Fréttir

Námskeið í rannsóknarblaðamennsku í Tékklandi

Námskeið í rannsóknarblaðamennsku í Tékklandi

Transitions Online (TOL),( www.tol.org ) eru félagasamtök sem beina athygli sinni að fréttamiðlum í 29 fyrrum kommúnistaríkjum í Austur – Evrópu. Þessi samtök beita sér sérstaklega fyrir framgangi rannsóknarblaðamennsku í fjölmiðlum í þessum löndum. Í janúar mun TOL í samstarfi við Miðstöð rannsóknarblaðamennsku í Tékklandi beita sér fyrir viku námskeiði í rannsóknarblaðamennsku sem opið er áhugasömum blaðamönnum alls staðar að úr Evrópu. Á námskeiðinu verður farið sérstaklega í efnahagsbrot og glæpi tengda fjármálum og viðskiptalífinu og hvernig hægt er að rannsaka slíkar fréttir í gegnum heimildir og gögn á netinu. Þeir sem koma á námskeiðið fá þjálfun í þessum vinnubrögðum og geta rannsakað tiltekin mál sem nýst geta til birtingar í þeim fjölmiðlum sem viðkomandi eru í tengslum við. Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna hér og í leiðinni er rétt að minna á Endurmenntunarsjóð BÍ sem gæti styrkt félagsmenn eitthvað til að fara á námskeið af þessu tagi.    
Lesa meira
RÚV nýtur mests trausts

RÚV nýtur mests trausts

MMR kannaði á dögunum traust almennings til helstu sjónvarps-, prent- og netfréttamiðla. Af þeim fréttamiðlum sem kannaðir voru báru svarendur mest traust til fréttamiðla RÚV. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 76,5% bera mikið traust til Fréttastofu RÚV og og 71,1% sögðust bera mikið traust til ruv.is. Í flokki netfréttamiðla naut mbl.is næst mest trausts meðal almennings (á eftir ruv.is). Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 50,2% bera mikið traust til mbl.is. Traust til mbl.is hefur dregist nokkuð saman frá því í desember 2008 þegar 64,0% aðspurðra sögðust bera mikið traust til mbl.is.     Netfréttamiðillinn Visir.is naut einnig nokkurs traust meðal svarenda og hefur traust til Visir.is aukist frá maí 2009 þegar 24,4% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Visir.is, borið saman við 35,3% nú. Þeir prentmiðlar sem nutu mest trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 46,4% bera mikið traust til Morgunblaðsins en 39,2% sögðust bera mikið traust til Fréttablaðsins. Hlutfallslega fleiri sögðust bera lítið traust til Morgunblaðsins en til Fréttablaðsins. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 26,1% bera lítið traust til Morgunblaðsins en 20,7% sögðust bera lítið traust til Fréttablaðsins. Traust til Morgunblaðsins hefur minnkað nokkuð frá desember 2008 þegar 64,3% sögðust bera mikið traust til Morgunblaðsins. Traust til Viðskiptablaðsins hefur aukist nokkuð frá því í maí 2009 þegar 21,8% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Viðskiptablaðsins, borið saman við 30,6% nú.
Lesa meira
Samstöðufundur með RÚV

Samstöðufundur með RÚV

Boðað hefur verið til almenns samstöðufundar með Ríkisútvarpinu í Háskólabíói í dag kl 18:00. Í frétt frá undirbúningshópi segir að í 83 ár hafi Ríkisútvarpið verið einn öflugasti hornsteinn íslenskrar menningar. Það hafi frá upphafi miðlað fjölbreyttri dagskrá talaðs máls, fræðslu, tónlistar og myndefnis. Þar að auki hafi Ríkisútvarpið verið öflugur framleiðandi menningarefnis og hefur lagt metnað sinn í að bera fram eitthvað fyrir alla, unga sem aldna. Á Ríkisútvarpinu hafi kunnáttufólk spunnið lifandi þráð sem tengi forna tíð og nýja á þessu landi. Ríkisútvarpið sé einn öflugasti spegill íslenskrar þjóðar. Síðan segir: „Nú hefur verið vegið að rótum sköpunarstarfs á Ríkisútvarpinu. Mikill niðurskurður fjárveitinga hefur leitt til uppsagna margra tuga starfsmanna sem af víðáttumikilli þekkingu hafa frætt þjóðina og veitt henni andlega næringu.   Ekki verður séð að þessar uppsagnir eigi sér nokkra stoð í stefnumótun eða hlutverki Ríkisútvarpsins. Þær virðast tilviljanakenndar og stjórn stofnunarinnar hefur ekki lagt fram neinar áætlanir um hvernig halda á áfram lögbundnu starfi Ríkisútvarpsins eftir þessar róttæku aðgerðir.“ Ávörp á fundinum flytja Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Benedikt Erlingsson leikstjóri, Melkorka Ólafsdóttir tónlistarkona, Sigríður Ólafsdóttir lífefnafræðingur og Kolbeinn Óttarsson Proppé upplýsingafulltrúi og fyrrverandi blaðamaður. Hljómsveitin Sammi og félagar taka á móti gestum og Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur stýrir fundinum. í tilefni af samstöðufundinum hafa verið gefin út tvö ný myndbönd og verður seinna myndbandið frumsýnt síðar í dag en það fyrra má nálgast hér.    
Lesa meira
Fjöldauppsagnir hjá RÚV

Fjöldauppsagnir hjá RÚV

"Andrúmsloftið á stofnuninni hefur verið lamað frá því í morgun - þetta er fjórða uppsagnarhrinan sem við göngum í gegnum frá því sumarið 2008 og þetta hefur verið jafn erfitt í öll skiptin, “ segir Hallgrímur Indriðason, formaður Félags fréttamanna í samtali við fréttastofu RÚV í tilefni af mesta niðrskurði og uppsögnum á stofnuninni frá hruni. Í dag fengu 39 starfsmenn RÚV uppsagnarbréf og búast má við að fækkað verði um 60 manns í þessu átaki þar sem skera á niður um allt að 500 milljónir. Tilkynning Páls Magnússonar í morgun hefur framkallað mikil viðbrögð bæði innan og utan stofnunarinnar og er þegar farin af stað undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Illuga Gunnarsson að afturkalla niðurskurðinn. Ýmsir þekkir starfsmenn RÚV hafa fengið uppsagnarbréf, þar á meðal Jóhannes Kr. Kristjánsson sem skrifar um uppsögn sína á vef sínum og þakkar samstarfsfólki samfylgdina. Sjá meira hér
Lesa meira
Frá göngu forustumanna blaðamanna í Kænugarði um helgina

Forustumenn blaðamanna í mótmælagöngu í Kænugarði

Jim Boumelha, forseti Alþjóðasambands blaðamanna (IFJ) og Nadezda Azhgikhina, varaformaður Evrópusambands blaðamanna (EFJ) gengu í fararbroddi mótmælagöngu um götur Kænugarðs um helgina. Þeir voru  að leggja áherslu á kröfu blaðamanna um heim allan að stjórnvöld hætti að gefa grið þeim sem hafa blaðamenn að skotmörkum. En á laugardaginn var alþjóðlegur dagur baráttunnar fyrir þeim málstað. Kröfugangan kom í kjölfar þriggja daga ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi, atvinnuréttindi, öryggi og baráttuna gegn skaðleysi þeirra sem brjóta á blaðamönnum, þar sem Blaðamannasamband Úkraínu var gestgjafi. “Það er gríðarlega brýnt að stjórnvöld í hinum ýmsu löndum axli ábyrgð, en við höfum lært þá lexíu að það eru bara blaðamenn sem munu berjast með kollegum sínum í því að binda endi á skaðleysi þeirra sem gera fjölmiðlamenn að skotmörkum,” sagði Boumelha. Sjá einnig hér       http://www.ifj.org/en/articles/ifj-efj-journalists-unions-hold-kiev-march-against-impunity-2
Lesa meira
Blaðamannasambönd vara við öryggisfrumvarpi á Spáni

Blaðamannasambönd vara við öryggisfrumvarpi á Spáni

Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hafa sent innanríkisráðherra Spánar bréf þar sem þess er farið á leit að endurskoðað verði frumvarp að nýjum öryggislögum þar í landi. Samkvæmt frumvarpinu á að banna mótmæli nálægt tilteknum mikilvægum stofnunum svo sem spænska þinginu og auk þess getur lögreglan sett upp sérstök öryggissvæði þar sem aðgangur er takmarkaður, t.d. í kringum heimili stjórnmálamanna. Það sem blaðamannasamböndin leggja sérstaka áherslu á í bréfi sínu og lýsa þungum áhyggjum af er ákvæði sem takmarkar sérstaklega aðgang blaðamanna og ljósmyndara að svæðum eða byggingum þar sem lögreglan telur að nærvera fjölmiðlamannanna geti truflað starf við öryggisgælsu. Ákvarðanir um þetta eru látnar efir lögreglu í hverju tilviki og er viðlögð sekt fyrir bort á þessu allt að 600 þúsund evrur! Sjá einnig hér
Lesa meira
Tilnefningafrestur til Blaðamannaverðlauna Evrópu styttist!

Tilnefningafrestur til Blaðamannaverðlauna Evrópu styttist!

Athygli er vakin á því að auglýst hefur verið eftir tilnefningum til Blaðamannaverðlauna Evrópu og er tilnefningarfrestur til miðnættis 29. nóvember. Blaðamannaverðlaun Evrópu eru veitt í fimm flokkum og eru verðlaunin ío hverjum um sig 10.000 evrur, Flokkarnir eru þessir: -          Rannsóknarblaðamennskuverðlaunin (The investigative journalism award ) -          Framúrskarandi ritfærniverðlaunin (The distinguished writing award ) -          Pistlahöfundaverðlaunin (The commentator award ) -          Frumkvöðlaverðlaunin (The innovation award ) -          Sérstöku verðlaunin (The special award ) Tilnefningar þurfa, eins og áður segir, að borist fyrir miðnætti 29. nóvember 2013 og er hægt að gera það annað hvort með því senda tölvupóst eða í gegnum heimasíðu verðlaunanna. Einungis evrópskir blaðamenn eða blaðamenn sem eru að vinna fyrir evrópska miðla geta fengið tilnefningar. Netfang verðlaunanna er: entries@europeanpressprize.com" Heimasíðan er: www.europeanpressprize.com 
Lesa meira
Fjölmiðlafyrirtæki stefnir ritstjóra DV

Fjölmiðlafyrirtæki stefnir ritstjóra DV

Fjölmiðlafyrirtækið 365 hefur stefnt Reyni Traustasyni ritstjóra DV vegna skrifa í Sandkorn DV í byrjun mánaðarins. Reyni var birt stefnan í gærkvöldi á heimili sínu og er hann krafinn um 4 milljónir króna vegna skrifanna.  Talsverð umræða hefur verið um meiðyrðamálsóknir á  hendur blaðamönnum hin síðari misseri og því vekur það sérstaka athygli að fjölmiðafyrirtæki skuli fara þessa leið. Sandkornið í DV fjallaði um meinta fjárhagsstöðu 365 og sagt að efnahagur fyrirtækisins væri uppblásinn og verðmæti Fréttablaðsins sömuleiðis. Sjá einnig hér
Lesa meira
Útnefningu fagnað með kampavíni fyrir utan ritstjórnarskrifstofurnar

Besta staðbundna blað Evrópu

"Já við urðum fyrst Noregsmeistarar og nú Evrópumeistarar. Þetta er nánast of gott til að vera satt!“   Þetta segir Bjarne Tormodsgard í samtali við Hallingdølen, blaðið sem hann sjálfur ritstýrir. Tilefnið er að Hallingdølen hefur verið valið besta héraðsfréttablað Evrópu, en blaðið hafði áður verið valið besta staðbundna blað Noregs. Útnefningin var kunngerð á föstudaginn en verðlaunin verða afhent á hátíð Blaðamannaverðlauna Evrópu í Vín í maí 2014. Sjá meira hér
Lesa meira
Vilja fréttastofu fyrir Norður-Atlantshafssvæðið

Vilja fréttastofu fyrir Norður-Atlantshafssvæðið

Hugmyndasmiðjan „Nordatlantisk Tænketank“, sem er hópur sem starfar á vegum Norræna Atlantssamstarfsins, NORA, leggur til að farið verði út í víðtækt samvinnuverkefni í fjölmiðlun milli landa eða svæða sem liggja að Norður Atlantshafinu, þ.e. milli Grænlands, Íslands, Færeyja og strandsvæðanna í Noregi. Hugmyndin var kynnt í lok ráðstefnu um fjölmiðla sem NORA hélt í Kaupmannahöfn í lok síðustu viku. Tillagan gerir ráð fyrir að samstarfið snúist um fréttaþjónustu fyrir þetta landsvæði þar sem daglegar fréttir verða sagðar, sem varða svæið janfn á sviði efnhagsmála, félagsmála, stjórnmála og úr daglegu lífi. Með þessu móti mætti upplýsa og uppfræða um magbreytileika svæðisins og varpa gagnrýnu ljósi á sameiginleg viðfangsefni á heimskautasvæðinu og þá þróun sem þar er að verða með breyttum aðstæðum. Bent er á að fjölmiðlun í þeim löndum og svæðum sem hér um ræðir sé nánast alfarið staðbundin og fréttir og túlkun þeirra sé alfarið römmuð inn í staðbundið samhengi á viðkomandi svæði. Heildarsýn í fréttaflutningi vanti hins vegar og þessi fréttaþjónusta, sem hefði starfandi á sínum vegum blaðamenn í fullu starfi í öllum eða flestum löndum, gæti skapað slíka yfirsýn. Slíkt væri enda í takt við þróunina á sviði efnahags- og stjórnmála þar sem alþjóðleg nálgun einkennir umræðuna en ekki þröng svæðaskipt umfjöllun. Bent er á að þróunin á heimskautasvæðinu sé ör og á árinu 2012 hafi 46 skip siglt norðurleiðina, sem styttir sem kunnugt er leiðina milli Asíu og Evrópu til mikilla muna. Svæðið í heild sé því að verða þýðingarmikið á sama tíma og fjölmiðlar sem staðsettir á eru á þessum slóðum séu smáir og máttlitlir. Með samvinnu og hagkvæmni stærðarinnar geti þeir hins vegar orðið sterkara afl sem veitt geti stjórnvöldum það aðhald sem þarf þegar viðkvæm mál og þróun eru annars vegar. Í hugmyndasmiðjunni „Nordatlantisk Tænketank“ eiga sæti tveir fulltrúar frá hverju landi sem aðili er að NORA samstarfinu. Þetta eru: · Tine Pars, rektor Ilisimatusarfik, Háskólanum í Grænlandi. · Henrik Leth, Stjórnarformaður Polar Seafood · Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri hjá Hönnunarmiðstöð Íslands · Karl Benediktsson, prófessor í samfélagslandsfræði, Háskóla Íslands · Frank Aarebrot, prófessor í samanburðarstjórnmálafræði við Háskólann í Bergen · Arne O. Holm, sérfræðingur við Norðurslóðamiðstöðina Háskólanum í Nordland · Hermann Oskarsson, rannsakandi við Háskólann í Færeyjum · Sonja Jógvansdóttir, verkefnastjóri Samtak, samstarfsvettvangs færeyskra útgerðarmanna og atvinnurekenda Sjá meira hér 
Lesa meira