Meiðyrðalöggjöf nýtt til þöggunar

Meiðyrðamál eru að verða tæki til þöggunar í samfélaginu og margir sem þau höfða er fólk sem hefur lent í erfiðri þjóðfélagsumræðu eða á vafasama fortíð. Það stefnir fyrir fjöldann allan af ummælum í þeirri von að eihver þeirra haldi. Dómstólar líta ekki heildstætt á málin heldur taka þátt í þessu og dæma í himinháar fésektir. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Hreins Loftssonar hæstaréttarlögmanns og eiganda útgáfufélagsins Birtings á málþingi um vernd afhjúpenda sem haldið var í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins í dag.

Hreinn upplýsti að útgafufélagið Birtingur hafi á árunum 2008-2011 fengið á sig 15 meiðyrðamál og kostnaður útgáfunnar og blaðamanna hafi í heild numið hátt í 30 milljónum. Slíkt sé mikill herkostnaður bæði fyrir blaðamenn og litla útgáfu, enda hafi þetta stefnt starfseminni í tvísýnu.

Hreinn var harðorður í garð íslenska dómskerfisins og fór sérstaklega yfir þau tvö mál sem farið hafa til Strassborgar og dæmt var í síðastliðið sumar. Í báðum þeim málum hafi Mannréttindadómstóllinn gagnrýnt harðlega málsmeðferð og efnistök íslenskra dómstóla, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Meðal annars hafi verið gagnrýnt að Hæstiréttur hafi synjað blaðamanni um áfrýjun í öðru málinu á grundvelli þess að upphæðin sem um var að tefla væri undir viðmiðunarmörkum áfrýjunar. Slíkt hafi í raun verið furðulegt enda nýleg dæmi um annað, og málið hafi haft mikla þýðingu, ekki síst fyrir viðkomandi blaðamann – öfugt við niðurstöðu Hæstaréttar. Raunar sagði Hreinn að það væri “grunsamlegt” hvernig tilteknir dómarar virtust dæma blaðamenn til sekta en staðnæmdust að því er virtist við þau sektarmörk sem eru skilyrði fyrir áfrýjun. Þannig væri komið í veg fyrir áfrýjun og umfjöllun í Hæstarétti um málin.

Hreinn sagði að vissulega væri ábyrgð blaðamanna mikil og í einhverjum tilfellum hafi þeir gert mistök og verið sekir um óvönduð vinnubrögð. Hins vegar væri það alls ekki alltaf og í þeim málum sem farið hafa til MDE hafi dómstóllinn einmitt hrosað viðkomandi blaðamönnum sérstaklega fyrir vinnubrögð.

Hann benti einnig á að það væri áhyggjuefni að afstaða stjórnvalda virtist ekki hafa breyst mikið þrátt fyrir dómana sem féllu gegn ríkinu í fyrra sumar, því í síðustu viku hafi verið ákveðið að hafna sáttaumleitunum í þeim tveim málum sem MDE hefur ákveðið að taka til efnismeðferðar.