Blaðamannaverðlaun veitt

Verðlaunahafar. Mynd: Eggert Jóhannsson, mbl.is
Verðlaunahafar. Mynd: Eggert Jóhannsson, mbl.is

Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir árið 2012 voru afhent í Gerðarsafni fyrr í dag. Verðlaun voru veitt í fjórum flokkum auk þess að veitt voru verðlaun fyrir Mynd ársins, en hana tók Kjartan Þorbjörnsson. Einnig voru veitt verðlaun fyrir myndir og myndskeið í átta flokkum hjá Blaðaljósmyndarafélagi Íslands.

Blaðamannaverðlaunin hlutu þessir: Sunna Valgerðardóttir fékk verðlaun fyrir bestu umfjöllun; Jóhann Bjarni Kolbeinsson fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins; Sigmar Guðmundsson fékk verðlaun fyrir viðtal ársins og Ragnar Axelsson fékk blaðamannaverðlaun ársins. Hér á eftir fer rökstuðningur dómnefndar fyrir verðlaununum:

Umfjöllun ársins 2012
Sunna Valgerðardóttir, Fréttablaðinu, fyrir áhrifamikla, heildstæða og vel unna röð fréttaskýringa um stöðu geðsjúkra. Fréttaskýringaflokkur Sunnu tók með yfirgripsmiklum hætti á flóknu og vandasömu vandamáli sem skoðað var frá mörgum hliðum. Í umfjölluninni voru ýmis álitamál dregin fram í dagsljósið sem ekki hafa farið hátt og nýju ljósi varpað á önnur sem urðu tilefni sjálfstæðra frétta, bæði á forsíðu blaðsins og víðar. Jafnvægi var í umfjölluninni, þar sem teflt var saman í hæfilegum hlutföllum lífsreynslusögum geðfatlaðra einstaklinga og sjónarmiðum hinna ólíku fulltrúa stjórn- og heilbrigðiskerfisins auk þess sem staða mála var borin saman við nágrannalönd. Greinarflokkurinn var vel skrifaður, uppbygging markviss og framsetning var lífleg og aðgengileg fyrir lesendur.

Rannsóknarblaðamennska ársins 2012
Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttastofu RÚV, fyrir uppljóstrandi og ítarlega umfjöllun um kadmíum í áburði annars vegar og notkun iðnaðarsalts í matvælum hins vegar. Mikilvægt hlutverk blaðamanna er að veita valda- og stjórnkerfum samfélagsins aðhald, ekki síst þeim stofnunum sem sjálfar eiga að veita aðhald og eftirlit. Rannsókn Jóhanns Bjarna á starfsháttum Matvælastofnunar leiddi í ljós að stofnunin hefði brugðist hlutverki sínu í mikilvægum atriðum. Hann upplýsti um að allt of mikið af þungmálminum kadmíum hefði verið í þúsundum tonna af áburði frá Skeljungi sem notaður var vorið 2011 og að Matvælastofnun hefði ekki stöðvað dreifinguna þrátt fyrir að hafa vitað af ágöllum áburðarins, heldur aðeins upplýst söluaðila sem síðan hélt viðskiptavinum sínum óupplýstum í hálft ár. Jóhann Bjarni fylgdi málinu vel eftir og annað mál af svipuðum toga fylgdi beint í kjölfarið þegar hann upplýsti fyrstur manna um að Ölgerðin hafði í stórum stíl selt iðnaðarsalt til matvælaframleiðenda og að hvorki Matvælastofnun né Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur höfðu upplýst um málið eftir að það kom upp innanhúss hjá þeim. Í báðum þessum tilvikum voru fréttirnar og öll undirbúningsvinna traust og til fyrirmyndar, enda vöktu þessi mál almenna athygli og drógu fram í dagsljósið vinnubrögð og starfshætti sem rík ástæða var til að breyta.    

Viðtal ársins 2012
Sigmar Guðmundsson, Kastljósi, fyrir sérstaklega áhrifaríkt og sterkt viðtal við Eirík Inga Jóhannsson sjómann sem komst lífs af þegar togarinn Hallgrímur fórst. Eiríkur Ingi hafði stórbrotna harmsögu að segja aðeins viku eftir að hann hafði einn komist lífs af úr skelfilegu sjóslysi. Hér var Kastljós með efnivið um harmrænan atburð og alvarlega frásögn sjómannsins. Það er vandaverk sem krefst þekkingar og reynslu blaðamanns að koma bæði atburðinum til skila svo og frásögn sögumanns. Þetta kallaði á óvenjulega lausn. Sigmar Guðmundsson sýndi bæði sögunni og sögumanni verðskuldaða virðingu þegar hann ákvað að þverbrjóta allar reglur Kastljóss um efnismeðferð og lét frásögn Eiríks flæða í fullri lengd og ótruflaða. Ritstjórn og blaðamennska felst iðulega í því að stytta, stýra og spyrja þannig að henti þeim miðli og því formi sem við á hverju sinni. Hér var efnið meðvitað ekki lagað að rammanum heldur ramminn að efninu í þessu lang lengsta sjónvarpsviðtali í manna minnum. Viðfangsefnið var vandmeðfarið, ekki síst í ljósi þess hve stutt var frá slysinu og siðareglur blaðamennskunnar gera miklar kröfur í slíkum tilfellum. Þessum kröfum var mætt með góðum undirbúningi og viðtalið tekið eftir samráð við og samþykki sálfræðings Eiríks Inga og umræður við hann sjálfan.

Blaðamannaverðlaun ársins 2012
Ragnar Axelsson, Morgunblaðinu, fyrir merka umfjöllun og myndir af stórum pollum á Grænlandsjökli sem voru til marks um óvenju mikla bráðnun jökulsins. Einlægur áhugi Ragnars á mannlífi og náttúru á norðurslóðum hefur á umliðnum árum komið fram í glæsilegri umfjöllun í máli og myndum og vakið alþjóðlega athygli. Umfjöllun hans um fjölda stórra nýrra vatna eða polla norðarlega á Grænlandsjökli sem rekja má til hlýnunar jarðar er engin undantekning. Eftir að hafa sjálfur uppgvötað þessar náttúrufarsbreytingar á jöklinum úr flugvél fór blaðamaðurinn Ragnar Axelsson aftur á staðinn til að mynda og skoða fyrirbærið með það að markmiði að greina umheiminum frá því. En í stað þess að sýna sérfræðingum myndir og segja þeim frá málinu fékk hann Harald Sigurðsson jarðfræðing með sér á staðinn til að leggja mat á þær breytingar sem þarna höfðu orðið. Útkoman var stórglæsileg umfjöllun í máli og myndum sem ber vitni um vönduð vinnubrögð, skipulagningu og útsjónarsemi samfara næmum skilningi á samspili mynda og texta í fjölmiðlun, ekki síst í umfjöllun um umhverfismál.