Finnar flytja næturvakt til Ástralíu í sparnaðarskyni

"Næturvaktin" verður að dagvakt í Ástralíu og gengur undir nafninu kengúruvaktin!

Finnska fréttastofan STT-Lehtikuva hyggst setja upp nýja útstöð í Sydney í Ástralíu í sparnaðarskyni. Hugmyndin er að flytja næturvaktir fréttastöðvarinnar sem unnar hafa verið í Finnlandi og breyta þeim í dagvaktir í Ástralíu með því að nýta tímamismuninn.

Tveir blaðamenn hafa að jafnaði verið á næturvakt fréttastofunnar og munu fjórir blaðamenn verða sendir til Ástralíu til að sjá um þessar útsendingar og mun þessi fjöldi þá jafnframt dekkaðir frídaga og sumarafleysingar. Reiknað er með að þessir blaðamenn sjái um innlendu finnsku næturvaktirnar með því að notfæra sér nýja tækni s.s. netið og skype. Ráðagerð þessi er eins og áður segir sparnaðaraðgerð hjá fréttaveitunni og samkvæmt útreikningum stjórnenda mun þessi tilflutningur á „næturvaktinni“ hafa í för með sér sparnað sem nemur árslaunum eins blaðamanns, en næturvaktirnar hafa verið fyrirtækinu mjög dýrar. Blaðamannafélagið í Finnlandi hefur þegar sett sig í samband við systurfélag sitt í Ástralíu til þess að tryggja að ekki verði brotið á réttindum félagsmanna sinna.

STT-Lehtikuva fréttaveitan skar niðu um fimmtung ritstjórnar sinnar og lokaði sex svæðisskrifstofum á dögunum í umfangsmiklum aðgerðum en þessi sparnaðaraðgerð hefur mælst nokkuð vel fyrir hjá þeim starfsmönnum sem eftir eru. Gengur næturvaktin nú undir nafninu „kengúru-vaktin“ hjá mönnum þar innanhúss.