Danir fá fréttaverðlaun Blaðamannaverðlauna Evrópu

Í gær var upplýst um hverjir fengu Blaðamannaverðlauna Evrópu 2012 (European Press Prize) en þessi verðlaun eru nú veitt í fyrsta sinn. Um er að ræða samstarfsverkefni fjölmiðlastofnana í Danmörku, Hollandi, Bretlandi og Tékklandi en tilnefninga er leitað frá allri Evrópu. Formleg afhending verðlaunanna verður hins vegar ekki fyrr en 26. febrúar næstkomandi.

Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum: fréttaverðlaun, dálkahöfundaverðlaun, ritstýringarverðlaun, og frumkvöðlaverðlaun.

Fréttaverðlaunin fóru til blaðamanna á Jyllands Posten, þeirra Orla Borg, Carsten Ellegaard Christensen og Morten Pihl fyrir röð frétta um Morten Storm sem var njósnari fyrir dönsku leyiþjónustuna.

Dálkahöfundaverðlaunin fóru til Grikkjans Nikos Chrysoloras, sem starfar við dagblaðið Kathimerini, fyrir grein hans “Hvers vegna Grikkir verða að vera í evrusamstarfinu”. Greinin var birt í blöðum um alla Evrópu.

Ritstýringarverðlaunin féllu í hlut Ihor Pochynok, aðalritstjóra 'Express' í Úkraínu sem er staðbundið blað í Lviv þar í landi. Blaðið þykir dæmi um öflugt héraðsblað sem tekið hefur afgerandi forustu í staðbundinni umræðu og á köflum líka í umræðu á landsvísu.

Frumkvöðlaverðlaunin fékk Paul Lewis frá Bretlandi ritstjóra sérverkefna hjá The Guardian í London. Viðurkenningin er fyrir verkefnið “Reading the Riots” eða Lesið í mótmælin, en hann ásamt háskólakennaranum Tim Newburn og 30 öðrum rannsakendum greindu með nýstárlegum hætti í meira en ár óerðirnar í Englandi sumarið 2011.  

Formaður dómnefndar var Harold Evans lávarður og fyrrum ritstjóri Sunday Times og núverandi ritstjóri hjá Reuters. Hann sagði í tilefni af tilkynningunni um verðlaunahafana, að það hafi verið mikil áskorun að meta tilnefningarnar frá 32 löndum alls staðar að úr Evrópu. Menning og saga landanna væri ólík og því hafi fjölbreytnin verið mikil. Hins vegar hafi gæði, ransóknarvinna og eldmóður við að afhjúpa sannleikann verið samnefnari sem náði yfir öll landamæri. Aðrir í dómnefnd voru Sylvie Kauffmann frá Le Monde, Yevgenia Albats, aðalritstjori hjá New York Times í Moskvu og Jørgen Ejbøl, stjórnarformaður JP/Politiken og varaformaður í Jyllands Posten stofnuninni. Verðlaunahafar fá 10.000 evrur í verðlaunafé.  

Minna má á að frestur til að skila inn tilnefningum til Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands rennur út á hádegi 11. febrúar

Sjá meira hér