem komu fram fleiri atkvæði en nam kjörseðlum," segir í tilkynningu Martin O'Hanlon, framkvæmdastjóra CWA/SCA.

Hér vísar hann til umdeildrar atkvæðagreiðslu um forseta IFJ, þegar Jim Boumelha var endurkjörin í naumri atkvæðagreiðslu þar sem mótframbjóðandi hans Philippe Leruth frá Belgíu fékk litlu færri atkvæði.

Forsetakosningin varð nokkuð söguleg og þegar upp var staðið munaði 13 atkvæðum milli frambjóðenda, Boumelha í hag. Málið vandaðist þegar kom í ljós að það voru fimm aukaatkvæði, þ.e.a.s. fimm atkvæðum meira en útgefnir kjörseðlar.
Fundarstjórar greindu þinginu frá því, að þar sem þessi fimm atkvæði hefðu ekki úrslitaáhrif og að báðir frambjóðendur væru því samþykkir, þá yrði það lagt fyrir fundinn að kjósa um lögmæti kosningarinnar. Einnig virtust menn telja að hér væri fremur um mistök að ræða við útdeilingu kjörseðla en sviksamlegt framfæri. Þetta var auðvitað allt hið vandræðalegasta. Þrátt fyrir nokkur mótmæli var kosið um framkvæmdina og fundurinn samþykkti að úrslitin stæðu.
Íslenska sendinefndin á þinginu kaus með Philippe Leruth og kaus gegn því að úrslitin stæðu, rétt eins og fulltrúar hinna norrænu sambandanna. Þarna er ljóst að mörg mistök voru gerð, hugsanlega vegna tímaskorts. Ljóst var að margir áttu erfitt með að sætta sig við þetta. Daginn eftir atkvæðagreiðsluna greindi annað þýsku sambandanna, sem átti fulltrúa á þinginu, frá því að það myndi víkja af fundi og endurskoða aðild sína að sambandinu. Sama gerði fulltrúi frá Kanada, Martin O'Hanlon.

Martin O'Hanlon hefur nú tilkynnt úrsögn sem var samþykkt af stjórn CWA/SCA Canada en í tilkynningu hans kemur fram að hann telur ekki hægt að segja með vissu að ekki hafi verið brögð í tafli. Hann segir að ef og þegar lögmæt kosning fari fram um forseta IFJ muni CWA/SCA Canada íhuga að ganga aftur í sambandið.