Fréttir

Tilnefningafrestur Blaðamannaverðlauna 17. janúar

Tilnefningafrestur Blaðamannaverðlauna 17. janúar

Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands verða veitt í 11. skipti þann 15. febrúar næstkomandi. Tilnefningar dómnefndar verða kynntar viku fyrir afhendingu en  skilafrestur tilnefninga til dómnefndar er föstudagurinn 17. janúar.  Eins og á síðasta ári verða verðlaunin veitt í fjórum flokkum en þeir eru þessir: • Besta umfjöllun ársins 2013 • Viðtal ársins 2013 • Rannsóknarblaðamennska ársins 2013 • Blaðamannaverðlaun ársins 2013 Hægt er að senda inn tilnefningar  til verðlaunanna á skrifstofu Blaðamannafélagsins í Síðumúla  23 á auglýstum skrifstofutíma ásamt gögnum með röksemdafærslu fyrir tilnefningunni. Jafnframt er hægt að tilnefna með rafrænum hætti. Tilnefningar dómnefndar verða síðan gerðar kunnar í laugardaginn 8. febrúar og viku síðar, þann 15. febrúar  verða verðlaunin sjálf afhent.  
Lesa meira
Þegar búið að drepa blaðamann 2014

Þegar búið að drepa blaðamann 2014

Það voru ekki liðnar nema nokkrar klukkustundir af nýju ári þegar fyrsti blaðamaðurinn lést af skotsárum sem hann hafði fengið að kvöldi gamlársdags þegar hann var á leið heim úr vinnu í Pakistan. Það var blaðamaðurin Shan Dahar í Badha héraði í Pakistan sem vinnur fyrir Aaab Tak News Channel sem var fyrir skotárás óþekktra vígamana. Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) hefur skorað á stjórnvöld að hefja þegar í stað umfangsmikla rannsókn á málinu og að frumkvæði IFJ hafa mótmælaaðgerðir verið víðs vegar um landið til að krefjast raunverulegrar rannsóknar. Samkvæmt yfirliti um dráp á blaðamönnum í heiminum árið 2013 og ákalli um að þeir sem væru ábyrgir fyrir slíkum drápum væru dregnir til ábyrgðar, sem IFJ birti á gamlársdag, er Pakistan meðal þeirra ríkja sem sérstaklega eru nefnd, en þar voru 10 blaða- og fjölmiðlastarfsmenn drepnir í fyrra. A síðasta ári létust alls 123 blaðamenn við störf sín. Þar af létust 15 af slysförum en 108 blaðamenn fórust í sprengjuárásum, skothríð eða voru beinlínis myrtir. Sjá einnig hér  
Lesa meira
Áskorun til tyrkneskra stjórnvalda

Áskorun til tyrkneskra stjórnvalda

Alþjóðasamband blaðamanna stendur fyrir undirskriftasöfnun til að þrýsta á tyrknesk stjórnvöld að láta lausa 60 blaðamenn sem eru í haldi þar í landi. Stefnt er að því að senda áskorunina nú um áramótin og eru íslenskir blaðamenn jafnt sem kollegar þeirra um allan heim hvattir til að skrifa undir áskorunina.  Skrifa undir hér
Lesa meira
DV dæmt fyrir meiðyrði

DV dæmt fyrir meiðyrði

DV var í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmt fyrir meiðandi ummæli í garð Jóns Þorsteins Jónssonar með fréttaflutningi um ólögmætan flutning Jóns Þorsteins á fjármagni út úr landinu dulbúnum sem lánsviðskiptum. Alls eru dæmd dauð og ómerk nokkur ummæli á forsíðu og inni í blaðinu. Er Ingi Freyr Vilhjálmsson höfundur fréttarinnar og er hann dæmdur sem höfundur hennar fyrir það sem birtist inni í blaðinu, en Reynir Traustason sem ábyrgðarmaður umfjöllunar á forsíðu. Alls eru Jóni Þorsteini dæmdar 300.000 kr í miskabætur (10x minna en farið var fram á) og þeir DV menn þurfa að greiða rúmlega 1,3 milljón í málskostnað og standa straum af 400 þúsund króna kostnaði vegna birtingar dómsins í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Fram kemur í dóminum að fréttin hafi verið efnislega röng hvað varðaði þessi viðskipti. Athyglisverðir kaflar eru í röksemdafærslu dómarans Kristrúnar Kristinsdóttur þar sem hún ræðir um tjáningarfrelsið og rétt fjölmiðla annars vegar og friðhelgi einkalífsins hins vegar: "Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur umfjöllun um málefni sem teljast hafa samfélagslega þýðingu, verið játað æ meira svigrúm í jafnvægismati við vernd friðhelgi einkalífs. Umfjöllun um brot gegn lögum um gjaldeyrishöft verður að telja af því tagi. Það verður þó að gera þá kröfu til fjölmiðla að slíkt svigrúm sé þá í raun notað til þess að fjalla um hin samfélagslega mikilvægu málefni. Jákvæðum áhrifum þess að fjölmiðlar hafi í þeim tilvikum aukið svigrúm til að birta ósönnuð ummæli án eftirmála, yrði auðveldlega snúið upp í andhverfu sína, ef það svigrúm er notað til þess eins að heimila fjölmiðlum að fjalla fremur um mennina, sem þeir ætla að almenningur hafi áhuga á að lesa um, en málefnin sem talin eru hafa samfélagslega þýðingu. Stefndu hafa í máli þessu fullyrt að heimildir séu fyrir hendi um stórfellda fjármagnsflutninga úr landi, þó að það hafi reynst vera misskilningur að lánsféð frá stefnanda hafi komið frá Íslandi. Eftir að í ljós kom að stefnandi ætti þar ekki hlut að máli hefur lítið farið fyrir umfjöllun stefndu um þau umfangsmiklu viðskipti í trássi við gjaldeyrishöft, sem stefndu halda fram að verið hafi tilefni umfjöllunar þeirra og þeir hafi heimildir fyrir og sem gæti haft samfélagslega þýðingu að fylgja eftir. Því virðist það fremur hafa verið tilgangur fréttarinnar sem mál þetta snýst um að vekja athygli á stefnanda en gjaldeyrisviðskiptunum." Sjá dóminn í heild hér
Lesa meira

DV dæmt og sýknað af meiðyrðum

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær í tveimur meiðyrðamálum gegn þeim Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni, ritstjóra og framkvæmdastjóra DV.  Meiðyrði voru dæmd vegna umfjöllunar blaðsins um láglaunamenn í undirheimum hér á landi þar sem ummæli þóttu ærumeiðandi í garð Hans Aðalsteins Helgasonar, og alls sjö ummæli um hann dæmd dauð og ómerk. Þá var þeim gert að greiða 100 þúsund krónur í sekt í ríkissjóð, 200 þúsund krónur í miskabætur og 500 þúsund krónur í málskostnað. Reynir og Jón Trausti voru hins vegar sýknaðir af kröfum Hilmars Leifssonar sem höfðaði meiðyrðamál vegna umfjöllunar um hann í blaðinu. Hilmar vildi meðal annars láta gera þá staðhæfingu ómerka að hann hefði verið meðlimur í Vítisenglum (e. Hells Angels). Hann fór fram á milljón í skaðabætur. Hilmari er gert að greiða Reyni og Jóni Trausta 600 þúsund krónur í málskostnað. Lögmaður hans, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, segir að dóminum verði áfrýjað. Sjá dóma hér og hér
Lesa meira
Páll hættir sem útvarpsstjóri

Páll hættir sem útvarpsstjóri

Páll Magnússon hættir sem útvarpsstjóri og ekki kemur því til þess að taka þurfi afstöðu til þess hvort ráðningartímabil hans verður endurnýjað en því hefði lokið nú um áramótin. Tilkynning stjórnar RÚV var send starfsfólki Ríkisútvarpsins er svohljóðandi: Stjórn Ríkisútvarpsins og Páll Magnússon útvarpsstjóri hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að hann láti af störfum frá og með deginum í dag. Í framhaldi af þessari niðurstöðu verður staða útvarpsstjóra auglýst laus til umsóknar samkvæmt lögum nr. 23/2013.
Lesa meira
Nýjar reglur um fjölmiðlastyrki í Danmörku

Nýjar reglur um fjölmiðlastyrki í Danmörku

Nú um áramótin taka gildi nýjar reglur í Danmörku um fjölmiðlastyrki. Megin breytingin frá núverandi kerfi er að í grunninn er verið að breyta styrkjunum úr dreifingarstyrkjum yfir í að styrkir til framleiðslu á ritstjórnarefni. Í því felst m.a. sú mikla breyting að netmiðlar eiga auðveldara með að fá styrki en áður, en þessi tegund miðla hefur nánast ekki átt aðkomu að styrkjum itl þessa. Hugmyndin er að styrkjakerfið verði með þessu móti meira í samræmi við nútíma fjölmiðlun og endurspegli frekar fjölmiðlunina eins og hún er stundið í nútímanum. Alls munu styrkirnir nema um 403 milljónum danskra króna á ári, eða um 8,4 milljörðum íslenskra króna.  Sjá nánar hér  
Lesa meira
Laust starf blaðamanns

Laust starf blaðamanns

Tímaritið Nýtt líf leitar að hugmyndaríkum blaðamanni í fullt starf næstu 9-10 mánuði. Þekking á tísku, hönnun eða öðrum skapandi greinum kæmi sér vel. Reynsla af blaðamennsku er skilyrði. Þarf að geta hafið störf sem fyrst. Ritstjórn blaðsins hefur einnig laus pláss fyrir öfluga starfsnema. Leitað er að meistaranemum í námi tengdu blaðamennsku sem vilja kynnast tímaritaútgáfunni. Starfsnemi gengur í öll verk ritstjórnarinnar fær vinnuframlag sitt hugsanlega metið til eininga. Óskað er eftir að fá umsókn og ferilsskrá merkta „Starfsumsókn“ senda á netfangið nyttlif@birtingur.is  Umsóknarfrestur rennur út í dag, 12 desember!
Lesa meira
Panagiotis Bousis, sjónvarpsfréttamaður í Grikklandi.

Fordæma barsmíðar í Grikklandi

Framganga félagsmanna hægri öfgaflokksins „Gullnar dögunar“ í Grikklandi gagnvart fjölmiðlafólki veldur sífellt meiri áhyggjum. Nú síðast á mánudagskvöldið var gríski sjónvarpsfréttamaðurinn Panagiotis Bousis að dekka uppákomu sem flokkurinn stóð fyrir þegar félagsmaður í flokkum réðist að honum og myndatökumanni hans og beitti þá ofbeldi. Þannig var komið í veg fyrir að þeir gætu greint frá hvað væri að gerast. Samtök evrópskra blaðamanna (EFJ) sem og Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) hafa fordæmt þessa framkomu, og þá ekki sístþá staðreynd að lögreglan var nærstödd, en lét sem ekkert væri meða fréttamennirnir voru beittir ofbeldi. Sjá einnig hér
Lesa meira

Finnar flytja næturvakt til Ástralíu í sparnaðarskyni

Finnska fréttastofan STT-Lehtikuva hyggst setja upp nýja útstöð í Sydney í Ástralíu í sparnaðarskyni. Hugmyndin er að flytja næturvaktir fréttastöðvarinnar sem unnar hafa verið í Finnlandi og breyta þeim í dagvaktir í Ástralíu með því að nýta tímamismuninn. Tveir blaðamenn hafa að jafnaði verið á næturvakt fréttastofunnar og munu fjórir blaðamenn verða sendir til Ástralíu til að sjá um þessar útsendingar og mun þessi fjöldi þá jafnframt dekkaðir frídaga og sumarafleysingar. Reiknað er með að þessir blaðamenn sjái um innlendu finnsku næturvaktirnar með því að notfæra sér nýja tækni s.s. netið og skype. Ráðagerð þessi er eins og áður segir sparnaðaraðgerð hjá fréttaveitunni og samkvæmt útreikningum stjórnenda mun þessi tilflutningur á „næturvaktinni“ hafa í för með sér sparnað sem nemur árslaunum eins blaðamanns, en næturvaktirnar hafa verið fyrirtækinu mjög dýrar. Blaðamannafélagið í Finnlandi hefur þegar sett sig í samband við systurfélag sitt í Ástralíu til þess að tryggja að ekki verði brotið á réttindum félagsmanna sinna. STT-Lehtikuva fréttaveitan skar niðu um fimmtung ritstjórnar sinnar og lokaði sex svæðisskrifstofum á dögunum í umfangsmiklum aðgerðum en þessi sparnaðaraðgerð hefur mælst nokkuð vel fyrir hjá þeim starfsmönnum sem eftir eru. Gengur næturvaktin nú undir nafninu „kengúru-vaktin“ hjá mönnum þar innanhúss.  
Lesa meira